Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Veðurstofa Íslands predikar úreltar mælingar

Á heimasíðu Veðurstofu Íslands var eftirfarandi skrifað árið 2006: "Engum vafa virðist undirorpið að það er að hlýna á jörðinni."

Flest okkar sýna mátulega tortryggni gagnvart veðurspá fram í tímann. Í dag virðist einnig vera þörf á að tortryggja Veðurstofu Íslands varðandi veðurlýsingar aftur í tímann. Mælingar seinustu ára sýna ekki hækkun á hitastigi Jarðar, heldur stöðnun og lækkun.

Veðurstofa Íslands ætti e.t.v. að uppfæra heimasíðu sína oftar, eða fjarlægja þá hluta heimsíðunnar sem predika rangar upplýsingar.

Á einum stað af mörgum segir til dæmis: "Global warming ended six years ago, and the last five months have been so cold globally, that this number will rise to seven years of cooling by the end of 2008."

Veðurstofa Íslands ætti að lesa fréttir og nýjar mælingar um veðrið aftur í tímann svona inn á milli þess að spá misvel fyrir um veðrið fram í tímann. 


Hvað hefur fólk á móti CO2-sameindinni?

Hin ágæta sameind, CO2, hefur átt undir högg að sækja seinustu misseri. Fólk vill kenna auknu hlutfalli hennar í andrúmslofti Jarðar seinustu 200 ár (tæp 0,04% og fer vaxandi) um allskyns hörmungar og hamfarir, og jafnvel leggja til að sá litli hluti sem mannkynið leggur til CO2-hlutfallsins með brennslu á gömlum risaeðlum og mosa (olía og kol) sé skertur í svo stórum stíl að lífskjör mannkyns verði send til fornaldar.

Þegar fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, Margaret Thatcher, stakk upp á því að kenna CO2 um öll heimsins vandamál til að stuðla að framgangi kjarnorkuframleiðslu í Bretlandi (og losna þannig við eilíf verkföll kolanámuverkamanna), þá efast ég að henni hafi dottið í hug að græningjum heimsins tækist að breyta hugdettu sinni í allsherjar árás á frjálst markaðshagkerfi. Sú er samt raunin. Græningjar vilja að plöntur vaxi og séu grænar. Þeir vilja samt ekki að plöntur fái nóg að "borða" í formi aukins CO2-hlutfalls í andrúmsloftinu (meira að segja núna á tímum hnattkólnunar þegar matvælaframleiðsla heimsins er að hægja á vexti sínum). Þeir vilja bara setja tappa á útblástursrör heimsins og vona að það dugi til að kæfa kapítalismann.

Nei, heimurinn er ekki að hitna, hann er sennilega að kólna.

Nei, CO2 er ekki drifkraftur hlýnunar eða kólnunar andrúmsloftsins, þótt sameindin hafi vitaskuld einhver áhrif á allt, rétt eins og allt annað hefur áhrif á allt.

Nei, þú ert ekki að fara að slökkva á tölvunni þinni núna til að "spara orku". Þú vilt einfaldlega ekki skerða orkunotkun þína því þú vilt varðveita lífskjör þína. Verk þín tala. Orð þín, séu þau í mótsögn við verk þín, falla dauð til jarðar. 


Katrín Jakobsdóttir er ekki jafnréttissinni

Á Deiglunni er nú að finna viðtöl við fjórar konur í tilefni af "kvennadeginum" svokallaða. Meðal álitsgjafa er varaformaður VG, Katrín Jakobsdóttir. Ein spurninganna sem hún er spurð að er: "Hvaða markmiðum ættum við að stefna að í jafnréttismálum fyrir árið 2015, þegar 100 ár verða liðin frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi?"

Ekki stendur á svari Katrínar, sem hefst svohljóðandi (feitletrun er mín): "Að launamunur kynjanna verði liðin tíð og uppeldis- og umönnunarstörf verði meira metin í samfélaginu."

Nú skal enginn efast um að þegar sósíalistinn og jafnréttissinninn Katrín Jakobsdóttir talar um að eitthvað eigi að vera "meira metið" þá meinar hún að laun eigi að vera hærri - "fleiri peninga" hrópar sósíalistinn!

Enginn þarf heldur að efast um að hún nefnir sérstaklega og eingöngu uppeldis- og umönnunarstörf því þar eru: 1) Konur í miklum meirihluta, 2) þar eru laun að jafnaði lág sé miðað við margar aðrar starfsgreinar.

Hún leggur sig nánast fram við að nefna ekki starfsgreinar þar sem laun eru að jafnaði lág en þar sem karlmenn eru í miklum meirihluta. Verksmiðjuvinna og byggingarvinna eru augljós dæmi sem koma fljótt til hugar. 

Nú þykir að vísu ekki eins "fínt" að smíða hús og passa krakka, en í báðum tilvikum er samt um að ræða störf sem krefjast í raun ekki mikils annars en þolinmæði, réttrar þjálfunar og skilning á nokkrum grunnhugtökum. Markaðurinn (þar sem hann er frjáls) launar eftir framboði og eftirspurn á starfsfólki sem og verðmætasköpun þess. Dýrar barnapíur eru að jafnaði minna eftirsóttar en ódýrar barnapíur,  rétt eins og verkamenn sem krefjast himinhárra launa eru sjaldnar ráðnir en þeir sem slaka á launakröfum sínum til að hreppa starfið.

Katrín Jakobsdóttir er ekki jafnréttissinni. Hún er kvenréttindasinni, og á þessum tveimur hugtökum er reginmunur. 


Þá hækkaði verð á fíkniefnum örlítið á Íslandi

Sumir lifa í furðulegum heimi bleikra skýja þar sem markaðslögmálin (og væntanlega þyngdarlögmálið líka) virka ekki eða megi elta uppi og temja með lögregluvaldi. Sumir ímynda sér að fíkniefnamarkaðurinn sé bara stundaður af heimskum glæpalýð sem enginn vandi sé að loka bak við lás og slá (eða "endurhæfa") og spurningin sé bara sú hvað eigi að eyða miklu fé í eltingarleikinn.

Lögreglunni tókst í dag að bóka eins og eitt pláss í fangelsi á Íslandi eða í Hollandi og minnka framboð eiturlyfja örlítið á íslenskum markaði. Verðlag mun þar með hækka, sem gerir fjárþörf illa haldinna fíkla þeim mun brýnni. Ekki helst þeim á vinnu eða vinum því hátt verðlag fíkniefna er fyrir löngu búið að dæma þá til vistar í svartnætti undirheimanna og þvingar þá til að láta sér rottueitursblönduð, útþynnt og skítug fíkniefni duga. Þjófnaðurinn einn stendur þeim til boða til að fjármagna neysluna og því þarf að gæta sín á lögreglunni bæði vegna "vörslu eiturlyfja" og eins vegna þjófnaðar á eignum annarra. 

Það getur vel verið að sjálfumglaðir siðapostular sofi betur á nóttunni vitandi að lögreglan er í eltingaleik við þá sem af einhverjum ástæðum eiga viðskipti sín á milli með eiturlyf. Sá svefn er hins vegar á kostnað þeirra sem sitja í ræsi samfélagsins og komast hvergi fyrir ofsóknum, ofurverðlagi og fordómum hinna sjálfumglöðu erkiengla.

Rólegur svefn eins á kostnað lífs annars. Ógeðfelldustu viðskipti sem ég get ímyndað mér.


mbl.is Maríjúana og kókaín einnig í húsbíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Okur finnst ekki á frjálsum markaði

"Ef fyrirtæki á frjálsum markaði byrjar að græða meira en önnur fyrirtæki í svipuðum rekstri þá dragast fjárfestar að þeim markaði og fjármagna stofnun samkeppnisaðila til að hagnast vel á og ávaxta fé sitt. Ef verðlag er í raun og veru of hátt á ákveðnum markaði án þess að samkeppni brjótist fram þá er ástæðuna að finna í höftum á markaði sem þyrfti að vera enn frjálsari. Svo einfalt er það."

Þessi orð tilheyra grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag og má einnig lesa í heild sinni á Ósýnilegu höndinni


Hvað er 'matvælaöryggi'?

Þeir sem skilja ekki hagfræði, verkaskiptingu og annað þvíumlíkt eiga það til að nota orð sem hafa enga merkingu en hljóma eins og þau hafi merkingu. Dæmi um slíkt orð er "matvælaöryggi" sem virðist þýða "óhagkvæm matvælaframleiðsla, framleiðslunnar vegna". Systkynaorð "matvælaöryggis" gæti t.d. verið "skóöryggi" sem sennilega þýðir að það séu örugglega til skór sem eru framleiddir án þess að markaðsaðstæður séu réttar.

Ég vissi ekki að sjálfstæðismaður eins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynni orð eins og "matvælaöryggi". Ég hef bara séð það áður í stefnuskrá Framsóknarflokksins en það hefur nú greinilega ratað í almennt tungutak stjórnmálamanna.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er vel á minnst í mjög athyglisverðri stöðu sem ráðherra þessara tveggja ráðuneyta. Íslendingar berjast fyrir aukinni fríverslun með fisk en áframhaldandi höftum á landbúnaðarframleiðslu. Hagfræðin er rétt skilin einn daginn en óskiljanleg þann næsta. Athyglisvert.


mbl.is Breytingar á matvælalögum í þágu bænda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björk, landareignir á Íslandi eru til sölu

Björk er frægasti Íslendingur heims og sennilega einn sá ríkasti. Hún hefur hugmyndir um hvað Íslendingar "eigi" að gera, t.d. þegar álver og virkjanir eru í umræðunni, en leiðin að markinu er sennilega ekki alveg jafnskýr í höfði hennar.

Við Björk segi ég þess vegna: Ef þú vilt að einhver landareign (t.d. þar sem fossa og hveri er að finna) sé ósnert þá er þér velkomið að bjóða í hana, gera að þinni eign og einfaldlega girða hana af (eða bjóða upp á göngutúra um hana ef þú vilt).

Allir húseigendur skilja vel frelsið sem felst í eignarréttinum. Ef þeir vilja bleikt eldhús þá mála þeir það bleikt. Ef þeir vilja skítugt og ósnortið eldhús þá sleppa þeir því einfaldlega að þrífa það. Sömu lögmál gilda um landareignir (að undanteknum þeim sem ríkið getur stolið gegn gjaldi - þ.e. þjóðnýtt með valdi).

Þeir sem tala um að "Íslendingar" vilji hina eða þessa ráðstöfun íslenskrar náttúru eiga að sanna mál sitt með uppkaupum á uppáhaldsnáttúruperlum sínum og verja þær frá ágangi ríkisvaldsins (sem, furðulegt nokk, er yfirleitt tilbeðið af þeim sem sömu og eru ósáttir við ráðstöfun þess á eigin eignum).


mbl.is Ísland verði áfram númer eitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er að þessari virkjun?

Ég veit ekki hver á landssvæði fyrirhugaðrar (aflýstrar) Bitruvirkjunar en gef mér að eigandinn (ríkið?) sé ekki á móti því að virkjun verði byggð á landareign sinni. Ég veit að Orkuveita Reykjavíkur er í eigu hins opinbera (sem er hvorki "almenningur" né "þjóðin" eða neitt í þeim dúr). Stjórnmálamenn sitja því báðum megin borðsins og ákvörðunin um Bitruvirkjun eða ei því pólitísk ákvörðun. Sem slík er hún hvorki háð arðsemisútreikningum né viðskiptalegum forsendum.

Ég hef hins vegar enga hugmynd um af hverju þessi virkjunarkostur hefur verið blásinn af borðinu. Raforkukaupendur virðast vera til staðar. Virkjunin sjálf mun varla sjást á yfirborðinu fyrir utan lítinn þrí-kældan gufustrók. Virkjunin uppfyllir, að því er virðist, öll skilyrði þess að geta kallast "græn", "sjálfbær" og "endurnýjanleg". 

Það virðist hreinlega vera þannig að nú megi hvergi virkja, sama hvaða. Að orka sé orðin að bannorði - hinn forboðni ávöxtur sem ekki má neyta.

Eða hvað? 


mbl.is Ákvörðun um að hætta við Bitruvirkjun ekki endurskoðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of hátt hlutfall kvenna

Mig grunar að þessi hlutföll kvenna sem fréttin fjallar um séu alltof há miðað við fjölda umsækjenda/frambjóðenda af kvenkyni. Að karlar séu kerfisbundið sniðgengnir vegna tegundar kynfæra þeirra til að þjóna pólitískum rétttrúnaði.

Konur forgangsraða að jafnaði fjölskyldu og félagslífi ofar en löngum vinnustundum á skrifstofunni. Þetta er a.m.k. mín tilfinning á mínum vinnustað (í Danmörku) og heyri svipaðar sögur frá íslenskum vinnustöðum. Hvað gerist þegar einstaklingur vinnur "eingöngu" innan 40 stunda vinnurammans og vinnur "bara" þau verkefni sem fylgja starfslýsingunni? Viðkomandi er settur skör neðar í stöðuhækkunarferlinu en sá sem er nánast búinn að taka að sér stöðuhækkunina með auknu vinnuálagi án þess þó að hafa hlotið hana formlega.

Yfirmenn af kvenkyni skora yfirleitt hátt í mælingum á starfsánægju undirmanna. Þær eru, að karlmönnum ólöstuðum, vandvirkar og samviskusamar og leggja mikið upp úr því að skila verkefnum vel af sér (ég hef beina reynslu af því úr bæði námi og vinnu). En hvað sem því líður þá eru konur, að jafnaði, ekki að gera það sem til þarf til að klífa metorðastigann til enda. Til þess vantar þær, að jafnaði, forgangsröðun sem er vinnustaðnum í hag og félags- og fjölskyldulífi í óhag. 


mbl.is Konur 13% stjórnarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Okur eða mismunandi verðmiðar?

Okur-síða Doktor Gunna er athyglisverð og skemmtileg síða. Þar eru verðmiðar á sama varningi bornir saman á milli söluaðila og mismunurinn á upphæðunum skrifaður og mörgum upphrópunarmerkjum aftan við. Gott framtak sem hjálpar neytendum að finna lægsta verðið á nákvæmlega þeim vörum sem Doktor Gunni tekur fyrir í rannsóknum sínum.

Lengra nær það hins vegar ekki.

Doktor Gunni er ekki að grafa fram neinar "sannanir" um "okur". Okur er í versta lagi takmarkað skammtímafyrirbæri á frjálsum markaði. Doktor Gunni er hins vegar að benda með afgerandi hætti að opnunartími, vöruúrval, staðsetning, stærð verslunar, fjöldi starfsmanna, hreinleiki og snyrtileiki húsnæði og margt annað hefur áhrif á vöruverð. Búð sem hefur 2 gasgrill á lager en einbeitir sér að sölu bensíns selur sennilega gasgrill á hærra verði en búð sem er með 100 vel auglýst gasgrill á lager og greiðir með þeim til að lokka viðskiptavini inn í búðina til að kaupa eitthvað annað í leiðinni.

Takk, Doktor Gunni, fyrir framtak þitt, en hættu að tala um okur þegar ekkert slíkt á sér stað í fjarveru markaðsheftandi ríkisvaldsins.

Meira um þetta síðar. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband