Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Ríkið sér um sína

Innan ríkisvaldsins lifir sú goðsögn að opinberir starfsmenn eigi að fá "samkeppnishæf" eða "sambærileg" laun miðað við starfsmenn einkafyrirtækja. Þessi ranghugmynd er beinlínis bundin í lög (nr. 47/2006):

8. gr. Við úrlausn mála skal kjararáð gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar.

Ekkert segir í lögunum um að taka beri tillit til gríðarlegrar mismununar í lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna annars vegar og starfsmanna einkafyrirtækja hins vegar. Einblínt skal á laun. Hinir vitru forstjórar ríkisstofnana eiga að fá laun "í samræmi við laun í þjóðfélaginu", að undanskildum lífeyrisréttindum, þeirri staðreynd að ríkið rekur nánast aldrei nokkurn stjórnenda úr röðum sínum og án þess að hugleiða þann bjagaða raunveruleika að fólk innan hins opinbera geira getur flakkað þar um svo áratugum skiptir án þess að verða afhjúpað fyrir markaðslögmálunum.

Kjararáð á að leggja niður því allar ríkisstofnanir á að selja eða leggja niður. Þeir sem vilja ríkisvald eiga að geta sætt sig við að það sjái ekki um margt annað en að halda fundi fyrir 63 einstaklinga, borga ofan í þá kaffi og skipta sér að öðru leyti ekkert af samfélaginu. Ríkisvaldið er stofnun ofbeldis, og þeir sem eru ósammála því ættu að prófa óhlýðnast hinu opinbera og sjá hvað verður um viðkomandi. 


Lærdómurinn af falli Detroit

Sigurður Már Jónsson skrifar ágætan pistil um fall Detroit-borgar í Bandaríkjunum. Hann segir meðal annars:

Detroit borg hefur um langt skeið lagt skatta á íbúa sína, sem hafa aðeins að litlu farið til þess að veita skattborgurum þjónustu ... Þess í stað hafa skattpeningarnir farið í að standa við óraunhæf lífeyrisloforð stjórnmálamanna til handa starfsmönnum borgarinnar frá fyrri árum.

Kunnuglegt, eða hvað? Svona haga stjórnmálamenn á Íslandi sér í dag. Lærdómurinn af Detroit ætti að vera sá að gjaldþrot blasi við ef þeirri hegðun er ekki snúið við. Stjórnmálamönnum finnst oft erfitt að hækka ríkisútgjöld í dag, því þá þarf að hækka skatta enn frekar, og það er aldrei vinsælt. Þess í stað er auðvelt að lofa ríkisútgjöldum seinna, og upplögð leið til þess er að lofa feitum lífeyri til opinberra starfsmanna. Þannig má lokka þá frá einkafyrirtækjum, gera þá að traustum kjósendum þeirra sem vilja stækka ríkisvaldið, og þeir sem eru kosnir inn í stórt ríkisvald vita að þeir munu líka njóta góðs af loforðunum um stærri lífeyri.

Sigurður segir einnig:

Skuldasöfnun íslenska ríkisins og geta þess til að sinna þörfum borgaranna hefur áhrif á það hversu áhugavert er að búa hér og greiða skatta. Að öllum líkindum þarf að grípa til fjölþættra aðgerða til þess að Ísland sé áfram áhugaverður staður fyrir ungt og velmenntað fólk.

Mikið rétt. Nú hefur skattasamkeppni sveitarfélaga á Íslandi nánast verið útrýmt með umfangsmiklum sameiningum þeirra, fjölgun lögskyldra verkefna sem þeim er gert að sjá um, og almennrar loforðagleði stjórnmálamanna. Innan Evrópusambandsins er verið að reyna útrýma skattasamkeppni. Í Bandaríkjunum verða alríkisskattarnir sífellt umfangsmeiri. Samt tekst fólki að flýja þaðan sem ástandið er verst, t.d. Detroit. Að geta flúið ofríki stjórnmálamanna er mjög mikilvægt. 

Saga hinnar gjaldþrota Detroit-borgar er saga velferðarkerfisins, hraðspóluð.  Ætla Íslendingar að læra eitthvað af henni?


Bókadómur: 23 atriði um kapítalisma sem ekki er sagt frá

Í nýjasta hefti Þjóðmála (Facebook-síða), sem kom út í júní, er að finna bókadóm eftir mig um bókina 23 atriði um kapítalisma sem ekki er sagt frá. Þetta er að mörgu leyti fróðleg bók og sennilega er óhætt að flokka hana sem nokkurs konar samansafn af "viðteknum skoðunum" álitsgjafa og vinstrimanna í umræðunni í dag, þótt höfundur sé raunar að reyna vera frumlegur og benda á eitthvað sem okkur flestum er dulið.

Ég fer ekkert sérstaklega fögrum orðum um bókina. Hún ristir yfirleitt grunnt í öllum fræðum (hagfræði, félagsfræði, tölfræði), er troðfull af mótsögnum og skilur ekki eftir sig neina skýra mynd í huga lesanda. Það er svo sennilega einn helsti styrkur hennar og ástæða mikils áhuga á henni: Með því að lenda aldrei á neinni ákveðinni niðurstöðu tekst höfundi að uppfylla óskir nánast allra lesenda, sem geta þá túlkað það sem sagt er sem mikla visku og djúpt innsæi.

Eða hversu djúpt og viturt er það eiginlega að vera á móti öllum sköttum, ríkisafskiptum, ríkisreglum, ríkislögum og ríkiseftirliti? Er það ekki bara þvermóðskuleg og allt að því trúarleg afstaða sem hentar engan veginn í "praksís"? Er þá ekki betra að vera stundum með og stundum á móti öllu? Er ekki í lagi að stunda ríkisáætlunarbúskap í Asíu þótt hann hafi sett heilu hagkerfin á hausinn í öðrum heimshlutum? Er ekki í lagi að múra fjármálamarkaði inni í enn meira regluverk þótt reglur á öðrum sviðum hafi svipt fólk ábyrgðartilfinningu og gert því kleift að taka mikla áhættu í skjóli samþykkis opinberra eftirlitsaðila á rekstri sínum? 

Ég vona að sem flestir nái sér í eintak af sumarhefti Þjóðmála og finni jafnvel tíma til að lesa bókadóm minn. Maður er nú einu sinni þannig gerður að vilja að einhver lesi skrif manns!  


Ríkisstjórnin að komast í tímahrak

Ríkisstjórnin er strax að koma sér í tímahrak. Hún gerði of lítið og of hægt áður en Alþingi fór í sumarfrí. Mikilvægt er að nýta sumarið vel til að vinna það upp. 

Um leið og Alþingi kemur saman í haust þarf eftirfarandi að gerast, en til vara eins mikið af neðangreindu og pólitískur raunveruleiki leyfir: 

  • Undirbúningur að hluta-einkavæðingu heilbrigðiskerfisins þarf að hefjast; allan rekstur þarf að bjóða út, ríkið á að skilgreina hvar það vill áfram stunda fjármögnun meðferða og hvar slíku má auðveldlega koma í hendur einstaklinga og tryggingarfélaga, skatta þarf að lækka sem nemur kostnaði sem sparast, lögum og reglum á sviði heilbrigðisþjónustu þarf að fækka niður í eina blaðsíðu.
  • Sala ríkiseigna þarf að hefjast í stórum stíl; allt sem heitir rekstur á heima á frjálsum markaði og vera reglaður á forsendum markaðarins. Ekki eitt einasta bókhald á að fara fyrir augu ríkisstarfsmanns nema það sem tilheyrir sjálfum ríkissjóði. 
  • Vegakerfið má auðveldlega einkavæða.
  • Alla skatta þarf að leggja niður eða lækka niður í nánast ekki neitt.
  • Ríkisútgjöld þurfa að lækka niður í nánast ekki neitt. Það er auðvelt þegar ríkisfyrirtæki og -eignir eru komnar af borði ríkisstarfsmanna.
  • Skuldir hins opinbera þarf að semja um að afskrifa eða greiða niður, en líklega þarf bæði að koma til. Þær eru of háar.
  • Skuldbindingar ríkisins þarf að semja um að koma af herðum skattgreiðenda sem fyrst. Kannski þýðir það að einhverjar einingar, t.d. lífeyrissjóðskerfi opinberra starfsmanna, þarf að "borga út". Auðvitað dugir ekki að fjöldi einstaklinga hafi miðað við það alla sína starfsævi að fá lífeyri úr opinberum sjóðum, en á þeim mistökum stjórnmálamanna þarf að taka föstum tökum.
  • Lagasafn ríkisins þarf að skera niður um 95%. Öll lög sem banna sjálfráða og fullorðnu fólki að gera eitthvað við sjálft sig þarf að þurrka út á einu bretti.
Listinn gæti orðið miklu lengri því sennilega er ég að gleyma einhverju. Ríkisvaldið er vandamál hvers samfélags og því minna sem það verður, því betra fyrir hið frjálsa framtak, og fyrir frjáls samskipti og viðskipti í samfélaginu og hagkerfinu.  

 


mbl.is Sjálfstæðisflokkur með 29,7% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öruggt ef þú þóknast yfirvöldum

Fjárfestirinn Jason Holroyd Whittle, sem hefur fjárfest töluvert á Íslandi síðustu árin, sendi nýlega forsætisráðherra Íslands opið bréf þar sem hann útlistar nokkur af vandamálum, tækifærum og áskorunum sem Ísland býr við.

Þetta var gott framtak hjá hinum erlenda fjárfesti. Íslendingar taka of meira mark á útlendingum en sjálfum sér. Stundum leiðir það til góðs, en ekki alltaf.

Hinn erlendi fjárfestir hvetur hér stjórnvöld til að standa vörð um fiskveiðistjórnunarkerfið (a.m.k. ekki rústa því) og forðast breytingar sem fæla fjárfesta enn lengra frá landinu. Þetta er gott.  

Hann hvetur Íslendinga til að forðast að leggja öll eggin í sömu körfuna en notar þar bandarísku borgina Detroit sem víti til varnaðar. Þar fór allt á hausinn vegna ríkisafskipta og heimtufrekju verkalýðsfélaga, en ekki af því margir stórir bílaframleiðendur voru þar að störfum. Bæði er samt gott; að ýta ekki undir einsleitni með ríkisafskiptum, og veita engum sérhagsmunahópum sérstöðu með ríkisafskiptum.

Sjálfur dytti mér ekki fyrir mitt litla líf í hug að fjárfesta á Íslandi nema fá skriflegt samþykki yfirvalda fyrir því að skattar fari ekki á flug og eignir á Íslandi, hvort sem er í peningum eða öðrum eignum, verði ekki skyndilega frystar eða þjóðnýttar. Hið íslenska ríki er með þjóðnýttan gjaldeyri (lögskyldaða notkun á hinni íslensku krónu fyrir flesta, auk hafta), að hluta til þjóðnýtt bankakerfi, þjóðnýtt vegakerfi, bráðum þjóðnýtt rútuleiðakerfi, þjóðnýtt innanlandsflug (ríkisstyrkt og hátt skattlagt þannig að engin von er í samkeppnisrekstri), þjóðnýtt hálendi og svona má lengi telja. Vonandi verður bréf frá erlendum fjárfesti til þess að horfið verði af þessari braut. 


mbl.is Segir öruggt að fjárfesta á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vont ástand að versna

Ummæli seðlabankastjóra Evrópu[sambandsins] um að Portúgal sé í "öruggum höndum" og að vöxtum verði haldið lágum eru vísbending um að vont ástand eigi eftir að versna. Þegar topparnir í Evrópusambandinu tilkynna óumbeðið að allt sé á uppleið er það yfirleitt til marks um að niðurleiðin sé enn framundan. Þannig er það. 

Að vöxtum eigi enn að halda lágum, þ.e. peningaprentun á enn að keyra á fulla ferð, er merki um að enn eigi að blása í götótta blöðruna. Þetta hentar mér í sjálfu sér ágætlega, enda á ég fasteign innan landamæra Evrópusambandsins sem má gjarnan hækka í verði svo hún geti selst á jafnháu verði og skuldir mínar í henni. Að öllu öðru leyti er þetta samt slæm ákvörðun.  

Peningaprentun framleiðir engin verðmæti, ruglar alla útreikninga, rýrir sparnað, rýrir kaupmátt launa, veldur verðhækkunarbólum, gefur fölsk merki um arðsemi langtímafjárfestinga, og svona mætti lengi telja. Lágvaxtastefnan er eitur í æðar deyjandi eiturlyfjasjúklings. Því á enn að sprauta, í stærri og stærri skömmtum. Það er slæmt. 


mbl.is Portúgal í „öruggum höndum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forgangsatriði stjórnvalda: Fækka glæpum

Ég vona að ný ríkisstjórn geri það að forgangsverkefni sínu að fækka glæpum. Ég er með mjög einfalda leið til að gera það: Fækka því sem er ólöglegt að gera á Íslandi.

Sem stendur er ólöglegt að selja áfengi nema vera Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Sá sem setur bjór við hlið kókflöskunnar í verslun sinni hefur brotið lög. Sú aðgerð er lögreglumál. Lögregluþjóna þarf að kalla á vettvang. Dómsvaldið þarf að taka á hinum mikla glæp. Miklu af fé skattgreiðenda er varið í að fylgja málinu til enda. 

Með því að afnema lögbann við sölu áfengis í hvaða verslun sem er (t.d. til allra sem eru sjálfráða) er hægt að spara mikið af tíma lögreglu og dómsvalds. Landasala leggst af að mestu. Heimabruggun verður nánast útrýmt. Smygl verður væntanlega hverfandi. Tollverðir á flugvöllum sleppa við að gramsa í töskum og pokum í leit að áfengi til að vega og bera saman við löglegt innflutningsmagn.

Glæpum fækkar í stuttu máli, og það með sparnaði í opinberri eyðslu á fé landsmanna!

Sumir hafa lagst gegn slíkri forgangsröðun, og telja að áfengissala eigi ennþá að vera lögreglumál ef hún fer fram utan þröngt skilgreindra ramma löggjafans. Mín skoðun er sú að með því að gera áfengissölu að eðlilegum hlut sé hægt að fækka glæpum á Íslandi mikið, og að það eigi að vera forgangsatriði.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband