Bloggfærslur mánaðarins, mars 2018

Úthverfin ósátt, miðbærinn alsæll

Skoðanakannanir gefa til kynna að úthverfin í Reykjavík séu ósátt en miðbærinn sáttur. Þetta kemur væntanlega engum á óvart. Úthverfunum er gert að sitja í þéttri umferð eða standa af sér vetrarlægðirnar í opnum strætóskýlum (en til framtíðar í opnum borgarleiðaskýlum). Miðbæjarfólkið labbar í vinnuna eða hjólar stuttar vegalengdir. 

Svona klofningur er mjög góð ástæða fyrir því að frekari sameining sveitarfélaga er slæm hugmynd, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Óumflýjanlega myndast klofningur innan of stórra sveitarfélaga. Hagsmunir íbúa eru einfaldlega ekki þeir sömu á víðfeðmum svæðum. 

Svona klofningur er enn frekar vísbending um að menn ættu alvarlega að skoða fækkun á lögbundnum verkefnum sveitarfélaga (sem er alls ekki einfalt að þylja upp) og auðveldun á uppskiptingu þeirra í smærri sveitarfélög.

Smærri stjórnunareiningar hafa marga kosti eins og ég hef áður rakið. Klofningur innan sveitarfélags sem er varla miklu fjölmennara en eitt hverfi í meðalstórri borg gefur til kynna að friðsælasta lausnin sé að leiðir skiljist.


mbl.is Eyþór vinsæll í austri, Dagur í vestri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrt dót sem endist illa

Þegar ég fermdist fyrir um 20 árum stóð valið - í mínu tilviki - á stóru gjöfinni á milli lítils sjónvarps eða hljómflutningstækja. Sumir fengu bæði og þóttu heppnir. Þetta voru tæki sem entust í mörg ár. Sumir sem ég þekki eiga jafnvel ennþá fermingargræjurnar en þeim fer að vísu fækkandi.

Núna er tæknilandslagið gjörbreytt, vægast sagt. Ég sé fram á að minn 7 ára sonur, sem á nú þegar iPad, verði búinn að eignast ferðatölvu í ár. Hann segist vilja læra á hana en ekki bara nota hana eins og leikjatölvu. Hann verður eflaust búinn að eignast snjallsíma í kringum 10 ára aldurinn eða fyrr, og sjónvarp enn fyrr. Hann á úr sem ég get hringt í og hann getur hringt í mig og móður sína úr.

13 ára strákurinn á heimili mínu á fullkomna ferðatölvu sem er hönnuð fyrir tölvuleikjaspilun, og svo á hann snjallsíma og iPad og snjallsjónvarp. Allt þetta notar hann til að spila tölvuleiki og horfa á Youtube-myndbönd.

Öll þessi tæki og tól eru að mörgu leyti ágæt þótt þau hafi líka ókosti. Þau kosta ekkert svakalega mikið, þannig séð. Þau endast heldur ekki að eilífu. Að láta snjallsíma eða tölvu endast í 3-5 ár er talið frekar gott. Fermingarbarn sem fær leikjatölvu í fermingargjöf verður líklega búið að skipta henni út fyrir tvítugsaldurinn eða miklu fyrr. 

Fermingargjafirnar eru kannski hættar að vera langtímagjafir sem endast til fullorðinsára. Það skiptir kannski engu máli en getur kannski leitt til þess að fermingargjöfin - stóra gjöfin - er bara orðin að enn einni gjöfinni. Hún hefur ekki sérstöðu. Hún er ekki til margra ára.

Í Danmörku eru margir foreldrar hættir að gefa risastórar fermingagjafir. Nóg er af græjum! Í staðinn kaupa foreldrarnir einhvers konar upplifun, t.d. ferð á fótboltaleik í Englandi, eða á tónleika úti í heimi (t.d. veit ég um stelpu sem fór með móður sinni á tónleika með Justin Bieber í Þýskalandi). Er það kannski sniðugura en enn ein græjan sem endar í ruslinu eftir 5 ár?

Annars er ég sjálfur forfallinn græjufíkill þótt ég geti lítið sinnt þeim. Þessi pistill er t.d. skrifaður á 10 ára gamla Lenovo-tölvu sem ég keypti notaða og setti Linux-stýrikerfi upp á með sparsömu grafísku viðmóti og lék mér að því að fá allt til að virka. Það var mjög gefandi. Þeim sem langar í gjöf sem gefur ættu að kaupa sér hlut sem virkar ekki, og fá hann til að virka. 


mbl.is „Upplýstari en kynslóðirnar á undan“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú hlakkar í stóru útgerðunum

Stóru útgerðirnar brosa allan hringinn þessi misserin. Ýmsir aðilar eru á fullu að berjast fyrir málstað þeirra með ýmsum hætti.

Sumir leggja til hærri álögur á fiskveiðar. Stóru útgerðirnar geta hagrætt sig í kringum þær. Þær litlu deyja.

Verkföll hreinsa út þá minnstu á markaðinum. Stóru útgerðirnar eiga stærri sjóði til að bregðast við slíku.

Hið sterka gengi kemur illa við alla en stóru útgerðirnar eru með rekstur í mörgum löndum og því ekki eins berskjaldaðar. 

Skertar aflaheimildir hækka verðið á þeim sem eftir eru og má selja eða leigja á enn hærra verði en áður. 

Allskyns byggðakvótar og slíkt er aukin samkeppni við litlu útgerðirnar út á landi. Þær verða gjaldþrota. Þeir stóru lifa af.

Vissulega er það svo að þeir sem tala upp hagsmuni stóru útgerðanna halda að þeir séu að tala upp hagsmuni allra hinna, en svo er ekki. Stóru útgerðirnar brosa allan hringinn.


mbl.is Fiskiðjan í Ólafsvík gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálslyndur armur VG?

Jóhanna Sigurðardóttir átti í vandræðum með einstaklinga sem fylgdu stefnu VG.

Katrín Jakobsdóttir á í vandræðum með einstaklinga sem vilja í raun vera í stjórnarandstöðu og eru sífellt í leit að þingmálum þar sem þeir geta kosið á annan hátt en sjálfstæðismenn. Það væri best fyrir alla að sömu þingmenn skipti yfir í stjórnarandstöðuflokk eða gerist óháðir. 

Í Viðreisn vilja menn líka vera í stjórnarandstöðu og kjósa þar jafnvel gegn eigin málum úr tíð fyrri ríkisstjórnar.

Samfylkingin blómstrar í stjórnarandstöðu.

Það er gott að vera í stjórnarandstöðu á Íslandi. Það er allt að því létt. Menn geta sagt hvað sem er og enginn blaðamaður eltir þá uppi og krefst rökstuðnings. Svona hefur þetta lengi verið og er alls ekki bundið við núverandi ríkisstjórn.

Í barbararíkinu Danmörku koma margir flokkar, innan og utan ríkisstjórnar, oft að málum - sérstaklega þeim stóru og flóknu - og reyna að ná samstöðu. Stundum næst samkomulag þvert á flokka þannig að t.d. hluti stjórnarflokka er með og hluti ekki. 

En á Íslandi kýs stjórnarandstaðan gegn ríkisstjórn í stórum og flóknum málum, en með öllum útgjaldahugmyndum. 

En ég spyr: Hvernig skilgreina menn frjálslyndan arm innan VG?


mbl.is Hvað yrði um flokkinn þá?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæru-Dagur enn á kreiki

Ef marka má það efni sem kemur úr Ráðhúsi Reykjavíkur eru vegir í frábæru ástandi, leikskólarými í boði, rekstur borgarinnar í jafnvægi og íbúðir að opnast fyrir fólk af ýmsu tagi.

Ekkert af þessu stenst samt neina skoðun. 

Þegar nánar er athugað er allt þetta á áætlunum. Þessar áætlanir eru samt af ýmsum ástæðum ekki komnar af teikniborðinu. Sumar eru fastar eru nefndum, ráðum og öðru slíku. Aðrar eru vísvitandi ekki á leið út í raunveruleikann en kjósendur þurfa samt að vita af þeim. 

Þetta skiptir samt meirihluta kjósenda ekki máli. Fyrir því eru margar ástæður.

Sumir eru einfaldlega sáttir. Þetta er fólk sem er búið að koma undir sig fótunum, er með stöðugar tekjur og börnin eru á leikskóla eða í skóla. 

Sumir þola ekki aðra valkosti en borgarstjórnarflokkana og mundu aldrei kjósa þá jafnvel þótt ráðhúsinu yrði breytt í stóran bálköst, mataðan með skattfé.

Sumir lenda aldrei í vandræðum vegna vegakerfis, húsnæðismarkaðs eða leikskóla, svo eitthvað sé nefnt, og sjá ekki fram á að þurfa borga skuldir borgarinnar þegar gjalddaginn á þeim fellur. Þetta fólk velur bara þá sem segja réttu setningarnar.

Sumir treysta engum betur en öðrum en velja bara núverandi ástand, til öryggis. Hvað ættu aðrir flokkar svo sem að gera öðruvísi?

Samanlagt fylla ofangreindir hópar fólks um 50% af íbúum Reykjavíkur. Aðrir - t.d. ungt fólk í húsnæðisleit, ungt fólk sem er fast heima með barn á leikskólaaldri og ökumenn með ónýta dempara - eru mjóróma raddir sem má einfaldlega leiða hjá sér.

Vandræði Reykvíkinga eru heimatilbúin og þekkjast ekki í mörgum nágrannasveitarfélögum. Verði Reykvíkingum að góðu. 


mbl.is Mannsæmandi laun og bættar aðstæður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steininn sem flýtur, í bili

Bankar virðast aftur vera orðnir arðbærir. Þeir framleiða peninga, lána þá, geyma þá (að hluta), ávaxta þá, allur pakkinn!

En svona var það líka árið 2007. Núna er árið 2018. Flestir ríkissjóðir skulda meira en þeir munu nokkurn tímann ráða við að borga. Fjármálakerfið er í grunnatriðum það sama og undanfarna áratugi. Peningaframleiðsla er gríðarleg. 

Það sem virkar eins og flotholt í dag getur auðveldlega verið orðið steinn á morgun. Bankarnir eru steinar sem virðast fljóta en munu ekki gera það að eilífu.

Ekki skulda meira en þú ræður við, jafnvel á umtalsvert lægri tekjum.

Bættu við þig verðmætaskapandi þekkingu.

"Something will happen", eins og einhver orðaði það.


mbl.is 24,8 milljarða arðgreiðslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju þarf að leggja til?

Þegar verslunar- og þjónustufyrirtæki auglýsa eftir starfsfólki í hlutastörf á yfirvinnutíma berst fjöldi umsókna. Illa gengur hins vegar að manna fullar stöður á hefðbundnum dagvinnutíma. 

Hvað gera fyrirtæki þá? 

Af hverju þurfa einhver samtök að leggja til að einhverju sé breytt? Af hverju aðlagast fyrirtækin ekki bara að breytilegum aðstæðum og gera það strax?

Mega fyrirtæki ekki breyta launatöxtum eða öðrum vinnutengdum atriðum?

Þarf allt að fara í gegnum samninganefndir sem hittast á nokkurra mánaða fresti?

Ég spyr því ég veit ekki, og ég skil ekki hvað er svona erfitt við að leysa vandamál þegar það kemur upp og gera það strax. Verslanir og þjónustufyrirtæki þurfa jú að geta mannað rekstur sinn á hverjum degi en ekki bara að afloknum samningaviðræðum aðila vinnumarkaðarins.


mbl.is Hátt yfirvinnukaup kann að skýra langa vinnuviku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíðarandinn: Nornabrennur

Eru nornabrennur að komast aftur í tísku?

Það er ekki nóg að vera í raun og veru göldrótt norn sem getur í raun og veru sært fram sjúkdóma í fólki og fé, kallað bölvun yfir fólk og eyðilagt uppskerur. Nei, það er nóg að hljóta ákæru og verða svo mokað ofan í bálköstinn.

Ég geri mér grein fyrir því að ákærur, réttarhöld og bið eftir úrskurði er tímafrekt ferli. Ég geri mér grein fyrir því að það sé hægt, fyrir sekan mann, að sleppa með allskyns lagakrókum. Ég geri mér grein fyrir að margir ákærðir, sem í raun og veru eru sekir, fái ekki sína refsingu.

En er svarið virkilega það að taka upp nornabrennur miðalda, og kveikja í bálkestinum áður en sekt er sönnuð?

Á að leggja allt undir, þar á meðal réttarríkið og sálir óheppinna og saklausra manna sem þekkja ekki góða lögfræðinga, til að fullnægja refsiþorsta einhverra?

Vonandi ekki.


mbl.is Réttarhöld í vændismálum verði opin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaðamaður óskast!

Margir rugla saman ríkisvaldi og ríkisrekstri.

Menn segja að ríkið þurfi að tryggja aðgengi að vegum, skólum og spítölum. Þá segja margir að það þýði að ríkið þurfi að byggja upp og reka vegakerfi, skólakerfi og heilbrigðiskerfi.

En gott og vel, kannski þýðir umsjón yfir einhverju sömuleiðis eignarhald, rekstrarábyrgð og framkvæmd í það heila, þ.e. í tilviki ríkisvaldsins.

Einkafyrirtæki vega og meta. Stundum vilja þau eiga húsnæðið sem þau nýta til reksturs, stundum ekki. Stundum er betra að fá ákveðna þjónustu aðkeypta en að hafa hana innanhúss. Stundum er betra að ráða sérhæfða verktaka en að búa yfir sérhæfðu starfsfólki. Einkafyrirtæki geta tekið upplýstar ákvarðanir því ef bókhald þeirra sýnir taprekstur þá eru þau að gera eitthvað rangt. Sýni það hagnað er eitthvað verið að gera rétt.

Ríkiseiningar búa ekki yfir neinni slíkri upplýsingagjöf. Ein rekstrarákvörðun er ekki á mælanlegan hátt betri en önnur. Ríkisvaldið æðir blindandi inn í dimmt herbergi með poka fullum af fé skattgreiðenda og getur bara vonað að það verði einhver afgangaur þegar útgönguleiðin úr herberginu er fundin.

Einkavæðum allt.


mbl.is Segja upp samningi um rekstur sjúkrabíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamla, góða sígarettan

Rafrettur hafa vafist fyrir stjórnmálamönnum í mörgum ríkjum undanfarin misseri og ár. Þær fara einhvern veginn í taugarnar á þeim. Fólk er þarna að blása út úr sér vatnsgufu sem er óaðgreinanleg frá sígarettureyk, a.m.k. í fjarska, og gera það víða, jafnvel innandyra á opinberum stöðum. Stundum er níkótín í vökvanum sem er breytt í gufu en stundum ekki og þetta fer líka í taugarnar á stjórnmálamönnum. Þeir sjá ekki lengur bara glóandi sígarettu sem hefur þekktan lagaramma, þekkt orðspor, þekktan verðmiða og þekktar afleiðingar. Nei, núna er fólk að totta eitthvað nýtt sem þeir skilja ekki alveg.

En þetta er sáraeinfalt. Inntaka gufu úr rafrettum er a.m.k. 95% skaðminni en sígarettureykingar og engin gögn eru til sem sýna fram á að fólk leiðist úr tiltölulega skaðlausri neyslu rafrettuvökva og yfir í mun hættulegri tóbaksreykingar. 

Viljum við að rafrettan standa í boði sem skaðminni, ódýrari og aðgengilegri staðgengill sígarettunnar, eða ekki?

Stjórnmálamenn virðast ætla að hamast í íslenskri löggjöf þar til þessi valkostur er úr sögunni. Í Danmörku völdu menn aðra leið. Vonandi tekst að fleygja íslenskri forræðishyggju í ruslið þótt sagan gefi til kynna að það sé ólíklegt.


mbl.is Segja rafrettufrumvarp vera skringilegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband