Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Ískyggilegar afleiðingar ríkisábyrgða

Menn óttast "fjármálaheiminn". Skiljanlega. Hann tekur við sparnaði okkar, fjölfaldar, notar til að taka mikla áhættu, og ef fjármálaspekingarnir græða fá þeir að lifa hátt, en ef og þegar þeim mistekst fáum við hin að borða reikninginn.

Rót þessa kerfis er ríkisábyrgð. Ríkisvaldið hefur þegið ráð hagfræðinga sem boða að ríkisvaldið þurfi að prenta peninga og tryggja alla fyrir áhættusækni sumra, og þá sérstaklega þá sem taka áhættuna.

Ímyndum okkur heim án ríkisábyrgða. Banki fær 1000 kr. í innlán. Hann gerir, með réttu eða röngu, ráð fyrir að eigandi innlánsins sæki það ekki fyrr en eftir 1 ár. Bankinn lánar út hverja krónu, t.d. til annarra banka, sem gera sömuleiðis ráð fyrir að sá sem lagði inn sé ekkert á leið að draga út. Sá sem lagði inn 1000 krónurnar fréttir af þessum fjölföldunarleik með peningana hans, og af þeirri áhættu sem er verið að taka með þá. Hann getur gert tvennt:

 

  1. Tekur út sitt eigið fé, og þurrkað út spilaborg bankanna.
  2. Tekið sénsinn, og vonað að spilaborgin leiði til þess að hann hagnist sjálfur á endanum.

 

Möguleika 1 velur hann, að öllu jöfnu en ekki endilega, í fjarveru ríkisábyrgðar. Möguleika 2 hafa flestir valið og velja enn, með réttu eða röngu, í okkar kerfi ríkisábyrgða. Innistæðan er jú "tryggð".

Völd bankanna ættu ekki að vera meiri en völd þeirra sem taka við dýrustu jakkafötum landsins, þurrhreinsa þau, og skila í betra ástandi en þegar þau voru "lögð inn". Bankarnir hafa hins vegar fengið gríðarlega hlýjan og góðan stað í ríkisjötunni. Það er rótin að "áhrifum" þeirra.  


mbl.is Ískyggilega mikil áhrif fjármálaafla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er heimskulegt að spara?

Hægt er að færa ágæt rök fyrir því að það sé heimskulegt að spara, ekki bara á Íslandi heldur í öllum hinum vestræna og seðlabanka-peningaprentandi heimi.

Röng hagfræði kennir okkur að það sem drífi hagvöxt og bætt lífskjör sé "neysla". Til að kynda undir "neyslu" megi grípa til allra hugsanlegra ráða: Prenta fé og lána út til neyslu, taka lán og eyða í neyslu, fita yfirdráttarheimildina og kaupa neysluvarning. Hin ranga hagfræði segir, að það muni "auka veltu", skapa störf og bæta kjör allra. Þeir sem skuldsetja sig njóti þess í auknum umsvifum í hagkerfinu, sem leiði til bættra launakjara og fleiri tækifæra.

Ekkert af þessu er rétt. Sú pólitíska ákvörðun að fylgja hinni röngu hagfræði hefur því haft stórkostlega neikvæð áhrif í för með sér fyrir allt og alla. Skuldir vaxa endalaust, og enginn leggur fyrir, enda er raunávöxtun á sparnaði orðin neikvæð. Í Danmörku, svo dæmi sé tekið, eru vextir á sparnaði um fjórðungur til helmingur af rýrnun á kaupmætti peninganna ("verðbólga"). Sparnaðurinn rýrnar því. Færri nenna að spara. Þeir sem vilja taka lán og fjárfesta í verðmætaskapandi starfsemi geta ekki boðið í sparnað, því sparnaður er ekki til staðar. Þeir þurfa því að fá það lán í nýprentuðum peningum, sem auka enn á  rýrnun kaupmáttar og lækkun vaxta á sparnaði.

Er einhver leið út úr þessum ógöngum? Já, margar. Ein er sú að aðskilja ríkisvald og hagkerfi - taka peningaprentunarvaldið og einokun á útgáfu peninga úr höndum ríkisins, og leyfa einkaaðilum að keppa í útgáfu peninga. Sagan kennir okkur að það sé mun heillavænlegra fyrirkomulag en það sem er við lýði í dag. Rök og rétt hagfræði kennir okkur að þannig sinni vextir því hlutverki sínu að miðla verði á lánsfé og sparnaði til lántaka og þeirra sem spara, þannig að eftirspurn eftir lánsfé, og framboð á því, nái jafnvægi.

Langt mál og flókið? Í raun ekki.

Pólitískt viðkvæmt mál og nánast ósnertanlegt? Já vissulega.


mbl.is Sparnaður eykst ekki þrátt fyrir lífeyrissjóðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna er atvinnuleysi?

Hver er ástæða atvinnuleysis?

Svarið: Verð á vinnuafli er hærra en sem nemur þeim launum sem hægt er að greiða því fyrir til að vinna þau störf sem eru í boði.

Þetta er spurning um framboð og eftirspurn, rétt eins og í tilviki ávaxta, ferðatölva og lúxusbíla. Ef ekki finnst kaupandi á hinu háa verði, þá verður framboð meira en eftirspurn. Varningur situr óseldur á hillunum. Vinnuafl situr ónýtt heima hjá sér og bíður eftir atvinnuleysisbótunum.

En hvernig stendur á því að verð á vinnuafli er svo hátt að enginn er tilbúinn að greiða uppsett verð fyrir það? Fyrir því eru margar ástæður, sem eiga allar rætur sínar að rekja til ríkisafskipta (beint og óbeint).

 

  • Verðalýðsfélög geta víða þvingað atvinnurekendur til að ráða ekki vinnuafl á lægri launum en sem nemur "launatöxtum".
  • Ríkið leggur gríðarlega mikinn kostnað á atvinnurekendur vegna starfsmanna þeirra. Launatengd gjöld, skattar og lífeyrissjóðsgreiðslur má nefna sem dæmi.
  • Atvinnuleysisbætur eru háar, og aðgengi að þeim gott. Af hverju að eyða öllum dögum í vinnu til að fá útborgað ef hægt er að eyða öllum deginum heima og fá samt "útborgað" svipaða upphæð eða litlu lægri?
  • Fölsk bjartsýni spilar líka hlutverk. Ríkisstjórnin sem nú situr hefur margoft lofað að skapa "þúsundir" starfa á sama tíma og hún drepur allt niður með skattheimtu og vaxandi regluverki. Fólk bíður í ofvæni, og lætur í millitíðinni eiga sig að sækja um störf sem eru líkamlega erfið og/eða borga illa.  Störfin koma samt ekki. Bæturnar halda þó áfram að streyma inn.
  • Fyrirtæki halda líka að sér höndum í hinu óstöðuga ástandi í hagkerfinu. Hvað gerir ríkisvaldið á morgun? Bannar uppsagnir? Setur á nýja kynjakvóta? Hækkar skatta? Setur lög um lágmarkslaun yfir þeim launum sem er hægt að greiða sumum af starfsmönnum fyrirtækisins? Enginn hefur spáð rétt fyrir um aðgerðir ríkisstjórnarinnar nema þær aðgerðir feli í sér vaxandi skattheimtu og aukin ríkisumsvif. Fyrirtæki reyna því að draga það sem mest að ráða nýtt fólk.
  • En af hverju bjóða fyrirtækin þá ekki bara hærri laun? Því þau geta það ekki (sérstaklega ekki þegar ríkisvaldið íþyngir þeim jafnmikið og það gerir í dag). Fyrirtæki eru rekin með það að markmiði að skila hagnaði. Til að ná fram hagnaði þarf að ráða fólk sem getur skilað réttri tegund af vinnu af sér og borga því laun sem nema verðmætasköpun þess mínus ávöxtunarkrafa eigenda fyrirtækisins, þ.e. vinnu sem aflar tekna sem eru umfram kostnað vegna starfsmannanna. Ef ég væri ráðinn í vinnu endurskoðanda hjá fyrirtæki mundi ég kosta fyrirtækið margfalt það sem ég skilaði því í tekjur. Þess vegna fæ ég ekki vinnu sem endurskoðandi, nema hugsanlega í sjálfboðavinnu. 

 

Atvinnuleysi er heimatilbúið vandamál stjórnvalda. Því má útrýma á morgun ef (pólitískur) vilji er fyrir því.  


mbl.is Tapið 2-300 milljarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkissparigrísinn með gat á botninum

Lífeyrissjóðskerfi ríkisins er eins og sparigrís með engu loki. Launþegar moka fé ofan í hann, en ríkið treður fingrunum inn í hann og hirðir úr honum fé eins og honum sýnist.

Núna skuldsetur hið opinbera sig á Íslandi með lífeyrissparnaði landsmanna. Lífeyrissjóðirnir eru lokaðir inni í gjaldeyrishöftum og hafa fá úrræði önnur en að lána hinu opinbera.

Ríkisvaldið fjölfaldar íslensku krónuna óhikað í nánu samstarfi við viðskiptabankana. Þannig geta útvaldir skjólstæðingar hins opinbera keypt vöru og þjónust fyrir nýja peninga á lægra verði, og þegar hinu nýju peningar eru roknir út í hagkerfið til að þenja út verðlagið er ríkisvaldið búið að tryggja sér og sínum það sem óskað var eftir. Launþegar og þeir sem spara sitja eftir með rýrari hlut.

Og hvað er svo hægt að segja við þá sem hafa séð á eftir stórum hluta af launum sínum alla ævi í formi lífeyris"sparnaðar"? Nú, ríkisvaldið borgar þeim sem spöruðu ekki krónu til efri áranna sömu krónutölu á mánuði í ellinni. Þú sem lagðir fyrir, þú ert fíflið.

Réttast væri að leggja niður hið opinbera regluverk um lífeyrissparnaði. Það setur nýsköpun og valfrelsi stólinn fyrir dyrnar. Gjaldeyrishöftin þurfa einnig að víkja sem fyrst. Þeir sem vilja spara geta þá til dæmis keypt gull og sett í bankahólf, eða eytt launum sínum í að koma mörgum börnum á legg til að sjá fyrir sér í ellinni. Gull heldur kaupmætti sínum alltaf þegar til lengri tíma er litið. Pappírsmiðar ríkisseðlabankanna gera það ekki, hvorki með né án verðbóta, ríkisábyrgða og annarra tálsýna sem laða fólk að sparnaðarbrunni hins opinbera þar sem það er rænt af hverri krónu. 


mbl.is Ellilífeyrisaldur hækki með hærri lífaldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóru fyrirtækin styðja aðgangshindranir á markaði (samkeppnislög)

Samkeppnisreglur eru að hluta til fundnar upp af einkafyrirtækjum. Það er bara alls ekki skrýtið að stór fyrirtæki á markaði styðji eindregið regluverk ríkisvaldsins og hin svokölluðu samkeppnislög.

Hvers vegna?

Jú, samkeppnislög eru dýr fyrir fyrirtæki. Þau eru flókin. Í þeim eru allskyns ákvæði sem kveða á um hver megi fjárfesta í hverju, og hvers vegna.

Gefum okkur að stórfyrirtækið GOLÍAT sé á markaði. Fyrirtækið er með marga viðskiptavini. Það hefur stóra hlutdeild á þeim mörkuðum sem það er á. Ríkisvaldið setur nú samkeppnislög. Þau lög eru að mörgu leyti sniðin að þeim fyrirtækjum sem fyrir eru á markaði því ríkisvaldið setur sjaldan afturvirk lög sem gera starfsemi, sem nú þegar er í gangi, ólöglega. GOLÍAT er því löglegt, sem og starfsemi þess.

Segjum svo að nokkrir fjárfestar vilji stofna til samkeppni við GOLÍAT, því þeir sjá að hagnaður GOLÍAT er mikill, og hlutfallslega hærra hlutfall af veltu en gengur og gerist hjá öðrum fyrirtækjum. Fjárfestarnir stofna fyrirtækið DAVÍÐ. Til að uppfylla allar kröfur löggjafans um innra eftirlit, kynjakvóta, eiginfjárhlutfall, tilkynningaskyldu til eftirlitsaðila hins opinbera og hvaðeina, þá þurfa fjárfestarnir að setja gríðarlegt fé í reksturinn áður en hann getur byrjað að selja þjónustu í samkeppni við GOLÍAT (jafnvel þótt reksturinn snúist bara um að djúpsteikja kjúklinga).

Fjárfestarnir hætta við og finna aðrar leiðir til að fjárfesta. GOLÍAT brosir. DAVÍÐ var drepinn áður en hann komst á vígvöllinn.

Framkvæmdastjórn Íslandsbanka sendir nú þau skilaboð að hún taki samkeppnislög mjög alvarlega og fyrirskipar mikil fjárútlát til að sannfæra yfirvöld og viðskiptavini sína um að þar á bæ sé samkeppni talin mikilvæg. Veiking á samkeppni er samt aðalmarkmið bankans, rétt eins og allra annarra fyrirtækja. Stjórnendur Íslandsbanka vita að samkeppnislög eru góð, fyrir þá.  Þeim er því umhugað um að þau séu sem flest og umfangsmest og sem mest í umræðunni sem eitthvað jákvætt. Því þannig geta stjórnendur Íslandsbanka dregið úr samkeppni. Skiljanlega.


mbl.is Íslandsbanki innleiðir samkeppnisstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frétt: Sveitarfélag safnar hægar skuldum

Kannski er ég orðinn aðeins of bitur og súr út í stjórnleysi stjórnmálamanna og takmarkalausu getuleysi þeirra til að stöðva skuldasöfnun, en að Mosfellsbær sé að safna hægar skuldum en í fyrra er neikvæð frétt í mínum huga.

"Tekjur" (skattheimta) og útgjöld opinberra eininga er mjög auðvelt reikningsdæmi. Menn taka meðvitaða ákvörðun um að safna skuldum. Í Mosfellsbæ hafa menn meðvitað tekið þá ákvörðun að eyða meira en sem nemur afrakstri á mjólkun skattgreiðenda. Menn hafa að vísu ákveðið að safna hægar skuldum á herðar skattgreiðenda en í fyrra, en ákváðu nú samt að safna skuldum. Og það er óábyrg hegðun sem jaðrar við þjófnað og fjársvik.

Stjórnmálamenn eiga að finna þá taug í sér sem titrar við þá tilhugsun, að það sé ósanngjarnt að aðili A safni skuldum á herðar aðila B. Stjórnmálamaðurinn á að sjá fyrir sér sitt eigið, persónulega reikningsyfirlit, og lið þar sem heitir "Skuldasöfnun nágranna þíns á þínar herðar", og verða óstjórnlega reiður yfir því að sá liður hækkar og hækkar, sama hvað er mikið tekið til í heimilisbókhaldinu. Nágranninn grefur fyrir heitum potti, býður vinum sínum í hádegisverði og partý, endurnýjar bílinn sinn, fer í allskyns "opinberar framkvæmdir" á lóðinni sinni, og sendir reikninginn jafnóðum til stjórnmálamannsins í húsinu við hliðina.

Þetta er ófyrirgefanlegt ábyrgðarleysi. Hægari skuldasöfnun er skárri en hröð skuldasöfnun, en bara á sama hátt og minni barsmíðar eru skárri en miklar barsmíðar. Í Mosfellsbæ berja menn núna minna á skattgreiðendum en í fyrra, en barsmíðarnar eru slæmar engu að síður.


mbl.is Dregur úr tapi Mosfellsbæjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagfræði hrunsins er ennþá 'mainstream'

Hvað lærði stjórnmálaelítan og embættismannahjörð hennar af hruninu?

Svarið er: Nákvæmlega ekkert.

Það sem olli hruninu er nú nýtt sem meðal gegn því.

Helstu orsakir hrunsins: Peningaprentun, umsvifamikið og fjárþyrst ríkisvald, hækkandi skattar, eyðsla um efni fram, skuldsetning, opinberar fjárfestingar, fleiri reglur, meira eftirlit, samkeppnishamlandi kostnaður við stofnun nýrra fyrirtækja í fjármálum hvers konar. 

Helstu tæki og tól stjórnmálamanna til að lækna mein hrunsins: Þau sömu og helstu orsakir hrunsins.

Við og við skjóta upp bandbrjálaðar hugmyndir um að auka eftirlit, fjölga reglum, skattleggja meira, skattleggja þá sem skapa mikil verðmæti, skattleggja fyrirtæki sem hafa ekki farið í gjaldþrot, afskrifa skuldir gjaldþrota fyrirtækja á kostnað skattgreiðenda, prenta meiri peninga, stofna til fleiri og meiri skulda.

Blaðamenn kyngja þessu öllu þegjandi og hljóðalaust.

Er eitthvað skrýtið við að almenningur skilji ekki af hverju ráð helstu spekinga hafa ekki dugað til að hreinsa út hrunið? Almenningur fær enga menntun í hagfræði í skólakerfinu. Þeir sem velja að mennta sig í hagfræði í háskóla læra vitleysu sem sagan er fyrir löngu búin að afskrifa, og predikarar þessarar vitleysu fá ítrekað að tjá sig í fjölmiðlum, sem ruglar almenning bara enn meira í ríminu, enda virkar ekkert af ráðleggingum vitringanna.

Hagfræði hrunsins er ennþá sú "viðtekna", hún er ennþá "mainstream". Þar til það breytist getum við átt von á því að raunlaun almennings haldi áfram að lækka, að fyrirvinnur heimilanna þurfi áfram að vera tvær til að heimilisbókhaldið stemmi, og að börnin okkar verði skuldsettari og skuldsettari, jafnvel áður en þau fæðast.  


mbl.is Hinir ríku verði skattlagðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið ræður. Punktur.

Er einhver í vafa um það að á Íslandi er það ríkisvaldið sem á seinasta orðið í hvaða máli sem er sem viðkemur eignum og líkömum Íslendinga eða þeirra sem eru á Íslandi hverju sinni?

Ríkisvaldið getur sett í lög að ef lögreglumaður ef biður þig um að girða niðrum þig og glenna út rassgatið, svo þar megi framkvæma leit á þér, þá hlýðir þú eða ferð í grjótið.

Ríkisvaldið getur sagt þér hvort tóbaksreykur megi liðast um innandyra í þínu húsi, eða ekki.

Ríkisvaldið getur ákveðið að þú megir ekki kaupa ákveðna jörð. Nú eða að þú verðir að kaupa hana á ákveðnu verði sem seljandinn getur verið sáttur við eða ekki. Nú eða að ríkisvaldið getur ákveðið að taka af þér jörð og láta þig fá eitthvað í staðinn, eða ekki.

Þetta takmarkalausa vald ríkisins er sögulega séð ekkert nýtt. Það veik í stuttan tíma (á mælikvarða mannkynssögunnar) eftir hugmyndafræðilega byltingu Evrópu eftir miðaldirnar. Frelsi frá afskiptum hins opinbera, ríkisins, konunga, harðstjóra, keisara og embættismanna þeirra er undantekningin í mannkynssögunni.  Undantekningin er frelsið til að fá að vera í friði fyrir ofbeldi, gripdeildum og ofríki "yfirvalda". Reglan er sú að vera reglulega og "löglega" rændur. 

Ráðherra í ríkisstjórn Íslands tekur ákvörðun. Hann hendir óskýrum lögum, ákvæðum um undanþágur, ákvæðum um frekari skoðun á hinu og þessu og hvaðeina sem hann hefur í vopnabúri sínu á eftir þeim sem vilja ganga gegn ákvörðun hans.

Ríkisvaldið ræður. Ákveðin jörð verður ekki keypt nema ríkisvaldið samþykki kaupandann og áform hans um notkunar hennar. 

Case closed. 


mbl.is Skoða þarf skuldir sveitarfélaganna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar losna við krónurnar í útlöndum

Kemur einhverjum á óvart að Íslendingar eyði miklu í útlöndum? Á Íslandi eru gjaldeyrishöft. Íslendingum er bannað að skipta íslenskum krónum í erlendan gjaldeyri. Þeir mega ekki fjárfesta erlendis. Þeir eru neyddir til að eiga íslensku krónurnar sínar.

Til að losna við krónurnar, og fá eitthvað í staðinn sem gagn er að, er hægt að fara til útlands. Farseðill er leyfi til að kaupa gjaldeyri. Sumir nota hann til að eignast dót. Dót getur haldið notagildi sínu á meðan krónurnar, sem fóru í að kaupa dótið, rýrna í kaupmætti. Það er betra að eyða krónunum strax áður en þær rýrna enn meira, og eignast eitthvað dót í staðinn.

Gjaldeyrishöftin brengla allan markaðinn. Sumt af brengluninni er sjáanlegt, annað ekki. En hún er umfangsmikil og er nú þegar að valda íslensku hagkerfi gríðarlegum skaða. Sparnaður leggur á flótta, fólk vill frekar eignast eitthvað en eiga íslenskar krónur, og allir útreikningar fyrirtækja og einstaklinga í íslenskum krónum verða eins og fálm í myrkrinu.  

Gjaldeyrishöftin verða samt áfram við lýði, a.m.k. út kjörtímabil Alþingis. Þau gegna mikilvægu pólitísku hlutverki fyrir ríkisstjórn sem vill láta evruna og Evrópusambandið líta vel út og fyrir stjórnlynda stjórnmálamenn sem vilja ná auknu tangarhaldi á öllu hagkerfinu í gegnum fleiri reglur og aukið eftirlit þar til allt er í raun og veru undir stjórn ríkisvaldsins.


mbl.is Landinn eyðsluglaður í útlöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldasöfnun er ekkert náttúrulögmál

Í Árborg berjast menn við að borga niður skuldir. Það er frábært. Að vísu er sveitarfélagið Árborg vel skreytt með allskyns föndri á kostnað skattgreiðenda, og þar er útsvarið í botni, en menn eru þó að borga niður skuldir.

Skuldasöfnun er pólitísk ákvörðun. Menn ákveða einfaldlega að eyða meiru en skattgreiðendur eru mjólkaðir um hér og nú. Þeir verða bara mjólkaðir seinna í staðinn.

Skuldasöfnun er ekki náttúrulögmál. Hún er oft notuð til kaupa frest, tíma, atkvæði eða hylli ákveðinna hagsmunahópa, en hún gerist ekki af sjálfu sér. Meðvituð ákvörðun er tekin um að sækja lánsfé og eyða meiru en hægt er að berja úr skattgreiðendum.

Í Árborg eru menn á réttri leið, en fara sér alltof hægt. Því miður er sú hægferð til fyrirmyndar miðað við verr reknar opinberar einingar, t.d. ríkissjóð og Reykavíkurborg, þar sem skuldasöfnin er á fljúgandi ferð og verður það eins lengi og núverandi stjórnmálameirihlutar ráða ríkjum. 


mbl.is Jákvæður rekstur hjá Árborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband