Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014

Opinberir starfsmenn hlaða undir eigið rassgat

Bæjarráð Seltjarnaress hefur ákveðið að hlaða enn meira undir rassgatið á starfsmönnum sveitarfélagsins. Auðvitað er það gert undir einhverju yfirskyni, sem að þessu sinni er til að stuðla að bættri "lýðheilsu- og umhverfisvitund auk menningarlegrar upplifunar" starfsmanna bæjarins, og "bæta umhverfi, bæjarbrag og heilsu starfsfólks bæjarins og annarra". Ekki datt bæjarráði í hug að bæta fjárhag íbúa sveitarfélagsins með því að lækka útsvarið. Nei, alltaf skal synt í hina áttina.

Bæjarbúar munu eflaust ekki mótmæla. Þeim yrði þá líka bara sagt að þeim muni ekkert um hundraðkallinn sem þessi auknu útgjöld eða útsvarslækkun sem aldrei varð mun kosta hvern og einn þeirra. 

Hið opinbera er með mýgrút af allskyns fríðindum af þessu tagi sem það notar til að keppa við einkafyrirtæki um vinnuafl. Starfsmaður sem hættir hjá bænum til að finna sér verðmætaskapandi vinnu mun þurfa væna launahækkun til að koma í stað allra fríðindanna sem hann nýtur sem opinber starfsmaður. Ólíklegt er að atvinnutækifærin sem fela í sér slíka launahækkun séu mörg. Hann heldur því tryggð við sitt og tekur virkan þátt í að viðhalda stóru bákni, og lætur t.d. atkvæði sitt í kosningum stjórnast af slíku viðhorfi.

Seltjarnarnes nýtur líka góðs af því að nánast öll sveitarfélög á Íslandi eru mjög illa rekin svo ef reksturinn er bara nokkurn veginn í lagi verður samanburðurinn mjög hagstæður. Þegar næstum því öll liðin spila í neðstu deild er ekki erfitt að skara framúr.

Það að ríkisvaldið sé sífellt að tútna út er ekki opinberum starfsmönnum að kenna þannig séð. Þeir reyna bara að bæta hag sinn eins og allir aðrir, og þeirra leið til að gera það er að sjúga sem mest af verðmætum samfélagsins í hirslur hins opinbera og deila svo út til sín og sinna skjólstæðinga. Það eru skattgreiðendur sem láta valta yfir sig og það er í þeirra verkahring að mótmæla og veita andspyrnu við yfirganginum. Geri þeir það ekki munu þeir vakna upp einn daginn með kæfandi skattbyrði, skuldafjall á herðunum og fáa möguleika aðra í stöðunni en að borga hverja krónu í hina opinberu hít en fá ekkert í staðinn. 


mbl.is Fá borgað fyrir að nota vistvænar samgöngur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðileg jól

Ég vil óska öllum sem þessa síðu lesa gleðilegra jóla og gleðilegs nýs árs.

Við getum glaðst yfir því að heimur batnandi fer og að það sé ekki síst því að þakka að menn geta víða stundað að mestu frjáls samskipti og viðskipti og hjálpað hverjum öðrum að ná takmörkum sínum og betri lífskjörum.

Þar sem mönnum er meinað að stunda frjáls samskipti og viðskipti eru lífskjör verri og minna úr að moða. Jólagjöf þeirra ríku í heiminum ætti að vera berjast fyrir auknu frelsi til viðskipta og samskipta fyrir alla sem berjast í bökkum og þurfa að eiga við opinbera fjötra í lífsbaráttunni.


Allt er bannað nema það sem er sérstaklega leyft

Á Íslandi (og víðar, auðvitað) er ríkjandi ákveðinn hugsunarháttur sem gengur út á að allt sem er ekki sérstaklega leyft er bannað, eða að allt sem er ekki sérstaklega bannað er ekki sérstaklega skaðlegt.

Þessi hugsunarháttur gengur út á að einstaklingar geti óhultir sturtað öllu ofan í sig sem leyfilegt er að sturta ofan í sig án þess að bera skaða af. Hugsunarhátturinn gengur líka út á að ríkisvaldið hafi eftirlit með öllu og öllum og passi að enginn fari sér að voða.

Þess vegna er t.d. talið óhætt að drekka sig ofurölvi eða leggja peningana sína inn á bankabók því hérna hefur ríkisvaldið gefið út sérstök leyfi og hefur með höndum allt eftirlit og því sé með öllu óhætt að athafna sig án þess að fæða með sér vott af sjálfstæðri hugsun.

Orkudrykkir eru, að mér sýnist, á leið á sérstaka lista hins opinbera yfir það sem er leyfilegt og hvað ekki fyrir ákveðna aldurshópa eða fólk með ákveðið heilsufarsástand. Sumum verður leyft og öðrum ekki. Þeim sem er leyft túlka leyfið sem grænt ljós á hegðun án hugsunar. Þeim sem verður bannað túlka það sem áskorun - áskorun um að komast framhjá hinu opinbera eftirliti og taka smá áhættu með eigin heilsu, enda er allt sem er bannað gjarnan talið spennandi, sérstaklega hjá ungu fólki.

Framundan eru sérstakar leiðbeiningar og jafnvel reglugerðir sem fjalla um sykurneyslu, fituneyslu, hjálmanotkun, hlífðarfatnað í vondum veðrum og svona má lengi telja. Af nægu er að taka fyrir hið opinbera eftirlit sem smátt og smátt er að koma í staðinn fyrir sjálfstæða hugsun hjá fólki.

Og forræðishyggjufólkið klappar og finnst það hafa áorkað miklu. Það er víst talið mikilvægast. 


mbl.is Leita læknis vegna orkudrykkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nenna læknar þessu?

Hvernig stendur á því að læknar nenna að vera opinberir starfsmenn? Þetta eru sprenglærðir einstaklingar sem geta flestir fengið vinnu í óteljandi öðrum löndum og þénað þar miklu meira en þeir geta sem opinberir starfsmenn á Íslandi.

Getur verið að fríðindin séu slík að launakjörin skipta minna máli? Getur verið að þeir geti margir hverjir tekið undir með Public Servant Mr. X? Eða hvað? Hvað er það nákvæmlega sem fær lækna til að sætta sig við hlutfallslega léleg laun miðað við starfsbræður sína úti í hinum stóra heimi og yfirleitt langa vinnudaga með miklu vakta- og bakvaktaálagi?

Ég hvet lækna til að hugsa málið aðeins og spá í því hvort þeir ættu ekki að róa öllum árum að því að skera heilbrigðiskerfið úr snöru hins opinbera. 


mbl.is „Gekk ekki neitt“ hjá skurðlæknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattgreiðandinn er einmana, hrakinn og barinn

Ég vil mæla eindregið með þessari grein eftir Óla Björn Kárason, varaþingmann, um íslenska skattgreiðandann. Tilvitnun:

Í baráttunni gegn skattgreiðandanum er leyfilegt að snúa öllu á hvolf. Jafnvel kennarar við Háskóla Íslands – prófessorar, lektorar og aðjunktar – telja réttlætanlegt að fara fram með rangar eða villandi fullyrðingar í ályktun sem send var þingmönnum. Þar er því haldið fram að fé til Ríkisútvarpsins hafi „verið skorið niður um 30% á undanförnum árum“.Ég veit hreinlega ekki hvort er verra að háskólakennarar fari vísvitandi fram með villandi staðhæfingar eða að þeir hafi ekki haft fyrir því að kynna sér staðreyndir, líkt og þeir hljóta að leggja áherslu á að nemendur þeirra geri.

Einnig:

Hættulegasti tíminn fyrir skattgreiðandann er undir lok hvers árs. Á aðventunni fara sérhagsmunahópar á stjá til að tryggja sína hagsmuni við afgreiðslu fjárlaga komandi árs. Þar er krafan ekki um lægri skatta, lægri útgjöld eða aðhald og sparnað í ríkisrekstri. Ákallið er alltaf á aukin útgjöld sem skattgreiðandinn skal með góðu eða illu standa undir.Jafnvel stjórn opinbers fyrirtækis telur rétt að taka þátt í leiknum og krefjast meiri fjármuna frá skattgreiðandanum.

Hvað ætli skattgreiðendur fái mikil ríkisútgjöld í skóinn í ár?


Öll skattheimta er slæm skattheimta

Þá seg­ir að vöru­gjöld hafi öll ein­kenni slæmr­ar skatt­heimtu; þau mis­muni vör­um, séu ógagn­sæ og óskil­virk og raski sam­keppn­is­stöðu gagn­vart er­lendri sam­keppni auk þess að vera kostnaðar­söm í fram­kvæmd.

Þetta er sagt um vörugjöldin. 

Ég segi: Þetta gildir um alla skattheimtu.

Ég viðurkenni um leið að vörugjöldin eru, eða voru, ein furðulegasta skattlagning skattkerfisins. Hún er, eða var, vægast sagt handahófskennd og ógegnsæ. Það gerir samt ekki vörugjöldin verri en aðra skattheimtu í eðli sínu, þótt stigsmunur í flækjustigi sé, eða hafi verið, til staðar.

Öll skattheimta er flutningur á verðmætum frá þeim sem afla þeirra og til annarra sem vilja eyða þeim.

Skattur er peningur sem ríkisvaldað sogar í miðlæga hirslu sína og deilir svo út eftir hagsmunamati stjórnmálamanna hverju sinni.

Þessi misserin telja stjórnmálamenn hagsmunum sínum vera best borgið með því að auka framlög til RÚV og eyða allri aukningu á skattheimtu jafnóðum. Fráfarandi ríkisstjórn lagði áherslu á að þenja út stjórnsýsluna og dæla fé í gæluverkefni forsætisráðherra. Hvað tekur við á næsta kjörtímabili?

Hvað skattheimtan er kölluð er þannig séð aukaatriði. Á meðan ríkisvaldið sogar um helming verðmætanna í samfélaginu til sín er aðalatriðið, en ekki hvort það er gert í gegnum hækkun á vöruverði eða lækkun á útborgun launa. 

Öll skattheimta sem er minnkuð eða lögð af er skref í rétta átt. Öll skattheimta sem eykst eða er bætt við skattheimtuflóruna er skref í ranga átt. 


mbl.is Stærsti sigur íslenskrar verslunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjárfestir passar fjárfestingar sínar

Richard Branson, fjárfestir, talar nú fyrir aðgerðum sem auka arðsemi fjárfestinga hans. Gott hjá honum. Hið sama gera aðrir fjárfestar þótt þeir fái fæstir áheyrn fjölmiðlamanna.

Þar sem olía hefur verið aðgengileg og á hagstæðum kjörum þar hafa lífskjör fólks náð að batna. Er það tilviljun?

Þar sem olía hefur verið óaðgengileg hefur fólk sótt orku sína í skítug kol eða skóga sína. Er það gott mál?

Ríka fólkið á Vesturlöndum hefur ákveðið að fórna hluta lífskjara sinna til að friða samvisku sem er slæm af því áróður hefur verið gleyptur. Þeir um það.

Lækkun olíuverðs hefur margar ástæður. Ein gæti t.d. verið sú að Bandaríkin og bandamenn þeirra í OPEC séu að reyna knésetja Rússa með auknu framboði. Önnur er kannski sú að framboð er einfaldlega meira en eftirspurn því jarðskorpan er troðfull af olíu sem tæknin er að leysa úr læðingi.

Gangi þér vel, Branson, að tala upp verðmæti fjárfestinga þinna.


mbl.is Ódýr olía skaði hreina orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar ríkisvaldið leyfir sér meira en það leyfir þegnum sínum

Hin mikla umræða um yfirheyrsluaðferðir CIA (ef svo má kalla) fær vonandi einhverja til að hugleiða hvað það nú er sem þetta ríkisvald er og hvers vegna við umberum það. 

Er ríkisvaldið búið til af einstaklingum til að standa vörð um hagsmuni þeirra, og hefur ekki meiri réttindi en hver og einn einstaklingur sem stendur að baki ríkisvaldinu? Eða er ríkisvaldið sjálfstætt fyrirbæri sem um gilda önnur lög en hvern og einn einstakling innan umráðasvæðis þess?

Ef ég seilist í vasa nágranna míns og hirði úr honum peninga er ég að stela. Þegar ríkisvaldið gerir það sama er það að skattleggja.

Ef ég tek nágranna minn með valdi og læt hann klæðast búning og skjóta á annað fólk kallast það mannrán og jafnvel þrælahald. Ef ríkisvaldið gerir það heitir það þegnskylda eða herkvaðning.

Ef ég tek nágranna minn og bind niður í stól og ber hann til óbóta svo hann segi eitthvað sem ég vil heyra heitir það mannrán og pynting. Ef ríkisvaldið gerir það heitir það yfirheyrsla.

Ef ég æði inn á land nágranna míns og gref þar fyrir gufuorkuveri heitir það þjófnaður og ágangur. Ef ríkisvaldið gerir það heitir það þjóðnýting og opinber framkvæmd.

Ef ég banna nágranna mínum að kveikja sér í sígarettu, blóta, horfa á klámmynd eða sprauta sig með heróíni er ég að beita hann ofbeldi og valdi. Ef ríkisvaldið gerir það er það einfaldlega að framfylgja handahófskenndum lögum sem það hefur ákveðið að gildi fyrir alla. 

Ég hvet alla sem hafa einhvern áhuga á svona hugleiðingum til að kaupa eða sækja og prenta út eða lána eintak af Lögunum eftir Frederik Bastiat. 


mbl.is Sumir fulltrúar fóru yfir strikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alveg hræðilegt, eða það besta í stöðunni?

Adrian Staszczuk, 28 ára gamall Pólverji, sem býr í iðnaðarhúsnæði við Nýbýlaveg 4 segist borga 65 þúsund krónur á mánuði fyrir herbergið sem hann býr í. Húsnæðið sem slökkviliðið ætlaði að rýma í gær er gamalt skrifstofuhúsnæði með sameiginlegu eldhúsi, salernis- og baðaðstöðu.

Þetta hljómar ekki eins og spennandi húsnæði. Verðið er hátt og húsnæðið eflaust ekki upp á marga fiska.

Ég leyfi mér hins vegar að ganga út frá að þetta sé það besta í stöðunni fyrir íbúana. Eða af hverju að taka öðrum kosti en þeim besta í stöðunni?

Kannski er þetta fólk sem hlýtur hvergi annars staðar náð fyrir augum útleigjenda. Ekki er hægt að búa á hóteli endalaust. Er hinn kosturinn kannski að troða sér í litla íbúð með 20 öðrum einstaklingum, eða hreinlega að flytja á götuna?

Sjálfur hef ég búið í allskonar húsnæði í gegnum árin. Í eitt skipti leigði ég herbergi í stórri og niðurníddri íbúð í miðbæ Kaupmannahafnar, sem angaði af mygluðum mat og fúinni málningu, og varla með vísi af leigusamning í höndunum. Það var skemmtilegur tími fyrir ungan mann sem mat það meira að búa nálægt miðbænum en í einhverju notalegra fjarri miðbænum.

En auðvitað þarf að fylgja lögum og reglum. Ég vona bara að lögin og reglurnar leiði ekki til þess að hundruð einstaklinga þurfi að flytja í pappakassa úti á götu.

Ég vil að lokum benda á texta sem ver hinn illa leigusala fyrir bæði gagnrýni og ofsóknum - kafla VI-20 í bókinni Defending the Undefandable, sem er gjaldfrjálst aðgengileg hér. Svolítil tilvitnun:

But what of the claim that the slumlord overcharges for his decrepit housing? This is erroneous. Everyone tries to obtain the highest price possible for what he produces, and to pay the lowest price possible for what he buys. Landlords operate this way, as do workers, minority group members, socialists, babysitters, and communal farmers. Even widows and pensioners who save their money for an emergency try to get the highest interest rates possible for their savings.

Ekki satt?


mbl.is 65 þúsund kr. fyrir herbergið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið fitnar á kostnað mosa og hreindýra

Gert er ráð fyr­ir að tekj­ur af nátt­úrupassa verði 4,5-5,2 millj­arðar króna fyrstu þrjú árin en stefnt er að því að lög um hann taki gildi 1. sept­em­ber á næsta ári.

Mjög gott, eða hvað?

Ég vil byrja á að taka fram að ég er afskaplega hlynntur því að sá sem nýtur einhvers eigi að borga. Ef mig langar í köku þá á ég að borga hana. Ef mig langar að endurnýja hjól krakka minna þá á ég að borga þau. Ef ég vil traðka á mold og grasi í eigu einhvers þá á ég að borga fyrir traðkið.

Náttúrupassinn á að nafninu til að greiða fyrir traðk ferðamanna á svæðum sem þurfa aðhlynningu og umönnun, viðhald og uppbyggingu.

Hann mun ekki gera það nema að hluta til.

Innheimtur vegna náttúrupassans renna í opinberan sjóð. Til að fá fé úr honum þarf að sækja um með einhverjum hætti. Stjórnmálamenn munu nota sjóðinn til að skella sér í blússandi kjördæmapot í anda byggðakvóta- og jarðgangastjórnmála. 

Þessi opinberi sjóður fer samt ekki allur í að byggja grindverk og göngustíga. Hluta hans verður varið í eitthvað allt annað. Þetta er vel þekkt saga. Gjald er innheimt fyrir eitthvað, t.d. af bensíni vegna veganotkunar, af sjónvarpsáhorfendum vegna RÚV, af útgerðarmönnum vegna rannsókna á fiskum í sjónum, af ökumönnum vegna gaslosunar, af heimilum vegna sorplosunar, og svo framvegis. Stjórnmálamenn sjá peningana flæða inn og ákveða um leið að nota hluta þeirra til að kaupa sér vinsældir eða stækka báknið til að auka völd sín og sinna. Eyrnamerkt gjaldtaka ríkisvaldsins er í raun bara fjáröflun hins opinbera, og peningana nota stjórnmálamenn í hvað sem þeir vilja.

Íslendingar hafa enn einu sinni látið plata sig og niðurstaðan er aukin völd stjórnmálamanna yfir þeim. 


mbl.is Ráðnir verða „náttúruverðir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband