Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2015

EKKI heimsækja Danmörku!

Ég vil vara marga Íslendinga við því hér og nú að heimsækja Danmörku, þessa barbaraþjóð sem leyfir áfengiskaup 15 ára ungmenna (upp að 18% styrkleika til 18 ára aldurs).

Hér er áfengi til sölu nánast hvar sem er, allan sólarhringinn, og gjarnan er það meira að segja auglýst í blöðum og sjónvarpi og í strætóskýlum og í verslunum með stórum verðmiðum. Að hugsa sér - tælandi vodkaauglýsing á tíma dags þar sem börn eru vakandi!

Í þeirri verslun sem er næst heimili mínu er sterka áfengið í opnum og aðgengilegum hillum við kassana og gjarnan eru tilboð í gangi svona til að tæla eina flösku niður í körfuna rétt áður en kemur að greiðslu (álíka og gildir um sælgæti á Íslandi). Ég verð samt að játa að ég hef aldrei kippt flösku með þar. Kannski ég láti samt freistast næst og segi svo frá því hér á þessari síðu til að stuða hinn siðprúða Íslending.

Að einhverjir setji sig upp á móti áfengissölu á bensínstöðvum á Íslandi segir mér eitt: Íslendingar eiga ekki að heimsækja Danmörku, aldrei nokkurn tímann! Áfallið yfir öllu úrvalinu, verðinu og aðgenginu gerir sennilega út af við þá af hneykslan. Vissara er að byrgja brunninn áður en íslenska barnið fellur ofan í hann og banna bein flug frá Íslandi til Danmerkur.

Já, gerum það.


mbl.is Gagnrýna bjór á bensínstöðvum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einfalt er gott

Margir kunna að meta einfalt fyrirkomulag á hlutum, og að vera ekki að flækja þá að óþörfu. Þannig má oft spara bæði tíma og fé og í leiðinni óvissu og óþægindi.

Óvissa og óþægindi eru samt lifibrauð hins opinbera. Ef viðskipti við hið opinbera væru of einföld er hætt við að fjöldi opinberra starfsmanna yrði atvinnulaus. Þess vegna er tilhneiging hins opinbera yfirleitt sjaldnast sú að einfalda hlutina. Þess í stað eru þeir flæktir. Mismunandi skattprósentur leggjast á hitt og þetta og hinir og þessir geta dregið hitt og þetta frá eða fengið endurgreiðslur eða undanþágur. Ef aðili A kaupir viðgerðarþjónustu gildir skattprósenta X vegna þjónustu og Y vegna varahluta, og af henni er hluti Z frádráttarbær frá skatti Y upp að ákveðnu hámarki. Fallegt, ekki satt?

Hugmynd: Hvernig væri að endurskipuleggja allt skattkerfið þannig að ein, lág skattprósenta leggst á allt sem nú er skattlagt og síðan geta menn fyrir opnum tjöldum byrjað að ræða hver eigi að sleppa betur en annar og hvers vegna? 

Ætli niðurstaðan yrði sú að ferðaþjónusta á Íslandi fengi ríkisstyrki í formi hærri endurgreiðslu frá skatti X en hún greiðir í skatt Y?


mbl.is Hagnast á ólíkum skattþrepum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama innihald í mismunandi umbúðum

Skuldavandi er sami vandinn, sama hver glímir við hann. Hann verður til þegar einhver eyðir um efni fram - tekur lán í stað þess að framleiða verðmæti.

Í Danmörku eru framleiddir þættir sem heita Luksusfælden - eða lúxusgildran (og væri e.t.v. stórsniðug hugmynd að sjónvarpsefni á Íslandi). Þar kunna menn að taka á hinum svokallaða skuldavanda, sem í þeirra tilviki snýr að skuldavanda heimila en gæti alveg eins átt við um heilu ríkin. Fyrsta skrefið er alltaf að gera sér grein fyrir tekjunum, föstu útgjöldunum og skuldunum. Oftar en ekki er fólki sagt að selja bílinn og aðrar eignir sem mega missa sín, hætta framkvæmdum, losa sig við kettina og segja upp sjónvarpsáskriftum. Síðan er rætt við lánadrottna um lengingu lána og jafnvel lægri vexti gegn því að afborganir fari að berast hratt og örugglega. Neyslan er skorin niður og neyslufé skammtað. Áætlun er gerð um greiðslu afborgana nokkur ár fram í tímann. Á meðan þarf að herða ólina. Það er einfaldlega ekkert annað í stöðunni.

Á þetta horfir fólk og kinkar kolli og vonast til að fólk finni leið úr vandanum um leið og það lítur í eigin barm.

Hvað gerist svo þegar þátturinn er búinn og fréttirnar taka við? Þá breytist allt hugarástand okkar. Þá teljum við að nýtt lán muni leysa vandamál sem sköpuðust vegna fyrri lántöku. Þá skal sótt um nýtt kreditkort til að borga af því gamla. Þá er allt í einu gerð krafa um að skuldir séu felldar niður án þess að einhver raunveruleg geta til að greiða afganginn upp sé til staðar eða sé í bígerð.

Skuldavandi er vandi vegna of mikilla skulda. Okkur væri hollt að hafa það í huga. 


mbl.is Grískt ástand í Púertó Ríkó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerist þegar dópið er tekið af fíklinum?

Nú stefnir kannski í að straumur ókeypis peninga til Grikklands sé að þorna upp. Þetta veldur auðvitað miklu uppnámi í Grikklandi. 

Hvað gerist þegar dópið er tekið af fíklinum? Hann verður vitaskuld vitstola af fíkn og líkami hans fer í allskonar ástand afvötnunar og afeitrunar. Hið sama þarf að gerast fyrir hinn gríska líkama. Hann þarf að læra að bjarga sér án innspýtingar. En hvernig?

Við blasir að evran hrynji, annaðhvort með brotthvarfi Grikklands eða með einhverjum öðrum hætti. Menn ættu að byrja að undirbúa það.

Við blasir að Grikkland verði lýst formlega gjaldþrota. Menn ættu líka að byrja undirbúa sig undir það.

Við Grikkjum blasir að stokka algjörlega upp hjá sér: Smækka ríkisvaldið, einkavæða allt, selja allar ríkiseigur, borga skuldir og byggja upp hagkerfi sem þrífst á verðmætasköpun en ekki lánum. Lífeyriskerfinu þarf að henda. Gamalt fólk þarf að byrja leita sér að lífsviðurværi. Ungt fólk þarf að taka á sig kjaraskerðingar. Sé þessu leyft að gerast hratt og vel mun sársaukinn líka ganga hratt yfir - jafnvel á örfáum misserum. Sé ferlið dregið á langinn mun bara bætast við sársaukann síðar meir.

En hvað með greyið Þjóðverjana og allar skuldirnar sem þeir tapa ef Grikkland fer á hausinn? Ég segi bara: Greyið þeir að hafa lánað Grikkjum út á að telja stjórnmálamenn ætla að bjarga þeim þegar fjárfesting þeirra tapaðist. 

Íslendingar gætu lært margt af Grikklandi. Á Íslandi var þar til fyrir 2 árum ríkisstjórn sem ætlaði sér að lifa á skuldasöfnun og vaxandi ríkisvaldi. Henni var sem betur fer komið frá, og þótt brotthvarf frá stefnu hennar á ýmsum sviðum gangi hægt þá mjakast samt víða í rétta átt. 

Ég vona að Grikkjum beri gæfa til að koma sér hratt og örugglega út úr slæmu ástandi. Það er líf eftir gjaldþrot, eins og einhver komst að orði. 


mbl.is Óttast upplausn í Grikklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spilaborgin hrynur fyrr eða síðar

Höfum þetta stutt í dag:

- Evrópusambandið er spilaborg sem verður óstöðugri eftir því sem hún stækkar og verður meira og meira miðstýrð af ókjörnum embættismönnum sem sólunda fé skattgreiðenda, sem þeir að auki fjöldaframleiða í peningaprentvélum sambandsins og rýra þannig kjör allra enn meira

- Evran var hugsanatilraun og pólitískt tæki. Sem gjaldmiðill dugir hún ekki

Spilaborgin hristist nú sem aldrei fyrr og sá skjálfti hættir ekki fyrr en hún hrynur, annaðhvort óvænt og með hvelli eða skipulega og þannig að menn séu undirbúnir


mbl.is Hvað gera Grikkir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig á að selja stjórnmálamönnum gamalt drasl?

Ég sá einhvern deila þessu myndskeiði um hvernig á að selja stjórnmálamönnum gamalt drasl (eða úrelta tækni):

https://www.youtube.com/watch?t=10&v=VpUQ_EMV23c

Íslendingar vilja oft miklu frekar gera sín eigin mistök til að læra af í stað þess að læra af mistökum annarra. Verður það tilfellið hér líka? 


mbl.is Er raunhæft að leggja léttlestir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sektað til að hækka verð á óverðmerktum vörum

Neytendastofa er dæmigerð ríkisstofnun sem þarf reglulega að láta sjá sig í fjölmiðlum til að hún gleymist ekki og verði tekin af fjárlögum og þar með spena skattgreiðenda.

Við skulum orða þetta svona: Enginn var verr settur áður en Neytendastofa eða fyrirrennarar hennar urðu til í hinum opinbera rekstri.

Allt sem Neytendastofa gerir má flokka í tvo flokka (eins og raunar verkefni allra ríkisstofnana):

  • Það sem einhver eftirspurn er eftir, og yrði þá framkvæmt af einkaaðilum (betur og ódýrar) af ekki væri fyrir tilvist hins opinbera hér.
  • Það sem engin eftirspurn er eftir og heyrði sögunni til án fjármögnunar skattgreiðenda.

Neytendastofa játar í frétt að fyrri herferð hennar bar engan árangur og að ástandið hefur versnað síðan þá. Einkafyrirtæki í sömu aðstöðu þyrfti að leggja meira á sig og sennilega fyrir minna fé og minni mannsskap til að vinna sig upp úr slíkum aðstæðum. Ríkisrekin stofnun fær sennilega meira fé og meiri mannskap.

Ríkisrekstur verðlaunar vanhæfni og mistök - vanhæfni og mistök eru þannig séð niðurgreiddar afurðir í hinum opinbera rekstri. Niðurstaðan er meiri vanhæfni og fleiri mistök. 

Neytendastofa - takk fyrir viðleitnina en hér með tilkynnist að þjónustu þinnar er ekki lengur óskað. 


mbl.is Verðmerkingar urðu verri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrt að flytja, dýrt að vera

Fyrirtæki leika sér ekki að því að flytja starfsemi sína til. Það er dýrt ferli og hættan er sú að mikil þekking tapist. Svo hvað veldur?

Ein ástæða er auðvitað rekstrarkostnaður og þar vega laun oft mikið. Nú á að snarhækka svo til öll laun á Íslandi á örskömmum tíma og fjármögnun á slíku getur verið þungur baggi fyrir mörg fyrirtæki. 

Skattar eru líka kostnaðarliður sem má ekki vanmeta. Fyrirtæki liggja oft vel við höggi yfirvalda - sérstaklega þau sem virðast þrífast og dafna sama hvað gengur á. Oft kemur þetta niður á fjármagni sem annars rynni í endurnýjun fjárfestinga og vöruþróunar, sem til lengri tíma bitnar á aðlögunarhæfni og hagnaði fyrirtækja. Fyrirtæki hugleiða því oft hvort önnur staðsetning geti lækkað þennan útgjaldalið.

Síðan eru það óbeinir kostnaðarliðir. Fyrirtæki eru oft látin leggja á sig mikla vinnu til að fá ýmis konar leyfi og yfirvöld draga oft lappirnar til að sinna þörfum skattgreiðenda sinna. Hafnarfjörður er hér engin undantekning. Sveitarfélagið nýtur til að mynda góðs af álverinu í Straumsvík en lætur um leið fyrirtækið hafa mikið fyrir t.d. ákvörðunum um breytt skipulag á athafnasvæði þess. 

Að reka fyrirtæki á Íslandi er ekki alltaf góð skemmtun. Stjórnmálamenn eru hér með puttana í öllu og stunda blöndu af ákvarðanafælni og eltingaleik við vinsældir sem bitnar fyrst og fremst á þeim sem borga brúsann. 


mbl.is „Þetta er mjög alvarlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband