Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Einlægur feluleikur

Ekki kemur það á óvart að Steingrímur J. segi að ekki séu öll spil á borðinu varðandi þjóðnýtingu á Icesave. Í marga mánuði hefur almenningur klórað sér í kollinum yfir því af hverju það liggi svona á að keyra Icesave-málið í gegn án lagalegra raka og gildra ástæða. Núna segir Steingrímur J. það sem marga grunaða: Menn í reykfylltum bakherbergjum hafa gert með sér ótiltekið samkomulag, og við það verði að standa.

Hann er einlægur, hann Steingrímur J., þegar kemur að því að lýsa því hvers vegna hann sé ekki einlægur. Ástæða: Þannig er það bara, og málið útrætt - kjósið nú með þjóðnýtingu á Icesave!


mbl.is Verður að klára Icesave af ótilgreindum ástæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú þegar lítill munur á skattlagningu

Munurinn á skattlagningu á einkahlutafélög og launþega er raunar ekki eins mikill og sumir vilja vera láta. Launþegar greiða nú í mesta lagi 35,78% tekjuskatt. (Þeir inna minna af höndum, ef þeir búa í einhverju þeirra fjögurra sveitarfélaga, sem sjálfstæðismenn stjórna og innheimta lægra útsvar, til dæmis á Seltjarnarnesi.) Berum þetta saman við skattgreiðslur eiganda einkahlutafélags. Fyrirtæki hans greiðir fyrst 18% í tekjuskatt af hagnaði. Síðan greiðir það eigandanum út í arð þau 82%, sem þá eru eftir. Af arðinum þarf maðurinn að greiða 10% fjármagnstekjuskatt eða 8,2% af upphaflegum hagnaði. 18% og 8,2% eru samtals 26,2%. Þetta er hið raunverulega skatthlutfall, sem bera má saman við 35,78% skatthlutfall af launum (sem launþegar greiða þó ekki, fyrr en komið er yfir skattleysismörk).

Sjá meira hér. Tölur miðast við skatta áður en vinstrimenn tóku við stjórnartaumunum og skrúfuðu allar prósentur í botn, auk þess sem nýir skattar hafa litið dagsins ljós, og einföld skatthlutföll urðu að flóknum þrepaskiptingum.


mbl.is Hluti arðgreiðslna skattlagður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Því miður, gegnsæi er ekki í boði

Ragnheiður E. Árnadóttir spyr augljósrar spurningar: Á ekki að gefa Alþingismönnum kost á að sjá bakgrunn þeirra laga sem nú er verið að biðja þá um að samþykkja?

Ef fundargerðir eru til (og ég efast svolítið um það), á þá ekki að sýna Alþingismönnum þær? Ef ekki á Alþingi þá a.m.k. í þeirri nefnd Alþingis sem hefur lagafrumvarpið til meðhöndlunar.

Þessu hefði Alþingi átt að óska eftir fyrir löngu, en sennilega hefur enginn haft ímyndunarafl til að telja að slíkar fundargerðir séu til og talið víst að allt hafi verið samþykkt á óformlegum fundum í bakherbergjum erlendra ráðuneyta. Sem er nokkurn veginn það sem ég tel.

"Gegnsæinu" marglofaða hefur fyrir löngu verið sópað ofan í skúffu. Fjölmiðlamenn segja ekkert við því. Ísland þarf stjórnarskipti áður en viðreisn þess getur hafist. 


mbl.is Spyr um Icesave-fundargerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Les Össur skoðanakannanir?

Þegar Össur Skarphéðinsson tjáir sig, þá er ágæt þumalputtaregla að gera ráð fyrir að hið andstæða við orð hans sé hið rétta hverju sinni. Í fréttinni segir að Össur segi:

Sjálfstæðisflokkurinn væri farinn að skynja, að hann hefði engan stuðning úti í samfélaginu til að halda brýnustu fjárlagamálum ríkisstjórnarinnar í gíslingu. 

 Nú er það þannig að minnihluti þjóðarinnar er tilbúinn að drekkja sér í skuldum vegna starfsemi Landsbanka Íslands erlendis. Skiljanlega, því það er engin lagaleg ástæða fyrir Íslendinga til að taka á sig þessar skuldir, og eina ástæðan fyrir því að fyrir því er barist er sú að mýkja stórríki Evrópu í innlimunarviðræðum ríkisstjórnarinnar við ESB.

Nú hef ég í sjálfu sér ekkert gott um "málþóf" að segja, en vísa engu að síður til orða núverandi þingmanns meirihlutans (frá febrúar 2006, þegar sami maður sat í minnihluta):

 Málþóf á að heyra sögunni til segir Morgunblaðið. Á Alþingi er almennt ekki stundað málþóf. Frá því eru þó undantekningar. Þegar fjölmiðlar og almenningur kveikja ekki á mikilvægi máls – eins og gerðist í þessu máli í flestum fjölmiðlum, þar á meðal Morgunblaðinu – þá setja þingmenn niður gaddana, hægja á umræðunni til þess að reyna að ná talsambandi við þjóðina. Þetta er gott og lýðræðinu mikilvægt. Við frábiðjum okkur allt tal um skrípaleik í því sambandi.

 Baráttan gegn þjóðnýtingu Icesave-skuldbindinganna er rétt að komast á flug. Er minnihlutinn á Alþingi að gefa þessari baráttu örlítið lengri tíma til að ná eyrum þjóðarinnar? Þá vona ég að "málþófið" endist sem lengst.


mbl.is Þinginu haldið í gíslingu málþófs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland skógi vaxið á ný?

Ísland, og raunar Evrópa öll, var í blóma þegar loftslag var öllu hlýrra um það leyti sem landnámsmenn settust hér að og lýstu landinu sem "skógi vaxið milli fjalls og fjöru". Hver ætlar að slá hendinni á móti slíkri framtíðarsýn?

Annars er ég orðinn frekar þreyttur á því að sjá veðurfræðinga mistakast að spá fyrir um veðrið 4 daga fram í tímann, á meðan loftslagsfræðingar þykjast geta spáð fyrir um það 50 ár fram í tímann. Ef það rignir þá fer ég í regnkápu og set á mig stígvél. Ef hitastigið er að hækka, um 0,1 gráðu á ári eða minna, og mér finnst það óþægilegt, þá flyt ég norðar. Ef sjávarmál er að hækka um einhverja millimetra á áratug þá reisi ég flóðgarð að hætti Hollendinga. Allt þetta er mögulegt ef einhver valdasjúkur stjórnmálamaður skattleggur ekki öll efnisleg gæði mín af mér, í nafni þess að verja mig gegn breytingum á loftslagi og umhverfi.

Annars má til gamans geta þess að ef ESB u.þ.b. helmingar útgjöld sín (sem svarar nokkurn veginn til þess að landbúnaðarstyrkir eru lagðir niður innan sambandsins), þá "losnar" um þessa 65 milljarða evra sem ESB sjálft segir að allur kostnaður við framtíðar loftslagsbreytingar ("hlýnun") muni kosta. Nú fyrir utan að þessir landbúnaðarstyrkir eru út af fyrir sig kæfandi fyrir verðmætasköpun innan sambandsins og meðal allra sem selja Evrópubúum landbúnaðarvörur.


mbl.is Gætum grætt á hlýnun jarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi taki málið af dagskrá

Það er erfitt að verjast þeirri hugsun að ríkisstjórnin VILJI borga Icesave-skuldirnar, sama hvað hver segir - að það sé hreinlega einlæg ósk hennar að fá þessar skuldir dregnar til Íslands.

Ekki eru réttarfarsleg rök fyrir því að íslenskir skattgreiðendur borgi. Fyrir því hafa verið færð sterk rök, meðal annars með því að vísa til lagasetningar ESB um tryggingar innistæða. Sjá einnig hér hvað ESB er að gera núna, einmitt til að reyna koma skuldbindingum vegna innistæða á skattgreiðendur ESB (eitthvað sem er ekki hægt í dag, skv. gildandi tilskipun ESB, nema pólitísk ákvörðun sé tekin um það).

Ekki er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) að gera Icesave-skuldirnar að sérstöku skilyrði fyrir lánveitingu til Íslands. Það hefur sjálfur forseti sjóðsins sagt

Hvað stendur þá eftir? Það er einlægur pólitískum vilji ríkisstjórnarinnar til að taka pólitíska ákvörðun um að draga Icesave-skuldirnar til Íslands, og beita til þess framkvæmdavaldinu af fullum þunga til að keyra yfir alla umræðu á Alþingi. 

Stuðningsmenn stjórnarinnar skilja ekkert í því að stjórnarandstaðan vilji lyfta hverjum steini til að koma í veg fyrir að 1000 milljarða skuld sé flutt til Íslands án nokkurra lagastoða eða krafna frá AGS. Þeir um það. Við hin vonum að sú tilraun til að þóknast risunum í ESB mistakist illa.

Það besta í stöðunni er að taka málið hreinlega af dagskrá Alþingis, og ef Bretar og Hollendingar telja sig eiga rétt á fé úr vösum íslenskra skattgreiðenda, þá sýni þeir það í verki með því að kæra íslensk stjórnvöld, og við það þurfa Íslendingar ekki að vera hræddir. En ef engin kæra berst, þá er málið hreinlega úr sögunni.


mbl.is Vilja Icesave aftur í nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flækjustigið aukið

Vinstrimenn vinna nú hörðum höndum að því að skrúfa upp skattprósentur, fjölga sköttum, hunsa hóflegar niðurskurðartillögur og síðast en ekki síst - auka flækjustig skattkerfisins til mikilla muna.

Nú vissu svo sem allir að skattahækkanir væru á leiðinni. Þannig er það alltaf þegar vinstrimenn eru við stjórnvölinn, hvort sem það er í góðæri í borgarstjórn Reykjavíkur eða kreppu á Alþingi Íslendinga. Engin ástæða til að láta það koma sér á óvart. Það er hitt sem er verra, að það sé verið að auka flækjustigið svona rosalega. Vinstrimenn geta ekki hugsað almennt - allt þarf að vera sértækt og tekjutengt. Þetta veldur almenningi miklum hausverk, jaðarskattar raða sér á tekjur, eignir og fjárfestingar allra, og ríkið þarf að ráða tugi þjónustufulltrúa til að hjálpa til við að greiða úr flækjunni. Nokkuð sem eykur kostnað við skattheimtu til mikilla muna.

Úr því vinstrimenn vilja hækka fjármagnstekjuskatt (og þar með húsaleigu, svo fátt eitt sé nefnt), af hverju þá ekki að hækka hann í 16,5% á alla línuna? Það mundi sennilega koma í veg fyrir að eitthvað af fjármagni landsins flýði land, er einfaldara í innheimtu, veldur ekki jaðaráhrifum, einfaldar bókhald fólks sem í dag er á mörkum hins nýja skattþreps og er að hugleiða að taka út sparnað sinn, og er almennt, í stað þess að miðast við einhverja handahófskennda krónutölu. 

Það mun taka langan tíma að greiða úr þessari flækju þegar stjórnarskipti eiga sér næst stað, í seinasta lagi við næstu kosningar. 


mbl.is Þriggja þrepa skattkerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama kominn á hnén

Obama ferðast nú frá landi til lands til að sannfæra ráðamenn þar um að halda áfram að fjármagna hallarekstur bandaríska ríkisins. Obama tók við kreppu og óábyrgri peningamálastefnu, og er nú í óða önn að búa til ennþá stærri kreppu drifna áfram af enn óábyrgari fjármálastjórn. Svona svolítið eins og ríkisstjórn Íslands.

Kínverjar eiga nóg af pening (enda spara þeir og framleiða) sem Bandaríkjamenn þurfa að fá að láni (til að fjármagna áframhaldandi neyslu og hallarekstur). Enn sem komið er hafa Kínverjar látið eftir Bandaríkjamönnum og keypt skuldir í gríð og erg, og nú er svo komið að allar hirslur Kínverja eru fullar af skuldum Bandaríkjamanna sem ekkert fæst fyrir. 

Þetta ástand mun ekki vara að eilífu. Fyrr eða síðar rennur það að fullu upp fyrir Kínverjum að Bandaríkjamenn munu aldrei greiða skuldir sínar, og allir Bandaríkjadollararnir sem þeir telja sig eiga inni eru verðlausir. 

Hverjum ætlar Obama þá að kenna um? Davíð Oddssyni?


mbl.is Obama kominn til Peking
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Magma draga í land?

Mun það koma einhverjum á óvart ef Magma Energy dregur í land og hættir við alla starfsemi/fjárfestingu á Íslandi?

  • Ríflegt auðlindagjald verður lagt á fyrirtækið.
  • Verið er að hækka skatta á fyrirtæki á Íslandi - hækkað tryggingagjald og auðlindagjald nú þegar í deiglunni, og væntanlega hækkandi skattar á fjármagnstekjur og hagnað fyrirtækja seinna meir.
  • Gjaldeyrishöft plaga íslenskt atvinnulíf, og krónunni ekki leyft að aðlagast eftir hrunið.
  • Íslenskir ráðherrar og þingmenn tala um erlenda fjárfesta eins og ræningja og þjófa.
  • Umhverfisráðherra leggur stein í götu allra framkvæmda og beitir fyrir sér umhverfisvernd og sterku framkvæmdavaldi íslenskra ráðherra.

 Landflótti ef hafinn á Íslandi og skatta á að skrúfa upp á þá sem eftir eru sem skapa verðmætin sem ríkið veitir niður í skuldahít og rekstur hins opinbera. Að Magma Energy nenni ennþá að ræða við yfirvöld kemur mér mjög á óvart. Að Magma dragi í land og hætti við allar fjárfestingar á Íslandi mun ekki koma mér á óvart.


mbl.is „Erum ekki að stela auðlindum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundurinn eltir eigið skott

Danska velferðarkerfið á undir högg að sækja. Í áratugi hefur það verið galopin peningakista fyrir þá sem geta ekki unnið, vilja ekki vinna, nenna ekki að vinna eða fá enga vinnu. Verðlaunað er það að hafa ekki vinnu, og svo ríflega refsað fyrir að sjá ríkinu fyrir skatttekjum.

Einn angi af þessu er staða innflytjendamála í Danmörku. Hér eru heilu hverfin, full af nánast atvinnulausi fólki sem kennir Dönum um ófarirnar í lífi sínu. Heilu kynslóðirnar hafa alist upp á ríkisspenanum, og getið af sér kynslóðir eirðaleysis og félagslegs óróa.

Rétt lausn er auðvitað bara sú að loka á spenann, eða gera aðgengi að honum mun erfiðara. Röng lausn er að auka enn flækjustigið með því að múta fólki fyrir að yfirgefa heimili sín í Danmörku og snúa aftur til lands sem í mörgum tilvikum er ekki sama landið og viðkomandi einstaklingar komu frá (meint þannig að margt er búið að breytast í eitthvað óþekkjanlegt).

Íslenska stefnan hefur verið sú að vinnufært fólki vinni, og öðrum sé hjálpað, en eingöngu á mjög hófsaman hátt. Pólverjar koma til Íslands, vinna, og fara. Þeir sem vilja vera eftir gera það á eigin frumkvæði, og á meðan þeir hafa tekjur. Sumir læra tungumálið, bæta við sig reynslu og þekkingu, og fara hvergi. Og allt í lagi með það. Af mörgum mismunandi kerfum sem eru í gangi víðsvegar um Evrópu, þá er þetta sennilega eitt það skásta. 

Danska leiðin er örvæntingarfullt útspil til að bæði halda í kökuna (velferðarkerfið) og borða hana. Bless hafsjór af fé skattgreiðenda til að losna við nokkrar sálir sem urðu háðar hafsjó af fé skattgreiðenda.  Hundurinn eltir eigið skott. Það gerir danska velferðarkerfið líka.


mbl.is Danir bjóða innflytjendum fé fyrir að snúa heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband