Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Grænu skattarnir þínir eru blekking

Þeim fjölgar í sífellu, grænu sköttunum, þ.e. skattar sem eiga að breyta veðrinu. Þú sérð það á eldsneytisverðinu, bílverðinu, á orkureikningnum, og í raun í verðlagi á öllu því grænu skattarnir leggjast á allt, frá matvælaframleiðslu til flugmiða. 

Kannski sérðu það ekki beint, en það er svolítil hugaræfingin fólgin í því: Þótt eitthvað hafi ekki hækkað í verði þá hefur það heldur ekki lækkað í verði, og gæti mögulega hafa gert það. Þetta snýst um að sjá hið ósýnilega eins og Bastiat orðaði það. Þú sérð að hið opinbera er að reisa styttu en sérð ekki töpuð tækifæri skattgreiðenda sem voru látnir fjármagna þá sýningu, svo dæmi sé tekið.

En núna er loksins búið að búa til svo gott móteitur við þessum trúarbrögðum að jútjúb hefur ekki einu sinni fundið ástæðu til að þurrka það út: Heimildamyndin Climate: The Movie (tengill á Rumble-síðuna ef jútjúb finnur afsökun til að fjarlægja efnið). 

Sem beita birti ég hér tvær stillimyndir úr myndinni.

climatemovie1

climatemovie2

Þarna eru þessi trúarbrögð nútímans tekin vel í sundur og að því marki að víkkípídía sér ástæðu til að kasta skít á myndina (gott merki um að þar sé eitthvað gott á ferð sem ruggar bátnum).

Ég ætlaði nú ekki að horfa á alla þessa mynd (tel mig þekkja efnið ágætlega) en þegar ég byrjaði þá gat ég ekki hægt. 

Þegar einhver kallar núna á eftir því að þú tæmir veskið, leggir bílnum og hættir að ferðast til að bjarga loftslaginu þá getur þú kannski ekki mikið að því gert (skattar eru skattar, og valkosturinn er fangelsi), en þú veist þá a.m.k. að hérna er á ferðinni enn eitt svindlið sem fer á lista með veirutímum, vopnakaupum og vönun barna, sem er allt saman viðbjóður og mætti kalla vöffin þrjú (VVV).


Langt í land að gera upp veirutíma

Þið munið vonandi ennþá eftir veirutímum. Þar sem engin lækning var til. Engin eldri lyf sem dugðu. Lýsi meira að segja sett á bannlistann. Læknum bannað að birta rannsóknir sínar. Ritskoðun og annað gott.

Það á ennþá eftir að gera þessa tíma upp. Margar bækur finnast vissulega en hver les bækur í dag? Við erum að bíða eftir því að gráir embættismenn segi fullum fetum að þeir hafi verið nothæfar strengjabrúður á meðan lyfjafyrirtækin rökuðu inn seðlum fyrir að selja okkur eitur. Það mun aldrei gerast.

Lítið dæmi um skort á slíku uppgjöri birtist í ummælum strengjabrúðunnar í Hvíta húsinu í Bandaríkjunum. Hann sagði, við mikla kátínu áhorfenda:

„Munið þegar hann var að reyna að eiga við Covid... Hann mælti með því að sprauta smá klór í æðarn­ar,“ sagði Biden.

„Hann hitti þó ekki, klór­inn fór all­ur í hárið hans,“ gantaðist for­set­inn og upp­skar mik­inn hlát­ur viðstaddra.

En sagði Trump þetta? Hann hugsaði vissulega upphátt um ýmislegt sem hann var að heyra um. Ég sé samt ekki að hann hafi gefið út nein fyrirmæli eða leiðbeiningar til fólks um að sprauta sig með klór, en sé svo þá skal ég hlægja með Biden, að þessu sinni. Ef eitthvað var hann frekar leitandi og hikandi og leit í sífellu á læknir í sama rými. Og vildi auðvitað að fólk væri úti í sólinni. 

En Trump er Trump, fljótari að tala en hugsa. Það sem blasir við og blasti raunar allan tímann við er að margar gagnlegar meðferðir gegn veirunni voru hreinlega kæfðar. Lyfsalar neituðu að afgreiða lyfseðla, rannsóknir voru svæfðar og læknar neituðu að meðhöndla sjúklinga þar til þeir voru við dauðans dyr, og þá bara með rándýrum og banvænum lyfjum og auðvitað öndunarvélum.

Er þetta gleymt og grafið?

Það væri skelfing.

Þessi veira var búin til á rannsóknarstofu. Hún var auðlæknanleg með ódýrum og aðgengilegum lyfjum. Samt leiddi hún til tveggja ára tímabils eyðileggingar á venjulegu fólki (á meðan aðrir græddu á tá og fingri).

Ég tek ekki þátt í þessari gleymsku og hef undanverið verið að gleypa í mig bækur um veirutímana og hvernig allt var þar gert rangt, jafnvel viljandi.

Mikið hefði nú verið gott ef fólk hefði fylgt leiðbeiningum Trump og farið út í sólina frekar en loka sig inni í myrkrinu, af mörgum ástæðum. En það er eins og það er, ef Trump segir að himininn sé blár þá er hann í raun grænn. Upplýstari er umræðan ekki.


mbl.is Trump hafður að háði í ræðu Bidens
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Treystu fagmönnum, þegar þeir sinna fagi sínu

Í dag birtist eftir mig grein á vefritinu KrossgötumTreystu mér, ég er læknir.

Mér finnst ástæða til að bæta aðeins við hugleiðinguna sem þar kemur fram.

Fáar stéttir njóta jafnmikillar aðdáunar og trausts og læknar, og ég myndi segja að það sé yfirleitt verðskuldað. Þetta traust hafa læknar jafnan borið af mikilli hógværð með því að lækna og líta á það sem vinnuna sína, eins og pípari sem setur saman rör og gerir það vel, en núna er öldin önnur. Á veirutímum skiptu læknar sér í fylkingar og sú sem var í náðinni hjá yfirvöldum tók að sér að reyna þagga niður í hinni. Læknar slógust í lið með þeim sem vildu ritskoða, þagga niður í fólki og banna læknum í hinu liðinu að lækna, eða reyna það.

Margir læknar afhjúpuðu sig sem mikilmennskubrjálæðinga en flestir sem þöglar raggeitur. 

En læknar láta eins og ekkert hafi í skorist. Þeir kvarta núna undan upplýsingaóreiðu og því að fólk sé að spyrjast aðeins of mikið út í sprautur af ýmsu tagi og jafnvel efast um notagildi þeirra. En þeir telja sig ennþá vera á háum stalli. Svo háum að þeir geti stofnað félög um loftslagsmál og haldið fundaraðir um upplýsingaóreiðu án þess að slíkt sé hreinlega skoplegt. 

Ég vinn með mörgum mjög færum einstaklingum. Sumir geta reiknað upp á aukastaf burðarþol í flóknu stálvirki sem þarf að verja menn og búnað frá sterkum öflum hafsins. Sumir hanna brýr sem þurfa að standast fulla rússneska skipstjóra sem sigla á þær. Þeir hafa sýnt fram á mikla færni og getu. En ætla ég að taka meira mark á þeim en öðrum ef þeir stofna klúbba burðarþolsverkfræðinga með áhyggjur af loftslaginu? Viljum við eyða miklu púðri í félag múrara með áhyggjur af arnarstofninum? Auðvitað ekki.

Ég er ekki að segja að við þurfum að treysta sérfræðingunum, heldur að við eigum ekki að láta dáleiða okkur með titlum þar sem fagstétt í einu fagi þykist geta misnotað traust okkar til að láta taka mark á henni í öðru fagi.

Allskyns félagsskapur lækna, múrara, pípara og burðarþolsverkfræðinga er góður og gildur. En kannski treysti ég píparanum betur fyrir rörunum en loftslaginu. Og sjálfum mér betur en læknum með áhyggjur af loftslaginu.


Van­bú­in vís­indi og rassskelltir blaðamenn

Ég las með bros á vör leiðara í Morgunblaðinu í dag sem var hvort í senn beittur og jarðbundinn. Hann fjallaði um loftslagsvísindin. Ég ætla ekki að endurbirta þennan leiðara því hann er jafnvel í sjálfu sér ástæða til að borga Morgunblaðinu fyrir aðgang að blaði dagsins en tek nokkrar tilvitnanir.

Það snún­asta við lofts­lags­vís­ind­in er að það vant­ar dá­lítið upp á að þau séu vís­indi. For­senda trú­ar­setn­inga er að kenn­ing­in haldi þótt á móti öll­um lík­ind­um sé.

Vest­ræn­ar rík­is­stjórn­ir telja óvar­legt að hugsa sjón­ar­mið sín upp­hátt. Þær hafa, til að tryggja vinnufrið, skrifað und­ir að grípa skuli til björg­un­araðgerða fyr­ir til­tek­in tíma­mörk.

Vand­inn við þá stefnu er að klukk­an geng­ur. Bret­ar fluttu sín lof­orð aft­ur til árs­ins 2030 og all­ir vita að þegar þau tíma­mörk nálg­ast verða þau flutt aft­ur um 10 ár til viðbót­ar. Því reynsl­an sýn­ir að fimm ár líða of hratt þegar ekk­ert ger­ist.

Svo satt! 

En að auki, sem miklu skipt­ir, að ein­göngu við, dek­ur­börn­in í vest­ræn­um heimi, tök­um þátt í lofts­lags­dans­in­um, á meðan 90% heims­byggðar­inn­ar láta sér fátt um finn­ast. Það dæmi geng­ur ekki upp frek­ar en önn­ur í þessu máli. En það telja lofts­lagspáf­ar hreint auka­atriði.

Svo satt!

Vestrænir blaðamenn geta ekki lengur ferðast til útlanda til að skamma fólk þar fyrir að eyðileggja loftslagið. Þeir eru núna rassskelltir og sendir heim með rauðan bossa eins og myndbandið hér að neðan sýnir.

Það er bara spurning um tíma þar til það verður búið að vinda ofan af þessari vitleysu. Þetta eru menn byrjaðir að sjá, meira að segja blaðamenn innan sumra af þessum hefðbundnu fjölmiðlum. Mikið var!


Mínus einn frambjóðandi

Katrín Jakobsdóttur, atvinnuleysingi sem sækist eftir kjöri í embætti forseta Íslands, mætti í viðtal um daginn. Tel ég óhætt að segja að hún hafi með hreinskilni sinni um skoðanir sínar drepið það framboð. Atvinnuleysið mun því halda áfram, nema hún skammti sér biðlaun eða annað gott sem kerfið býður sumum upp á en ekki öðrum.

Fækkar þar með um einn í þeirri kosningabaráttu. Nema auðvitað að Katrínu takist að forðast viðtöl án þess að nokkur taki eftir.

Það blasir við að fjölmiðlar telji að skoðanakannanir núna gefi vísbendingu um líklega sigurvegara. Þeir hafa því þrengt mjög umfjöllun sína um frambjóðendur sem þeir fjalla um. Þetta er kannski skiljanlegt því blaðamenn þurfa að forgangsraða tíma sínum, en það má ekki gleymast að framboðsfrestur er ekki runninn út og að kannanir eru enn á fleygiferð.

Áður fyrr hafði ég litlar skoðanir á forsetakosningum á Íslandi. Ég hafði talið að þær hafi snúist um það hvort áherslan ætti að vera á skógrækt eða íþróttastarf barna - allt eitthvað svo ljómandi gott að enginn gæti haft neikvæða skoðun á því.

Nú er öldin önnur. Núna vantar í þetta embætti einstakling með sjálfstraust, greind, væntumþykju fyrir sjálfstæði Íslands og getu til að slá á puttana á þingi sem er á furðulegri vegferð. Einhvern eins og Ólaf Ragnar Grímsson, satt að segja, en helst betri í öllu sem hann var góður í.

Og þar er bara einn frambjóðandi líklegur til að fylla í þá stóru skó: Arnar Þór Jónsson.

Tel ég jafnvel betra að sleppa því að kjósa en að kjósa ekki Arnar Þór, en nú er ég auðvitað bara kjósandi í lýðræði og fullkomlega sáttur við að hver maður ráðstafi sínu atkvæði að vild.

Til dæmis til að liðka fyrir valdatöku Evrópusambandsins á Íslandi, eða WHO, eða jafnvel NATO. 

Til dæmis til að tryggja að færibandið á Alþingi mæti engri mótstöðu.

Eða að fullveldi og sjálfstæði Ísland verði meira í orði en á borði.

Fjölmiðlamönnum er ekki hægt að segja fyrir verkum. Þeir eru með sína ritstjóra sem svara til sinna eigenda. En eins og veirutímar kenndu okkur þá eru fjölmiðlar ekki handhafar sannleikans. Það ert þú miklu frekar. Og þú færð, í bili, að kjósa.

Í bili.


mbl.is Katrín: Jóhönnustjórnin talaði máli Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar meirihlutinn ræður

Ég man vel eftir mörgum atriðum frá grunnskólaárum mínum, þar á meðal frímínútunum. Hvernig átti að eyða þeim? Í fótbolta? Körfubolta? Brennibolta? Að reyna komast upp með að fara ekki út og hætta á að verða sendur til yfirkennarans ef gangavörðurinn næði manni? 

Yfirleitt var það meirihlutinn sem réð og aðrir tóku þátt til að hafa eitthvað fyrir stafni. Þetta var samt ekki algilt. Sumir völdu að gera eitthvað annað en meirihlutinn og það var auðvitað bara allt í lagi. Það er fínt að fylgja meirihlutanum því það er gaman saman og það allt, en enginn gat þvingað mann í leikinn.

Þegar árin líða og maður fer á milli skólastiga myndast ný samsetning af fólki, nýr meirihluti, t.d. í gegnum kosningar til nemendafélaga sem ákveða hvar eigi að fara í útskriftarferð og hvenær á að halda árshátíð. Þeir sem vilja geta verið með meirihlutanum eða sleppt því og gert eitthvað upp á eigin spýtur eða minni hópum.

En svo kemur að því að maður fær að kjósa. Lýðræði er kannski hægt að skilgreina sem fyrirkomulag þar sem meirihlutinn ræður. Munurinn er samt sá að meirihlutinn ræður í raun og veru og ræður öllu sem hann vill ráða. Hann ræður yfir minnihlutanum. Sé einhverju stjórnað af hinu opinbera þá er það undir stjórn meirihlutans og möguleikinn til að velja aðra leið tekinn úr sambandi.

Flestir eru sennilega hlynntir því að það eigi bara að gilda ein lög, vera ein lögregla, einn æðsti dómstóll og þess háttar. Sama óskilvirka ringulreiðin þarf að gilda jafnt fyrir alla, ekki satt? En hvað með byggingareglugerð? Þar er greinilega eitthvað að og húsum skilað til kaupenda fullum af rakaskemmdum og myglusveppum. Af hverju er ríkisvaldið hérna að láta eitt yfir alla ganga þegar er augljóslega hægt að gera betur? Og hvað með hæfniskröfur til að fá að kalla sig sálfræðing? Hérna stuðlar ríkisvaldið að skorti og biðlistum. Nú eða regluverkið í kringum framleiðslu á malbiki. Hið opinbera hefur hér verið iðið við að taka gamlar og góðar uppskriftir, henda þeim í ruslið og innleiða aðrar og verri.

Svona mætti lengi telja. Um leið og hið opinbera treður einhverju undir sinn hatt, hvort sem það er með beinu eða óbeinu eignarhaldi, í formi löggjafar og regluverks eða kröfu um að sækja um og fá leyfi til að mega hefjast handa þá er það að segja að meirihlutinn ráði. Þeir sem eru á annarri skoðun þurfa að hlýða meirihlutanum, sama hvað.

Ég er feginn að það var ekki lýðræði á skólalóðinni. Það stuðlaði að sérhæfingu og fjölbreytni. Kannski hið opinbera leyfi dag einn slíkum jarðvegi að næra samfélagið í heild sinni.


Vel sloppið

Ofbeldisbrot gegn opinberum starfsmönnum innan lögreglunnar, ákæruvalds og dómsvalds hefur fjölgað til muna frá árinu 2013 til ársins 2023.

Hér er rétt að taka fram, eins og er grafið í frétt um þetta ástand, að hér er um að ræða til­felli um bæði of­beldi og hót­an­ir um of­beldi. Bæði högg í andlit og faðir að segja sýslumanni, sem er að gera börn hans föðurlaus, að hann ætli að drepa hann.

Miðað við það hvað hið opinbera, embættismannakerfið og báknið í heild sinni hefur eyðilagt mörg líf og drepur mörg fyrirtæki og störf þá finnst mér tölurnar ekki vera neitt hræðilegar, í kringum 250 seinustu ár. Að vísu á uppleið, eins og þjáningar regluverksins, en engin ósköp. Auðvitað er hótun um ofbeldi óþægileg en við hverju búast menn þegar hið opinbera heldur áfram að herða þumalskrúfuna á venjulegu fólki.

Það mætti fara í aðhvarfsgreiningu á blaðsíðufjölda reglugerða og fjölda ofbeldisbrota- og hótana gegn opinberum starfsmönnum.

Ef opinberir starfsmenn vilja losna við ofbeldisbrot- og hótanir þá ættu þeir að skrifa til yfirherra sinna og biðja þá um að draga aðeins úr útþenslunni, leyfa fleiri börnum að eiga föður í kjölfar skilnaðar foreldra, hætta að gera menn að öreigum, leyfa atvinnumönnum að stunda vinnu sína í friði og fækka eyðublöðunum.

Ekki er þar með sagt að ofbeldishótanir- og brot séu réttlætanleg, en sumt er skiljanlegt þótt það sé ekki réttlætanlegt. Og mér finnst báknið vera að sleppa vel með 250 tilvik á ári.


mbl.is Ofbeldi eykst gegn opinberu starfsfólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mætti biðja um hugmyndafræði í stjórnmálaumræðuna?

Stjórnmálaumræðan á Íslandi, og raunar víðar, er svo innantóm að maður hreinlega veltir því fyrir sér hvers konar fólk kjósendur eru að moka undir. Þeir sem ræða hugmyndafræði eru hreinsaðir út í prófkjörum og uppstillinganefndum. Þeir sem boða allt fyrir alla raðast efst á lista. Kjósendur hafna svo þeim örfáu sem lifðu af hreinsanir flokka sinna. Undantekningar teljast á fingrum annarrar handar.

Reyndar eru ekki allir flokkar með hugmyndafræði en það er önnur saga.

Núna les ég um að einhver þingmaður kunni ekki að para saman sokka og mæti engu að síður í vinnuna. Getur það orðið eitthvað innantómara?

Í Argentínu var nýlega kjörinn í embætti forseta sem talaði ekki um neitt annað en hugmyndafræði: Yfirlýstur frjálshyggjumaður sem sagði berum orðum að ráðuneytum þyrfti að fækka, báknið þyrfti að minnka og hagkerfið þyrfti að fara í gegnum erfiða skurðaðgerð til að ná heilsu sinni. Hann hefur staðið við orð sín og þrátt fyrir mótmæli, ákærur og hindranir tekist að halda í vinsældir sínir meðal almennings.

Eru stjórnmálamenn að fylgjast með? 

Eru þeir að sjá að kjósendur eru víða orðnir dauðþreyttir á orðagjálfrinu og vilja einstaklinga með hugmyndafræði, sterkar skoðanir og bein í nefinu, úr stáli? Bein sem þolir högg blaðamanna, þrýstihópa og prófessora?

Hér er í raun um að ræða mjög nothæfa og skilvirka aðferðafræði í kosningabaráttu sem flestir þora samt ekki að tileinka sér. Því miður. 

Ég vil sérstaklega beina orðum mínum að flokksbundnum Sjálfstæðismönnum hérna og biðja þá um að hætta að hreinsa út fólk í prófkjörum sem í raun og veru er hlynnt hugmyndafræði flokksins. 

Aðrir flokkar mættu gjarnan gera slíkt hið sama. Þá geta stjórnmál á ný farið að snúast um hugmyndafræðileg átök en ekki bara hver getur tæmt veski skattgreiðenda hraðast, og skuldsett þá í kjölfarið.


mbl.is Hver var í ósamstæðum sokkum á Alþingi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vera læknir en geta ekki læknað

Ég vorkenni læknum svolítið. Þetta er sennilega ein virtasta og dáðasta stétt sem um getur, byggð upp af fólki sem lagði á sig langt, mikið og erfitt nám til að geta læknað aðra, og læknar gera það svo sannarlega. En svo detta þeir úr námi og í raunveruleikann og hann er flókinn fyrir þá.

Þeim er treyst, sem læknum. Þetta stígur sumum læknum til höfuðs. Þeir halda að af því þeir geti lífgað við manneskju að þá geti þeir tjáð sig, með vitrænum hætti og með notkun á læknatitlum sínum, um loftslagsmál og upplýsingaóreiðu og notið sama trausts og þegar þeir meðhöndla beinbrot og hjartavandamál. 

Þeim er treyst, en telja að það traust sé byggt á því að dæla lyfjum í fólk, og sprauta það gegn öllu og engu, af því einhver opinber embættismaður, mögulega ólæs á vísindagreinar eða enskan texta þrátt fyrir menntun og reynslu, segir það. 

Ekki er lífið einfaldara fyrir lækna sem hugsa sjálfstætt og vilja í raun bara lækna sjúka. Þeim er mætt af kerfinu með endalausum beiðnum um pappírsvinnu. 

Um daginn las ég bókina um Stubb fyrir dóttur mína (ein af hennar uppáhaldsbókum). Hún fjallar um þrjá bræður og afskiptalausa móður þeirra. Dag einn fengu bræðurnir gefins epli, en eldri bræðurnir tveir borðuðu þau öll og fengu illt í magann í kjölfarið. Læknir kom þá að vitja þeirra, heima hjá þeim, og gaf þeim meðal gegn magakveisunni. Þeim batnaði og sáu seinna að sér í meðferð þeirra á minnsta bróðurnum.

Það kom mér til hugar að kannski var einu sinni tími þar sem læknar fengu að einbeita sér að því að lækna og höfðu tíma til þess og gátu jafnvel komið heim til sjúklinga sinna, sem andstæða tímans í dag þar sem þarf að bíða í 1-2 mánuði eftir því að hitta lækni, á stofunni hans, í um stundarfjórðung. Hverju veldur?


Út að keyra, skattleggja meira, háls nef og eyra

Árið 1989 birtist í áramótaskaupinu atriði sem hafði af einhverjum ástæðum djúp áhrif á mig, 11 ára snáða. Ég átti skaupið á upptöku (VHS) og hlustaði ítrekað á það til að heyra textann, vélrita og eiga. 

Með vélrita meina ég: Skrifa á ritvél. Þetta var áður en heimilið eignaðist tölvu og hvað þá prentara. 

Kannski var þetta atriðið sem gerði mig að frjálshyggjumanninum sem ég uppgötvaði mörgum árum seinna að ég væri.

Hvað um það. Þetta atriði kemur mér oft til hugar. Það er kannski við hæfi að hafa textann allan eftir:

Skattmann!
Morgunstund gefur gull í mund.
Skattleggja alla,
konur og kalla.
Út að keyra,
skattleggja meira,
háls, nef og eyra.
Berja, kýla, slá, vá!
Loka, hlekkja,
halda áfram að svekkja,
hér kemur ekkja.
Berja, kýla, slá,
farðu svo frá.
Skattleggja allt,
ríka sem snauða,
fæðingu og dauða,
ástir og unað,
allt nema munað.
Berja, kýla, slá,
mér liggur á!
Skattmann.
Lok, lok og læs,
svona er ég næs!

Þessi texti er auðvitað barn síns tíma. Fyrir utan að skattleggja ekkjur, fæðingu og dauða er núna verið að skattleggja okkur fyrir að prumpa, anda, keyra og henda rusli í ruslafötuna. Nýlega byrjuðu íslensk yfirvöld að fjármagna vopnakaup og svo þarf auðvitað að niðurgreiða geldingar á ungmennum og uppihald á mæðrum sem aðskilja feður og börn.

Kannski eitthvert skáldið geti tekið að sér að búa til nútímalegri útgáfu?

Í öðrum fréttum: Skatturinn á Íslandi hefur heimild til að féfletta fólk ef atvinnurekandi þess fer yfir einhver handahófskennd mörk í kostnaði við árshátíð, sem þó er að megninu til bara ferðakostnaður, matur, drykkur og gisting. Það vissi ég ekki.


mbl.is Starfsfólk gæti fengið reikning frá Skattinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband