Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007
Mánudagur, 30. apríl 2007
Er BANNAÐ að kenna eigin barni að lesa, skrifa og reikna?
Í hvert sinn sem einhver nefnir eitthvað um að ríkið eigi að sleppa klóm sínum af einhverju þá æða vinstrimenn fram og heimta réttlætingu frá hinum hlekkjuðu þegnum ríkisvaldsins fyrir því af hverju eigi að losa um hlekkina. Útgangspunkturinn er sjaldnast sá að eitthvað vandamál eða ástand sé til staðar sem þurfi á hlýjum faðmi yfirvalda að halda til að hljóta úrlausn. Nei, útgangspunkturinn er hinn kremjandi faðmur ríkisins, og ætli sér einhver að sleppa úr honum verði viðkomandi að færa fyrir því rök, semja skýrslur og helst grátbiðja um leyfi til fá að prófa eitthvað upp á eigin spýtur.
Þetta hugarfar er algjör ráðgáta fyrir mér. Vel meinandi vinstrimenn halda að launþegar hins opinbera séu alltaf og án undantekningar betur vaxnir í einhver hlutverk en fólk sem þiggur laun sín annars staðar frá, eða vinnur launalaust. Þetta á jafnt við um afgreiðslumenn sem afgreiða áfengi og kennara sem lesa upp úr Gísla sögu Súrssonar fyrir framan hóp af krökkum.
Er þetta virkilega hugarfar sem margir aðhyllast? Er allt verkefni ríkisvaldsins þar til óyggjandi rök hafi verið færð fyrir því að einkaaðilar eigi líka að fá að sinna einhverju? Ég held að fæstir hugsi á þessum nótum frá degi til dags, en um leið og umræðan berst að stjórnmálum sé eins og menn byrji að tala gegn eigin vitund.
Ég held að margir foreldrar geti alveg kennt börnum sínum að lesa, skrifa og reikna, rétt eins og margir eru fullfærir um að mála eigin stofu og dytta að eigin garði. Þeir sem hafa ekki tíma, þekkingu eða þolinmæði kaupa sér bara þjónustu utan frá, rétt eins og sumir kjósa að ráða málara eða garðyrkjumann. Aðkoma ríkisins að fjármögnun slíkrar þjónustu er svo sér kapítuli út af fyrir sig, og á ekki að trufla dómgreind okkar þegar kemur að því að LEYFA fólki að gera það sem ÞAÐ VILL, í stað þess að BANNA fólki með lögum og valdi að ala upp börn sín eins og því þykir best.
Mér þykir þeir vera ansi kræfir sem segja að það sé allt í lagi fyrir ríkið að ráðstafa námsefninu þannig að upp vaxi góðir og þögulir skattgreiðendur sem láti ráðskast með sig, eigur sínar og börn um alla framtíð, en það að lesa nokkur vers upp úr Biblíunni fyrir barn sitt sé argasti heilaþvottur sem eigi að ríkisvæða í burtu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 29. apríl 2007
Svona eyðir maður biðlistum
Í kosningabaráttu er oft talað um biðlista, þá oftast biðlista eftir aðgerðum og plássum á opinberar stofnanir. Fullyrt er að hundruðir, jafnvel þúsundir, einstaklinga bíði eftir þjónustu eða plássi frá ríkinu og ekkert þokist í að útrýma þeirri bið. Fullyrt er að fjárskortir þjaki hið opinbera kerfi, og tregða til að bjóða upp á meiri þjónustu eða fleiri pláss sé mikil, og sé vitaskuld núverandi stjórnvöldum um að kenna.
Nú ætla ég ekki að véfengja þá sem hæst hafa um biðlista hins opinbera. Í raun kæmi mér á óvart ef biðlistar þessir væru ekki til staðar. Um er að ræða niðurgreidda þjónustu og niðurgreidd pláss, og yfirleitt þegar kostnaði er varpað á aðra en notendur verður til eftirspurn sem er framboðinu meiri. Biðlistar í ríkisrekstrinum eru ekki annað en rökrétt afleiðing þess að niðurgreiða þjónustu eða varning á fjárframlögum sem eru takmörkuð.
Á frjálsum markaði eru biðlistar ekki vandamál. Komi í ljós að eftirspurn eftir einhverju er meiri en framboðið eru yfirleitt til einkaaðilar sem taka að sér að sinna þeirri eftirspurn. Biðlistar á frjálsum markaði eru merki um að svigrúm sé til útvíkkun á starfsemi, annaðhvort hjá þeim fyrirtækjum sem fyrir eru eða með aðkomu nýrra aðila.
Ef Íslendingar vilja útrýma biðlistum eftir aðgerðum og plássum á leikskóla og hjúkrunarheimili er lausnin því einföld: Afnema einokun ríkisins á viðkomandi rekstri, einkavæða veitendur þjónustu sem bið er eftir, lækka skatta og horfa á biðlistana hverfa einn af öðrum. Þeir sem hafa áhyggjur af fátækum og efnalitlum geta veitt styrki úr eigin vasa og beðið aðra um að gera slíkt hið sama, enda fjárhagslegt ráðrúm til þess aukið stórkostlega þegar ríkiskassinn slakar á fjárþorsta sínum, og ljóst að margir vilja veita ríkulega aðstoð við þá sem virkilega þurfa á henni að halda.
Það sem virkar ekki ef hinn eilífi eltingarleikur við launatekjur landsmanna.
Spurning dagsins: Hve oft hefur umræða um biðlista eftir heyrnatækjum komið upp síðan einkaaðilum var leyft að bjóða upp á slíkan búnað?
Samfylkingin vill tryggja börnum og öldruðum á biðlistum örugga þjónustu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 28. apríl 2007
Hvort er verra: Kani eða kúgun?
Mikið er ánægjulegt að sjá fréttaflutning frá ástandinu í Írak. Hann var ekki til staðar í tíð Saddam Hussein, en síðan Saddam var komið frá hefur Írak verið eitt vinsælasta fyrirsagnarefni vestrænna fjölmiðla. Ástæðan er auðvitað sú að fréttamenn fá að starfa í Írak og segja frá ástandinu þar, ólíkt því sem áður var (og ólíkt því sem gildir um Kúbu, Norður-Kóreu og fleiri lönd).
Á valdatíma Saddam var miklum fjölda manns haldið af ástæðulausu gæsluvarðhaldi (í okkar skilningi), margir voru pyntaðir og aðrir voru hreinlega myrtir. Tíðindi af þessu bárust ekki vestrænum fjölmiðlum, og ef þau gerðu það þá töldust þau ekki fréttnæm, enda telja margir sjálfgefið að einræðisherrar myrði og pynti þegna sína, og nenna ekki að lesa um það því lítið er hægt að gera í því.
Nú eru aðrir tímar. Bókstafstrúarmenn af sitthvorri bylgjulengd íslamstrúar myrða nú hvern annan í tugatali. Sumir segjast vera berjast gegn "yfirráðum Bandaríkjamanna" (sem þó eru ekki stjórnsamari en það að yfirvöld þar í landi hafa óskað eftir, og fá líklega framgengt, brottflutningi bandarískra hermanna af íraskri jörð). Aðrir vilja einfaldlega að fylgismenn sinnar túlkunar á Kóraninum fái yfirráð yfir öllu því svæði sem kallast Írak í dag. Enn aðrir eru styrktir af Íran og Palestínu (sem veður í aðsendu fé frá samúðarfullum Vesturlandabúum) til að sprengja hvað sem er, vitandi vits að tíðindi af morðum á óbreyttum borgurum rata í vestræna fjölmiðla, og verði til þess að andúð á Bandaríkjamönnum vex.
Ég hef fátt gott að segja um innrás Kanans inn í Írak, og alls enga samúð með því að menn reyni að "byggja upp" þjóð, hvort sem það er í nafni olíuvinnslu eða þróunaraðstoðar. Mér finnst hins vegar ánægjulegt að sjá að frá Írak í fjarveru einræðisherra séu að berast fréttir af gangi mála þar í landi, ólíkt því sem áður var. Gallinn er sá að neikvæðar fréttir selja betur en jákvæðar, og valda þar með einhliða fréttaflutningi. Kenni ég sjálfum mér sem neytanda og fréttalesanda um það, því jákvæðar fréttir ná sjaldnar athygli minni en neikvæðar.
55 látnir og 70 særðir eftir sprengjuárás í Karbala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 25. apríl 2007
Hvernig á að særa tilfinningar umhverfiskomma?
Ármann Jakobsson, vinstri-grænn og Múrverji, skrifar lítinn pistil á Múrinn.is þar sem tónninn er sá að öll gagnrýni á Vinstri-græna, hugmyndafræði þeirra og fortíðarafrek skoðanasystkyna þeirra er sögð röng og eigi við fátækleg og jafnvel ósmekkleg rök að styðjast. Slík gagnrýni sé í raun ekkert annað en rökleysa og útúrsnúningur, eða það eru í það minnsta þau skilaboð sem ég les út úr skrifum Ármanns.
Vinstri-grænir hafa lengi haldið því fram að þeir séu "sjálfum sér samkvæmir" og sveiflist ekki með vindátt skoðanakannana eins og t.d. Samfylking og Framsókn. Vitaskuld er þetta ekki rétt (frekar en um nokkurn annan stjórnmálaflokk sem þarf að taka afstöðu til alls milli himins og jarðar, og vega upp á móti væntigildi atkvæða í næstu kosningum auk eigin sannfæringar, sé hún til staðar). Vefþjóðviljinn hefur verið duglegur við að benda á ótal mörg atriði sem skjóta meinta staðfestu Vinstri-grænna á bólakaf og virðist hafa úr nóg að moða (dæmi, dæmi, dæmi), en Ármann ákveður að snúa þeim á haus, stytta niður í 5-10 orða útúrsnúning, og vísa frá. Skotárás á stjórnmálastefnuna "ég kýs ætíð á móti útvíkkun einkaframtaksins" (sem Vinstri-grænir eru forsvarsmenn fyrir í dag) kemur einnig úr annarri átt - frá Guðmundi Magnússyni, sem hefur verið duglegur við það seinustu daga að rifja upp andspyrnu meðal annars hins núlifandi og alltaf sitjandi þingmanns, Steingríms J. Sigfússonar, gegn auknu svigrúmi fyrir einkaframtakið.
Þorir Ármann ekki að taka efnislega á gagnrýni á Vinstri-græna, fyrirrennara Vinstri-grænna á ysta vinstrikanti stjórnmálanna og Steingrím J. - þingmanns bæði fyrr og nú? Ég er ekki að segja að Ármann eigi að svara fyrir öll afrek vinstrimanna fyrr og nú. Alls ekki. Hann mundi hins vegar gera sjálfum sér (og raunar mér líka) stóran greiða með því að hjálpa fólki að skilja á milli "ég kýs ætíð á móti útvíkkun einkaframtaksins"-stefnu nútímans, og þeirrar sem Guðmundur Magnússon hefur fjallað um í mörgum færslum. Ármann væri einnig nær sálarró með því að viðurkenna stökkbreytingu vinstrimennskunnar þegar Járntjaldið féll og jafnréttis- og umhverfismál urðu að hinum nýju tækjum til að þjarma að hinum frjálsa markaði, samhliða því sem öllum tilraunum til að auka svigrúm einkaframtaksins er hafnað á löggjafarsamkundu Íslendinga.
Svara efnislega, útskýra muninn á vinstrinu þá og nú, eða bara þegja. Múrs-grein Ármanns gerir honum engan greiða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 24. apríl 2007
Sáttin er einföld: Seljum hálendið!
Mikið er ánægjulegt að sjá stjórnmálamenn leita sátta. Gallinn er sá að þeir leita þeirra yfirleitt meðal annarra stjórnmálamanna.
" Á opnum fundi sem Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, héldu í dag voru kynntar hugmyndir Framsóknaflokksins um sátt og nýtingu auðlinda landsins."
Í hverju er þessi sátt fólgin? Að sætta vinstrimennina? Að sætta landsbyggðarpólitíkusa og kaffihúsaspekinga í Reykjavík? Ekki er verið að sættast við íbúa á svæði þar sem sumir vilja gjarnan sjá á eftir eyðilegum fossi og fá í staðinn stöndugan en orkufrekan rekstur. Ekki er verið að sættast við þá sem vilja hafa foss í útsýninu og búa í staðinn við fábreytta atvinnukosti (með hugsanlegri aukabúgrein í því að fylgja ferðamönnum að fossinum). Enginn er að sættast hérna, nema stjórnmálamennirnir á Austurvelli, og varla það.
Engin sátt er til sem sameinar hagsmuni og verðmat allra íbúa allra landareigna á öllu Íslandi. Svoleiðis sátt er einfaldlega ekki til. Sáttin sem dugir er sú að selja land ríkisins til einkaaðila og leyfa þeim sjálfum að verðleggja ósnerta náttúru umfram t.d. virkjun eða lagningu göngustíga. Ég sé hreinlega ekki hvaða máli það skiptir hvað einhverjum þingmanni í Reykjavík finnst um að ég virki foss minn eða láti það eiga sig. Ekki frekar en að þingmaðurinn hafi skoðun á því hvaða húsfélagið mitt ákveður að velja sem lit á veggi stigagangs míns, eða ég sem íbúðareigandi ákveð að gera við mína húseign að innanverðu.
"Sátt" Framsóknarmanna er jafnléleg og ósátt stjórnarandstöðunnar við aðgerðir stjórnvalda, og ósátt stjórnvalda við ósætti stjórnarandstöðunnar. Lífið er miklu einfaldara og sáttara þegar þingmenn, og aðrir sem hafa engra persónulegra hagsmuna að gæta, eru ekki með í ákvarðanferlinu.
Framsóknarflokkurinn kynnir sáttatillagu í virknanamálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 23. apríl 2007
Einhver spurning um annað?
"Í skýrslunni segir, að stór fyrirtæki og einhver sveitarfélög hafi í vaxandi mæli komið fasteignum sínum í hendur einkarekinna fasteignafélaga. Reynsla þeirra hafi sýnt, að bygginga- og rekstrarkostnaður minnkar. Þannig hafi byggingarkostnaður nokkurra skóla, sem eignarhaldsfélagið Fasteign hf. hafi byggt og rekið fyrir sveitarfélög, verið fjórðungi lægri en kostnaður vegna sambærilegra skóla hjá opinberum aðilum."
Þetta er alveg borðleggjandi mál. Ef ríkið getur létt á ríkissjóði (og þar með pyngju okkar allra) svo nemur milljörðum með því einu að selja húseignir og leigja, þá er bara að drífa í því! Einkafyrirtæki geta einbeitt sér betur að því sérhæfða hlutverki að sjá um og reka húseign og ríkið getur þá einbeitt sér að því að skipuleggja þá þjónustu sem það vill veita innan veggja húseignanna.
Menn munu auðvitað hrópa og góla yfir hugmynd sem þessari og ímynda sér að fjáraustur svo nemur milljörðum á ári sé réttlætanlegt í nafni ríkis- og sameignarinnar sjálfrar. Þessir aðilar gleyma því að króna sem fer í viðhald og yfirbyggingu fer ekki í rekstur og launagreiðslur til opinberra starfsmanna (leikskólakennara, lækna, hjúkrunarfræðinga o.s.fr.v.). Hví ekki að auka svigrúm til launahækkana þessara hópa með því að flytja viðhald og rekstur á steypukössum til sérhæfðra einkaaðila? Er sameignarhugsjónin mikilvægari en allt annað, þar með talin góð þjónusta og eftirsótt launakjör hjá hinu opinbera?
Segir hagkvæmt fyrir opinbera aðila að selja fasteignir sínar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 23. apríl 2007
Sitthvað um auðsköpun og umhverfisvernd
Ekki skortir vestræna umræðu vondar fréttir um ástand umhverfisins. Óteljandi samtök og stjórnmálamenn reyna daglega að sannfæra okkur um að umhverfið og lofthjúpur jarðar sé að þola mikla misnotkun af hálfu mannsins. Meðölin til að lækna meinin vantar ekki ríkisvaldið á að storma inn í fullum skrúða, skattleggja, setja reglur og skipa fyrir. Sem betur fer er þó til jákvæð hlið á allri umræðu um umhverfismál og hún snýst hvorki um takmörkun frelsis né skerðingu á efnahagslegri velmegun mannkyns.
Ekki er allt sem sýnist
Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar sem á einn eða annan hátt reyna að setja umhverfismál í stærra samhengi en við erum vön. Bent hefur verið á að því ríkari sem íbúar lands eru, því betur er farið með umhverfið. Umbætur og aukin framleiðni í landbúnaði hefur valdið því að skóglendi, t.d. í Bandaríkjunum, hefur víða verið að breiðast út. Skógar drekka í sig koltvísýring og breyta í súrefni sem ætti að vera fagnaðarefni fyrir þá sem hafa áhyggjur af bruna jarðefnaeldsneyta. Góð lífskjör í ríkum löndum gera fólki kleift að brenna dýrari og hreinni orkugjöfum en þeim sem íbúar fátækra landa hafa kost á. Skítug kol og óhagkvæmur trjáviður víkur fyrir hreinna náttúrugasi og betur unninni olíu. Fjármunir ríkra íbúa heims gera þeim kleift að fjárfesta í nýtnari vélum sem skila sömu afköstum og eldri vélar fyrir færri dropa af dýrmætri olíu.
Á heildina litið hafa ótal rannsóknir sýnt að þegar íbúar landa komast yfir ákveðinn fátæktarþröskuld er ástand umhverfisins fljótt að batna. Núna bendir meira að segja margt til að innan fárra ára muni íbúar ríkustu landanna byrja að blása minna af koltvísýring frá sér en þeir taka upp (t.d. í gegnum skóglendi sitt og graslendur) þrátt fyrir vaxandi hagkerfi og fjölgun íbúa þróun sem er búin að taka alla 20. öldina og nær langt aftur fyrir baráttu nútímalegra umhverfissamtaka fyrir hertum ríkisafskiptum af frjálsu framtaki. Þegar við þetta bætist aukið skóglendi, minnkandi landnotkun undir sífellt afkastameiri landbúnað og auknar kröfur efnaðra íbúa um hreint loft og land er jafnvel hægt að ganga svo langt að segja að ástand umhverfisins hafi aldrei verið betra eftir að menn skriðu út úr frumstæðum býlum sínum á miðöldum.
Þó er þetta háð því að einkaeignarréttur sé virtur. Sú virðing helst sterkt í hendur við virðinguna fyrir umhverfinu, hvort sem menn líta á umhverfið sem ónýtta auðlind fyrir vaxandi velferð mannkyns, eða verðmæti út af fyrir sig.
Eignarréttur og auðsköpun
Ekki er alltaf nauðsynlegt að styðjast við rannsóknir og gögn, jafnvel ekki þegar kemur að umhverfismálum. Hreint umhverfi er lúxus sem kostar fé. Vinstrimenn vilja að þetta fé sé tekið af frjálsum einstaklingum og fyrirtækjum þeirra til að fjármagna verkefni ríkisins og hægja á hjólum efnahagslífsins. Hið skynsama er hins vegar að leyfa hagkerfinu að vaxa sem allra mest og vernda eignarréttinn með öllum ráðum. Þannig verða til ríkir einstaklingar og þeir eru líklegri en þeir fátæku til að hafa efni á hreinna umhverfi. Þetta eru augljós sannindi, og eru sönn með og án tölfræðiúttekta.
Þeir sem búa í kerfi þar sem eignarréttur er val varinn standa sig almennt betur í umhverfismálum en þeir sem búa í umhverfi mikillar samnýtingar og sameignar (þ.e. þar sem ríkisvaldið á land og gæði). Þetta er engin tilviljun og helst fullkomlega í hendur við þá staðreynd að efnahagslega frjáls lönd eru almennt ríkari og hreinni en hin sem þjást af sjúkdómum sósíalismans.
Þeim sem er annt um umhverfið og vilja hreint loft og góða umgengni við náttúruna ættu hið fyrsta að beina sjónum sínum að frjálsu markaðshagkerfi og hverfa frá ríkisafskiptum með öllu tilheyrandi. Umhverfinu og mannkyninu væri gerður stór greiði með þeirri uppljómun.
Þessi pistill birtist áður á heimasíðu Frjálshyggjufélagsins.
Sunnudagur, 22. apríl 2007
Bandarísk vopnalöggjöf og atvikið í Virginia Tech
Margir (dæmi, dæmi) hafa sagt að fjöldamorðin í Virgina Tech séu á einhvern hátt tengd bandarískri vopnalöggjöf. Viðkvæðið er þetta: Almenningur í Bandaríkjunum getur orðið sér úti um skopvopn með mun einfaldari hætti en víðast hvar í Evrópu (þar sem er búið að afvopna almenning að mestu). Þess vegna geti geðbilaðir menn orðið sér úti um vopn með auðveldari hætti og þar með hrint geðtrufluðum áætlunum sínum í framkvæmd.
Málflutningur af þessu tagi er, að mínu mati, hin argasta þvæla. Er aðgengi að sprengjuefni þá ekki orðið að sömu "ástæðu" sjálfsmorðs- og sprengjuárása í Miðausturlöndum? Er aðgengi almenning að hnífum ástæða þess að geðtruflaðir einstaklingar ráðast að öðrum með hníf? Getur byssa skotið ef enginn tekur í gikkinn?
Hvað sem þessu líður hefur nú komið í ljóst að hinn geðbilaði og byssuglaði námsmaður í Virginia Tech hafði ekki orðið sér úti um byssu samkvæmt bandarískum alríkislögum (ábending héðan). Hvort spekúlantar láti það hafa áhrif á "byssur drepa, ekki menn"-málflutning sinn veit ég ekki. Mér finnst samt að menn eigi að kæla stóryrði sín um bandaríska byssulöggjöf. Byssunnar var ólöglega aflað, og sé ásetningur fyrir hendi skiptir nákvæmlega engu máli hvað lögin segja - sá sjúki mun afla sér verkfæris til fjöldamorðs. Því miður verður ströng byssu- og vopnalöggjöf bara til að almenningur afvopnast og verður varnarlaus gagnvart þeim sjúku, úrræðagóðu og ofbeldishneigðu.
Þess má geta að Evrópusambandið drottnar sem skammbyssuútflytjandi á heimsmarkaði, og margt er ekki alveg eins og goðsögnin segir (t.d. meint vopnaleysi Evrópubúa). Meira hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 21. apríl 2007
Hin gleymda vinstristjórn
Úr Fréttablaðinu í gær. Myndina má stækka með því að smella á hana.
Þetta er stutt grein enda ekki um annað að ræða ef ætlunin er að koma einhverju á prent í greinaflóði kosningabaráttunnar. Þar af leiðandi vantar ýmsa fyrirvara og gagnrýni á núverandi stjórnvöld og nánari útlistun á ýmsu. Örlítið dýpri grein eftir mig um sama efni má finna í seinasta hefti Þjóðmála, sem vitaskuld fæst í bóksölu Andríkis. Hugsanlega set ég greinina inn á þessa síðu einhvern tímann (hugsanlega fljótlega!).
Þess má geta að ég kýs ekki af hugsjón, heldur til að lágmarka skaðann af völdum kosninga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 19. apríl 2007
Af hverju reykja Kanar minna en Evrópubúar?
Deiglupenninn Jón Steinsson spyr sig og aðra í grein á Deiglan.com eftirfarandi spurningar: Af hverju reykja Evrópubúar meira en Bandaríkjamenn? Hann nefnir m.a. eftirfarandi ástæðu: "Í ljós kemur að mun færri Evrópubúar [en Bandaríkjamenn] telja að reykingar séu verulega heilsuskaðlegar." Einnig segir Jón "að milli 25% og 50% á muninum á tíðni reykinga megi rekja til mismunandi viðhorfa til þess hversu heilsuspillandi reykingar eru." Sem sagt: Evrópubúar, sem ætíð og iðulega hrósa sér fyrir að vera upplýstari og greindari en Kaninn, vita ekki að innsog á tjöru svo árum skiptir er nokkurn veginn sú mest heilsuspillandi iðja sem er ekki bönnuð með lögum í dag. Getur einhver sjálfumglaður Evrópubúi sætt við þess konar útskýringu? Það efast ég um.
Í mínum huga er alveg hrópandi fjarvera á einni tilgátu í umfjöllun Jóns, og sennilega á það sama við um skýrsluna sem hann styðst við, en það eru vensl reykinga og uppbyggingar heilbrigðiskerfis Bandaríkjanna annars vegar og Vestur-Evrópu hins vegar. Í Bandaríkjunum er a.m.k. og fyrir suma einhver fjárhagslegur hvati fólginn í því að passa upp á heilsu sína, m.a. af því margir kaupa sínar eigin heilbrigðistryggingar (þótt það sé ekki einhlítt í gríðarlega flóknu heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna, sem spannar allt frá harðasta sósíalisma og til frelsis til að kaupa sér nánast hvaða þjónustu sem er án milligöngu kerfisins). Með því að reykja, og þar með rífa niður eigin heilsu, er að myndast kostnaður sem er augljóslega best að vera laus við, en bara að því gefnu að kostnaðurinn lendi á þeim sem honum veldur.
Í Vestur-Evrópu er engan slíka hvata að finna. Menn reykja sig einfaldlega í hel, telja sjálfum sér í trú um að kostnaður vegna komandi sjúkdóma hafi þegar verið greiddur með himinháum tóbaksálögum svo árum og áratugum skiptir, og pæla ekki í því meira. Heilbrigðiskerfið er einn aðili - sá sami og innheimtir skatta til að fjármagna það - og hver sem er sem veikist af hvaða ástæðu sem er hefur "rétt" til að nota það. Sjálfur heyrði ég einu sinni dæmisögu um aldraða konu á Íslandi sem var nýbúin að taka á móti niðurgreiddum lungnaþembulyfjum fyrir hundruð þúsunda króna, og kona sú var ekki lengi að kveikja sér í einni þegar hún var komin undir beran himinn.
Hvað mundi verða um kostnað vegna bílatrygginga ef allir gætu farið eins illa með bíla sína og þeim sýndist, og fengju skaðann alltaf jafnóðum bættan úr sameiginlegum sjóði sem allir væru þvingaður til að greiða í (sem hlutfall af launum og vöruverði, en ekki sem iðgjald tengt tjónleysi og öðru eins)? Yrði kostnaður ekki fljótur að springa úr öllu valdi, þjónustan fljót að versna og biðlistar eftir viðgerðum snöggir að vaxa úr öllu valdi, öllum til ama og gremju? Lýsing sem er óneitanlega ekki ólík þeirri sem á við um "ókeypis" og "aðgangsopna" heilbrigðiskerfið okkar.
Kanar reykja minna en Evrópubúar, og gera það sjálfsagt af mörgum ástæðum (ein þeirra er þó ekki hærra verð á sígarettum í Bandaríkjunum). Ég sé ekki betur en að umgjörð hins vestur-evrópska heilbrigðiskerfis sé a.m.k. líkleg til að vera ein af ástæðum þess að við reykjum meira en Kanar.
Ef einhver getur grafið upp hversu stórt hlutfall Svisslendinga reykir þá yrði ég ákaflega þakklátur. Þeir (og fleiri) starfrækja nefninlega ansi athyglisvert heilbrigðiskerfi, séð í gegnum gleraugu markaðssinnans (þótt ekki af annarri ástæðu en þeirri en að það er heilbrigðisráðherralaust!).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)