Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Skiljanleg mótmæli en byggð á misskilningi

Á Vísir.is er nú minnst á mótmæli danskra reykingamanna gegn fyrirhuguðu banni á reykingum í húsnæði yfir 40 fermetrum og almenningur hefur aðgang að (til að snæða eða drekka), nema í húsnæðinu sé sérstakt reykingaherbergi. Í fréttinni segir að með fyrirhuguðu banni telji reykingamenn vera brotið á rétti sínum. Ég skil vissulega gremju þeirra, en ef fréttin er rétt þá eru mótmælin byggð á misskilningi. Lögbann á reykingum í húsnæði í einkaeigu er ekki brot á rétti gestanna sem villast inn á það (oft, að því er virðist, í þeim tilgangi að kvarta yfir loftinu þar), heldur brot á rétti húsnæðiseigenda og í raun afnám einkaeignarréttarins.

Reykingamennirnir dönsku munu ekki hafa neitt upp úr því að mótmæla. Þeir hafa þegar tapað baráttunni fyrir hinni pólitísku rétthugsun. Því miður.

Uppfært: Nú er mbl.is einnig með frétt um mótmælin.


mbl.is Reykingamenn mótmæla í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Togstreita sameignar og séreignar

Ég var að koma af mínum fyrsta húsfélagsfundi (húsfélag = ejendomsforening, ekki alveg týpískt fyrirbæri á Íslandi) sem eigandi íbúðar og get ekki sagt annað en ég hafi lært heilmikið um ekki bara nágranna mína, heldur einnig um samspil ríkisins (sameign) og skattgreiðenda (einkaeign). Byrjum á örlítilli skýringu á aðstæðum:

Í byggingunni sem ég á íbúð í þá á ég ekki alla íbúðina. Ég á ekki gluggana (sem snúa út) og sjálft múrverkið eða kassann sem byggingin er. Ég á gólfið og innri veggi og allt það. Hafði raunar ekki hugmynd um þetta fyrr en nú (réði lögfræðing til að sjá um fasteignaviðskiptin og hef ekki lesið stafkrók í neinum pappír sem viðkemur kaupum og eignarhaldi). Þessi sérkennilega blanda "sameignar" (húsfélagið, sem margir sjá um að fjármagna í gegnum húsfélagsgjöld) og séreignar leiddi vægast sagt af sér fjörlegar umræður um viðhald sameignar og ýmsan kostnað eins og við var að búast, en með örlitlu flækjustigi sem viðkemur "sameign" á ytri hlið byggingarinnar og eignarhaldi húsfélagsins á gluggum.

Samkvæmt húsfélagslögum á húsfélagið að standa fyrir viðhaldi á eigum sínum (múrverk og gluggar). Þetta er ekkert mál þegar kemur að málningarvinnu og ýmissi steypu- og þakvinnu á ytri hlið hússins, en þegar kemur að rúðum er sagan mun flóknari. Fyrir nokkrum árum (skildist mér) gaf húsfélagið leyfi til að fólk gæti sjálft skipt um sína glugga (gerð var krafa um að skipta þeim út sem hluti af almennu viðhaldi), gegn því að vera ekki rukkað fyrir gluggaútskiptingu annarra. Nokkrum árum seinna hafa margir gleymt þessu, eða nýir eigendur komnir, og reyndu margir ákaft að losna við að þurfa greiða fyrir þennan hluta viðhaldsins, enda er það jú hlutskipti húsfélagsins að sjá um svona lagað! Flækjustigið er hið gamla samkomulag, og sumir sem höfðu lagt út í kostnað við að skipta um sína glugga, í góðri trú um að þurfa ekki að taka þátt í kostnaði annarra vegna þeirra gluggaskipta, voru ekki á eitt sáttir við það. Húsfélagið getur, með atkvæðagreiðslu meðlima, breytt hinu gamla samkomulagi, og margir sáu fram á að hafa skipt um eigin glugga og vera neyddir til að fjármagna gluggaskipti í íbúðum þar sem ekki hafði verið skipt um glugga.

Málið hefði geta farið á hvorn veginn sem er, en var afgreitt með málamiðlun um að athuga hitt og þetta og taka það upp á síðari fundi.

Líklega eru deilur af þessu tagi eitthvað sem fyrstu boðberar lýðræðis höfðu í huga þegar þeir héldu því fram að meirihlutastjórn yfir minnihluta gæti aldrei gengið í of fjölmennum samfélögum. Þarna var hópur fólks samankominn, hópur sem spannar sennilega allt hið pólitíska litróf, til að ræða um kostnað sem á annaðhvort að leggjast á alla (gegn því t.d. að auðveldara sé að fá gott tilboð í stórt verk) eða hvern og einn (og þannig getur hver og einn fylgt sínu máli eftir, og þarf ekki að hafa áhyggjur af því að einhver dragi fæturnar og verði til vandræða seinna).

Í lýðræði sem nær út fyrir fundarherbergi örfárra einstaklinga er hætt við að pressan aukist á einhverja að reyna velta kostnaði vegna eigin neyslu eða viðhalds yfir á aðra. Á húsfélagsfundinum heyrðist hver einasta rödd og menn sátu og hlustuðu á hin tæknilegustu mál því þau varða eignir þess og fjárfestingu sem skiptir máli. Þegar einn stakk upp á einhverju sem veltir kostnaði yfir á aðra, þá risu hinir sömu upp og mótmæltu og minntu á fyrra samkomulag eða bentu á ókostina sem hugsanlega fylgdu tillögunni.

Í stærra samfélagi þar sem málflutningsrétturinn er kominn til þeirra sem beinlínis hafa hag af því að auka kostnað allra til að auka eigin völd (t.d. heilbrigðisráðherra að heimta meira skattfé til sjúkrahúsa, í nafni sjúklinganna vitaskuld) þá er komin mótsögn sem getur bara leitt til þess að sá raddlausi verður mjólkaður meira og meira. Gildir einu úr hvaða þingflokki viðkomandi þingmaður eða ráðherra er: Það er í hans hag að auka rányrkju sína á kjósendum sínum.

Ég kem ánægður af mínum húsfélagsfundi (þótt ég dáist alltaf að því hvað Danir eru góðir í að þrauka langa fundi). Við ætlum ekki að leggja út fúlgur fjár til að fá breiðband. Við ætlum ekki að borga stórfé til ráðgjafa í tengslum við gluggaútskiptingar þeirra sem eiga slíkt eftir sem hluta af samkomulagi um viðhald á eigum húsfélagsins. Við ætlum hugsanlega að setja upp leikvöll, en sem betur fer eru þau áform hófsöm og frestað a.m.k. um eitt ár. Viðhaldsáætlanir eru á hinn bóginn metnaðarfullar og ekki á að slá slöku við þar. Gott mál segi ég.

Verkefni ríkisins kosta fé, og allir þurfa að leggja sitt af mörkum til að borga þau. Menn eiga það hins vegar til að reyna velta kostnaðinum yfir á aðra, eða telja sjálfum sér í trú um að það sé hægt. Oft er það hægt, en á meðan maður heyrir raddir fórnarlambanna þá helst freistingin að einhverju leyti í skefjum. Lýðræði er ágætt, en ef hópur kjósenda er of stór, sundurleitur, dreifður og samskiptalaus er hætt við að lýðræðið verði bara enn eitt kúgunartækið og tæki til rányrkju á hinum þögla hluta hópsins.

Bónuslexían er svo sú að "beint lýðræði" og "íbúalýðræði" er alveg stórkostlega hamlandi fyrir þann sem fer með sameiginlegan sjóð eða hefur yfirumsjón með einhverju sem kallast "sameign". Líklega er það ekki markmið vinstrimanna þegar þeir boða "íbúalýðræði" (nema þegar þeir eru í stjórnarandstöðu), en væri skemmtileg hliðarafleiðing fyrir hægrimenn, fái vinstrimenn óskir sínar uppfylltar. Af hverju eru hægrimenn ekki að boða fleiri kosningar um allskyns málefni ríkisvaldsins? 


Meint hamingja Dana

Enn ein könnunin hefur nú verið gerð sem "mælir" hamingju manna. Oft er um að ræða spurningalista sem lagður er fyrir fólk, eða viðtöl tekin, og svör notuð til að raða heilu þjóðunum á einhvern kvarða hamingju. Sem íbúi og skattgreiðandi í Danmörku get ég samt reynt að varpa örlitlu ljósi á meinta hamingju Dana.

Danir nota meiri tíma en margir til að telja sjálfum sér og öðrum í trú um að þeir hafi stjórn á hlutunum, haldi fullkomnu jafnvægi einkalífs og vinnu, eigi góðan bíl, hafi stjórn á fjármálunum og séu almennt ánægðir með samfélagið, fjölskyldu sína og vinnustað. Í samanburði við Íslendinga má jafnvel ganga svo langt að segja að Danir heilaþvoi sjálfa sig af ánægju með eigið líf. Svo mikið leggja þeir upp úr að búa til góða ímynd af sjálfum sér, fyrir bæði aðra og sjálfa sig. Íslendingar eru of kappsamir til að láta sér núið nægja. Sennilega kemur það fram í lélegu (lélegra) skori í hamingju-könnunum.

Þess vegna er ekki erfitt að ímynda sér að hinn almenni Dani gefi sjálfum sér hæstu einkunn á öllum sviðum á spurningalista sem síðar er notaður til að "mæla" hamingju.

Ég set ákveðinn fyrirvara á hamingju Danans. Ef eitthvað þá er Daninn búinn að rækta með sér nægjusemi og það hugarfar að það sem er skítt verður ekki breytt hvort eð er, svo hví að pæla í því?


mbl.is Danir hamingjusamasta þjóðin í Evrópusambandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hugmyndafræði horfin úr umræðunni?

Hugmyndafræði er ekki lengur rauður þráður í umræðum um eitt né neitt. Menn segja ekki lengur að þeir vilji minna ríkisvald eða meira, að skattar eigi að hækka eða lækka af hugmyndafræðilegum ástæðum, eða að land eigi að vera ýmist í einka- eða ríkiseigu út frá ákveðnum og almennum hugmyndum um eignafyrirkomulag ríkis og einstaklinga. Nei, þess í stað er umræðan komin út í hreina talnaleikfimi og skýrslukast.

Eitt dæmi þess er stjórnmálafræðingurinn Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Hann gerir nú fátt annað en að hrekja tölur og tölfræði, hvort sem umræðan snýst um loftslagsbreytingar eða skattbyrði. Þetta er hann í raun knúinn til að gera því vitleysan veður uppi hjá þeim sem vilja að ríkið stormi á vettvang og leysi allskyns möguleg og ómöguleg vandamál. Loftslags- og veðurfræðingar þegja. Hagfræðingar og aðrir talnaspekingar þegja. Hannes hefur því tekið að sér að berja á goðsögnunum sem við erum fóðruð með í fréttum daglega.

Vissulega er ákveðin hugmyndafræði undirliggjandi. Þeir sem halda því fram að maðurinn sé að hita jöðrina (eða kæla, eftir því á hvaða áratug umræðan fer fram) ýja oft að því að vandamálið sé frelsi hins frjálsa markaðar, og að ríkið þurfi að tálga þetta frelsi niður til að ná böndum á "vandamálinu". Þeir sem eru hvað duglegastir að reyna sýna fram á að lækkandi skatthlutföll séu í raun skattahækkanir eru pólitískir andstæðingar núsitjandi ríkisstjórnar og vilja koma vinstrimönnum til valda. Þetta er hins vegar útþynnt hugmyndafræði svo ekki sé meira sagt. Skýrslukast og talnaleikifimi, ætluð til þess að koma vinstrimönnum til valda eða auka afskipti ríkisins af hinum frjálsa markaði, er leiðinleg umræða og hefur enga stefnu sem hægt er að benda á.

Lausnina hef ég vitaskuld

Til að einfalda alla umræðu um hvaðeina ætla ég að reyna innleiða örlitla hugmyndafræði inn í íslenska dægurmálaumræðu, og beina spjótunum að áðurnefndum "vandamálum" loftslagsbreytinga (af mannavöldum) og vaxandi skattbyrði í kerfi lækkandi skatthlutfalla. Að sjálfsögðu er mín nálgun nálgun frjálshyggjumannsins, enda finnst mér ósannfærandi að ræða eitthvað út frá öðrum útgangspunkti en þeim að einstaklingar eigi líkama sinn sjálfir, og þær eignir sem líkami, hugur, heppni og hæfni aflar þeim.

Loftslagsbreytingar: Maðurinn hefur áhrif á umhverfi sitt með aðgerðum sínum. Skiptir í raun engu hvað það er - endurvinnsla, fjallganga, bruni olíu eða uppsetning vindmylla. Ef þessar aðgerðir fara fram í umhverfi einkaeignareigenda, sem gera frjálsa samninga sín á milli, þá skiptir engu máli hvaða afleiðingar þetta eru. Engar! Almenna hugmyndin er sú að ef einhver á eitthvað þá má viðkomandi gera hvað sem viðkomandi vill við eigur sínar. Það að dæla mengun út í andrúmsloftið er ekki í ósamræmi við þessa hugmynd, gefið að viðkomandi mengandi aðili hafi verið fyrstur á svæðið, eða hafi gert samkomulag við nágranna sína um að breyta samsetningu loftsins í kringum þá. Nánar hér. Sé maðurinn í raun og veru og sannarlega að breyta virkni lofthjúpsins þá er það sömuleiðis ekki neitt sem brýtur gegn lögmálum hins frjálsa markaðar. Hliðarafleiðingar frjálsra viðskipta breyta engu um réttmæti þeirra. Þvingun og frelsisskerðing réttlætist ekki með því að benda á að eitthvað réttmætt hafi áhrif á umhverfi frjálsra markaðsaðila, ekki frekar en að steinn losni undan áhrifum þyngdaraflsins þegar hann er að falla í átt að brothættum vasa. Þeir sem vilja réttlæta þvingun og frelsisskerðingu þurfa að gera það út frá rökum, og svo beita þeirri niðurstöðu á umheiminn, en ekki öfugt.

Niðurstaðan er því sú að allt tal og hjal um áhrif mannsins á virkni lofthjúpsins er út í buskann og á ekki að leiða til aukinna ríkisafskipta, enda eru þau óréttmæt og það óréttmæti er rökstutt út frá þeirri grunnforsendu að maðurinn eigi eigin líkama og á að geta átt hvaða samskipti sem er við hvern sem er, og gert hvað sem er við hvað sem er, á meðan hann ræðst ekki að öðrum einstaklingum, sem einnig eiga sinn eigin líkama. Innifalið í þessu er vitaskuld að sjálfseign leiði til séreignarréttar á réttmætt öfluðum eigum.

 Skattbyrði og skattalækkanir: Hið óumdeilda er að ríkið hefur fellt niður og lækkað skatta á rólegu tempói síðastliðin ár. Þetta hefur gert það að verkum að velta í samfélaginu hefur aukist, t.d. með þeim afleiðingum að persónuafsláttur hefur minnkað mjög í vægi varðandi innheimtu tekjuskatta, og hátt skattaður "lúxusvarningur" hefur streymt til landsins og skatttekjur vegna sölu hans aukist bæði í magni og sem hlutfall af sölu alls varnings (sem er oft íþyngdur með lægra skatthlutfalli). Talnaleikfimin er að vissu leyti áhugaverð, en staðreyndin er sú að ríkið er svo sannarlega að draga saman seglin í skattheimtu og það er mikilvægast. Hverjar svo sem hliðarafleiðingarnar eru (t.d vaxandi skattheimta vegna tekna og vaxandi skattbyrði sem hlutfall af heildarveltu í samfélaginu) er í sjálfu sér aukaatriði. Ef eitthvað þá á að gagnrýna stjórnvöld fyrir að lækka ekki skatthlutföll enn hraðar til að enginn geti vænt þau um vaxandi skattbyrði (óháð því hvaða talnaleikfimi er beitt). 

Það mikilvægasta er að ríkið dragi saman seglin og komi sér úr veginum, en ekki hvaða innheimtu það hefur af hinum ýmsu skatthlutföllum. Ef tekjuskattur lækkar um 5% en skattheimta af tekjum vex um 10% þá er það út af fyrir sig ekki gagnrýni vert. Það sem er gagnrýni vert er að skattar lækkuðu ekki enn meira, þannig að skattheimta af tekjum eigi aldrei möguleika á að vaxa vegna hennar. Í bullandi góðæri kallar þetta sennilega á róttækar skattalækkanir sem nema tugum prósenta, en sé ætlunin sú að forðast talnaleikfimi vinstrimanna er ekkert annað en róttæk skattalækkun nauðsynleg.

Er hægt að finna hugmyndafræðina aftur?

 Nú veit ég ekki hvort mér tókst að toga einhvers konar hugmyndafræði út úr ofannefndum deilumálum í samfélagsumræðunni, eða hvort það er hægt, en mikið væri nú allt einfaldara ef fólk væri hreinskilið við sjálft sig og gerði upp við sig hvort það vilji stærra ríkisvald (og minna einkaframtak) eða meira frelsi (og minna ríkisvald). Öll deilumál okkar yrðu einfaldari viðfangs ef við snérum okkur aftur að þessum grunnforsendum sem allar aðrar hugmyndir eru leiddar út frá.


Þjóðernissósialismi

Íslandshreyfingin vill að auðlindir Íslands séu í eigu ríkisins (það er jú klárt mál enda hafa talsmenn hreyfingarinnar aldrei talað fyrir sölu ríkislands). Það er sósíalismi.

Íslandshreyfingin vill ekki að hin bölvuðu "erlendu" öfl eigi auðlindir og land á Íslandi. Þetta er þjóðernishyggja.

Þjóðernissósíalismi hlýtur þá að vera ágætt nafn á stefnu Íslandshreyfingarinnar, þótt það hafi auðvitað ekki sömu merkingu og sá gamli góði frá tímum Þriðja ríkisins.

Ef Íslandshreyfingin heldur að Ísland muni fá undanþágu frá auðlindarákvæðum Evrópusambandsins þá ætti hún að endurskoða afstöðu sína hið snarasta, því enga slíka undanþágu er að fá, nema e.t.v. tímabundið.


mbl.is Íslandshreyfingin: Auðlindir Íslands verði aldrei í umsjá erlendra afla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misskilin frjálshyggja frjálshyggjumanna

Varúð: Eftirfarandi skrif eru líklega ekki áhugaverð fyrir neina aðra en þá sem kalla sig frjálshyggjumenn, en eru fylgjandi hinu svokallaða "lágmarksríki", og telja að þar með sé komin hin fullkomna blanda frelsis og ríkisafskipta.

Í grein á sus.is skrifar einn ágætur ungur hugsjónamaður eftirfarandi orð:

 

Sjálfur hef ég þá þumalputtareglu að reyna ekki að neyða einhvers konar boð eða bönn á annað fólk með stjórnmálaskoðunum mínum, þannig verð ég ekki uppvís um hræsni líkt og pólítískir andstæðingar mínir í Vinstri-grænum. Þetta gerir frjálshyggjan mér kleift enda stendur hún fyrir lágmarksríki sem skiptir sér hvorki af frjálsum markaði né einkalífi fólks.

 

Þetta er stefna sem flestir vilja kenna við frjálshyggju, og er meðal annars hluti af stefnumálum Frjálshyggjufélagsins þar sem ég sit í stjórn.  Nánar tiltekið segir í þeim stefnumálum: "Ríkinu ber að setja lög, veita löggæslu og dæma í dómsmálum. Ef ríkið sér ekki um þessa hluti eru allar líkur á að frelsið verði lítið."

Þetta er fölsk röksemdarfærsla og engu skárri en sú sem boðar alræði ríkisins - hámarksríkið. Líkindafræðin er líka ósönn. Sagan er full af dæmum um samfélög sem störfuðu (og starfa) án virkrar miðlægrar stjórnsýslu skattheimtandi ríkisvalds (húsfélög og alþjóðasamfélagið í heild sinni eru dæmi um það í nútímanum). Bandaríkin voru upphaflega stofnuð sem regnhlífasamtök frjálsra ríkja og áttu upphaflega að hafa það eina hlutverk að sinna hlutverkum lágmarksríkisins eins og því er lýst hér að ofan. Lexían er tvíþætt: Það er vel hægt að hugsa sér samfélag án ríkisvalds, og ekki er hægt að hafa ríkisvald án þess að hafa sívaxandi ríkisvald sem mun ítrekað og stöðugt vaxa og skerða réttindi þegna sinna í nafni þeirra eigin þágu. 

Frjálshyggjumenn lágmarksríkisins geta ekki ætlast til þess að líkindafræðin ein dugi til að réttlæta skerðingu á sjálfseignar- og séreignarrétti einstaklinga. Ef líklegt er að ég muni fá hjartaáfall ef ég borða ekki gufusoðið grænmeti allt mitt líf, er þá búið að réttlæta að ég sé þvingaður til að borða gufusoðið grænmeti allt mitt líf? Varla. Ef miklar líkur eru á að brotist sé inn í íbúð mína ef ég hef ekki keypt þjónustu öryggisfyrirtækis eða lögreglu, er þá búið að réttlæta eignanám á eigum mínum til að fjármagna kaup á slíkri þjónustu? Svo sannarlega ekki. Allt tal um líkindi er marklaust ef ætlunin er að réttlæta skerðingu á réttindum mínum sem einstaklings. 

Hvað þá með "samfélagslegan ávinning" af því að neyða mig til að borga fyrir þjónustu lögreglu og dómstóla til að verja sjálfan mig og eigur mínar? Er ekki þægilegra að gera ráð fyrir að allir séu undir sama hatt verndar settir svo ekki þurfi að eyða meiri tíma í að hugsa um það? Því miður dugir svona útleiðing á skerðingu réttinda skammt. Sjálfseignarréttur einstaklinga á ekki að vera háður svefnró allra annarra. Allir hafa einhverja skoðun á því hvað annað fólk setur ofan í sig eða gerir við tíma sinn. Þar með er ekki komin nein réttlæting fyrir einu né neinu sem kallast valdboð eða ofbeldi. Að auki kemur sá óheppilegi þáttur inn í starfsemi lögreglu og dómstóla að ef þessir aðilar eru lausir við samkeppni og aðhald, og kúnnar þess eru neyddir til að vera kúnnar þess, þá hrörnar gæðum þjónustunnar og verð hennar hækkar. Ef marka má allt tal um meinta einokunarstarfsemi olíufélaga og matvöruverslana á Íslandi mætti ætla að flestir hafi ríkan skilning á því.

Eftir stendur að engin frjálshyggja er fólgin í starfsemi lágmarksríkisins. Réttindi einstaklingsins -  eign hans sjálfs á eigin líkama og réttur hans til að eiga það sem líkami hans og hugur öfluðu honum án ofbeldis og í gegnum frjáls viðskipti við aðra einstaklinga - verða ekki skert með því að beita líkindafræði. Þau verða heldur ekki skert með því að vísa til vilja meirihlutans. Tveir einstaklingar sem ákveða með sjálfum sér að kalla sig ríkisvaldið hafa ekki meiri réttindi en tveir einstaklingar sem sitja saman á kaffihúsi og lýsa yfir vanþóknun á ákvörðunum einstaklinga í kringum sig. 

Frjálshyggjumenn á Íslandi eru vissulega skárri en allt annað á hinu pólitíska litrófi, en þeir misskilja upp til hópa hugmyndina um einstaklinginn og rétt hans til að eiga eigin líkama. Sá misskilningur nær öfgamynd sinni í marxískri hugmyndafræði, en eðli hans er hið sama. 


Hreint umhverfi er markaðsvara

Alltaf gaman að vitna í sjálfan sig:

Sé raunverulegur áhugi á því að varðveita óbyggðirnar í núverandi ástandi þá er óbyggðaunnendum í lófa lagt að tryggja þá stöðu mála með því að kaupa þær af ríkinu (t.d. í verðsamkeppni við þá sem vilja virkja, grafa, höggva eða leggja göngustíga). Þar með er sá pólitíski hvati sem lagði umhverfi Austur-Evrópu í rúst fjarlægður úr myndinni.

Ósýnilega höndin.


Aumingjans aðrir háskólanemar

Nemendur Háskóla Íslands líta óþarflega mikið niður á aðra háskólanemendur á Íslandi, eða umorðað: Líta stórt á sjálfa sig. Flaggskip þjóðarinnar já? Af hverju á að skerða fjárframlög til annarra háskólastofnana á Íslandi svo Háskóli Íslands geti fengið enn meira af fé landsmanna án sérstaks leyfis þeirra? Á kannski að hækka skatta til að mæta fjárþorsta stúdenta við Háskóla Íslands? Hvað þýðir það þá fyrir þann launaávinning sem margir háskólanemar, t.d. annarra háskóla á Íslandi, hafa reiknað með að fá út á háskólanámið? Hann hverfur fljótlega í skattahækkanahítina ef stúdenta Háskóla Íslands fá að ráða.

Er ekki nýbúið að gera risastóran samning ("tímamótasamningurinn") sem stóreykur fjáraustur úr vösum launþega í menntun stúdenta við Háskóla Íslands (umfram aðra háskóla)? Er til einhver upphæð sem þaggar niður í heimtufrekju stúdenta við Háskóla Íslands?


mbl.is Stúdentaráð vill að menntamál verði kosningamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tölfræðin sýnir, en hvað með það?

Á Deiglunni má nú finna skemmtilega grein um, að því er virðist vera, samband reykinga og Parkison-sjúkdómsins.

Þannig var um 40% ólíklegra að Parkinsons sjúklingarnir hefðu reykt heldur en heilbrigðir ættingjar þeirra, og 50% ólíklegra að þeir væru langtímareykingamenn.
Af heilbrigðu ættingjunum voru um 40% sem að drukku meira en þrjá bolla af kaffi á dag að meðaltali, meðan að Parkinsons sjúklingarnir voru 40% ólíklegri til að drekka svo mikið magn af kaffi.

 Ég læt fyrirvara greinarhöfunds fylgja með svo enginn fari sér að voða:

Skýrt skal þó tekið fram að niðurstöður þessar ættu ekki að gefa neinum afsökun fyrir því að byrja reykja – eða halda áfram að reykja, þar sem að augljósar og staðfestar afleiðingar reykinga, svosem lungnakrabbamein eða hjartaáfall skáki algjörlega þeirri vörn gegn Parkinsons sem mögulega gæti falist í því að reykja. 

 Tölfræði af þessu tagi er að finna út um allt. Vísindamenn út um allan heim vinna að því dag og nótt að búa til nýjar tölur um hvað er hættulegt og hvað er hættulaust og hvað er einhvers staðar mitt á milli. Okkur er sagt að M&M og munntóbak sé bráðdrepandi, a.m.k. krabbameinsvaldandi, og súlurit um misnotaðar rottur og mýs dregin fram til að sýna eitthvað og sanna. Ofannefnd grein vísar í rannsókn sem sýnir fram á neikvæð vensl sígarettureykinga og kaffiþambs við Parkinson-sjúkdóminn. Aðrar rannsóknir virðast benda til jákvæðrar fylgni hóflegrar rauðvínsdrykkju og lækkandi tíðni hjartasjúkdóma. Blöðin elska fréttir af þessu tagi, þó aðallega þær neikvæðu, því þær selja. Fólk er forvitið. Við viljum vita hvað drepur okkur og hvað er hollt og gott. 

En hvaða gildi hefur öll þessi umræða, fyrir utan skemmtanagildi?

Mitt svar er: Ekkert. Nákvæmlega ekki neitt (utan skemmtanagildis). Ef einhver reykir, vitandi vits að það er óhollt fyrir hann, þá er það hans mál. Ef einhver sleppir því að hreyfa sig, vitandi vits að hættan á ýmsum kvillum eykst við hreyfingarleysið, þá er það hans mál. Ef einhverjum líður betur við að borða lífrænt ræktað og keyra um á metangasknúinni bifreiða þá er það algjörlega hans mál. Það eina sem skiptir máli er að menn kaupi varning og þjónustu, vitandi vits að það sem stóð ekki sem ábyrgð seljanda í kaupskilmálunum er algjörlega á eigin ábyrgð kaupanda. Þar við situr.

Tölfræði er sniðug og gagnleg og umfram allt skemmtileg, og sjálfsagt finnst einhverjum nauðsynlegt að fóðra blöðin á endalausum sögum af því hvað drepur okkur hægt og hvað drepur okkur hratt. Hinu má samt ekki gleyma að fyrir utan skemmtanagildi slíkrar tölfræði, og hugsanlegrar innkomu hennar inn í kaupskilmála þar sem skýrt er kveðið á um ábyrgð og sjálfsábyrgð, þá er slík tölfræði hrein afþreying.

Ef þú, kæri lesandi, hefur í hyggju að beita tölfræði til að svipta mig eignarrétti mínum og ráðstöfunarrétti á mínum eigin líkama, þá vona ég að gerir þér grein fyrir að þrælahald er byggt á sömu forsendu (félagslegs darwínisma).  Ég veit hvað er mér fyrir bestu og verstu og hvað mér finnst vera hæfilegt verð á óhollum venjum. Ekki þú.


Leitin að vandamálunum

Íslensk stjórnarandstaða leitar nú sem aldrei fyrr að vandamálum sem stjórnarskipti eiga að "leysa". Örstutt hugleiðing mín um það efni sést hér. Njótið!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband