Tölfræðin sýnir, en hvað með það?

Á Deiglunni má nú finna skemmtilega grein um, að því er virðist vera, samband reykinga og Parkison-sjúkdómsins.

Þannig var um 40% ólíklegra að Parkinsons sjúklingarnir hefðu reykt heldur en heilbrigðir ættingjar þeirra, og 50% ólíklegra að þeir væru langtímareykingamenn.
Af heilbrigðu ættingjunum voru um 40% sem að drukku meira en þrjá bolla af kaffi á dag að meðaltali, meðan að Parkinsons sjúklingarnir voru 40% ólíklegri til að drekka svo mikið magn af kaffi.

 Ég læt fyrirvara greinarhöfunds fylgja með svo enginn fari sér að voða:

Skýrt skal þó tekið fram að niðurstöður þessar ættu ekki að gefa neinum afsökun fyrir því að byrja reykja – eða halda áfram að reykja, þar sem að augljósar og staðfestar afleiðingar reykinga, svosem lungnakrabbamein eða hjartaáfall skáki algjörlega þeirri vörn gegn Parkinsons sem mögulega gæti falist í því að reykja. 

 Tölfræði af þessu tagi er að finna út um allt. Vísindamenn út um allan heim vinna að því dag og nótt að búa til nýjar tölur um hvað er hættulegt og hvað er hættulaust og hvað er einhvers staðar mitt á milli. Okkur er sagt að M&M og munntóbak sé bráðdrepandi, a.m.k. krabbameinsvaldandi, og súlurit um misnotaðar rottur og mýs dregin fram til að sýna eitthvað og sanna. Ofannefnd grein vísar í rannsókn sem sýnir fram á neikvæð vensl sígarettureykinga og kaffiþambs við Parkinson-sjúkdóminn. Aðrar rannsóknir virðast benda til jákvæðrar fylgni hóflegrar rauðvínsdrykkju og lækkandi tíðni hjartasjúkdóma. Blöðin elska fréttir af þessu tagi, þó aðallega þær neikvæðu, því þær selja. Fólk er forvitið. Við viljum vita hvað drepur okkur og hvað er hollt og gott. 

En hvaða gildi hefur öll þessi umræða, fyrir utan skemmtanagildi?

Mitt svar er: Ekkert. Nákvæmlega ekki neitt (utan skemmtanagildis). Ef einhver reykir, vitandi vits að það er óhollt fyrir hann, þá er það hans mál. Ef einhver sleppir því að hreyfa sig, vitandi vits að hættan á ýmsum kvillum eykst við hreyfingarleysið, þá er það hans mál. Ef einhverjum líður betur við að borða lífrænt ræktað og keyra um á metangasknúinni bifreiða þá er það algjörlega hans mál. Það eina sem skiptir máli er að menn kaupi varning og þjónustu, vitandi vits að það sem stóð ekki sem ábyrgð seljanda í kaupskilmálunum er algjörlega á eigin ábyrgð kaupanda. Þar við situr.

Tölfræði er sniðug og gagnleg og umfram allt skemmtileg, og sjálfsagt finnst einhverjum nauðsynlegt að fóðra blöðin á endalausum sögum af því hvað drepur okkur hægt og hvað drepur okkur hratt. Hinu má samt ekki gleyma að fyrir utan skemmtanagildi slíkrar tölfræði, og hugsanlegrar innkomu hennar inn í kaupskilmála þar sem skýrt er kveðið á um ábyrgð og sjálfsábyrgð, þá er slík tölfræði hrein afþreying.

Ef þú, kæri lesandi, hefur í hyggju að beita tölfræði til að svipta mig eignarrétti mínum og ráðstöfunarrétti á mínum eigin líkama, þá vona ég að gerir þér grein fyrir að þrælahald er byggt á sömu forsendu (félagslegs darwínisma).  Ég veit hvað er mér fyrir bestu og verstu og hvað mér finnst vera hæfilegt verð á óhollum venjum. Ekki þú.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband