Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2017

Hægt að anda léttar

Ráðherrar hafa verið skipaðir og það er hægt að anda léttar.

Í stól fjármálaráðherra er maður sem leggur mikla áherslu á að greiða niður skuldir hins opinbera. Það er gott. Að vísu fær hann ekki að lækka skatta að ráði en það var svo sem aldrei hans keppikefli. Hann getur þó skreytt sig með því að hafa afnumið vörugjöld og flesta tolla með tilheyrandi jákvæðu afleiðingum

Í stól utanríkisráðherra er maður sem leggur áherslu á friðsamleg samskipti og viðskipti við sem flest ríki, þar á meðal Bretland sem yfirgefur bráðum ESB. Það er gott. Hann hefur líka talað um mikilvægi fríverslunar, sem er gott.

Í stól dómsmálaráðherra situr sami einstaklingur og áður og það er gott. Í dómsmálaráðuneytinu eru mörg stór og mikilvæg mál sem þarf að taka föstum tökum. Meðal annars þarf að ryðja Hæstarétt og endurnýja þar frá grunni.

Í öðrum ráðuneytum er fólk sem mun ekki fara út í neinar umdeildar eða róttækar aðgerðir. Þar er hægt að búast við algjörri stöðnun. Kannski er það skárra en illdeilur þótt mín skoðun sé raunar sú að þótt það kosti mikil átök að koma ríkisvaldinu út úr einhverjum rekstri þá sé það þess virði.

Nú er að vona að það pissi enginn á sig af hræðslu þegar skoðanakannanir byrja að birtast á næstu vikum og mánuðum og hlaupi út úr samstarfinu í örvæntingu eins og flokkurinn sem senn verður lagður niður.

Vonum líka að næsti alvarlegi skellur í fjármálakerfi heimsins dynji ekki á þessari stjórn. Hún verður þá fljót að fara úr límingunum eins og Samfylkingin forðum. 

Þetta verður íhaldssöm, varfærin og róleg stjórn. Íslendingar þurfa kannski bara á því að halda í bili.


mbl.is Ráðherrakapallinn opinberaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitthvað fyrir alla: Jólasveinastjórnin fæðist

Ný ríkisstjórn, Jólasveinastjórnin, er að fæðast. Hjá henni fá allir, nema skattgreiðendur, eitthvað gott í skóinn.

Ríkið ætlar að tryggja aukna þenslu með því að færa milljarða úr bönkum í innviði. Bankana á svo að selja, en verðminni en ella þegar búið er að mjólka þá. Fyrir andvirðið á að greiða niður skuldir ríkisins, sem eru enn alltof háar og gera ríkissjóð veikan fyrir áföllum af ýmsu tagi (nýju bankahruni, eldgosi í Kötlu, flótta fiskistofna á aðrar slóðir, tískustraumabreytingum hjá ferðamönnum osfrv.).

Meðlimir bæði VG og Sjálfstæðisflokks hugga sig sennilega við það að flokkur þeirra sé, þrátt fyrir allt, í ríkisstjórn, og geti þar haft meiri áhrif en seta í stjórnarandstöðu. Það er auðvitað rétt, en á kostnað svo gott sem allra kosningaloforða. VG hefði viljað hækka skatta meira, og margir Sjálfstæðismenn hefðu viljað aukna áherslu á að hreinsa upp skuldir ríkisins og auka svigrúm til skattalækkana. Hvorugur fær allar óskir sínar uppfylltar. 

Vissulega eru málamiðlanir hluti af pólitíkinni. Frjálshyggjumenn hljóta samt að spyrja sig að því hvað býður þeirra við næstu kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn er, á norrænan mælikvarða, vinstra megin við miðju. Það er gríðarlegt svigrúm hægra megin við hann fyrir staðfastari flokk sem er síður líklegur til að hlaupa á eftir skoðanakönnunum þegar stefnumálin eru ákveðin.

Það þyrfti ekki einu sinni að vera sérstaklega róttækur frjálshyggjuflokkur, bara eitthvað sem líkist hinum danska Liberal Alliance

Sjáum hvað setur og vonum að það fari ekki allt á hliðina hjá vel meinandi en hagfræðilega ólæsum jólasveinum í nýrri ríkisstjórn. 


mbl.is Töluverð uppstokkun á skattkerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæknin og stjórnmál

Á öllum tímum síðan iðnbyltingin var fyrir alvöru byrjuð að breiðast út hafa stjórnmálamenn talað um að störf hverfi og að aumur almúginn hafi ekkert fyrir stafni.

Enginn slíkur spádómur hefur ræst þar sem frjáls markaður hefur fengið að starfa, a.m.k. að einhverju leyti.

Það er rétt sem margir segja að tæknin mun leysa af hólmi manninn á sífellt fleiri sviðum.

Það er líka rétt að félagsfærni, frumleiki og sköpunargáfur munu skipta sífellt meira máli.

Búðarkassastarfsmaðurinn hverfur. Í staðinn kemur eitthvað annað.

Leigubílstjórinn hverfur. Í staðinn kemur eitthvað annað.

Kannski hverfa líka nuddarar, ræstingarfólk, flugþjónar, flugmenn, skipstjórar og margar tegundir verkfræðinga og lögfræðinga. 

Í staðinn kemur eitthvað annað.

Það er ekki fyrr en að menn hella sandi í gangverk hins frjálsa markaðar að vandamálin spretta upp eins og arfi í beði. Stjórnmálamenn má líka forrita. Má ekki leggja niður störf þeirra líka á næsta áratug? 


mbl.is Arður tæknibyltingar skili sér sanngjarnt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjánalegt að trúa á hlutlausa eigendur

Í Bandaríkjunum hafa nokkrir fjölmiðlar nú skipt um hendur. Það er eins og það er. Fjölmiðlar eins og önnur fyrirtæki ganga kaupum og sölum.

Fjölmiðlar eru samt svolítið sérstök fyrirtæki. Þar vinnur fólk við að skrifa, segja frá, lýsa, boða og tjá sig og reksturinn gengur vel ef margir lesa, horfa og hlusta og kaupa dótið og þjónustuna sem er auglýst á sömu miðlum.

Margir hefðbundnir fjölmiðlar glíma við hratt lækkandi tekjur. Það nennir enginn að sjá auglýsingar lengur nema þeim sé laumað inn á samfélagsmiðlasíðurnar eða komi úr munni einhvers áhrifavaldsins þar. 

Hvað er þá til ráða? Það er ýmislegt:

  1. Aðlaga fréttaflutninginn að smekk og skoðunum áheyrenda/áhorfenda. Það vilja allir fá staðfestingu á skoðunum sínum.
  2. Fjármagna fjölmiðla með fé úr öðrum og ábatasamari rekstri. Þá getur fjölmiðill haldið áfram að segja óvinsæla hluti og þótt hann tapi á því þá gerir það ekkert til, enda ekki ætlað að græða á því.
  3. Búa til smáforrit (e. app) og vona að fólk nenni þá frekar að lesa eða horfa á, t.d. á meðan það er á klósettinu með símann.
  4. Eyða miklum og löngum tíma í að byggja upp trúverðugleika með markvissri ritstjórnarstefnu, aðhaldssemi í rekstri og öguðum fréttaflutningi. Þetta er langdregnasta og leiðinlegasta aðferðin af þeim öllum og eiginlega enginn sem nennir því lengur.
  5. Komast á ríkisspenann.

Eigendur fjölmiðla þurfa að hugleiða allar þessar leiðir og fleira. Flestir velja að tapa fé á fjölmiðlum sínum og velja leið nr. 2. Þetta geta eigendur gert beint, með því að hlutast til um fréttirnar frá degi til dags í eigin persónu eða í gegnum ritstjóra, eða óbeint með því að velja bara fólk til starfa sem snýst á ákveðinni sveif.

Og það er ekkert að því. Ef maður vill brenna seðlabúnt á báli á hann að geta gert það. Ef maður vill borga undir fjölmiðil og nota sem málpípu þá er það í hans fulla rétti. Ef maður vill standa á þaki húss síns og baula skoðanir sínar yfir alla í nágrenninu þá er það gott og blessað.

Enginn eigandi fjölmiðils er fullkomlega hlutlaus um rekstur fjölmiðilsins. Það er á hreinu. Eigendur þurfa að koma að rekstri hans með einum eða öðrum hætti. Sumir velja sjálfstæða ritstjórn, aðrir ekki. 

Það er ekki hlutverk fjölmiðla að þykjast vera hlutlausir og telja fólki í trú um að hjá þeim finnist hið eina sanna jafnvægi sannleika og frásagnar. Þeir eiga fyrst og fremst að reyna vera heiðarlegir og sanngjarnir. Finnst mér. 


mbl.is Koch-bræður koma að kaupunum á Time
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar tími gefst fyrir raunverulega glæpi

Það eru alltaf góðar fréttir þegar lögreglunni tekst að stöðva raunverulega glæpi.

Meðal raunverulegra glæpa eru: Þjófnaður, ofbeldi að fyrra bragði (sjálfsvörn má telja eðlilegt ofbeldi sé hún í hlutfalli við umfang árásarinnar), frelsissviptingu og ógnanir þar sem ofbeldi er hótað.

Því miður fer alltof mikið af tíma lögreglu og yfirvalda í allskonar annað en glæpi. Má þar nefna framleiðslu, dreifingu, sölu og neyslu allskyns efna. Það á heldur ekki að vera hlutverk lögreglu að sinna starfi foreldris og hella niður áfengi eða gera upptækar þurrkaðar plöntur, jafnvel þótt sá varningur sé í höndum unglinga. 

Lögregla sóar að auki miklum tíma í pappírsvinnu vegna allskyns verknaða sem eru í raun ekki glæpir, bara lögbrot. 

Það er einfaldlega til of mikið af lögum sem draga athyglina frá raunverulegum lögreglustörfum. 

Tvennt er þá í stöðunni: Annars vegar að fækka lögum og þar með lögbrotum, sem má teljast ólíklegt að gerist í umhverfi pólitísks rétttrúnaðar þar sem meira og meira er bannað. Hins vegar að lögreglan sýni meira frumkvæði í forgangsröðun sinni og hætti einfaldlega að eyða púðri í verknaði sem eru fyrst og fremst lögbrot en ekki glæpir.

Um leið má losa gríðarlegan mannafla til að sinna raunverulegri löggæslu, stöðva þjófnaði, uppræta mansal og koma í veg fyrir ofbeldi.

Eða á ég að vera kræfur og segja að lögreglan og ríkisvaldið séu ekki starfi sínu vaxin, og að það mætti byrja að hugleiða annars konar fyrirkomulag á vernd gegn ofbeldi og þjófnuðum? Eitthvað í samkeppnisrekstri sem nýtur aðhalds? 


mbl.is Björguðu um 30 fórnarlömbum mansals
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúverðugleiki vísindanna á niðurleið

Því miður er það svo að trúverðugleiki vísindanna er á niðurleið.

Ástæðan er einföld: Vísindin hafa í mörgum tilvikum svikið okkur.

Augljóst dæmi eru loftslagsvísindin eins og þau eru kynnt af litlum en háværum og áhrifamiklum hópi einstaklinga (stjórnmálamanna, Hollywood-stjarna og vísindamanna á ríkisstyrkjum). Samkvæmt þeim er fellibyljum að fjölda, sem er ekki raunin, eyjar að sökkva, sem er ekki raunin, loftslagið að hlýna, sem er ekki raunin, og ofsaveðrin að verða verri, sem er ekki raunin.

Almenningur er fyrir löngu hættur að hafa áhuga á þessu máli þótt milljarðar og aftur milljarðar af skattfé sé dælt í ráðstefnur og rannsóknir á þessu sviði.

Annað dæmi um hrakfarir vísindanna er hagfræðin. Sú hagfræði sem er helst í hávegum höfð í dag boðar ríkiseinokun á peningaútgáfu, sem á að stilla af kaupmátt peninga og atvinnuleysi en gerir þvert á móti, og skattkerfi sem er sífellt að flytja fé á milli í nafni jöfnuðar, stöðugleika og hagsældar en veldur fátækt, óstöðugleika og vansæld. Hagsveiflurnar eru orðnar fleiri, svæsnari og sársaukafyllri. Sparnaður fólks er brenndur á báli peningaprentunar til að falsa hagvaxtartölur fyrir stjórnmálamenn í atkvæðaleit. 

Enn eitt dæmi um hrakfarir vísindanna er næringarfræði. Einn daginn er ákveðið að fita sé slæm en sykrað fæði skárra, á meðan hún er kolvetnasnauð. Þann næsta er fita góð en sykurinn slæmur. Öllum meðmælum næringarfræðinga er svo mætt með skattheimtu, niðurgreiðslum, reglugerðum, boðum og bönnum. Á meðan fjölgar þeim offeitu í sífellu með tilheyrandi fylgikvillum. 

Það er allt í lagi að vera tortrygginn á það sem sagt er og skrifað. Því miður virðist samt þurfa sífellt meira af þeirri tortryggni því vísindin eru búin að svíkja okkur á svo mörgum sviðum.


mbl.is Hyggst sanna að jörðin sé flöt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgaðu bara og þegiðu

Íslendingar eru mjög stoltir af lífeyrissjóðskerfinu sínu. Það mega þeir líka alveg vera. Lífeyrir á ekki að koma skattgreiðendum við. Víða um heim rekur ríkisvaldið svokallaða gegnumstreymissjóði. Menn borga þá lítið í lífeyrissjóði og þiggja svo lífeyri úr ríkissjóði. Mörg ríki eru tæknilega gjaldþrota vegna slíkra skuldbindinga og hætt við að óvinnufærir eldri borgarar þurfi að finna rækilega fyrir niðurskurðarhnífnum í náinni framtíð.

Á Íslandi er reynt að haga hlutum þannig að það sé til innistæða fyrir ellilífeyrinum.

Kerfið er samt ekki fullkomið.

Lífeyrir er skyldusparnaður fyrir allt vinnandi fólk. Það er ekki hægt að sleppa því að borga í lífeyrissjóð, t.d. á meðan manneskja er að borga niður dýrt húsnæðislán. Menn eru neyddir til að leggja fyrir og spara á lágum vöxtum þótt þeir séu að borga niður lán á háum vöxtum. 

Hvað yrði um mann í námskeiði í heimilisbókhaldi sem legði slíkt fyrirkomulag til? Hann fengi falleinkunn. 

Lífeyrir fer í allskonar fjárfestingar sem að hluta eru ákvarðaðar með lögum og að hluta af sérfræðingum lífeyrissjóðanna. Sjóðsfélagar hafa þarna litla eða enga aðkomu. Jú, þeir geta e.t.v. kosið um einhvers konar fjárfestingarstefnu, en það er ekki hægt að skikka lífeyrissjóðinn til að kaupa gull, Rolex-úr, iðnaðarhúsnæði, sumarbústaðarland eða hlut í sprotafyrirtæki, svo dæmi séu tekin.

Mikið af lífeyri landsmanna er bundinn í opinberum skuldum hins opinbera og hlutabréfum fyrirtækja í áhættusömum rekstri. Stjórnmálamenn vilja fjármagna framkvæmdir sem kaupa þeim atkvæði með peningum lífeyrissjóðanna. Sumir vilja að lífeyrissjóðir fjárfesti í pólitískum rétttrúnaði, t.d. fyrirtækjum sem konur eiga eða fyrirtækjum sem framleiða íhluti í sólar- og vindorkuframleiðslu. 

Það er allt í góðu með að fólk safni í sjóði. Fyrir suma er það samt heimskulegt. Fyrir aðra er það ótímabært. Fyrir enn aðra er það sóun á fé. Og þegar allt kemur til alls eiga sjóðsfélagar ekkert í sjóðunum: Þeir erfast ekki og er ekki hægt að fá útgreidda sem eingreiðslu. 


mbl.is Helgi í Góu skorar á lífeyrissjóðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálin og sjávarútvegurinn: Banvæn blanda

Sjávarútvegurinn er umdeildur atvinnuvegur á Íslandi. Honum gengur líka yfirleitt vel og það getur verið varasamt.

Það finnst öllum frábært að útvegurinn leggi á sig alla vinnuna. Það þarf að ákveða hvaða fiska á að veiða, hvar og hvenær. Það þarf að velja réttu skipin og veiðarfærin og halda því öllu saman við. Það þarf að ráða menn til vinnu og borga þeim. Það þarf að vinna aflann, flaka hann, flytja og ferja á milli heimshluta. Það þarf að ákveða á hvaða markað á að setja hvað til að hámarka söluverðmætið. Það þarf að flokka afla og ákveða hvað skal selt frosið, ferskt, þurrkað eða brætt. Það þarf að pakka sumu í stórar umbúðir og aðrar í litlar. 

Í stuttu máli: Það er ekkert sjálfgefið við það að hagnast á veiði fiska. Það er í raun flókið mál. 

Að lokum þarf að gera upp og reikna út hagnað eða tap af starfseminni.

Komi í ljós hagnaður eru margir fljótir að segja að útvegurinn hafi fengið arð af auðlind þjóðar og að hann þurfi að skattleggja í ríkissjóð. Verði sú skattlagning of há leiðir það til samdráttar í greininni því eftir því sem rekstraraðilinn er stærri, því líklegra má telja að honum takist að lifa af skattheimtuna.

Komi í ljós tap verða margir áhyggjufullir. Fólk óttast uppsagnir og töpuð störf. Fari svo er talað um að það þurfi að veita byggðakvóta, veikja gengið og grípa til sérstakra ráðstafana.

Þeir sem tala um að vilja skattleggja sjávarútveginn enn meira en um leið að sjávarútvegurinn þurfi að vera sem víðast til að tryggja byggð í hverjum firði eru auðvitað í mótsögn við sjálfan sig.

Þeir sem tala um að vilja auðvelt aðgengi að sjávarútvegi fyrir nýliða (trillukallinn?) en um leið að sjávarútvegur eigi að borga himinháa skatta eru líka í mótsögn við sjálfa sig.

Þeir sem telja sjávarútveginn þéna of mikið eru bara að horfa á ársuppgjör stærstu og hagkvæmustu fyrirtækjanna, sem eru um leið að styrkjast eftir því sem skattheimtan kreistir lífið úr samkeppnisaðilum þeirra.

Byggðakvótinn svokallaði er plástur á það sár sem ríkisvaldið hefur sjálft valdið sjávarútvegnum. Væri ekki nærtækara að hætta að særa sjávarútveginn og afnema þessar sértæku ríkisaðgerðir, sem virka um leið til atkvæðakaupa fyrir stjórnmálamenn án hugsjóna?


mbl.is Sértækur byggðakvóti eykst um 12%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki hægt að ná samkeppnisforskoti út á brottkastið?

Í margs konar iðnaði leggja menn mikið kapp á að ákveðið vörumerki standi fyrir ákveðnum gæðum. Menn eyða fúlgum í að innleiða gæðakerfi og verða sér út um ákveðna vottun sem má setja á umbúðir eða í auglýsingar. Hugsunin er svo sú að neytendur verðlauni fyrirtækið og velji frekar vörur þess og þjónustu en annarra.

Þannig verða margir framleiðendur sér úti um allskyns vottanir sem segja að framleiðslan sé lífræn, sjálfbær, umhverfisvæn, án aukaefna eða ýmislegt í þessum dúr.

Í sjávarútvegi horfir þetta öðruvísi við. Hér eru í gildi ákveðin lög og þeim er svo framfylgt af hinu opinbera. Það er gert ráð fyrir að á meðan enginn sætir kæru fyrir lögbrot þá uppfylli viðkomandi bókstaf laganna.

Svo virðist sem þetta sé falskt traust. 

Svipað falskt traust ríkir í kringum bankana sem eiga að lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins og bænda sem eiga að lúta eftirliti ýmissa eftirlitsaðila. 

Er e.t.v. kominn tími til að fjarlægja hið falska traust af útgerðinni? Ef útgerðin vill höfða til neytenda þarf hún þá að verða sér úti um óháða vottunaraðila sem stimpla ekki hvað sem er. Kannski væri hægt að búa til vottunina "sjálfbærar veiðar" sem fela í sér að það sé ekkert brottkast eða að brottkast sé háð ströngum skilyrðum. Útgerðin hættir að borga hinu opinbera fyrir eftirlitið og leitar til óháðra eftirlitsaðila sem keppa sín á milli í trausti, bæði skjólstæðinga sinna og neytenda.

Slíkt væri ekki fáheyrt, óþekkt eða út úr kú. Allir vita að opinbert eftirlit getur verið gott og getur verið skítt, en að það mæti engu markaðsaðhaldi og hafi því tilhneigingu til að búa falskt traust. 

Yfirvöld og útgerðaraðilar, er ekki kominn tími til að breyta til?


mbl.is „Subbuskapur af verstu gerð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar tölvan segir nei

Aðdáendur þáttanna Little Britain þekkja vel atriðin þar sem tölvan segir nei við öllu.

Svona er þetta víðar en í fyndnum, breskum grínþáttum. Fréttir segja nú frá fólki sem býr í allskyns húsnæði sem tölvan veit ekki að hýsir fólk alla daga ársins. Þetta er dæmi um tölvu sem segir nei. 

Einu sinni voru opinber skráningarkerfi ætluð til að skrá það sem fór fram í samfélaginu. Núna eru þau notuð til að stjórna því hvað fólk gerir. Ef tölvan segir nei er það ekki leyfilegt. Í staðinn ætti tölvan bara að taka við upplýsingum um raunveruleikann sé á annað borð áhugi á því að skrásetja raunveruleikann.


mbl.is Geti átt lögheimili í frístundabyggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband