Er ekki hægt að ná samkeppnisforskoti út á brottkastið?

Í margs konar iðnaði leggja menn mikið kapp á að ákveðið vörumerki standi fyrir ákveðnum gæðum. Menn eyða fúlgum í að innleiða gæðakerfi og verða sér út um ákveðna vottun sem má setja á umbúðir eða í auglýsingar. Hugsunin er svo sú að neytendur verðlauni fyrirtækið og velji frekar vörur þess og þjónustu en annarra.

Þannig verða margir framleiðendur sér úti um allskyns vottanir sem segja að framleiðslan sé lífræn, sjálfbær, umhverfisvæn, án aukaefna eða ýmislegt í þessum dúr.

Í sjávarútvegi horfir þetta öðruvísi við. Hér eru í gildi ákveðin lög og þeim er svo framfylgt af hinu opinbera. Það er gert ráð fyrir að á meðan enginn sætir kæru fyrir lögbrot þá uppfylli viðkomandi bókstaf laganna.

Svo virðist sem þetta sé falskt traust. 

Svipað falskt traust ríkir í kringum bankana sem eiga að lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins og bænda sem eiga að lúta eftirliti ýmissa eftirlitsaðila. 

Er e.t.v. kominn tími til að fjarlægja hið falska traust af útgerðinni? Ef útgerðin vill höfða til neytenda þarf hún þá að verða sér úti um óháða vottunaraðila sem stimpla ekki hvað sem er. Kannski væri hægt að búa til vottunina "sjálfbærar veiðar" sem fela í sér að það sé ekkert brottkast eða að brottkast sé háð ströngum skilyrðum. Útgerðin hættir að borga hinu opinbera fyrir eftirlitið og leitar til óháðra eftirlitsaðila sem keppa sín á milli í trausti, bæði skjólstæðinga sinna og neytenda.

Slíkt væri ekki fáheyrt, óþekkt eða út úr kú. Allir vita að opinbert eftirlit getur verið gott og getur verið skítt, en að það mæti engu markaðsaðhaldi og hafi því tilhneigingu til að búa falskt traust. 

Yfirvöld og útgerðaraðilar, er ekki kominn tími til að breyta til?


mbl.is „Subbuskapur af verstu gerð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þessi vottun og þessi kerfi eru þegar fyrir hendi hjá mörgum söluaðilum. En það er bara ekki nóg að sumir séu ábyrgir meðan aðrir haga sér eins og minkar í hænsnakofa.  Hér verður að koma til alls herjar viðhorfsbreyting allt frá löggjafanum til söluaðilanna. En fyrst þarf að skilgreina hvað í hugtakinu sjálfbærni felst. Sjálfbærni þýðir nefnilega allt annað og meira en veiða hæfilega lítið úr viðkomandi stofni. Sjálfbærni kallar á ábyrga umgengni en hún fer svo aftur illa saman við kappið sem fylgir sjálfum veiðiskapnum.

Það sem þarf að gera er að breyta kerfinu. Kerfi sem býr til glæpamann úr notanda sínum er slæmt kerfi. Við þurfum kerfi sem umbunar en ekki kerfi sem refsar.  Á meðan leyfum til veiða er úthlutað af ríkinu án réttláts endurgjalds þá er enginn hvati hjá kvótaþega til að nýta sinn hlut á sem ábyrgastan hátt. Eini hvati hans er að hámarka arðinn af þessari ókeypis úthlutun og bíða svo eftir næstu ókeypis úthlutun eftir ár.

Við getum nefnilega ekki uppfyllt bæði skilyrðin í einu. Hin markaðslegu og hin sósialísku. Lausnin er ekki að herða eftirlit eða að einkavæða það eins og þú ýjar að. Lausnin er að útrýma græðginni og gróðahugsuninni.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 22.11.2017 kl. 14:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband