Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2022

Hinn nýi rasismi góða fólksins

Í svolitlu spjalli hérna í vinnunni spyr vinnufélagi okkur sem sátum við borðið hvort fyrirtækið mætti ráða Rússa til starfa. Honum fannst það ólíklegt. Slíkt myndi jú hjálpa Pútín því venjulegir Rússar gætu gert það sama og aðrir - flutt erlendis og tekið að sér starf. Það væri því sennilega hyggilegra að útiloka Rússa frá fyrirtækinu og byggja upp gremju og reiði venjulegra Rússa gagnvart rússneskum stjórnvöldum. Eða það er kenningin.

Þau mótrök voru nefnd að slíkt myndi bara þjappa Rússum að baki Pútín. Ef umheimurinn hatar mann vegna þjóðernis eða aðgerða stjórnvalda sinna þá hafði jú forsetinn rétt fyrir sér og vissara að styðja við hann. Einnig var nefnt að ef Rússar vilja flýja land með alla sína hæfileika og getu þá er slíkt nú varla að fara hjálpa rússneskum yfirvöldum. Nema síður sé.

Fyrir um 10 árum var ég að hjálpa manni að finna húsnæði og koma sér fyrir í dönsku samfélagi. Sá maður var að flýja með hæfileika sína og kunnáttu frá Úkraínu. Var ég að styðja við úkraínskar nýnasistahreyfingar og spillta ólígarka með því að aðstoða þennan Úkraínumann? Nei, það tel ég ekki.

En það sem situr eftir í mér að þessar samræður hafi í raun farið fram. Að við ræðum aðgerðir gegn venjulegum óbreyttum borgurum af því yfirvöld þeirra eru að gera eitthvað. Við tölum ekki á þessum nótum um flóttamenn eða óbreytta borgara frá neinu öðru ríki. Ef einhver vill flýja Ungverjaland þá talar enginn um að slíkt gæti hjálpað forseta Ungverjalands. Nei, flóttamaður að flýja herkvaðningu, pólitískar ofsóknir eða gúlagið hefur yfirleitt fengið að flýja og fundið móttökuland.

Þetta kæruleysislega samtal um mismunun á óbreyttum rússneskum borgurum er hið nýja kynþáttahatur og það er ekki bara umborið heldur beinlínis nýjasta tíska. Þið sem teljið ykkur tilheyra góða fólkinu eruð í orði og verki rasistar og vantar bara að þið lýsið því yfir, jafnvel af nokkru stolti.

Velkomin til ársins 2022.


Til varnar 37 milljarða útgjaldaaukningu

Fjármálaráðherra leggur til að frumútgjöld ríkissjóðs á næsta ári verði 37 milljörðum meiri en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í september. Á þessu eru auðvitað skýringar: Heilbrigðiskerfið þarf að bæta á sig fitu, greiða þarf vexti af lántökum veirutímanna, flóttafólk þarf húsnæði sem þarf að sækja á leigumarkað í samkeppni við almenning, illa rekin sveitarfélög þurfa svolítið meira í sína sjóði og erlend stórfyrirtæki sem framleiða afþreyingu ofan í frítíma okkar þurfa endurgreiðslur á sköttum sem öðrum stendur ekki til boða.

En það vantar samt einhverjar skýringar, er það ekki? Eitthvað sem skýrir hvers vegna ríkissjóð eigi að reka með halla á næsta ári á sama tíma og útgjöld úr honum eigi að auka. Eitthvað sem útskýrir af hverju það er góð hugmynd að bæta við skuldir sínar til auka neysluna, í stað þess að hagræða og einbeita sér að grunnþörfunum.

Lítum aðeins framhjá litríkum línuritum hins opinbera og kíkjum undir húddið. Hvað er ríkisvaldið eiginlega að vasast í? Hvaða mörgu tannhjól eru að snúast á kostnað skattgreiðenda, fyrir utan þessi sem við heyrum um í sífellu?

Til að skilja það eru fáir staðir betri en Starfatorg.is þar sem ríkisvaldið auglýsir laus störf á sínum vegum.

Þar er nú auglýst eftir sérfræðingi í að fá rafbílaeigendur til að borga sinn skerf í uppbyggingu og viðhald vegakerfisins um leið og tekjulágir eru þvingaðir í strætó:

Störf við að móta nýtt fyrirkomulag tekna af samgöngum til framtíðar

Við leitum að lausnamiðuðum sérfræðingum með áhuga á að taka þátt í að móta samgöngugjöld framtíðarinnar.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið og innviðaráðuneytið áforma að setja á fót verkefnastofu um samgöngugjöld og flýtifjármögnun samgönguinnviða. Vegna orkuskipta í vegasamgöngum fara hefðbundnar skatttekjur ríkissjóðs af ökutækjum og eldsneyti þverrandi. Þá hafa stjórnvöld áform um að flýta samgönguframkvæmdum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, einkum í jarðgangagerð. 

Í ljósi þessa leggja ráðuneytin áherslu á að mótuð verði heildstæð framtíðarsýn um breytt fyrirkomulag gjaldtöku af ökutækjum, eldsneyti og afnotum vegakerfisins sem geti orðið sjálfbært til langrar framtíðar. Verkefnastofunni er ætlað að vinna að úrlausnarefnum á þessu sviði í samstarfi við sérfræðinga ráðuneytanna og sérstaka samráðsnefnd um málefnið. Markmiðið er að allir helstu þættir í nýju kerfi samgöngugjalda verði gangsettir fyrir árslok 2024. 

Hér dugir ekkert minna en háskólagráða á meistarastigi. Þekking á samgöngumálum er kostur. Og látum nú ekki hugtakið verkefnastofa byrgja okkur sýn. Hér er um að ræða enn eina opinberu nefndina.

Ríkinu vantar einnig móttökuritara með háskólagráðu:

Sérfræðingur á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs

Vatnajökulsþjóðgarður auglýsir laust til umsóknar starfs sérfræðings á vestursvæði þjóðgarðsins með aðsetur á Kirkjubæjarklaustri. Starfsstöðvar vestursvæðis eru Skaftárstofa á Kirkjubæjarklaustri, Nýidalur, Tungnaáröræfi/Hrauneyjar, Eldgjá, Langisjór og Lakagígar. Starf sérfræðings heyrir beint undir þjóðgarðsvörð á svæðinu. Um er að ræða fjölbreytt og skemmtilegt heilsársstarf.

Helstu verkefni og ábyrgð 

    • Umsjón með gestastofu og þjónustu við gesti á svæðinu.
    • Dagleg verkstjórn og utanumhald um vinnu landvarða og annarra starfsmanna í samvinnu við þjóðgarðsvörð.
    • Gerð og miðlun fræðslu og annarra upplýsinga til gesta og starfsmanna.
    • Móttaka hópa og utanumhald viðburða í gestastofu.
    • Samstarf, eftir því sem við á, við stofnanir, skóla, ferðaþjónustuaðila, félagasamtök, atvinnulíf og aðra hagsmunaaðila í samstarfi við næsta yfirmann.
    • Önnur tilfallandi verkefni svo sem eftirlit með innviðum, öryggismál og fleira. 

Hér fá skattgreiðendur svo sannarlega eitthvað fyrir sinn snúð enda ekki stætt á öðru þegar ríkissjóður safnar skuldum og hækkar skatta til að jafna sig á heimatilbúnum rekstrarvandræðum veirutíma.

Síðan má ekki gleyma hinum aðkallandi og áríðandi utanríkismálum, en þar vantar nú manneskju með háskólagráðu á meistarastigi:

Verkefnisstjóri í alþjóðamálum

Forsætisráðuneytið óskar eftir að ráða verkefnisstjóra í alþjóðamálum til starfa með alþjóðafulltrúa ráðuneytisins á skrifstofu stjórnskipunar og stjórnsýslu. 

Helstu verkefni og ábyrgð

Verkefnisstjórinn sinnir málefnum er tengjast formennsku Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins (nóvember 2022 til maí 2023) og er tengiliður við utanríkisráðuneytið sem ber ábyrgð á framkvæmd og skipulagi fyrirhugaðs leiðtogafundar Evrópuráðsins hér á landi í maí 2023.

Lengri er sú starfslýsing ekki. Færni í frönsku er kostur. 

Já, hið opinbera heldur sig svo sannarlega við vel afmörkuð verkefni, rekstur nauðsynlegra grunnstoða, viðhald þéttriðins öryggisnets fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda í lífinu og passar um leið upp á að stunda hóflega skattheimtu á vinnandi fólk og varast að skuldsetja börnin of langt fram í tímann.

Og núna sérðu hvernig.


Bregðast kínversk krosstré eins og önnur?

Takmarkanir í nafni sóttvarna voru ekki byggðar á neinum sérstökum vísindum, svo því sé haldið til haga. Þau voru ígildi manns sem labbar inn í dimmt herbergi og þreifar sig áfram í sífellu og veit ekkert hvað mætir honum. Í stað þess bara að kveikja á peru til að sjá betur.

Kínverjarnir kenndu okkur að loka fólk inni og það tók 2 ár að rifja upp fyrri viðbrögð og leiðbeiningar við veirusýkingu. Núna skella veirurnar á okkur eins og flóðbylgja og heilbrigðiskerfið auðvitað undir álagi en að hluta til er það álag meira en ella vegna fyrri sóttvarnaraðgerða og veiklaðra ónæmiskerfa. 

En aftur að Kínverjunum. Þeir eru loksins byrjaðir að mótmæla og hvað gerist þá? Jú, takmörkunum er að hluta aflétt! Það eru nú öll vísindin: Að traðka á fólki þar til það kvartar svo kröftuglega að það er ekki þorandi að traðka meira á því. 

Á Íslandi þurfti að kjósa til Alþingis og skipta um heilbrigðisráðherra til að losna við takmarkanir. Ekki vísindi. Ekki ný þekking. Nei, nýr stjórnmálamaður í brúnni. 

Íslenskur almenningur framlengdi takmarkanir á sjálfum sér með því að mótmæla ekki. Ekki í verki, ekki í ræðu, ekki í riti, ekki á þingi. Þetta má kalla næsta bæ við að hreinlega biðja um að láta lemja sig og fleygja atvinnulausum út á götu en bent á að það megi sækja um bætur fyrir ónæðið. 

Kínversk krosstré bregðast eins og önnur þótt þau séu sterk. Yfirvöld í Kína hafa gott kverkatak á þegnum sínum. En þessi vestrænu entust líka miklu lengur en maður hefði búist við í samfélagi málfrelsis og lýðræðis, kannski af því við hættum að verja málfrelsið og lýðræðið.


mbl.is Slakað á takmörkunum vegna mótmæla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svolítil andspyrna við dynjandi áróður ríkisvalds og fjölmiðla

Það hefur komið glöggt í ljós á síðustu tæpu þremur árum að það frjálsa og opna samfélag sem við töldum okkur búa í á Vesturlöndum stendur á krossgötum. Þvinganir gagnvart daglegu venjubundnu lífi fólks, fordæmalausar áróðursherferðir og innræting af hálfu stjórnvalda, og síðast en ekki síst þöggun og útilokun þeirra sem ekki fylgja hinni opinberu forskrift, allt gengur þetta þvert gegn þeim hugsjónum um lýðræði og mannréttindi sem liggja til grundvallar lýðræðisþjóðfélögum nútímans.

Þetta eru upphafsorð kynningartexta nýs vefmiðils, Krossgötur, sem er og verður rekinn af nýstofnuðum samtökum, Málfrelsi. Þau samtök eru stofnuð 

... í þeim tilgangi að standa vörð um opna og frjálsa umræðu og ákvörðunarvald hins hugsandi einstaklings sem efast; undirstöðu frjáls lýðræðissamfélags. Félagsmenn stuðla að vitundarvakningu og vekja fólk til umhugsunar með útgáfu, fundahöldum, greinaskrifum og þátttöku í samfélagsumræðu.

Ég er viðloðinn bæði vefmiðilinn og félagið og hlakka til að styðja við hvoru tveggja. Ég verð þar í félagsskap með hægri- og vinstrimönnum, sósíalistum og kapítalistum, konum og körlum. Viðloðandi starfið verða bæði Sjálfstæðismenn og Vinstri-grænir, óflokksbundnir og flokksbundnir, ungir og gamlir. Þetta verður gott, og ég hvet þig til að fylgjast með.


Hvenær verður bíllinn endanlega tekinn af venjulegu fólki?

Ég var í svolitlum samskiptum við góðan vin um hitt og þetta og í þeim sendir hann mér eftirfarandi hugleiðingu um bíla og efnahag sem mér finnst mjög áhugaverð og finnst að eigi erindi við fleiri:

Hvar rafbílana varðar þá eru þeir merkilega góðir að lifa með þeim þegar maður hefur efni á því en alls ekki hagkvæmasta lausnin fyrir veskið. Þeir eru lúxusgræjur ég á svoleiðis af því að ég vil græju en átta mig á því að þeir eru ekki móðir allra lausna og henta ekki öllum sér í lagi þeim tekjulægri sem munu lenda í vanda eftir því sem bílar verða dýrari og flóknari græjur með harðnandi reglum og útblástursmörkum tala nú ekki um þegar einfaldi bensínbíllinn verður bannaður þá erum við að skrifa með lögum fólk í fátækt eða á miskunn borgarlínunnar (verðin eru nú þegar að slide-a upp hratt og á hinum endanum er verið að auka kröfur til bíla í reglubundinni skoðun).

Maður spyr sig: Hvenær verður bíllinn endanlega tekinn af þeim tekjulágu?

Fyrir ekki mjög mörgum árum voru farskjótar bara aðgengilegir fyrir þá ríku. Ég er þá að meina hesta. Fjöldaframleidda bifreiðin breytti þessu. Hagkvæmt eldsneyti sömuleiðis. Venjulegur launamaður getur, í bili, leyft sér að skjótast á milli staða, nær og fjær, án þess að eyða öllum launum sínum í það. Hann getur keyrt hringinn í kringum Ísland, í útilegur, og í og úr vinnu, auðvitað, með viðkomu í matvöruverslun. 

Þessu á að breyta. Það er meðvitað eða ómeðvitað verið að taka bílinn af venjulegu fólki með því að gera hann óyfirstíganlega dýran, endingalítinn, viðhaldsfrekan og skammdrægan. 

Í nafni loftslagsbreytinga auðvitað, en það er bara átylla. Venjulegt fólk að keyra venjulega bíla er ekki að leiða til breytinga á loftslagi jarðar, og þetta sjá menn jafnvel þótt þeir kaupi kenninguna um áhrif koltvísýringslosunar á loftslagið. 

Loftslagsbreytingar eru ekki drifkrafturinn. Miklu frekar er hér að baki óþol á lífsstíl hins venjulega manns. Hann á ekki að geta skotist til útlanda í farþegaþotu. Hann á ekki að geta skroppið á bíl í búð. Hann á ekki að borða kjöt. Hann á ekki að nota plastpoka. 

Honum á að blæða.

Ferlið er vel á veg komið. Það mætir lítilli andspyrnu. Og í raun er það þér að kenna, og mér, og öllum sem eru bara að reyna vinna, lifa af, reka heimili og finna svigrúm til að njóta lífsins.

Eða ertu að bíða eftir því að stjórnmálamenn með rikuleg eftirlaun í vændum geri eitthvað?

Þú um það.


Hið opinbera í samkeppni við einstaklinga

Leigumarkaðurinn er ævintýri í mörgum borgum og Reykjavík er þar engin undantekning. Ég heyrði frá aðila sem þekkir mjög vel til hans að það sé alveg einstaklega erfitt að finna leiguhúsnæði núna því hið opinbera leigir húsnæði í stórum stíl til að koma þar fyrir innflytjendum. Ekki skrýtið í ljósi þess hvað þeir eru margir.

Það hljómar e.t.v. kalt en í raun er verið að forgangsraða innflytjendum ofar en innfæddum, og innfæddir fá að auki að borga brúsann. 

Tvöfalt spark í höfuðið, með öðrum orðum.

En hvað er til ráða? Er ekki til nóg af húsnæði? Jú, vissulega. Mér skilst að mörg þúsund fermetrar af handónýtu verslunarhúsnæði liggi dauðir og mætti breyta í íbúðahúsnæði með einfaldri breytingu á einhverjum pappír (og svolítilli vinnu iðnaðarmanna), en er yfirleitt ekki gert, hvorki fyrrsíðar

Það mætti líka mögulega hugleiða að koma innflytjendum fyrir í húsnæði sem innfæddir eru ekki að slást um. 

En yfirvöldum er alveg sama. Þau eru að eltast við sviðsljósið og vilja líta út fyrir að vera miklir mannvinir sem hlúa að viðkvæmu flóttafólki og ofsóttum frelsishetjum. 

Og búa í leiðinni til innfædda flóttamenn og ofsótta skattgreiðendur sem hrökklast á milli leiguhúsnæðis á svimandi verðlagi sem yfirvöld hækka með því að stækka leigjendamarkaðinn með innflytjendum.


mbl.is Árborg mun taka á móti allt að 100 flóttamönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aflátsbréf nútímans

Í dag birtist í Morgunblaðinu pistill ársins að mínu mati, Iðrun, ótti og heilmikill greiðsluvilji, eftir Ásgeir Ingvarsson, blaðamann. Hann er aðgengilegur hér (á bak við innskráningarvegg, ekki áskriftarvegg). Ég mæli vitaskuld með því að allir lesi pistilinn í heilu lagi en stenst ekki að grípa í nokkrar efnisgreinar og endurbirta:

Í dag hlæj­um við að af­láts­bréfa­hag­kerf­inu og get­um varla skilið hvernig fólk gat látið plata sig svona, en gleym­um að mann­skepn­an hef­ur ósköp lítið breyst og að innsta eðli okk­ar er það sama og fyr­ir sex hundruð árum.

Mann­fræðing­arn­ir minna á að það er held­ur ekki að ástæðulausu að hér um bil öll sam­fé­lög hafa þróað með sér trú­ar­brögð með ein­hvers kon­ar ham­fara­sögu. Trú á æðri mátt­ar­völd og ótt­inn við refs­ingu yf­ir­nátt­úru­legra afla hef­ur verið hluti af til­veru forfeðra okk­ar í þúsund­ir ára. Því er ekki skrítið, nú þegar trú­in hef­ur meira eða minna fengið að víkja, að eitt­hvað keim­líkt fylli í skarðið. Hér áður fyrr hótuðu prest­arn­ir því að við mynd­um stikna, en nú hafa ábúðar­mikl­ir um­hverf­is­vernd­arsinn­ar tekið við.

Og:

Í kór­ónu­veirufar­aldr­in­um sáum við (bara á miklu styttri tíma) ná­kvæm­lega sama fyr­ir­bæri og við höf­um séð í lofts­lagsum­ræðunni:

Óvandaðar rann­sókn­ir og spár urðu til þess að magna upp geðshrær­ingu. Fjöl­miðlar (í leit að smell­um) og stjórn­mála­menn (í leit að nýj­um leiðum til að gera sjálfa sig ómiss­andi) helltu olíu á eld­inn. Al­menn­ing­ur hírðist heima við, skjálf­andi á bein­un­um: löngu verðskulduð refs­ing­in var loks­ins kom­in og eina lausn­in að rjóða sótt­hrein­sig­eli á dyr­astafi heim­il­anna.

Þegar kvíðinn hafði skotið rót­um reynd­ist ill­mögu­legt að koma nokkru viti fyr­ir fólk. Þeir sem vildu hinkra ör­lítið og skoða mál­in bet­ur voru sakaðir um að vilja kála gamla fólk­inu og fóðra sjúk­linga á hrossa­lyfj­um. Þeir sem mót­mæltu voru ým­ist hafðir að háði og spotti eða reynt að svipta þá æru og starfi fyr­ir að viðra efa­semd­ir og synda gegn straumn­um.

Nú er smám sam­an að koma bet­ur í ljós að efa­semda­fólkið hafði á réttu að standa. Viðbrögð stjórn­valda voru kol­röng og gerðu illt verra. Er ekki ósenni­legt að bólu­efn­in svo­kölluðu hafi gert meira ógagn en gagn.

Loftslag, veirulokanir, innflytjendur, endurvinnsla, ein tiltekin átök, rafmagnsbílar og innræting á ungu fólki má allt kosta svimandi fjárhæðir. Örorkubætur, innviðir og viðhald má helst ekki kosta neitt. 

Ég geri lokaorð Ásgeirs að mínum:

Ef það er eitt­hvað sem við ætt­um að hafa lært á und­an­förn­um þrem­ur árum þá er það að hlusta ör­lítið bet­ur á þá sem synda á móti straumn­um og taka mikla per­sónu­lega áhættu með því að viðra óvin­sæl­ar skoðanir; þegar það virðist sem að aðeins ein skoðun sé leyfi­leg ætt­um við að sanka að okk­ur sem mestu efni og lesa með al­veg sér­stak­lega opn­um huga.

Og svo get­um við kannski gert það að reglu, til að grisja þá sann­trúuðu frá tæki­færis­sinn­un­um, að lofts­lags­ráðstefn­ur og aðrir viðburðir af sama toga muni héðan í frá aðeins fara fram á ein­stak­lega óspenn­andi stöðum. Ekki í Madríd, Marra­kess, Par­ís eða Líma held­ur miklu frek­ar í út­hverfi Bir­ming­ham á blaut­asta og kald­asta tíma árs­ins. Mér seg­ir svo hug­ur að þá yrði frek­ar tóm­legt í fund­ar­söl­un­um.

Heyr, heyr!


Er sprautan útrunnin eða ekki?

Ahh, þessar gömlu góðu bólusetningar! Þessar sem við þáðum sem krakkar og njótum nú alla ævi. Til dæmis þessar gegn mænusótt (polio, lömunarveiki), sem er skelfilegur sjúkdómur. Samkvæmt dönskum heilbrigðisyfirvöldum í það minnsta (feitletrun mín):

Når barnet er 5 år, får det endnu en vaccination mod difteri, stivkrampe, kighoste og polio. Barnet vil herefter være beskyttet mod difteri og stivkrampe i yderligere 10 år. Vaccinationen beskytter mod kighoste i 5-10 år og mod polio resten af livet

**********

Þegar barnið er 5 ára fær það aðra bólusetningu gegn barnaveiki, stífkrampa, kíghósta og lömunarveiki. Barnið verður síðan varið gegn barnaveiki og stífkrampa í 10 ár í viðbót. Bólusetning verndar gegn kíghósta í 5-10 ár og gegn lömunarveiki það sem eftir lifir.

Gott og vel. Barnabólusetningin verndar gegn mænusótt alla ævi. Að minnsta kosti í Danmörku.

En hvað segja íslensk sóttvarnaryfirvöld? Eitthvað annað! Tilvitnun (feitletrun mín):

Sóttvarnarlæknir mælir sérstaklega með því að fólk 24 ára og eldra sem ekki hefur fengið bólusetningu gegn barnaveiki og mænusótt á síðustu 10 árum fái slíka bólusetningu fyrir öll ferðalög erlendis. 

Í tilviki barnaveiki rennur sprautan út eftir 10 ár á bæði Íslandi og í Danmörku. Í tilviki mænusóttar rennur íslenska sprautan út eftir 10 ár en sú danska aldrei.

Nú er ég í vafa. Ég fékk íslensku sprautuna á sínum tíma fyrir vel yfir 10 árum síðan. Samkvæmt íslenskum yfirvöldum er ég núna varnarlaus gegn mænusótt. Samkvæmt þeim dönsku ekki. Eru Danir að nota betri efni? Á ég að setjast við hlið dóttur minnar þegar hún verður 5 ára og biðja um sprautu líka? Verður hlegið að mér? Á ég að prenta út leiðbeiningar íslenskra yfirvalda og heimta sprautu?

Öll ráð vel þegin. Kannski ég hafi misskilið eitthvað hérna. 


Rafeldsneyti þarf rafmagn

Mikið er rætt um orkuskipti í Evrópu og Bandaríkjunum (flestir aðrir heimshlutar eru einfaldlega að tala um að fá einhverja orku - t.d. að skipta úr engri orku í einhverja orku eða lítilli orku í meiri orku). Gott og vel, möguleikarnir eru til staðar. Tæknilega er hægt að búa til eldsneyti fyrir bíla, flugvélar og orkuver án jarðefnaeldsneytis eða kjarnorku. Vetni má framleiða með rafgreiningu vatns og binda við koltvísýring eða köfnunarefni og búa til metanól eða ammoníak eða eitthvað annað. 

En til þess að framleiða rafeldsneyti þarf rafmagn og menn vanmeta held ég hversu mikið rafmagn ef menn ætla í raun og veru að losna við jarðefnaeldsneytið.

orkaLandsvirkjun, Samorka, Efla og Samtök iðnaðarins gerðu nokkuð um daginn sem mér fannst mjög upplýsandi: Þessir aðilar tóku saman orkuna sem jarðefnaeldsneytið sér Íslendingum fyrir í dag og settu í samhengi við þá orku sem íslensk orkuver framleiða. Niðurstaðan var sú að til að leysa af olíuna þurfi að virkja nokkurn veginn jafnmikið og búið er að virkja í dag. Það þarf með öðrum orðum alveg rosalega mikið rafmagn til að búa til nóg rafeldsneyti til að leysa olíuna af (nema það takist að flæma álverin úr landi, og allan afleiddan iðnað tengdum þeim).

Þetta samhengi er sjaldnast veitt, a.m.k. í evrópskri umræðu. Menn tala um að setja upp svo og svo mikið af vindmyllum - gígavatt hér og gígavatt þar - og tölurnar eru stórar og áætlanirnar kostnaðarsamar. En sjaldan er boðið upp á neitt samhengi - t.d. nefna að gangi allar framkvæmdir eftir þá megi minnka olíunotkun um svo og svo mörg prósent eða hvaðeina. Ástæðan er einfaldlega sú að meira að segja ævintýralegustu áætlanir um vindmyllur og sólarorku rispa varla yfirborðið á orkuþörfinni sem jarðefnaeldsneytið sér okkur fyrir í dag, og það er vandræðalegt að réttlæta svimandi fjárfestingar þegar heildarmyndin er nánast óbreytt.

Orkuskiptin fara fram í sífellu. Í Indlandi reisa menn kolaorkuver til að framleiða rafmagn þar sem áður voru greinar og sprek á báli. Í Afríku er víða engin orka og engin lausn í sjónmáli. Í Brasilíu eru menn að byggja upp inniviði fyrir vaxandi gasnotkun. Í Kína er orkuþörfin nánast óseðjandi og þegar Rússar hafa byggt nýtt gasrör til þeirra árið 2030 þá fá þeir allt það gas sem Evrópumenn fá í dag, og meira til. 

En það er allt í lagi að huga að valkostum við olíu og gas. Rafeldsneyti svarar til þess að rekast á olíu- eða gaslind í bakgarði sínum og gerast óháður flóknum aðfangakeðjum og óvissuþáttum. Fé hættir að streyma í sama mæli til spilltra prinsa. Losun allskyns agna í andrúmsloftið, svo sem úr Dísil-vélum, minnkar. En raunsæi er engin synd, og samhengi alltaf vel þegið.


mbl.is Vilja selja og dreifa rafeldsneyti á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efni sem eldist illa

Ég rakst fyrir tilviljun á litla grein í Reuters, rituð í mars 2021, þar sem farið er yfir þá fullyrðingu að mRNA-sprauturnar séu banvænar. Vísað er í eftirfarandi fullyrðingu og hún auðvitað úrskurðuð ósönn:

“IMPORTANT REMINDER: Most people who take the mRNA vaccine will be dead within 5 years. So far, 4.2 million doses have been administered in the United States, and that number is growing by the day. The population by 2025 may be HALF of what it is now, depending on how many take the mRNA vax.”

Þetta er auðvitað stór og dramatísk yfirlýsing og auðvitað engin leið að spá svona nákvæmlega fyrir um áhrif þess að sprauta megnið af samfélagi með glænýju glundri. En svo sannarlega hefur það reynst banvænt. Líftryggingafélögum fossblæðir, fæðingatíðni er mögulega að staðna og ævilíkur ríkja jafnvel að minnka vegna fjölda dauðsfalla meðal þeirra ungu. 

Á þessum vormánuðum ársins 2021 var margt á huldu, auðvitað. Sumir vildu hafa varann á og forðast ónauðsynlega lyfjagjöf gegn veiru sem var búið að kortleggja rækilega með tilliti til áhættuhópa og alvarleika. En alltaf var þrýst á að sprauta meira, ekki bara áhættuhópana, og sá þrýstingur jafnvel enn til staðar víða. Allir varnaglar sem við höfum venjulega á tilraunastarfsemi voru fjarlægðir. Læknar, sem í mörg ár voru búnir að vara við ofnotkun lyfja (t.d. sýklalyfja), voru nú komnir með nálarnar á loft og tilbúnir að sprauta allt sem hreyfðist. Og fjölmiðlar brugðust. Þeir spurðu ekki nauðsynlegra spurninga og fullyrtu út í loftið, og gera enn, að hið nýstárlega glundur sé safe and effective, og sú mantra endurtekin í öllum miðlum frá morgni til kvölds, svona eins og úr handriti.

Þeir voru uppnefndir álhattar og samsæriskenningasmiðir sem vildu takast á við veiru með gömlu góðu aðferðunum (t.d. forðast að hósta framan í ömmu og sofa af sér veikindi). Þeir voru kallaðir morðingjar sem vildu ekki ónauðsynlega lyfjagjöf. Það var í lagi að útskúfa venjulegu fólki úr samfélaginu fyrir að fara ekki í ákveðna sprautu. 

Og núna vilja þeir sem hrópuðu launalaust í gjallarhorn fyrir hönd lyfjafyrirtækjanna að við gleymum þessum tímum. 

Gleymdu því!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband