Bloggfærslur mánaðarins, mars 2022

Tölum ekki um nýnasistana í Úkraínu

Í Úkraínu og fleiri ríkjum Austur-Evrópu, þar á meðal Rússlandi, starfa öflugar, vopnaðar, óvægnar og á köflum vinsælar hreyfingar nýnasista. Þær fá ekki núll komma eitthvað prósent atkvæða þegar þær bjóða sig fram til þings. Nei, þær fá stundum vænan skerf atkvæðanna. Þetta þykir ekki fréttnæmt en ímyndið ykkur að yfirlýstur nýnasistaflokkur fengi 10% atkvæðanna í Alþingiskosningum. Það er meira en flestir flokkar fá í dag! Myndi þá einhver tala um að nýnasismi væri vinsæll - jafnvel landlægur - á Íslandi? Ég er hræddur um það.

En við skulum ekki minnast á slíkt ástand í Úkraínu. Eða eins og danskur blaðamaður komst að orði (í hressandi hreinskilni):

For vi skal selvfølgelig ikke negligere, at der er højreekstreme elementer i Ukraine – ligesom der i øvrigt også er i Rusland. Men vi skal være meget bevidste om ikke at spænde os selv for Putins propagandavogn.

Lausleg þýðing:

Því við skulum auðvitað ekki hunsa að það eru öfgahægrihreyfingar í Úkraínu - líkt og í Rússlandi vel á minnst. En við skulum vera mjög meðvituð um að draga ekki áróðursvagn Pútíns.

Já, þeir eru þarna, nýnasistarnir, en ef við ræðum það þá gerumst við málpípur Pútíns!

Er það nú blaðamennska! 

Þetta er ígildi þess að segja: Við ætlum að þegja eitthvað í hel.

Er það trúverðugur fréttaflutningur?

Miklu nær ætti að fjalla ítarlega um fjölmargar hreyfingar nýnasista í Úkraínu og útskýra hlutverk þeirra, sögu og vægi og hlutverk þeirra í dag í baráttunni gegn innrás Rússa. Séu þær í raun áhrifalausar og fámennar þá má draga þá ályktun byggða á staðreyndum og sagnfræði og grafa þannig undan málflutningi Pútíns. Að þegja eitthvað í hel gerir ekkert nema rýra traust á fjölmiðlum og er það ekki mikið fyrir.

Annars þarf maður að passa sig þegar ásakanir um að vera málpípa rússneskra yfirvalda og óskir um hægan dauða og vonda vist eftir dauðann eru byrjaðar að berast manni í tölvupóstum. Eða hvað?


Á að ýta Biden úr stól forseta núna?

Hunter Biden með krakkpípu í munninumÍ áhugaverðu innleggi á Zerohedge veltir höfundur því fyrir sér af hverju blöð eins og New York Times og Washington Post eru allt í einu núna byrjuð að veita því athygli að sonur Bandaríkjaforseta er eða var með vafasöm tengsl við Úkraínu og Kína - tengsl sem New York Post afhjúpaði fyrir forsetakosningarnar en sá samfélagsmiðla loka á sig og alla álitsgjafa tala um rússneska upplýsingaóreiðu.

Já, af hverju núna?

Nei, það hefur ekki komið neitt nýtt fram sem gerir fyrri gögn trúverðugri núna.

Nei, það er ekki eins og blaðamenn New York Times og Washington Post hafi vaknað upp við vondan draum og allt í einu uppgötvað að hér er um stórfrétt að ræða.

En hvað þá?

Ætli Washington-vélin sé kannski byrjuð að ýta Biden til hliðar? Grafa upp beinagrindur (gamlar og nýjar) og gera að fréttamat? 

Kannski fregnir af andlegri hrörnun komi næst?

Nema Biden verði látinn segja að hann vilji stíga til hliðar og eyða meiri tíma með fjölskyldunni.

Mig grunar að Biden verði horfinn úr stól forseta áður en sumarið er liðið og varaforsetinn, Kamala Harris, með sína ógnvægilegu sögu sem saksóknari, tekin við.

Úr öskunni í eldinn, svo það sé sagt.


Óþarfi að ljúgja jafnvel þótt það sé verið að boða áróður

Ég skil alveg að það sé bara leyfð ein skoðun í einu. Þannig líður okkur best. Þannig eru allir vinir. Bóluefnin virka og valda engum aukaverkunum, börn þurfa sprautur, Pútín er brjálaður fjöldamorðingi, NATO hefur ekki gert neitt af sér og forseti Úkraínu er óspilltur mannvinur.

En þótt áróðurinn sé stanslaust keyrður á okkur finnst mér samt að það sé óþarfi að ljúga. 

Tökum dæmi, úr frétt á Visir.is:

Í fréttinni kemur fram að rússnesk yfirvöld fari ekki lengur fram á Úkraína verði „af-nasistavædd“ en Rússar hafa haldið því fram, án þess að leggja fram sannanir þess efnis, að nasismi sé landlægur í Úkraínu.

Enginn nasismi í Úkraínu, gott og vel.

Grípum nú niður í grein á Wikipedia (en þar á bæ er allt óvinsælt fjarlægt) um þingkosningar í Úkraínu árið 2019, þar sem úrslitin voru eftirfarandi:

uk2019

Þarna er meðal annars flokkurinn Svoboda sem hlýtur rúmlega 2% atkvæðanna. Samkvæmt Wikipedia er flokkurinn "ultranationalist", sem í tungutaki stjórnmálanna mætti kalla öfga-hægrisinnaðan eða hallan undir nýnasisma. En 2% atkvæðanna er ekkert, er það nokkuð?

Í þessari grein BBC frá árinu 2012 er talað um "the rise of Svoboda". Flokkurinn fékk 10% atkvæða í kosningunum 2012 og tæplega 5% í kosningunum 2014. Í 2014-kosningunum fékk annar flokkur hallur undir nýnasisma, Right Sector, tæp 2% atkvæðanna. Árið 2015 var leiðtogi Right Sector útnefndur aðstoðarmaður yfirmanns úkraínska hersins. Leiðtogar nýnasista í Úkraínu vinna með og heilsa forsetanum. 

En bíddu nú við, er forsetinn ekki Gyðingur? Jú, en nýnasistar eru ekki endilega að eltast við Gyðinga. Úkraínskir nýnasistar vilja Rússana í burtu. Það eru þeirra "Gyðingar". Nú fyrir utan að nýnasistar Úkraínu teljast núna nauðsynlegir í baráttunni gegn innrás Rússa. Kannski tilraun Rússa til að útrýma nýnasistum í Úkraínu sé hreinlega að styrkja þá - að færa þá nær valdinu. 

Það eru þessar mörgu, öflugu og valdamiklu hreyfingar nýnasista sem rússnesk yfirvöld eru að vísa til. Það réttlætir ekki árásir og innrásir Rússa en það er óþarfi að láta eins og tilvist öflugra nýnasistahreyfinga sé ekki til staðar í Úkraínu. Þær eru það og þær eru óvægnar, vopnaðar og þjálfaðar og nú í fremstu víglínu að hrinda aftur innrás Rússa, sem meðal annars hefur fengið samfélagsmiðla til heimila yfirlýstan stuðning við þær, en slíkt mátti ekki áður en Rússar gerðu innrás.

Er okkur einhver sérstakur greiði gerður með því að afneita því sem er raunverulega til? Að okkur sé talin trú um að allt sem hrekkur af vörum Pútín sé lygi og uppspuni? Svona svolítið eins og Trump var meðhöndlaður og þegar var búið að kjósa hann frá völdum mátti allt í einu segja það sem hann sagði (Hunter Biden er spilltur, veira varð til á rannsóknarstofu, fíkn í rússneska orku er hættuleg Evrópu).

Ég skil að sumu leyti þá sem telja áróður vera einföldustu leiðina til að móta skoðanir okkar, en er ekki óþarfi að ljúga svona blákalt? 


Vondu kallarnir verða góðir

Nú þegar Vesturlönd (en ekki önnur) eru að reyna skera á viðskiptatengsl við Rússland með því að ráðast á rússneskan almenning með vöruskorti og biðröðum þá er eins og þörf til að endurskilgreina hverjir eru vondu kallarnir og hverjir ekki hafi myndast. 

Ég les núna að Bandaríkin eru að reyna koma á línu við yfirvöld í Venesúela eftir að hafa beitt ríkið viðskiptaþvingunum í áraraðir. Hér er svolítil greining á röð atburða og því haldið fram að bandarísk yfirvöld hafi misreiknað sig með því að telja sig geta svelt Venesúela (og íbúa ríkisins) til hlýðni og hafi í raun bara opnað á rússnesk áhrif í staðinn. Áhrif sem þarf núna að veikja með því að sleikja rassgatið á þeim sem áður voru vondu kallarnir.

Viðskiptaþvinganir eru hamar sem leitar að nagla. Margar frumlegar ástæður eru notaðar til að réttlæta þær, svo sem að þær leiði til uppreisnar almennings (en þjappa í raun fólki saman að baki leiðtoga sínum), fái vonda kalla til að hugsa sinn gang (sem gerist ekki) og stöðvi útþenslu vondra ríkja (í gamaldags hugmyndafræði um að landhernaður og -taka sé eina leiðin til að hafa áhrif). En þetta heldur ekki vatni. Viðskiptaþvinganir endurraða einfaldlega tengslaneti ríkja. Ekki hægt að versla við þig? Ég versla þá bara við einhvern annan. Og núna sjá bandarísk yfirvöld að þau skitu í buxurnar þegar þau ýttu Venesúela í faðm Rússlands. 

Rökréttasta réttlætingin fyrir viðskiptaþvingunum sem svipta almenna borgara mat og lyfjum er sú að þá sofa einhverjir betur í vestrænum rúmum - telja sig vera að stuðla að bættum heimi með því að kreista líftóruna úr konum og börnum.

Já, það er erfitt að vera alltof vel borgaður embættismaður sem telur sig geta fínstillt heiminn með svolitlum viðskiptaþvingunum hér og blaðamannafundi þar. Er til sálfræðimeðferð gegn slíkri ást á sjálfum sér og oftrú á eigið mikilvægi?


Staðreyndalöggur - af stað!

Í svolitlu innslagi frá flóttamannabúðum er tekið viðtal við konu sem slapp út úr borg í rústum (vegna árásar Rússa og á ábyrgð þeirra, svo því sé haldið til haga). Hún hafði frá mörgu að segja, og margt kom mér á óvart jafnvel þótt ég fylgist með fleiri miðlum en fréttastofu RÚV. Nokkur brot úr því viðtali hér í framhaldinu:

2022-03-27_21-02-14

2022-03-27_21-02-46

2022-03-27_21-03-09

2022-03-27_21-07-30

2022-03-27_21-08-09

2022-03-27_21-08-59

2022-03-27_21-11-53

2022-03-27_21-12-34

2022-03-27_21-13-26

Ég er viss um að staðreyndalöggurnar fara nú á stjá og komast að því að þetta viðtal sé birt á röngum miðli og tekið af röngum manni og við rangan viðmælanda. Og kannski ekki þýtt rétt heldur.

En sjáum hvað setur.


Tölvupóstar, Úkraína, Biden-feðgar

Fyrirsögn Daily Mail verður hér einfaldlega endurtekin því annars endurvarpast hún hvergi á íslensku málsvæði:

Hunter Biden DID help secure millions in funding for US contractor in Ukraine specializing in deadly pathogen research, laptop emails reveal, raising more questions about the disgraced son of then vice president

Fyrirvarar, til öryggis:

  • Nei, þar með er innrás Rússlands inn í Úkraínu ekki á neinn hátt réttlætt
  • Nei, þar með er ekki verið að afsaka sprengjuregn yfir almenna borgara
  • Nei, með því að segja frá ákveðnum hlutum er ekki verið að lýsa yfir stuðningi við hernaðaraðgerðir gegn almennum borgurum
  • Nei, með því að benda á að forseti Bandaríkjanna er mögulega gjörspilltur (og elliær) og sonur hans verri þá er ekki verið að segja að Trump sé besti forseti í sögu Bandaríkjanna
  • Nei, með því að benda á aðrar hliðar máls en þær sem njóta blessunar meginstefsins er ekki endilega verið að taka undir þær hliðar máls

En það er sjálfsagt að hafa allt uppi á borðum. Það væri almennt séð góð tilbreyting frá ástandinu í dag. Og með því að afhjúpa sögufölsun fjölmiðla og samstillta ritskoðun í nafni meginstefsins er mögulega hægt að veita sömu fjölmiðlum aðhald. Ef einhver nennir því lengur, það er að segja.


Viðskiptaþvinganir ekki viðeigandi - aldrei

Saga viðskiptaþvingana er saga barnadauða, hungursneyða, farsótta, þjáninga og dauðsfalla almennra borgara. Foringjarnir halda áfram að drekka kampavín í höllunum sínum og ota hermönnum sinum út í opinn dauðann. Viðskiptaþvinganir virka ekki og þeir sem beita þeim eru barnamorðingjar. Einfalt, klippt og skorið. 

Viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi hafa allar áðurnefndar neikvæðar afleiðingar en að auki aðra og mjög alvarlega: Þær eru að kljúfa heiminn í tvennt. Að Rússlandi dragast nú kaupendur að orku þeirra og hráefnum sem Vesturlönd vilja ekki lengur, eða réttara sagt yfirvöld vestrænna ríkja því almenningur væri alveg til í að borga ekki svimandi fjárhæðir í eldsneyti, orku og matvæli. 

Viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi eru ekki að fara hrekja rússneska hermenn úr verkefnum sínum.

En hvað er þá til ráða til að stuðla að friði í Úkraínu, þar sem nú geysa stríðsátök sem eru sömuleiðis lífshættuleg almennum borgurum?

Ég veit það ekki, satt að segja. En um leið veit ég hvað virkar ekki, sem er það sem er verið að gera í dag. Útilokunaraðferðin er góð og gild og segir að viðskiptaþvinganir gegn rússneska hagkerfinu í heild sinni eru barnamorð í boði okkar.


mbl.is Viðskiptaþvinganir ekki viðeigandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessar háfleygu áætlanir

Mikið hlýtur að vera erfitt að tilheyra hinni alþjóðlegu stjórnmálaelítu. Eilíf vonbrigði!

Elítan vill að við hættum að leita að olíu og gasi og hættum að nota kol. Og hvað gerist? Eftirspurnin eftir nákvæmlega þessum orkugjöfum eykst í sífellu og hefur aldrei verið meiri. Þeir sem eiga þessar auðlindir eru að skófla inn seðlum sem þeir ætla að nota til að fjárfesta í enn meira framboði. 

Elítan vill að við skerum á öll tengsl við Rússa (þar á meðal rússneskan almenning, íþróttafólk og skyndibitastaði). Og hvað gerist? Ríki austan og sunnan við Rússland keppast við að stofna til viðskiptasambanda við Rússland og hirða þá rússnesku orku og aðrar auðlindir sem er búin að missa kaupendur til vesturs.

Elítan vill að við höldum áfram að sprauta okkur með gagnslausu glundri sem er mögulega stórhættulegt. Og hvað gerist? Fleiri og fleiri ríki eru að henda glundrinu í ruslið og skila aftur borgaralegum réttindum borgara sinna. Fólk hikar við að plata börn sín í sprautur. Hlutabréf lyfjafyrirtækja lækka. 

Elítan vill helst ekki að við ferðumst of mikið og það hlakkaði í henni þegar ríki heims lokuðu fólk inni í nafni veiruvarna og skelltu í lás á landamærunum. Vonir stóðu til að fólk myndi bara njóta þess að hringsóla í garðinum sínum um alla tíð og gleyma öllu um utanlandsferðir. En svo fór ekki.

Ef ekki væri fyrir svimandi launagreiðslur, fríðindi, athygli og ótakmarkaðan aðgang að kampavíni þá mætti halda að tilvera stjórnamálaelítunnar væri full af gremju og vonbrigðum.


Lygar og trúgirni

Sem dyggur áhorfandi á sjónvarpsfréttir og lesandi helstu fjölmiðla og hlustandi á hefðbundna umræðuþætti í útvarpi þá hefur þú sennilega ekki hugmynd um að sonur forseta Bandaríkjanna var og jafnvel er ennþá með vægast sagt drungaleg tengsl við ýmis hagsmunaöfl í Úkraínu og hefur meðal annars komið vafasömum viðskiptamönnum í beint samband við föður sinn sem þá var varaforseti (ég efast um að einhver nenni að beygja reglurnar til að komast í samband við Bandaríkjaforseta í dag, enda lítið eftir í þeirri skel).

Og hvers vegna hefur þú sem dyggur neytandi hefðbundinna frétta ekki hugmynd um neitt af þessu? Jú, því það mátti jú ekki spilla forsetaframboði Biden með því að afhjúpa dularfull tengsla - fjölskyldutengsl - við landlæga spillingu ákveðinna heimshluta.

New York Post, eitt elsta dagblaða Bandaríkjanna, reyndi vissulega að flytja fréttir af baktjaldamakki Biden-feðga en samfélagsmiðlar lokuðu á dreifingu slíks, a.m.k. þar til búið var að klára kosningarnar. Þetta minnir á að ekki mátti tala um að veira hefði átt uppruna sinn á rannsóknarstofu fyrr en eftir sömu kosningar. Allt tilviljanir auðvitað.

Fjölmiðlar eru áróðursmaskína, bæði þá og nú. Maður má þakka fyrir að þeir segi rétt frá fjölda marka í fótboltaleik. 


Sagnfræði og samhengi

Ekki hafa allir áhuga á sagnfræði og skilning á henni til að setja viðburði dagsins í dag í samhengi. Gott og vel, þú getur þá horft á stutta fréttaþætti og lesið fyrirsagnir fjölmiðla. 

Það tekur tíma til að sjá í gegnum þokuna. Og með þoku þá meina ég stanslausan áróður fjölmiðla og yfirvalda til að berja í gegn einni ákveðinni frásögn, hinni einu sönnu skoðun. Til að vita hver er vondi kallinn og hver er góði kallinn, eins og í Disney-kvikmynd. Ekkert grátt svæði. Nei, vondi og góði. Við og þau. 

Hvað er til ráða? Sækja í allskyns samsæriskenningar sem virka trúverðugar en eru lygi? Slökkva á öllum tækjum?

Persónulegt val, býst ég við.

En fyrir þá sem vilja taka sér frí frá kvöldfréttunum get ég bent á ýmislegt.

Árið 2016 kom út heimildamynd framleidd af Oliver Stone, Ukraine on Fire, sem má horfa á hér (meðal annars). Þessi heimildamynd fer rosalega mikið í taugarnar á ýmsum aðilum sem er þeim mun meiri ástæða til að horfa á hana. Hún grípur frá upphafi og má jafna við að horfa á spennumynd. Þarna er vel útskýrt af hverju hægt er að tala um virka og öfluga nasistahreyfingu í Úkraínu, og jafnvel þótt forsetinn sé Gyðingur.

Ýmsir blaðamenn hafa lagt allt undir til að veita viðburðum í Úkraínu samhengi. Vil ég sérstaklega nefna blaðakonu (margverðlaunuð) að nafni Lara Logan og þá sérstaklega viðtal við hana hér

Önnur blaðakona, Anne-Laura Bonnet, gaf líka út heimildamynd um ástandið í Úkraínu fyrir nokkrum árum, Donbass, sem má horfa á hér

Það er slegið af borðinu að í Úkraínu starfi öflug og fjölmenn nasistahreyfing af því að forsetinn er Gyðingur. En bæði er rétt.

Það er slegið út af borðinu að Úkraína sé misnotuð sem ríki í einhverju valdatafli við Rússland. En það er rétt.

Sífellt er gefið til kynna að allar tilraunar til að sjá hluti í samhengi séu einhvers konar stuðningur við hernaðaraðgerðir rússneskra yfirvalda. Það er útúrsnúningur.

Ef þú treystir ennþá á fréttatíma og fyrirsagnir þá ertu að láta plata þig. Og ert sennilega af þeirri gerð að þú hefur látið plata þig í gegnum veirutímana líka. En það er aldrei of seint að vakna. Það er aldrei of seint að henda dópinu í ruslið. Sjálfur lét ég selja mér að innrás í Írak hafi verið af hinu góða á sínum tíma. Ég hef reynt að passa mig síðan þá. 

Hvað með þig?

Uppfært:

Viðtal við Scott Horton hér sem kemur meðal annars inn á það hvers vegna Gyðingur í stól forseta er að láta undan harðkjarna-nasistum sem eru að herja á ákveðna íbúa landsins.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband