Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2015

Góðverk á eigin reikning - vel gert!

Ég tek ofan af fyrir fólki sem gerir góðverk á eigin reikning. Lenskan er yfirleitt sú að heimta að aðrir gerir þau góðverk sem talin eru nauðsynleg að framkvæma, jafnvel með lögboði og þá yfirleitt á kostnað annarra. Gott er að sjá að þeir séu til sem telja að góðverk eigi að gera á eigin reikning.

Hvort viðkomandi hjálpi múslíma eða kristnum eða trúleysingja er svo aukaatriði.

Ég vona að margir flóttamenn komist í skjól frá stríðinu í Sýrlandi og hefji um leið baráttuna gegn ofbeldi hvers konar og þá sérstaklega þessu skipulega og trúarlega innrætta (eða undir trúarlegu yfirskyni).

Kristnir menn fóru ránshendi um Miðausturlönd á tímum krossfaranna í nafni kristinnar trúar. Múslímar útrýmdu öllum trúarbrögðum nema sínum eigin af Arabíuskaga á upphafsárum íslam. ISIS myrðir og rænir í nafni trúar. Allt þetta ofbeldi er framkvæmt vegna hvatningarorða greindra en harðsvíraðra manna sem lokka ráðvillta og rótlausa einstaklinga til liðs við sig og ýta út í ofbeldi. Vonandi taka flóttamenn þátt í að berjast gegn slíku. 

(Auðvitað er til ofbeldi sem kemur trúarbrögðum ekkert við og er það engu skárra, og er því hér með haldið til haga.)


mbl.is Einstæð móðir býður húsaskjól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bönnum, bönnum, bönnum!

Kynlífsþjónusta og eiturlyf eru fylgifiskur allra samfélaga frá upphafi. Fólk sem leitar í þennan hroðbjóð er sori mannkyns og við hin eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma því á bak við lás og slá. Hérna eru Bandaríkin fyrirmynd: Þar eru 25% af föngum heims (á meðan íbúar Bandaríkjanna eru 5% af mannkyninu). Þar eru óþjálfaðar löggur sendar þungbúnar vopnum inn í heimahús til að skjóta alla til dauða sem veita mótspyrnu og gera upptæk hvert gramm af öllu ólöglegu.

Aukinn straumur ferðamanna gæti hér orðið tekjulind fyrir ríkisvaldið. Erlendum föngum mætti halda gegn eins konar lausnargjaldi (ýmist sektir á þá fangelsuðu eða dýrar framsalsaðgerðir fyrir heimaland þeirra). Fangelsið á Hólmsheiði gæti skapað mikinn gjaldeyri og stærð þess mætti margfalda til að anna fangaflóðinu. Refsingar við öllu mætti herða: Á fíkniefni, vændi og fjárhættuspil, en einnig sóðaskap á götunum og óvarlegt tungutak.

Með því að banna má láta allt hið óæskilega, ósiðlega og hættulega hverfa, en á meðan fólk er að læra á hinar ströngu reglur er hægt að skófla seðlum inn í hirslur ríkisvaldsins og nota til að boða góð gildi og heilbrigðan lífsstíl. Því meira sem traðkað er á sjálfsákvörðunarrétti fullorðinna einstaklinga, því meira má græða. Öllum strönguðu boðum og bönnum frá öðrum löndum mætti rúlla inn í hið íslenska lagasafn. Möguleikarnir eru endalausir. Paradís er framundan!

Ekki nei?


mbl.is Ferðaþjónusta og vændi vaxa saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftslagsbreytingar og hagvöxtur

Hvað gerist þegar þú bannar hagkvæmustu notkun auðlinda og gæða og þvingar notkun þeirra inn í eitthvað síður hagkvæmt?

Þá tapar þú verðmætum.

Hvað gerist þegar eigenda einhverra gæða er sagt að hann hafi ekki, þrátt fyrir allt, full yfirráð yfir eigum sínum?

Þá grefur þú undan eignaréttinum og hvetur til hegðunar sem leiðir til sóunar.

Nú er það auðvitað svo að hver sem er má ekki gera hvað sem er við hvað sem er sem bitnar á hverjum sem er. Eigi ég öxi þá takmarkast nýting mín á henni þar sem höfuðskel annars manns byrjar, svo ég taki dæmi. Hið sama ætti að gilda um sót: Ef ég dæli sóti yfir lóð nágranna míns með því að kveikja í taði í mínum garði og blása reyknum yfir lóðamörkin þá hef ég valdið skemmdum og á að greiða fyrir þær.

Það á samt að vera svo að ef ég tel mig hafa orðið fyrir eigna- eða heilsuspjöllum vegna aðgerða annarra þá á ég að geta sannað það, helst þannig að það standist lágmarkskröfur dómstóla til sönnunarbyrði. Það á ekki að vera nóg fyrir mig að mæta á ráðstefnu ár eftir ár og fullyrða. Það er hins vegar nákvæmlega það sem loftslagsbreytingaspámennirnir gera, því annars væru þeir búnir að höfða mál fyrir dómstólum og sanna mál sitt þar.

En það gera þeir ekki. Það er auðveldara að fullyrða en sanna. Og þar strandar umræðan um loftslagsbreytingar, ástæðu þeirra og afleiðingar á heilsu og eignir. 


mbl.is Hagvöxtur og loftslagsaðgerðir ekki andstæður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningaprentvélar sem framleiðendur verðmæta?

Fyrir næstum því 100 árum var gefin út bók sem gaf þau skilaboð til stjórnmálamanna að þeir gætu framleitt velsæld og verðmæti með notkun peningaprentvélanna. Ekki væri lengur nauðsynlegt að leggja fyrir, spara og passa upp á kaupmátt peninganna. Nei, núna væri bara hægt að prenta peninga, lækka vexti og fá öll hjólin til að snúast í einu: Neytendur kaupa, fyrirtæki fjárfesta og allir ánægðir!

Sagan hefur vitaskuld margafsannað notagildi þessarar velferðaruppsprettu, en stjórnmálamenn ríghalda í goðsögnina. Ávinningurinn fyrir stjórnmálamanninn, og skjólstæðinga hans í bönkunum, er auðvitað augljós. Ríkisvaldið getur þanist út fyrir nýprentað lánsfé og veislan þarf aldrei að stoppa, a.m.k. ekki á þessu kjörtímabili.

Nú er risastór peningabóla búin að þenjast út um allan heim og loftið byrjað að leka úr henni. Verksmiðjur munu samt enn standa og þekking fólks enn varðveitast, en það er mikilvægt að loftið sé tekið úr bólunni eins hratt og hægt er svo raunveruleg verðmætasköpun geti á ný átt sér stað, í stað hagvaxtar og ímyndaðrar velsældast sem birtist í Excel-skjölum og á línuritum en eiga sér litla stoð í raunveruleikanum. 


mbl.is Furðu rólegir yfir hruninu í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný orð í stað gamalla

Kári Stefánsson kvartar yfir útþynningu á hugtakinu "sósíalisti" um leið og hann býður upp á skilgreiningu sem miklu frekar á við orðið "krati" en nokkuð annað.

Ný orð koma iðulega í stað gamalla, og gömul orð eru oft heimfærð upp á eitthvað allt annað en þau stóðu upphaflega fyrir, og þannig er það. Í Bandaríkjunum er til dæmis talað um að vera "liberal" þegar viðkomandi er blússandi vinstrisinnaður, og hið gamla og góða 19. aldarhugtak "liberal" því búið að fá þveröfuga merkingu miðað við hinn upprunalega skilning á orðinu. 

En hvað um það.

Í stað þess að tala um sósíalista má tala um kampavínssósíalista - ríka eða þokkalega efnaða einstaklinga sem hafa hagnast persónulega á því að nýta sér völd ríkisvaldsins til að skapa fyrirtæki sínu (eða öðrum samtökum sem viðkomandi tilheyrir) svigrúm eða liðka fyrir því með lagalegri mismunun. Kampavínssósíalistar tala oft um nauðsyn þess að hafa sterkt ríkisvald sem getur gert hvað sem því sýnist, gefið að það geri það sem viðkomandi kamapvínssósíalisti getur hagnast persónulega á. Verkalýðsforingjar eru margir hverjir kampavínssósíalistar, og meðlimir verkalýðsfélaga þeirra kokgleypa áróður þeirra og verða þannig fallbyssufóður þegar sumir nýta sér ríkisvaldið til að hagnast persónulega.

Kári Stefánsson er sennilega kampavínssósíalisti. Hann gæti hugleitt að nota þenna titil í næsta útvarpsviðtali. 


mbl.is „Sósíalisti“ útþynnt hugtak í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldir eru eitur í æðum komandi kynslóða

Það er gott að nú standi til að hreinsa upp í skuldasafni ríkissjóðs. Skuldir eru eitur í æðum komandi kynslóða.

Skuldirnar eru samt ekki eina tiltektin sem þarf að fara í. Ríkisreksturinn í heild sinni þarf grófa uppstokkun. Ríkisvaldið á að koma sér út úr hvers konar rekstri og ætti augljóslega að byrja á mennta- og heilbrigðiskerfinu. Af hverju þarf ríkið að vasast í rekstri spítala en ekki rekstri tannlæknastofa? Af hverju þarf ríkið að selja heilbrigðiþjónustu en ekki gleraugu og linsur? Ríkisreksturinn flækist fyrir, hægir á framþróun, er svifaseinn og bregst seint við nýjungum, heldur starfsmönnum í gíslingu kjarasamninga og yfirvöld banna hreinlega samkeppni við sig víða (beint eða óbeint), sem er svo rómuð á mörgum öðrum sviðum og talin nauðsynleg fyrir allt og alla (t.d. þegar kemur að sölu skófatnaðar og tannbursta).

En það er gott að nú eigi að takast á við skuldirnar, 7 árum eftir hrunið 2008. 


mbl.is Afgangur og skuldahreinsun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geðveiki: Að gera það sama aftur og aftur en búast við mismunandi niðurstöðu

Albert Einstein skilgreindi einu sinni geðveiki á eftirfarandi hátt:

"Insanity: doing the same thing over and over again and expecting different results."

Eru þeir sem eru ábyrgir fyrir peningaútgáfu á Íslandi haldnir einhvers konar geðveiki?

Enn og aftur reyna yfirvöld að verðleggja íslensku krónuna þannig að hin ýmsu mótsagnarkenndu markmið Seðlabanka Íslands uppfyllist. Vandamálið er bara að það er ekki hægt. Ég tek dæmi. 

Segjum að beljur á Norðurlandi byrji skyndilega að mjólka eins og vindurinn, en að spenar belja á Suðurlandi nánast þorni upp. Hvernig á að verðleggja mjólk þannig að allir kúabændur haldi búum sínum? Á að ákvarða einhvers konar meðalverð þannig að kúabændur á Norðurlandi komi mjólk sinni ekki út (mikið framboð hjá þeim en eftirspurn eins og á meðalári)? Á að verðleggja mjólkina lágt þannig að kúabændur á Suðurlandi fari á hausinn en þeir fyrir norðan selja allt? Á að verðleggja hana hátt þannig að þeir fyrir sunnan haldist á floti en þeir fyrir norðan sitji upp með allan sinn lager?

Yfirvöld myndu hérna leggjast yfir pappírana og komast að einhverri niðurstöðu þannig að allir tóri en enginn verður ánægður. Búið er að ákveða verðið. Mjólkurstefnunefnd komast að hinni einu réttu niðurstöðu. 

Yfirvöld ættu að sýna sóma sinn í að koma hinu íslenska ríki út úr peningaframleiðslu og verðstýringu á peningum á Íslandi. Markaðurinn getur alveg framleitt peninga og markaðurinn getur ákveðið verð á peningum. Ríkisvaldið hefur einfaldlega ekkert erindi á þennan markað, og hvað þá erindi sem erfiði.


mbl.is Stýrivextir hækka í 5,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær hugmynd!

Yngvi Pétursson, rektor Menntaskólans í Reykjavík, hefur farið þess á leit við borgaryfirvöld að skólinn fái að taka inn nemendur ári fyrr, þ.e. eftir að þeir hafa lokið 9. bekk, og síðan taki við þriggja ára framhaldsskólanám. 

Þetta er frábær hugmynd!

Það hefur vonandi runnið upp fyrir flestum foreldrum grunnskólabarna nú og fyrr að grunnskólinn er fyrst og fremst geymslupláss fyrir eirðarlaus ungmenni. Þar er þeim kennd allskonar þvæla sem nýtist engum þegar út í lífið er komið og er aðallega gert til að halda krökkum uppteknum. Ýmis konar kjaftafög spila hér stórt hlutverk - fög þar sem krakkar geta bara setið og blaðrað út frá einhverju léttmeti svo tíminn líði. Á meðan eru þau ekki heima að plaga foreldra sína eða úti að gera eitthvað af sér.

Vissulega lærist margt í grunnskóla með því einu að vera þar. Krakkar læra að fóta sig í hinum ýmsa félagsskap, komast að því hvernig á að velja vini og oftar en ekki læra að tækla stríðni og útskúfun. Þau læra að vakna á morgnana og halda líkama sínum gangandi á fábreyttu fæði - oft sykurmettuðu sjoppufæði. Sum læra að reykja og drekka en önnur að iðka íþróttir og stunda félagslífið. Margt lærist óháð því hvað er matreitt ofan í þau í kennslustofunum.

Síðan eru til þeir krakkar sem þurfa ekki geymslupláss og vilja fara læra eitthvað. Að komast fyrr í framhaldsskóla gæti hér hjálpað mikið. Að velja sinn eigin skóla og stunda hann er stórt stökk fyrir grunnskólakrakka í skyldunámi og veitir ábyrgðartilfinningu og stuðlar að andlegum þroska. 

Hugmynd rektors MR er góð og henni ætti að taka án frekari málalenginga. 


mbl.is MR vill fá 10. bekkingana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um áhrif viðskiptaþvingana

NATO, Rússland, Evrópusambandið og bandamenn og meðlimir allra þessara fyrirbæra eru núna í vel þekktum leik sem heitir að reyna berja hvern annan til hlýðni með viðskiptaþvingunum.

Óháð því hver er að haga sér illa eða ólöglega eða ósiðlega þá langar mig að benda á nokkrar afleiðingar viðskiptaþvingana, hvar svo sem þeim er beitt. 

Í fyrsta lagi valda þær öllum sem að þeim koma skorti eða óhagkvæmni. Þeir sem neita að kaupa með hagkvæmum hætti þurfa að afla sér með óhagkvæmari leiðum eða hreinlega að neita sér um ákveðnar vörur og þjónustu.

Í öðru lagi valda þær öllum sem að þeim koma fjárhagslegu tapi. Það sem áður mátti kaupa að utan ódýrt og selja aðeins dýrar en engu að síður ódýrt þarf nú að afla sér með dýrari leiðum og selja enn dýrar.

Í þriðja lagi leiða þær til þjáninga fyrir þá sem annaðhvort geta ekki keypt á hinu dýra verði eða missa hreinlega möguleikann á kaupum alveg. Fátækir hafa ekki efni á mat, ríkir þurfa að eyða meiru í mat og minna í fjárfestingar. Hungur og vannæring eru algengir fylgifiskar viðskiptaþvingana, og þeir sem minnst mega sín finna fyrst fyrir því.

Í fjórða lagi leiða viðskiptaþvinganir til ógna eða árása, beint eða óbeint. Þegar Bandaríkjamenn lokuðu á olíusölu til Japana í aðdraganda annarrar heimstyrjaldar (en áður en þessi ríki voru í stríði) fannst Japönum ekki annað í stöðunni en að afla sér olíu með árásarstríðum á olíurík svæði í suðri. Það kæmi mér ekkert á óvart ef Rússar reyndu að bæta sér upp skort á einhverju með svipuðum aðferðum, og verður þá bara að hluta til sakast við þá sjálfa.

Í fimmta lagi styrkja viðskiptaþvinganir stjórnmálamenn í valdabrölti. Þessir stjórnmálamenn geta bent þegnum sínum á að þeir þurfi nú að standa saman og á eigin fótum gegn hinum ósanngjörnu útlendingum. Völd þeirra styrkjast. Ekki líða þeir valdamestu heldur mikið fyrir viðskiptaþvinganir. Stjórnmálamenn ná alltaf að fá sitt.

Jón Sigurðsson "forseti" hvatti Íslendinga á sínum tíma til að skipta sér ekki af málefnum erlendra ríkja en stunda þess í stað frjáls viðskipti við alla sem vildu. Eiga orð hans ekki bara ágætlega við ennþá?


mbl.is Bjarni: Efasemdir um þvinganirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf afreksfólk alltaf að fá klapp á bakið?

Hún er mikil sú þörf margra að þurfa sífellt að láta hrósa sér fyrir vel unnin störf. Gildir þetta bæði um konur og karla. Frænka mín, sem er yfirmaður fólks á mjög breiðu aldursbili, segir að þeir yngri þurfi helst að fá hrós á hverjum degi því annars byrja þeir að leita að annarri vinnu. Hinir eldri láta sér nægja að leggja á sig og vinna vel og vita með sjálfum sér að verk voru vel unnin.

Þessi hrós-þörf er kannski skiljanleg í okkar Facebook/Instagram/Snapchat-samfélagi þar sem hverri einustu máltíð eru gerð góð skil fyrir alla vini og kunningja, hver einasti hlaupatúr auglýstur og hverri einustu ferð í ræktina fylgt eftir með rækilegri lýsingu á öllum æfingunum. Þetta er hugarástand athyglissýki, sem virðist vera orðin hið viðtekna hugarfar. Þeir sem stunda ekki svona auglýsingaherferðir á öllum dagsverkum sínum eru nánast sakaðir um að vera fela eitthvað.

En gott og vel - ég skal alveg taka undir að hversdagshetjurnar hafi ekki hlotið mikla athygli. Sjálfur er ég umkringdur slíkum hetjum, frá níræðri ömmu minni til mömmu minnar. Þetta eru konur sem fórnuðu miklu til að koma börnum sínum á legg. Þeim tókst það nokkuð vel get ég svo bætt við. Það er líklega eina hrósið sem þær þurfa á að halda. Skal þeim samt hrósað hér og nú. Án ykkar væri ég annar og sennilega síðri maður en ég er!


mbl.is Afrekskonur leynast víða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband