Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Stærra sveitarfélag = stærra lánstraust = hærri skuldir

Sameining sveitarfélaga er yfirleitt hugsuð sem sparnaðaraðgerð. Með sameiningu megi steypa mörgum aðskildum stjórnsýslum saman í eina stærri og þannig spara fé og fólk.

Raunin hefur orðið önnur.

Stærri sveitarfélög hafa meira lánstraust en þau smærri. Þau geta lagt í stærri framkvæmdir. Sjáið til dæmis sprenginguna í fjölda nýrra sundlauga út um allt land, sem oftar en ekki eru prýdd stórri vatnsrennibraut. Þessar rennibrautir eru veglegir minnisvarðar um stóraukna skuldsetningu íslenskra sveitarfélaga hin síðari ár.

Stærri sveitarfélög þurfa heldur ekki að óttast skattasamkeppni í jafnmiklum mæli og mörg smærri. Skattgreiðendum á stórum svæðum er smalað saman, og eina undankomuleiðin er sú að flytja langt í burtu, og það hugnast mörgum illa.

Ég tek því illa í hugmyndir um frekari sameiningu sveitarfélaga. Alveg sérstaklega eitrað er að sameina vel rekið Seltjarnarnesið við illa rekna Reykjavík, og vel rekinn Garðabæinn við illa rekið Álftanesið. 

Vonandi hafa íbúar hinna betur reknu sveitarfélaga hugrekki til að hrinda af sér sameiningarhugmyndum einhverrar nefndar í ráðuneyti í Reykjavík.


mbl.is Nýjar hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgð? Ekki ég!

Endurtekið þema í munni margra stjórnmálamanna er: "Ekki mér að kenna, kenndu frekar þessum þarna stjórnmálamanni sem var í valdastöðu fyrir einhverjum mánuðum og misserum síðan!"

Dæmi: Icesave-málið allt. Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar vilja meina að það sé allt blóð á höndum ríkisstjórnar Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar. Það er þó bara að hluta til rétt.

Geir Haarde gaf út einhverja viljayfirlýsingu. Það er rétt. En hún var síðan gerð úrelt með samkomulagi sem svo er lýst með eftirfarandi orðum Ingibjargar Sólrúnar: 

Hinn 14. nóvember náðu viðræðunefnd Íslands, Hollands, Bretlands og (Þýskalands) undir forystu Frakklands samkomulagi um stuttan texta, Agreed guidelines, sem þýtt var umsamin viðmið. Þetta er diplómatískt samkomulag sem leiddi til þess að ríkin létu af tafaaðgerðum innan AGS, féllu frá niðurstöðu gerðardóms sem bindandi og hófu formlegar samningaviðræður á grundvelli EES-réttar, með aðkomu stofnana ESB og með hliðsjón af sérstaklega erfiðri stöðu Íslands. Þar með var samkomulagið við Hollendinga frá 11. október úr sögunni.

Ríkisstjórnir vinstri grænna og Samfylkingar gengu því að hreinu samningsborði. Við það gengu þær að öllum kröfum Breta og Hollendinga.

Þess vegna er Icesave-málið allt saman á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar. 

Vangaveltur um hvað þáverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hefði gert eru ekkert meira en það - vangaveltur. Hefði hún keyrt Icesave-innistæður yfir íslenska skattgreiðendur eins og núverandi ríkisstjórn hefur ítrekað reynt? Kannski, kannski ekki. 

Annað dæmi um flótta frá ábyrgð er staða ríkissjóðs. Vissulega tóku VG og Samfylkingin við brunarústum. En hvenær á að hefja tiltekt og enduruppbyggingu? Í dag er bara verið að sparka sóti frá einu horni brunarústanna til annarra, og auka á sótið með því að brenna lánsfé. 

En svona er nú fólk mismunandi. Sumir vilja völd og ábyrgð. Aðrir vilja bara völdin. 


Nokkur orð um AGS

Ekkert af þeim aðgerðum sem IMF mun leggja til á Íslandi, eins og hann gerir alls staðar, finnst mér vænleg til þess að draga úr kreppu á Íslandi; í raun ættu stjórnmálamenn einkum að taka mið af ráðum IMF með neikvæðum formerkjum, þ.e. gera alltaf hið gagnstæða við það sem sjóðurinn leggur til.

 Þessi orð ritar einn af hugmyndafræðingum VG, Sverrir Jakobsson, haustið 2008 (áður en VG komst í hlýju Stjórnarráðsins og varpaði öllum skoðunum sínum fyrir borð).

Þótt ég sé ósammála nánast öllu sem Sverrir Jakobsson skrifar/segir um nánast allt þá get ég ekki annað en tekið undir þessi orð (þótt ég geri það ekki af sömu ástæðum og Sverrir).

AGS er að samþykkja "efnahagsáætlun" sem felur eftirfarandi í sér:

  • Minniháttar niðurskurð á hinu opinbera bákni (sem er að fjölga starfsmönnum þessi misserin, vel á minnst)
  • Stóraukna skattheimtu með öllum sínum lamandi áhrifum á hagkerfið
  • Gjaldeyrishöft sem verður erfiðara með hverjum deginum að vinda ofan af
  • Gríðarlega pólitíska óvissu um framtíð aðalútflutningsgreinarinnar með óskipulögðu tali um samningaleið þetta og þjóðnýtingu hitt
  • Erlendar fjárfestingar kæfðar með pólitískum vandræðagangi og seinagangi í stjórnsýslunni
  • ..og fleira til!

Ég ætla að leyfa mér að taka undir orð Sverris Jakobssonar hér að ofan. AGS mun skilja eftir sig sviðna jörð á Íslandi.


mbl.is Þriðja endurskoðunin samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Logið að lýðnum, með bros á vör

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, var fús til að viðurkenna að hann hafi dottað undir ræðu Roberts Mugabe, forseta Simbabve, á þingi Sameinuðu þjóðanna í liðinni viku.

 Það var nú ágætt. Það fer varla framhjá neinum að hin gríðarfjölmenna "sendinefnd" steinsvaf á þingi Sameinuðu þjóðanna. Sennilega var það kampavínið sem gerði útslagið þótt Össur kenni "miðri nótt" um svefngöfgina. Þess má geta að "tott" Mugabe var tæpar 17 mínútur eða sem svarar til hálfrar kennslustundar. 

Á öðrum stað er samt að finna aðra frásögn:

Það var enginn sofandi. Þetta var mjög mikilvæg ræða sem allir vildu heyra og við hlustuðum mjög vel

Nú er örlítill blundur á löngum fundi eflaust ekki mest áríðandi málefni líðandi stundar í landi þar sem ríkisstjórnin er að kafsigla öllu. En ég dreg af þessu annan lærdóm, sem er sá að yfirlýsingar frá hinu opinbera stangast hver á við aðra. Ef opinberum starfsmönnum finnst svona erfitt að segja satt frá um "sakleysislegt" mál eins og þetta, hvað þá með stærri, flóknari og alvarlegri mál?

(Svarið er auðvitað að þar stangast líka frásagnir hver á við aðra svo eftir stendur rykmökkur sem fjölmiðlamenn gleyma svo á endanum, stjórnarliðinu til mikils léttis.)


mbl.is „Já ég dottaði á fundi SÞ“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rifist um reiknireglur - VANtreystum bönkunum

Vangaveltur um uppgjörsvenjur og reikningshald eru áhugaverðar. Árum saman stimpluðu eftirlitsstofnanir og alþjóðlegar matsstofnanir reikninga íslensku bankana með stórum OK-stimpli því í þeim fundust hvorki lögbrot né svik í merkingu laganna. Og sennilega voru mjög fá lög brotin og ómerkileg. 

Almenningur gleypti við blástimplun eftirlitsstofnananna og hinna alþjóðlegu "mats"fyrirtækja og hlustaði vel á stjórnmálamenn sem báðu um "traust" á bankakerfinu, svo spilaborgin myndi nú ekki hrynja.

En svo klikkaði allt.

Mér dettur þá helst í hug að boða nýjan hugsunarhátt gagnvart bankakerfinu: VANtraust.

Með VANtrausti á bönkum mun almenningur fara mun varlegar í að skuldsetja sig á bólakaf, setja öll eggin í eina körfu og láta opinberar eftirlitsstofnanir og alþjóðleg "mats"fyrirtæki ekki draga sig á asnaeyrum ofan í djúpa fjármálaholu.

Með VANtrausti á bankakerfinu fær bankakerfið svipaða stöðu í hugum fólks og t.d. öryggisfyrirtæki, sem þurfa að treysta á gott orðspor og flekklausa starfsmannaskrá til að laða til sín viðskiptavini. 

Með VANtrausti neyðast bankarnir til að stilla gírun og skuldasöfnun í hóf og keppa í trausti, t.d. með því að segja nei við opinberri framfærslu og gorta sig svo af því eftir á svo allir geti séð hvað reksturinn er traustur. 

Með VANtrausti á bankakerfinu og minnkandi vægi á opinberar blástimplanir þá fæðist heilbrigt og gagnrýnið hugarfar hjá okkur skjólstæðingum bankanna. 

Bankakerfið á ekki skilyrðislaust traust okkar skilið frekar en önnur fyrirtæki sem taka við eigum okkar og lofa að passa vel upp á þær. Bankar eiga að keppa í trausti. Það gera þeir samt ekki fyrr en ríkisvaldið hættir að standa fyrir aftan þá til að bjarga með fé skattgreiðenda ef viðskiptamódelið gengur ekki upp. 


mbl.is Bankarnir byggðu á sandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnvöld hlusta ekki á tillögur

Stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart hugmyndum um aðrar leiðir en linnulausar skatta- og skuldahækkanir er sú að hlusta ekki, eða svo vitnað sé í einn stuðningsmann ríkisstjórnarinnar: Hlustum ekki á lævíslegan áróður hrunverjanna.

Hagstjórn stjórnarinnar er fyrirsjáanleg og alveg í anda þeirrar sem seinasti vinstrimaður í stóli fjármálaráðherra stundaði - sjá til dæmis hér

Íslenska hagkerfið á sér ekki viðreisnar von fyrr en þessi ríkisstjórn fer frá. 


mbl.is Skattastefnan gagnrýnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsjáanleg hagstjórn

Okkur, í forystu atvinnulífsins skorti hins vegar hugmyndaflug til að ímynda okkur að ríkisstjórnin myndi færa skattkerfið áratugi aftur í tímann, fórna einfaldeika þess og gagnsæi, gera það ósamkeppnisfært við nálæg ríki og taka upp að nýju skatta sem eru óréttlátir og flest nálæg ríki hafa losað sig við.

Barnaleg ummæli eða eðlilegur skortur á skilningi á eðli vinstristjórnar? Ólafur Ragnar Grímsson hagaði sér sem fjármálaráðherra á sínum tíma á mjög svipaðan hátt og Steingrímur J. í dag. Skattar hækkaðir, "tekjur" vegna hækkandi skatta oftaldar, aðrir skattar smíðaðir, þeir hækkaðir, skatttekjur lækka, ríkissjóður skuldsettur frekar, og svona má lengi telja.

Þetta er allt mjög fyrirsjáanlegt. Rétt eins og komandi útsvarshækkun í Reykjavík, þar sem skuldir eru einnig á uppleið á ný eftir örlítið hlé. 


mbl.is „Lýsa ótrúlegri vanþekkingu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

'Sérfræðingarnir' með þetta á hreinu

Telja sérfræðingar að þetta tvennt, það er lækkun á gengi Bandaríkjadals og staða efnahagsmála vestanhafs, hafi mest áhrif til hækkunar [á gullverði] í dag.

Þessir sérfræðingar sem fjölmiðlar leita til eru skondin hjörð. Þeir skilja ekki samhengi hluta. Þeir skilja ekki gangverk markaðarins. Þeir rýna í tölur og lesa blaðafyrirsagnir til að komast að orsökum og afleiðingum.

Hækkandi gullverð þýðir eitt og aðeins eitt: Minnkandi traust á kaupmætti "hefðbundinna" gjaldmiðla. Fólk er að flýja með peningana sína undan peningamiðstjórn hins opinbera og inn í eitthvað sem heldur kaupmætti sínum betur en nánast nokkuð annað á föstu eða rafrænu formi: Gull.

As central banks continue to accelerate the pace at which money is printed, inflation will increase, and the purchasing power of paper currencies will decline. This will result in more and more astute investors fleeing to the safety of gold.

http://www.marketoracle.co.uk/Article8391.html

Menn ættu að taka hækkun gullverðs (mældu í dollurum) alvarlega, og gera ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram um ókomna framtíð á meðan menn eins og George W. Bush og Obama sitja við stjórnvölinn í Bandaríkjunum. 

Eftirfarandi orð er einnig gott að taka til umhugsunar:

We now are witnessing a struggle between two camps that I playfully call the “Stimulators” and the “Austereians.” Both warn that a worldwide depression will ensue if governments now make the wrong choices: the Stimulators say the danger lies in spending too little and the Austereians from spending too much. Each side also has their own economic champion: the Stimulators follow the banner of Nobel Prize-winning economist Paul Krugman, while the Austereians are forming up behind the recently reformed former Fed Chairman Alan Greenspan. (It is cold comfort to witness “The Maestro” belatedly returning to the hard-money positions that characterized his earlier years.)  

http://www.europac.net/commentaries/new_ideological_divide

Er þetta ekki það sem við sjáum í dag? Svíþjóð og Þýskaland að slást við fjárlagahalla og reyna að útrýma honum og uppskera hagvöxt í staðinn. Ísland og Bandaríkin að dæla lánsfé í hagkerfið og ennþá er allt á niðurleið.


mbl.is Gullverð aldrei hærra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað! Þótt fyrr hefði verið

Að sjálfsögðu á að einkavæða OR, og það í hvelli. Fyrir því eru mörg rök. Dæmi:

  • Þannig má losa útsvarsgreiðendur og viðskiptavini OR við 250 milljarða skuld. Já takk
  • Þannig má losa OR undan pólitískum afskiptum, sem hafa kostað OR tugi og hundruði milljarða. Já takk
  • Þannig má losa OR undan opinberri umræðu, og fólk getur þá sagt álit sitt á rekstri OR með því að stunda eða stunda ekki viðskipti við fyrirtækið. Svona eins og fólk "tjáir" sig um Bónus og Krónuna
  • Þannig má hleypa lífi í íslenskan orkumarkað
  • Þannig má minnka líkurnar á að stjórnmálamenn ákveði kaup og kjör erlendra iðnfyrirtækja, og þau fari þess í stað að ákveðast af markaðslögmálum

Auðvitað eru til mótrök gegn einkavæðingu OR. Dæmi:

  • Ríkið á að eiga og reka orkufyrirtækin. Það er einfaldlega grundvallar mál
  • Rekstur OR varð fyrir tilviljun til þess að fyrirtækið óx í allar áttir, hafði stórkostlegt lánstraust í skjóli opinbers eignarhalds og safnaði skuldum sem aldrei fyrr. Slíkt er ekki dæmigert fyrir opinbert fyrirtæki eins og OR (eða Landsvirkjun eða Íbúðarlánasjóð eða Byggðastofnun eða...) og ber ekki að nota til að sverta mannorð opinbers eignarhalds
  • OR er "gullegg" sem má ekki selja

Fyrir mitt leyti segi ég: OR á sölu, núna strax. 


mbl.is SUS vill einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loforð, svikin og efnd

Þeir Íslendingar sem aðhyllast málstað hollenska og breska ríkisins í Icesave-"deilunni" segja gjarnan að Íslendingar séu skuldbundnir því það var jú Geir H. Haarde sem lofaði fé úr vösum íslenskra skattgreiðenda á sínum tíma, og við það verði að standa.

Síðan hafa stjórnvöld ítrekað reynt að ná "samkomulagi" við Breta og Hollendinga, sem minna Íslendinga gjarnan á þeirra eigin "rök" fyrir því að "semja" yfir höfuð, sem sagt að Geir H. Haarde hafi sagt eitthvað á sínum tíma.

En er ein ríkisstjórn bundin af loforði fráfarandi ráðherra annarrar ríkisstjórnar? Mér sýnist ekki. Núverandi ríkisstjórn hefur til dæmis haft formleg og óformleg loforð fráfarandi ríkisstjórnar að engu í svo mörgum málum. Virkjanaframkvæmdir stöðvaðar, samningar við erlenda fjárfesta settir í pólitískt uppnám, sótt um inngöngu í ESB þvert á kosningaloforð, og svona má lengi telja. Loforð er bara loforð þar til það er efnt eða svikið, og miðað við öll "svik" ríkisstjórnarinnar í svo mörgum málum, hvers vegna þá ekki að svíkja vilyrði Geirs H. Haarde? Hvað gerir það tiltekna loforð svona heilagt, annað en pólitískur undirlægjuháttur við Breta og Hollendinga?

Núna ferðast forseti Íslands um heiminn og talar um ósanngjarnar kröfur Breta og Hollendinga. Steingrímur J. ferðast til Hollands og talar um "skuldbindingar Íslendinga". Þetta tvennt heyra útlendingar og hljóta að undra sig á því hvað sé eiginlega í gangi í íslenskri pólitík.


mbl.is Steingrímur: Íslendingar munu borga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband