Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Á að kæra Jóhönnu og Össur?

Ég hvet alla eindregið til að lesa pistil Vefþjóðviljans um hinar svokölluðu "ákærur" og a.m.k. hugleiða áhrifin á réttarríkið og réttaröryggi okkar allra ef sami hugsunarháttur tíðkaðist hjá t.d. lögreglu og almennum dómstólum og tíðkast hjá þingmannanefnd um niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis.

Þessi pistill er troðfullur af gullmolum sem enginn fjölmiðlamaður mun lesa, því miður. Dæmi, sem Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson ættu að hafa í huga þegar þau siga strengjabrúðum sínum á handvalda pólitíska andstæðinga/samherja:

  • En fyrst þingmannanefndin tekur þá afstöðu að ætla þessum einstaklingum [Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir] aukna ábyrgð sem oddvita flokks síns við ríkisstjórnarborðið, þá vekur auðvitað sérstaka athygli að nefndin horfir fram hjá þeirri staðreynd að einn þáverandi og núverandi ráðherra, Össur Skarphéðinsson, var staðgengill annars þessara flokksformanna í veikindaleyfi hans haustið 2008. 
  • Eitt sem ráðherrunum er gefið að sök, er að hafa ekki staðið fyrir því að vandamál bankanna yrðu rædd á fundi allra ráðherra. [...] En hvers vegna er Jóhanna Sigurðardóttir þáverandi félagsmálaráðherra þá ekki ákærð fyrir slíkt hið sama, því vitað er að hún fundaði um þessi mál en hafðist ekkert að?

Mega Jóhanna og Össur eiga von á ákærubréfi?

Samkvæmt rökstuðningi við kærur á t.d. Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu: Já, alveg eins. 

Samkvæmt pólitísku raunsæi og vitneskju um hvað raunverulega liggur á bak við ákærurnar: Nei, ekki séns.


mbl.is Fleiri kærur komu til álita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tillaga: Taka þátt í starfi stjórnmálaflokka

Femínistar tala nú margir hverjir um kvennaframboð. Femínistum finnst ganga of hægt í jafnréttis"baráttunni". Gott og vel. Þannig hefur það alltaf verið og mun alltaf verða (eða heldur einhver að femínistar segi einn daginn, "jæja okkar starfi er lokið, förum nú að finna okkur önnur áhugamál sem koma okkur á ríkisspenann"?)

Eitt af því sem femínistar kvarta gjarnan yfir er hlutfall kvenna á Alþingi, í ríkisstjórn og hinum og þessum nefndum. En er "kynjahlutfallið" þar konum eitthvað "óhagstæðara" en t.d. á opnum málfundum stjórnmálaflokkanna eða hlutfalli kvenna sem sækist í starf stjórnmálaflokkanna? Mín tilfinning er að svo sé ekki.

Mín tilfinning er sú að það séu hlutfallslega miklu fleiri konur á Alþingi en eru t.d. í almennu og opnu starfi stjórnmálaflokkanna. Kvenfólk leitar einfaldlega ekki eins mikið í kjaftaklúbba um stjórnmál, og við það er ekkert að athuga. En þetta litla hlutfall kvenfólks sem þó leitar í stjórnmálastarf, það er búið að tryggja sér "krókaleið" á toppinn með allskyns kynjaákvæðum og sértækum reglum.  "Jafnréttis"barátta femínista er baráttan fyrir mismunun eftir kynferði.


mbl.is Áhugi er á kvennaframboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein vinaráðning?

Núverandi ríkisstjórn hefur verið dugleg að búa til glænýjar stöður og ráða í þær vini núsitjandi ráðherra (Samfylkingarinnar). Hér er sennilega dæmi um eina nýja stöðu, og vitaskuld er henni úthlutað til fyrrverandi þingmanns Samfylkingarinnar, sem hefur "starfað í menntamálaráðuneytinu frá árinu 2007" við einhver ótiltekin verkefni.

Starfslýsingin er athyglisverð:

Starf tengiliðar felst í að koma með virkum hætti á framfæri upplýsingum til þeirra sem kunna að eiga bótarétt samkvæmt lögunum.

Kalla ný lög um nýjan bótarétt á nýja stöðu innan hins opinbera? Var engin önnur stofnun eða skrifstofa hjá hinu opinbera að sinna svipuðum málum vegna annars konar bótaréttar? Eru hin nýju lög svo flókin að þau kalla á sérstakan upplýsingafulltrúa? 

Mun biðtími þeirra sem reyna að sækja í skaðabætur hjá ríkinu eitthvað breytast við að ný staða er búin til? Hvaða hætta á tvíverkefnaði innan hins opinbera er til staðar þegar tveir aðskildir aðilar sjá um mjög svipuð verkefni?

Mér sýnist allt benda til að hér sé um einfalda, gamaldags vinaráðningu og verðlaun fyrir flokkshollustu að ræða. 


mbl.is Ráðin tengiliður vegna vistheimila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnubrögð versnandi fara

Jóhanna Sigurðardóttir, ráðherra til óteljandi ára, og þingmaður til ennþá fleiri, lætur nú "vinnubrögð á mörgum sviðum" innan stjórnsýslunnar koma sér á óvart.

Já, það var og.

Ég man ekki eftir að hafa lesið um annan eins fjölda af vinaráðningum og klíkuskapssamningum og síðan Jóhanna tók við stóli forsætisráðherra. Hefðbundnir fjölmiðlar eru að vísu varkárir í að benda á ósómann, eða vilja það hreinlega ekki af pólitískum ástæðum. En það þýðir ekki að ósóminn sé ekki til staðar.

Hver man ekki eftir því þegar eitthvað skyldmenni Davíðs Oddssonar (sonur hans?) var skipað hæstaréttardómari af þáverandi dómsmálaráðherra? Blöðin voru full af samsæriskenningum og spillingarásökunum í fleiri vikur. Þegar seðlabankastjóri er svo ráðinn símleiðis af forsætisráðherra, utan við sérstaka nefnd sem sat á sama tíma og fór yfir umsóknir, þá segir enginn neitt.

Þetta eru ekki samsæriskenningar. Þetta eru staðreyndir. Jóhanna ætti ekki að láta eitthvað koma sér á óvart sem hún stendur sjálf á bak við. Eða er það kannski hin nýja mantra í stjórnarráðinu?


mbl.is Frumstæð vinnubrögð komu á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óviðeigandi: Skatta- og skuldahækkanir

Á meðan fjölmiðlar, almenningur og netheimar tapa sér í einhverjum ummælum borgarstjóra við einhvern blaðamann - ummæli sem skipta engu máli - þá veitir enginn því athygli að Jón Gnarr undirbýr núna skatta- og gjaldskrárhækkanir í Reykjavík. Öll gjöld og allar álögur munu snarhækka, og öll þjónusta og endurgreiðsla fer í hina áttina.

Hvernig veit ég þetta? Ég veit ekkert fyrir víst. En ég geri mér grein fyrir því að skuldir Reykjavíkur eru að aukast til að fjármagna eyðslu borgarinnar í hin og þessi "átaks"verkefni, t.d. Hörpu við höfnina og "borgarskáld" sem hengja plöstuð spjöld upp á sundstöðum borgarinnar með ljóðsmíðum þeirra áletruðum.

Skuldir fyrirtækja í eigu borgarinnar (t.d. Strætó og OR) eru að öllu jöfnu óyfirstíganlegar og vasar Reykvíkinga verða kreistir til að "bjarga" því (þótt slíkt virki ekki nema til skamms tíma því gjaldþrota rekstur er og verður gjaldþrota ef hann er ekki aðlagaður að raunveruleikanum).

Í stað þess að taka til í kerfinu og endurnýja og skera af fitu er stórneytendum á skattfé hlaðið ofan á borgina og fyrirtæki hennar og auðvitað skattgreiðendur.

Jón Gnarr er með sniðuga hárgreiðslu og segir allskonar hluti við allskonar fólk, en hann er í forsvari þeirra sem ætla að siga Skattmann, í öllu sínu veldi, á Reykvíkinga, og gerir það fljótlega.


mbl.is „Ég er og verð óviðeigandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talnaleikfimi fer (að þessu sinni) saman við almenna vitneskju

Enn ein talnaleikfimin er nú komin út í formi stórrar skýrslu og niðurstaðan (mín) er sú að talnaleikfimi og almenn vitneskja fara hér ágætlega saman.

Íslenskir skattar hafa hækkað. Það þarf enga talnaleikfimi til að sýna fram á að slíkt dregur þrótt úr hagkerfinu og kæfir nýjabrumið í fæðingu. Áfram skal haldið á þeirri braut, og samkeppnishæfnin mun taka frekari dýfu í framhaldinu.

Íslenska regluverkið er að flækjast, og þá bæði í formi fleiri tilmæla um hvað má og hvað ekki, en einnig í formi flóknari skatta (þrep, undanþágur, tímabundin ákvæði). Þetta setur rekstur heimila og fyrirtækja í meiri óvissu. Verkefni eru kannski sett í bið á meðan verið er að rannsaka skattaumhverfi þeirra. Fólk biður um að fá greitt "undir borðið" til að forðast flengingu frá skattinum. Erlend fyrirtæki sem sjá tækifæri í orku, mannauði og staðsetningu hika kannski því þau þekkja ekki nýjustu átaksverkefni ríkisstjórnarinnar með tilheyrandi skattatilfæringum. Allt þetta drepur samkeppnishæfnina.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um kæfandi áhrif gjaldeyrishaftanna á hagkerfið. Þau virka eins og einskonar múr í kringum Ísland þar sem skömmtunarstefna ræður för fólks og fyrirtækja.

Pólitísk óvissa hjálpar heldur ekki Íslandi. Ríkisstjórnarflokkarnir eru í grundvallaratriðum ósammála í mörgum grundvallarmálum, en reyna engu að síður að hanga saman í ríkisstjórn því annars fara völdin annað. Núverandi ríkisstjórnarsamstarf er klofnara en ég held t.d. að samstarf VG og Sjálfstæðisflokks yrði (þar sem Sjallar sæju um að lækna mjólkurbeljuna, en VG um að mjólka hana).

Talnaleikfimi "Alþjóðaefnahagsráðsins" staðfestir það sem allir skynsamir Íslendingar vissu fyrir löngu: Samkeppnishæfni Íslands versnandi fer.


mbl.is Dregur úr samkeppnishæfni Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattahækkanir: Brandari?

Jón Gnarr er sagður "fulltrúi breytinga". Svo er þó ekki. Hans tíma í stól borgarstjóra verður minnst sem tíma hefðbundins vinstrimeirihluta, þar sem skattar og skuldir hækka, sem og aðrar álögur. Fé er fengið að láni og því dælt í allskyns sérverkefni t.d. í nafni atvinnusköpunar, jafnréttis og ungmenna. Eftir situr almenningur, skuldsettari en áður, og skattpíndari en áður.

Þetta er mín spá. Menn geta kallað hana neikvæða, bitra eða hvað sem er, en það breytir engu um að ef hún rætist (sem ég held að hún geri), þá getur fólk gert upp við sig hversu fyndnar skatta- og skuldahækkanir Jóns voru, og hvort þær geri Reykvíkinga betur eða verr í stakk búna til að takast á við erfiða tíma framundan. Og hvort einhvern "ferskleika" sé að finna í hinni hefðbundnu vinstrihagstjórn Jóns og Dags B. Eggertssonar. 


mbl.is „Gegnsæ spilling"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþekka nefnd

Þegar stjórnmálamenn vilja ekki virðast of ákveðnir í opinberu ljósi þá bregða þeir oft á það ráð að skipa nefnd til að komast að ákveðinni niðurstöðu, hjúpaða þykkri skýrslu sem er helst af öllu með mörgum töflum og línuritum.

Jón Bjarnason skipaði slíka nefnd sem átti að komast að þeirri niðurstöðu að það væri hægt að svipta útgerðina öllum nýtingarréttindum sínum og setja öll atvinnutæki hennar í mikla rekstrarlega óvissu án þess að gera hana gjaldþrota. 

Nefndin komst því miður ekki að þessari niðurstöðu. Skýrslu hennar verður því stungið ofan í skúffu.


mbl.is Skoðar alla kosti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki-útgerðarmenn tjá sig um útgerð

Á Íslandi og víðar er ekki þverfóta fyrir þeim sem stunda ekki ákveðinn rekstur en hafa engu að síður sterkar skoðanir á því hvernig eigi að stunda sama rekstur.

Dæmi: Ekki-útgerðarmenn sem vilja að fiskveiðiheimildir séu ákveðnar (í magni) og nýttar á einhvern annan hátt en þeir sem stunda útgerð vilja.

Dæmi: Ekki-fyrirtækjarekendur sem predika allskyns leiðir til að ákveða rekstrarskilyrði fyrirtækja sem þeir koma hvergi nálægt nema sem fulltrúar hins opinbera eða "þjóðarinnar".

Dæmi: Ekki-hlutabréfaeigendur sem telja sig vita allt um það hvernig á að "hámarka arðinn" af tekjuleiðum fyrirtækja sem þeir eiga ekki eitt hlutabréf í.

Stundum væri óskandi að þeir sem tala hæst, og nota t.d. orð eins og "andþjóðfélagslegt", reyni í augnablik að setja sig í spor þeirra sem eiga lífsviðurværi sitt undir stöðugum, samningsbundnum og framseljanlegum nýtingar- og/eða eignarrétti á einhverri auðlind, sem væri bæði verðlaus og ónýtt ef ekki kæmi til eitthvað framlag í bæði vinnu og fjárfestingum.
mbl.is Samningaleiðin í raun einkavæðing afnotaréttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengið of sterkt

Leyfi mér að fá að láni blogg-titil annars moggabloggara en sá segir allt sem segja þarf um hinn litla vöruskiptajöfnuð.

Í annarri frétt segir svo að nýskráningum bíla sé að fjölga á Íslandi. Það er til merkis um hagkerfi sem er á kolrangri braut við að hreinsa af sér gjaldþrot hrunsins. 

Á meðan eru menn á fullum launum við það að segja almenningi einhverja vitleysu í nafni hagsmunabaráttu og gera starfsstétt sína að athlægi í leiðinni.

Stundum er ekki öll vitleysa eins, en er engu að síður vitleysa.

Neikvæður hagvöxtur í 1,5 ár er stjórnvöldum að kenna og engum öðrum. Holan er grafin dýpra og dýpra og um leið er logið af almenningi, bæði úr Stjórnarráðinu og skrifstofum hinna og þessa sem skilja ekki gangverk hagkerfisins. Er ekki mál að linni?


mbl.is Vöruskipti áfram hagstæð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband