Talnaleikfimi fer (að þessu sinni) saman við almenna vitneskju

Enn ein talnaleikfimin er nú komin út í formi stórrar skýrslu og niðurstaðan (mín) er sú að talnaleikfimi og almenn vitneskja fara hér ágætlega saman.

Íslenskir skattar hafa hækkað. Það þarf enga talnaleikfimi til að sýna fram á að slíkt dregur þrótt úr hagkerfinu og kæfir nýjabrumið í fæðingu. Áfram skal haldið á þeirri braut, og samkeppnishæfnin mun taka frekari dýfu í framhaldinu.

Íslenska regluverkið er að flækjast, og þá bæði í formi fleiri tilmæla um hvað má og hvað ekki, en einnig í formi flóknari skatta (þrep, undanþágur, tímabundin ákvæði). Þetta setur rekstur heimila og fyrirtækja í meiri óvissu. Verkefni eru kannski sett í bið á meðan verið er að rannsaka skattaumhverfi þeirra. Fólk biður um að fá greitt "undir borðið" til að forðast flengingu frá skattinum. Erlend fyrirtæki sem sjá tækifæri í orku, mannauði og staðsetningu hika kannski því þau þekkja ekki nýjustu átaksverkefni ríkisstjórnarinnar með tilheyrandi skattatilfæringum. Allt þetta drepur samkeppnishæfnina.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um kæfandi áhrif gjaldeyrishaftanna á hagkerfið. Þau virka eins og einskonar múr í kringum Ísland þar sem skömmtunarstefna ræður för fólks og fyrirtækja.

Pólitísk óvissa hjálpar heldur ekki Íslandi. Ríkisstjórnarflokkarnir eru í grundvallaratriðum ósammála í mörgum grundvallarmálum, en reyna engu að síður að hanga saman í ríkisstjórn því annars fara völdin annað. Núverandi ríkisstjórnarsamstarf er klofnara en ég held t.d. að samstarf VG og Sjálfstæðisflokks yrði (þar sem Sjallar sæju um að lækna mjólkurbeljuna, en VG um að mjólka hana).

Talnaleikfimi "Alþjóðaefnahagsráðsins" staðfestir það sem allir skynsamir Íslendingar vissu fyrir löngu: Samkeppnishæfni Íslands versnandi fer.


mbl.is Dregur úr samkeppnishæfni Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hmm. Skattaparadísin Svíþjóð í öðru sæti ... Já og 9 af 20 ríkjum á listanum eru í hinu reglulausa ESB. Já, það eru sannarlega einfaldar skýringar á því hvað Ísland stendur illa og þær skrifast allar á reikning núverandi ríkisstjórnar.  

Pétur (IP-tala skráð) 9.9.2010 kl. 08:34

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Pétur,

Það er eitt að skattar séu háir og að regluverk sé flókið og að það sé hægt að ganga að kerfinu vísu eins og það er áður en lagt er í fjárfestingar eða launaviðtöl.

Það er eitthvað annað þegar skattar og reglur eru á sífelldu flakki og breytast nánast dag frá degi, stundum hjá launafólki, stundum á varning, stundum á fyrirtæki. Óvissan í slíku umhverfi er mikil. Væri þó önnur saga ef verið væri að einfalda skattkerfið, og straumlínulaga reglugerðir. En það er ekki staðan.

Geir Ágústsson, 9.9.2010 kl. 08:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband