Bloggfærslur mánaðarins, júní 2017

Væri ekki snyrtilegra að senda reikninginn beint til almennings?

Núna er talað um að leggja 7 milljarða skatt á raforkuframleiðslu í landinu. 

Þessir sjö milljarðar eiga vitaskuld eftir að leggjast á almenning með einum eða öðrum hætti.

Þeir munu hækka raforkuverð.

Þeir munu draga úr getu raforkufyrirtækja til að borga góð laun.

Þeir munu draga úr getu stórkaupenda til að borga góð laun.

Þeir munu draga úr fjárfestingu, rýra starfsaðstæður og skerða arðgreiðslur hluthafa, hvort sem það eru einkaaðilar eða hið opinbera.

Ríkið mun hins vegar sjúga 7 milljarða af fé úr hagkerfinu og inn í ríkishirslurnar. 

Það má auðvitað kalla nýja skatta hvaða nöfnum sem er en væri ekki snyrtilegra að senda bara greiðsluseðla upp á 7 milljarða á öll fyrirtæki og allan almenning í landinu? Þá sjá menn betur og með berum augum að ríkið er að hækka skatta um 7 milljarða. 

Eða er það of hreinskiptin nálgun?


mbl.is Raforkuskattur gæti skilað 7 milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar ríkisvaldið færir glæpamönnum gjafir

Kemur einhverjum á óvart að vændissala hafi aukist á Íslandi undanfarin ár?

Við þessu höfðu margir varað. Hin svokallaða sænska leið, þar sem sala vændis er lögleg en kaupin ekki, höfðu sömu afleiðingar í Svíþjóð. Vændið jókst en varð um leið ósýnilegra enda viðskiptavinirnir feimnari en áður. 

Nú þarf að fara aðra leið - köllum það þýsku leiðina - þar sem vændi er meðhöndlað af löggjöfinni eins og hver önnur starfsgrein og er gerð að fullu lögleg og sýnileg.

En ætli það verði raunin í landi púrítananna? Nei ætli það.

Í stað þess að gera fleiri hluti löglega á ríkisvaldið það til að fjölga þeim sem eru ólöglegir, líka svokallaðir fórnarlambalausir glæpir. Alvöruglæpamenn fagna því auðvitað. Þeir geta þá aukið vöruúrval sitt. Sá sem er að kaupa landabrúsa eða jónu getur á sama stað keypt sér kynlífsþjónustu, aðgang að fjárhættuspili og kókaín. Kannski vöruúrvalið muni aukast enn meira á næstunni með hertum reglum á rafsígarettur og hækkandi verði á tóbaki. 

Ríkið ætti kannski að taka málið enn lengra og banna bjórinn aftur. Glæpamennirnir - þessir sem beita handrukkurum og hóta fólki með ofbeldi - yrðu eflaust mjög ánægðir með það. Ríkið myndi þá smala enn fleirum inn í leynilegar neðanjarðarverslanir þar sem er hægt að koma unglingsstúlkum í heróínfíkn og þröngva þeim út í líf innbrotsþjófsins þegar skuldin er orðin of mikil. 


mbl.is Sprenging í vændi á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mútur eru einkenni sjúkdóms en ekki sjúkdómurinn sjálfur

Ég vinn fyrir fyrirtæki sem stundar mikið af viðskiptum við Brasilíu. Það getur oft verið mikill vandi. Skrifræðið er gríðarlegt og völd embættismanna líka. Það er nánast ómögulegt að fá leyfi fyrir einu né neinu nema eiga mikið fé og hafa mikla þolinmæði og búa yfir mikilli sérfræði- og innanlandsþekkingu. Margar opinberar stofnanir þurfa að samþykkja hverja skóflustungu. Það að flytja eitthvað inn í landið er enginn hægðarleikur. Oft tekur langan tíma að meðhöndla pappírana. 

Það er því ekki skrýtið að Brasilía sé almennt í vandræðum og í sífellu að eiga við mútumál. Mútur eru oft eina leiðin til að fá einhverju framgengt. Nú er það auðvitað ekki nein réttlæting á neinu - mútur eru lögbrot og ber auðvitað að rannsaka sem slík - en hvar væri Brasilía ef enginn borgaði mútur? Hún væri í enn verri málum en hún er í í dag. Það finnst mér blasa við. Fólk sem borgar mútur er einfaldlega að reyna stunda heiðarleg - ólögleg að vísu en heiðarleg - viðskipti.

Það mun sennilega aldrei renna upp fyrir Brasilíumönnum að það er skrifræðið sem er vandamálið en ekki múturnar. Skrifræði er eðlileg afleiðing flókins lagaverks, viðskiptahindrana og sérhagsmuna. Í varðstöðu fyrir fyrirkomulagið er stór her af opinberum embættismönnum sem njóta mikils starfsöryggis og vilja engu breyta. Viðskiptalífið fær að kafna í staðinn.

Ég vona að glaðlynt, vingjarnlegt og yfirleitt duglegt fólk Brasilíu beri gæfu til að hrista af sér þrúgandi kerfið dag einn.


mbl.is Forseti Brasilíu ákærður fyrir mútur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ríkisstjórnarhrunið byrjað?

Ítalía er eitt skuldsettasta ríki heims. Þar á núna að eyða miklu fé í að bjarga tveimur bönkum. Ríkið hefur ekki efni á þessu en telur ástæðuna greinilega brýna. Það þarf jú að varðveita traustið á bankakerfinu, ekki satt?

Kannski er þessi björgunaraðgerð táknrænt upphaf á næsta hruni. Það hrun verður ekki bankahrun eins og það seinasta, þar sem skattgreiðendur voru skuldsettir til að bjarga bönkum. Nei, næsta hrun verður ríkisstjórnarhrun. Núna eru það ríkissjóðirnir sem þurfa björgun. En hver getur bjargað ríkissjóðum stærstu hagkerfa heims? Enginn. 

Fjármálakerfi heimsins er brothætt spilaborg sem mun hrynja, annaðhvort í bútum eða í heild sinni. Ertu tilbúin(n)?


mbl.is Ráðast í risastóra björgun banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fátækt og stöðnun er sjálfsskaparvíti

Núna getur heimurinn fengið, beint í æð, mörg dæmi um ríki sem grafa sína eigin gröf - fara í vegferð sem gerir þau fátækari og fátækari og stöðnuð.

Tyrkland er eitt dæmi. 

Venesúela er annað.

Ytri aðstæður beggja ríkja eru þannig að bæði gætu verið moldrík. Þar gæti fólk búið við mikla velmegun. En nei, þau velja annan farveg.

Fátækt ríkja er sjálfsskaparvíti. Leiðin til velmegunar er val. Leiðin til ánauðar er það líka. 


mbl.is Hætta að kenna þróunarkenninguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snyrtilegast að banna bara öll viðskipti

Nú tala sumir fyrir því að taka stærstu peningaseðlana úr umferð á Íslandi. Það á að sögn að minnka líkurnar á skattsvikum, t.d. í ferðaþjónustunni.

En gefum okkur að mikið sé um skattsvik. Mun afnám stærstu seðlanna breyta einhverju?

Kannski, en kannski ekki.

Menn brjóta almennt ekki lögin að gamni sínu. Því fylgir áhætta sem allir gera sér grein fyrir. Menn brjóta lögin þegar þau eru orðinn hindrun frekar en gagnlegar leiðbeiningar. Menn brjóta lög sem þykja ósanngjörn. 

Nú á það vitaskuld ekki að vera undir hverjum og einum komin að ákveða hvaða lög eru góð og hver ekki. Það má ekki stela þótt viðkomandi telji fórnarlamb sitt hafa efni á því.

Þingmenn mættu samt hugleiða ástæðurnar á bak við hinum ýmsu lögbrotum sem teljast algeng og hugleiða hvort meginþorri almennings sé að haga sér eins og glæpamenn eða bara eins og almennir borgarar sem eru að reyna bæta sinn hag í daglegu amstri.

Nú fyrir utan að seðlabann bítur illa á ferðamanninn sem gengur um með seðla í bandarískum dollurum eða evrum.

Er alveg óhugsandi að koma bara á gegnsæju, einföldu, fyrirsjáanlegu og sanngjörnu skattkerfi? Þá er ég að meina kerfi þar sem eru lagðir á flatir skattar í lágum prósentum sem leggjast jafnt á alla og eru lausir við undantekningar? Er það alveg fáránlegt kerfi í hugum þingmanna?


mbl.is Ferðaþjónustan ekki uggandi yfir seðlinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríð eru sterar ríkisvaldsins

Þessi misserin er víða verið að setja lög sem auka heimildir ríkisvaldins til að njósna, fangelsa, yfirheyra, ákæra og að öðru leyti gera það sem það vill.

Þetta er að hluta til gert sem viðbragð við meintri ógn af hryðjuverkamönnum.

Nú er ég enginn öryggissérfræðingur en ég er fullur efasemda um ágæti svona löggjafar. Stríð eru sterar ríkisvaldsins. Með því að hefja stríð gegn einhverju, t.d. hryðjuverkum eða eyðimerkurbúum Miðausturlanda, er hægt að þenja út valdheimildir ríkisins. Slíkum valdheimildum þarf svo vitaskuld að fylgja fjárheimildir svo skattar fá líka að hækka.

Stríð eru samt ekki einu sterar ríkisvaldsins. Í Bandaríkjunum tala frjálshyggjumenn gjarnan um "the welware/warfare state" - ríkisvaldið sem stækkar af tveimur ástæðum: Til að heyja stríð, og til að fjölga skjólstæðingum velferðarkerfisins. Velferðarkerfið er líka sterasprauta fyrir hið opinbera.

Því hvað gerist þegar þú þenur velferðarkerfið út? Þú býrð til flókið kerfi þar sem allir eru einhvern veginn bæði að greiða mikið í skatt og þiggja mikið af bótum og styrkjum af ýmsu tagi. Hvers konar freistingar býr slíkt sambland til? Jú, þær að borga eins lítið í skatt og hægt er, og þiggja eins mikið af bótum og hægt er. Það þarf því að reisa umsvifamikið eftirlitsapparat til að fylgjast með fólki, láta það telja fram minnstu upphæðir og gefa nágrönnum möguleika á að fletta manni upp í þar til gerðum skrám til að bera saman lífsstíl og uppgefnar tekjur.

Ríkisvaldið á sér margar klappstýrur sem fagna hverri útþenslu þess, hvort sem það er í nafni stríðsreksturs eða velferðarkerfis (eða bæði). Höfum það á hreinu að ásetningurinn er ekki einhver einlæg manngæska. Ekki eru talsmenn íþyngjandi og umsvifamikils ríkisreksturs að biðja um að tekjur Íslendinga jafnist niður að tekjum Afríkubúa eða að tekjur þeirra sjálfra jafnist niður að tekjum þeirra tekjulægstu. Nei, ásetningurinn er að jafna hæstu tekjur að tekjum jafnaðarmannanna sjálfra. Jafnaðarmenn sofa ekki rólegir vitandi af einhverjum sem hefur tekist að nurla saman í stærri sjóð en þeir eiga sjálfir. 


mbl.is Umdeild lög samþykkt í Japan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið dragi sig úr öllum rekstri

Af hverju rekur ríkisvaldið flugvelli? Vegi? Snyrtivöruverslun í Keflavík? Áfengissöluverslanir? Sjónvarps- og útvarpsstöðvar? Sjúkrahús? Skóla?

Er það af því enginn annar en ríkið getur rekið þessa hluti?

Nei, einkaaðilar geta rekið allt þetta og meira til. 

Er það af því að einkaaðilar geta ekki náð ákveðnum pólitískum markmiðum með rekstri sínum?

Kannski það já.

En getur ríkið ekki náð pólitískum markmiðum án þess að standa í rekstri? Jú, mikil ósköp. Ef ríkið vill að það séu gerðar heimildamyndir um gamalt fólk úti á landi getur ríkið fjármagnað slík verkefni með verktakavinnu og boðið einkaaðilum að senda efnið út gegn gjaldi.

Ef ríkið vill að reykingasjúklingar fái niðurgreidda læknismeðferð við lungnaþembu getur ríkið boðið þá meðferð út til einkaaðila og þeir geta svo framkvæmt hana.

Með því að aðskilja pólitísk markmið og rekstur getur hið opinbera náð mörgum markmiðum.

Það sleppur við kjarasamningaviðræður.

Það sleppur við að þurfa eiga við eilífan rekstrarhalla af nánast öllu sem það snertir.

Það sleppur við þann eilífa hausverk sem fjármögnum lífeyrisskuldbindinga opinberra starfsmanna er.

Það sleppur við þann hausverk að yfir flestum opinberum stofnunum sitja pólitískt skipaðir einstaklingar með sína eigin stefnuskrá. (Líta stjórnmálamenn kannski á það sem blessun en ekki hausverk?)

Stjórnmálamenn hljóta að sjá þetta en vilja engu að síður að ríkið sé með fálmara sína ofan í hverri skoru í samfélaginu. Að baki slíku eru varla umhyggjusjónarmið. Miklu frekar láta stjórnmálamenn ranga hagfræði villa sér sjónir, t.d. þá sem segir að kostnaður af sérhverjum rekstri sé alltaf fasti (t.d. það að sauma sár eða kenna stafsetningu) og að hagnaður af rekstri sé eingöngu til kominn vegna kostnaðarauka. 

Þarf að senda stjórnmálamönnum lesefni?


mbl.is Vilja aukinn einkarekstur flugvalla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstarfsmaður gagnrýnir ríkisstarfsmenn. Sjaldséðir eru hvítir hrafnar

Borgarstjóri London telur að mikill eldsvoði þar í borg, sem tók fjölmörg líf, sé afleiðing vanrækslu hins opinbera.

Þarna er ríkisstarfsmaður að gagnrýna aðra afkima hins opinbera reksturs og hreinlega beina spjótum sínum að ákveðnum aðilum.

Þetta er sjaldgæft meðal opinberra starfsmanna. 

Þegar starfsmenn einkafyrirtækja gera mistök, gera sig seka um vanrækslu eða vanrækja viðskiptavini sína eru samkeppnisaðilarnir fljótir að gera sér mat úr því til að lokka til sín viðskiptavini. Sá sem gerir mistökin sér fram á flótta viðskiptavina, minnkandi tekjur og erfitt opinbert umtal. Þetta er bæði viðbúið og sanngjarnt. Menn eiga að benda á mistök. 

Hjá hinu opinbera blasir þetta aðeins öðruvísi við. Venjulega fá opinberar stofnanir sem gera mistök meira fé en ekki minna til að sinna verkefnum sínum. Yfirmenn þeirra fá fleiri starfsmenn en ekki færri til að ráðskast með. 

Ég efast um að borgarstjóri sé að fara leggja til að eftirlit með byggingum, brunavörnum, húsnæðisbyggingum, vottun og öðru eins verði komið á hinn frjálsa markað, en það má vona!

Sjaldséðir eru hvítir hrafnar en vekja eftirtekt í hvert skipti.

Eldsvoðinn í London er mikill harmleikur. Vonum að einhver hafi lært sína lexíu. 


mbl.is Margra ára vanræksla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The Icelandic Toilet

Yfirvöld og fleiri aðilar klóra sér í kollinum þessi misserin. Þeir sjá stanslausan straum af ferðamönnum koma til landsins og tæma veskin sín, fylla hópferðarbifreiðar og stífla helstu ferðamannaperlurnar á Suðvestur- og Suðurlandi. 

Af hverju dreifa þessir ferðamenn sér ekki meira um landið?

Af hverju kúka þeir í vegkanta og í skógarrjóður en ekki í klósett?

Af hverju tjalda þeir úti um allar trissur?

Af hverju þjappar þeir sér allir í miðbæ Reykjavíkur þegar þeir eru á höfuðborgarsvæðinu?

Yfirvöld og fleiri skilja ekki einföldustu atriði hagfræðinnar. Það er vandamálið, en ekki hegðun ferðamanna.

Það er enginn vandi að fá mann til að kúka í klósett. Það þarf bara að vera klósett til staðar. Til að svo megi verða þarf einhver að fá fjármagn til að reka sama klósett.

Það er enginn vandi að fá fólk til að dreifa sér á fleiri en örfáa staði. Það þarf bara að vera hægt að rukka inn í samræmi við eftirspurn. Eftirsóttustu staðirnir verða þá dýrari og aðrir hlutfallslega ódýrir í samanburðinum, og um leið eftirsóknarverðari.

Það er enginn vandi að fá menn til að tjalda á þar til gerðum svæðum og dvelja á höfuðborgarsvæðinu utan miðbæjarins. Einhver þarf bara að sjá sér hag í að opna tjaldstæði og leigja út húsnæði á þann hátt að það dreifist hæfilega úr fjöldanum.

Yfirvöld eru alveg ráðvillt. Ónei, hvað er til ráða! Það sem er til ráða er að yfirvöld drullist úr veginum og leyfi markaðnum að stilla af framboð og eftirspurn, deilulaust og sársaukalaust. 


mbl.is Hvetja ferðamenn til ábyrgðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband