Mútur eru einkenni sjúkdóms en ekki sjúkdómurinn sjálfur

Ég vinn fyrir fyrirtæki sem stundar mikið af viðskiptum við Brasilíu. Það getur oft verið mikill vandi. Skrifræðið er gríðarlegt og völd embættismanna líka. Það er nánast ómögulegt að fá leyfi fyrir einu né neinu nema eiga mikið fé og hafa mikla þolinmæði og búa yfir mikilli sérfræði- og innanlandsþekkingu. Margar opinberar stofnanir þurfa að samþykkja hverja skóflustungu. Það að flytja eitthvað inn í landið er enginn hægðarleikur. Oft tekur langan tíma að meðhöndla pappírana. 

Það er því ekki skrýtið að Brasilía sé almennt í vandræðum og í sífellu að eiga við mútumál. Mútur eru oft eina leiðin til að fá einhverju framgengt. Nú er það auðvitað ekki nein réttlæting á neinu - mútur eru lögbrot og ber auðvitað að rannsaka sem slík - en hvar væri Brasilía ef enginn borgaði mútur? Hún væri í enn verri málum en hún er í í dag. Það finnst mér blasa við. Fólk sem borgar mútur er einfaldlega að reyna stunda heiðarleg - ólögleg að vísu en heiðarleg - viðskipti.

Það mun sennilega aldrei renna upp fyrir Brasilíumönnum að það er skrifræðið sem er vandamálið en ekki múturnar. Skrifræði er eðlileg afleiðing flókins lagaverks, viðskiptahindrana og sérhagsmuna. Í varðstöðu fyrir fyrirkomulagið er stór her af opinberum embættismönnum sem njóta mikils starfsöryggis og vilja engu breyta. Viðskiptalífið fær að kafna í staðinn.

Ég vona að glaðlynt, vingjarnlegt og yfirleitt duglegt fólk Brasilíu beri gæfu til að hrista af sér þrúgandi kerfið dag einn.


mbl.is Forseti Brasilíu ákærður fyrir mútur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sama er hægt og rólega að ske á Íslandi.

Eftirlitsiðnaðurinn og hver kjaftanefndin

á fætur annari og embættismannakerfið

er að kæfa allt til andskotans.

Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 27.6.2017 kl. 14:00

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Annað lækið á stuttum tíma Geir.

Góður pistill.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.6.2017 kl. 18:19

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég þakka athugasemdirnar. Það er oft gott að fá endurgjöf.

Mér rekur nú í minni mann sem vildi opna fiskbúð í Reykjavík. Hann var hrakinn frá einni opinberri stofnun til annarrar til að fá alla nauðsynlega pappíra: Starfsleyfi, heilbrigðisvottorð, samþykktar teikningar og hvaðeina. Hann vann baki brotnu í marga mánuði við að smíða og innrétta. Þetta kostaði mikinn tíma og mikið fé og ég efast um að niðurstaðan hafi verið betri fyrir viðskiptavinina en ef hann hefði bara fengið einfaldar leiðbeiningar, leyfi til að opna og vera svo settur undir einhvers konar eftirlit.

Hinar ýmsu opinberu stofnanir gátu ekki einu sinni verið á einu máli um hvar ætti að vera ræsi í gólfinu, hvað þá meira!

Ég vona að Ísland sé EKKI á leið í þessa vegferð sem plagar Brasilíumenn og marga aðra. Það er eins og Helgi í Góu sagði einu sinni: Einu sinni var nóg að opna og fá svo eftirlitsmenn í heimsókn til að athuga hvort allt sé í lagi. Núna þarf að hafa allt stimplað og vottað áður en hægt er að opna - nokkuð sem er ekki á færi annarra en þeirra sem hafa efni á að bíða svo lengi eftir tekjum.

Geir Ágústsson, 27.6.2017 kl. 19:11

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Þetta er ESB veiran Geir.

Munurinn er sá að það hvarflar að fáum þjóðum innan ESB að fara eftir öllu reglugerðarfarganinu, en aukaaðildarþjóðirnar, Ísland og Noregur, eru kaþólskari en páfinn í þessum efnum.

Ömurleikinn í þessari umræðu er sá, að fórnarlömbin, framtakssamir íhaldsmenn sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn, trúa því allir sem einn að þetta reglufarganið, og fullnusta þess sé einhvers konar vinstrimennska.

Þó mér vitanlega hafi bara verið 3 meintar vinstristjórnir frá 1970.

Og það breytist ekkert á meðan menn kenna þeim um sem hafa ekkert með málið að gera.

Mín skoðun, sem alls ekki nokkur maður þarf að vera sammála, er að skýringanna má leita til tilhneigingar stórfyrirtækja til að búa til hindranir til að tryggja fákeppni þeirra eða allt gengur upp, monopoly.

Samhengið ætti að vera augljóst, meðlimir framkvæmdarstjórnar ESB eiga vísa stöðu við ráðgjöf eitthvað eftir að þeir láta af störfum, stöður í einkageiranum, hjá stórfyrirtækjum ESB.

Hið stóra, hvort sem það er sósíal, eða einka, ógnar alltaf hinum smáa, reynir að setja upp girðingar, reynir að hindra aðgang, og reglufargan, sem vísar í félags eitthvað, eða neytendavernd eitthvað, eða umhverfisvernd eitthvað, er ákaflega skilvirk leið til þess.

Hver getur verið á móti forsendunum??

Allavega, Teddi Roosevelt og aðrir borgaralegir íhaldsmenn sáu hættuna við þessa girðingastarfsemi risanna, og settu lög gegn samþjöppun og einokun.

Í nafni frelsis hins hafa þessi lög að mestu verið afnumin þar vestra, og hafa ekki verið sett að neinu viti í öðrum vestrænum löndum.

Og þar sem ég veit Geir, að þú ert einlægur unnandi frelsis einstaklings, gæti alveg verið skyldur Bjarti frænda frá Sumarhúsum, og hefur aldrei gefið afslátt af prinsippum þínum, að þá ættir þú svona í alvöru að íhuga hverjir kostuðu frjálshyggjuna, og hverjir njóta ávinnings þess þegar ríkisvaldið er dánládað.

Hverjir fylla uppí tómarúmið??

Og það er gróðahvötin sem rekur þá áfram, ekki frelsishvötin.

Því hún býr í okkur einstaklingnum, sem vill fá þokkalegan frið fyrir skrifræði, en ekki hvað síst gegn ofríki hinna stóru.

Sem miskunnarlaust beita ríkisvaldinu fyrir sig til þess að gera okkur hinum, fjöldanum, lífið illbærilegt eða óbærilegt.

En þetta er bara mín skoðun.

Sem og reyndar margra annarra af frændgarði Bjarts, hins sjálfstæða einyrkja, sem vildi bara að fá að vera í friði með sitt brauðstrit.

Takk fyrir góða athugasemd Geir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.6.2017 kl. 19:59

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Ríkisvaldið er eins og tvíeggja sverð.

Þú getur valið að beita því á eitthvað en hættir um leið á að skera sjálfan þig. 

Þetta er svona eins og að hafa ljón í stofunni til að flæma burtu innbrotsþjófa. Hættan er raunverulega sú að ljónið geri þig að fórnarlambi sínu í staðinn.

Nú eða eins og að borga mafíósa fyrir að vernda þig. Hann gæti allt eins rænt þig á morgun því einhver annar náði að höfða til hans með betra tilboð.

Ég er andsnúinn ríkisvaldinu sem hugmynd. Eigi það að vera til staðar á það bara að hafa fyrirframskilgreind og afmörkuð verkefni. Um leið þarf öll stjórnsýsla að fylgja ferlum sem allir þekkja til, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Ég hef ekki áhyggjur af því hvernig fer ef það tekst einhvern daginn að leggja ríkisvaldið niður. Samfélagið og hagkerfið renna þá saman. Fyrirtæki keppa ekki bara í að bjóða ódýran klósettpappír heldur líka þjónustu sem við erum alin upp við að ríkið veiti í dag. 

Ég skil ótta þinn en ég deili honum ekki. 

Varðandi söguskýringar þínar þá finnst mér þær vafasamar. Theodor Roosevelt vildi þjappa meira af valdi í hendur ríkisvaldsins. Lögin sem hann samdi til að brjóta upp Standard Oil Rockefeller voru óþarfi enda hafði markaðshlutdeild þess fyrirtækis verið á hraðri niðurleið árin á undan á blússandi samkeppnismarkaði sem færði neytendum mikinn ávinning. 

Geir Ágústsson, 28.6.2017 kl. 06:54

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Hann samdi auðvitað ekki lögin sem brutu upp Standard Oil (The Sherman Antitrust Act) en hann beitti þeim af meiri hörku en áður þekktist. Um leið reyndi hann að smala vinnandi fólki inn í verkalýðsfélög, sem eru jú ekkert annað en ríkisstudd einokun á launaviðræðum. 

Geir Ágústsson, 28.6.2017 kl. 06:58

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Ég veit að þú deilir honum ekki.

En þú ert maður til að ræða hlutina á málefnalegan hátt.

Takk fyrir spjallið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.6.2017 kl. 07:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband