Bloggfærslur mánaðarins, október 2015

Búið mál eða er nýtt fyllerí að hefjast?

Ríkisstjórnin virðist vera að nálgast uppgjör vegna föllnu bankanna sem leiðir ekki til lögsókna né hruns í hagkerfinu. Það er gott. 

Ríkisvaldið ætlar að soga til sín yfir 500 milljarða króna. Ef þær fara í að greiða niður skuldir sem lækka vaxtagreiðslur úr vösum skattgreiðenda og skapa myndarlegt svigrúm fyrir miklar skattalækkanir á allt og alla þá er það gott. Hins vegar er mikil hætta á að þessir peningar verði notaðir til að fjármagna draumóra og kosningabaráttu í kjördæmum þingmanna: Göng grafin, brýr reistar og stofnanir settar á fót. Þá verða þessir peningar að bölvun og bagga fyrir íslenskan almenning.

Í hvert skipti sem ríkisvaldið reisir byggingu eða grefur göng er það nefnilega ekki bara að nota peninga núna, heldur um alla framtíð í formi viðhalds og starfsmanna. 

Það má alveg vona að þetta fé verði nýtt til að greiða niður skuldir og að eyðsluglaðir stjórnmálamenn (sem vilja taka heiðurinn af öllu nema eigin verkum) verði settir út í horn. 

Getur svo einhver vinsamlegast útskýrt fyrir mér afstöðu stjórnarandstöðunnar til samkomulags ríkisins við kröfuhafa? Mér sýnist þau í stjórnarandstöðunni bæði vera að hrósa sér fyrir samkomulagið (þ.e. að eitthvað hafi orðið að samkomulagi) en um leið bölva því (því ríkisvaldið hefði, að þeirra mati, átt að sjúga meira fé í hirslur sínar). Ætla þingmenn fráfarandi ríkisstjórnar virkilega að halda því fram að þeir hefðu geta gert eitthvað betur ef þeir hefðu bara fengið fleiri tækifæri? Það er tal sem ég heyri frá 10-11 ára strákum sem vilja vera stórir en eru ekki orðnir það enn. 

Næsta skref ríkisstjórnarinnar er svo vonandi að leggja niður Seðlabanka Íslands, selja allar fjármálastofnanir sínar, leggja niður megnið að ríkisregluverkinu sem gefur út heilbrigðisvottorð til fjármálafyrirtækja og aftengja alveg ríkisreksturinn og rekstur fjármálastofnana og einangra þannig skattgreiðendur alveg frá áhættusækni fyrirtækja og einstaklinga. 


mbl.is Ríkissjóður fær 500 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjaftaklúbbur á kostnað skattgreiðenda

Nú á að stofna enn einn kjaftaklúbbinn á kostnað skattgreiðenda. Er engin leið til að fá opinbera starfsmenn til að tala um áhugamál sín í sínum eigin frítíma? Nú eiga umræður um framtíð Íslands sér stað í öllum heitapottum Íslands, daglega, svo dæmi sé tekið. Væri ekki ódýrara að koma bara fyrir upptökutækjum þar og láta tölvu færa tal yfir í texta og prenta sjálfkrafa út í prentara ráðherra?

Ég legg til að ráðherra láti það verða sitt fyrsta verk í framtíðinni að leggja niður Framtíðarsetur Íslands. 


mbl.is Framtíðarsetur Íslands stofnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Starfsmenn einkafyrirtækja starfa áfram

Flest verkföll eru hjá fólki sem hefur ekki í önnur hús að venda en hið opinbera. Ríkisvaldið er svo umsvifamikið að það gefur víða ekkert svigrúm fyrir einkafyrirtæki sem gætu viljað spreyta sig í að veita ýmsa þjónustu. 

Á Íslandi er t.d. lítið pláss fyrir einkaaðila í heilbrigðisþjónustu þótt eitthvað sé nú sem betur fer að rætast úr því á takmörkuðum sviðum. Vissulega geta sjóndaprir eins og ég flakkað á milli ógrynni einkafyrirtækja sem keppast um að veita bestu fáanlegu tækni, góða þjónustu og gott úrval, en hið sama er ekki hægt að segja um marga heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Verkalýðsfélögin vita þetta og vita að þau geta beitt löggjöf í kringum starfssemi þeirra eins og kylfu á öllum sem standa í vegi þeirra. Að hugsa sér að stéttarfélag geti lamað áfengissölu í landinu! Vonandi verður þess ekki lengi að bíða að slíkt heyri sögunni til með frjálsri sölu áfengis á Íslandi að hætti Dana og Þjóðverja (svo einhverjar frumstæðar og drykkfelldar barbaraþjóðir séu notaðar sem dæmi).

Starfsmenn einkafyrirtækja halda áfram að mæta í vinnuna og leysa sínar launadeilur innanhúss og á friðsælan hátt sem bitnar ekki á sjúklingum eða neytendum. Vonandi er ríkisstjórnin að hugsa til þess á meðan verkalýðsfélög herja á skattgreiðendur og almenning. 


mbl.is Þegar búin að fara fram yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græðgi

Að sögn páfa er hag­kerfi heims­ins óhæft eins og það er í dag. Hann seg­ir að kapí­tal­ismi og hagnaður sé ekk­ert djöf­ul­legt svo lengi sem við ger­um þá ekki að átrúnaðargoðum held­ur leyf­um þeim að vera tæki til aðstoðar. 

Páfinn er e.t.v. ekki menntaður hagfræðingur en stundum hittir hann naglann á höfuðið. Ætli hann sé hérna að vísa í útbreidda starfsemi seðlabanka í heiminum sem prenta peninga ofan í vasa hinna ríku og vel tengdu og auðvitað ríkissjóða á meðan aðrir sitja eftir með verðbólguna og skuldirnar? Hver veit!

Ég ætla að leyfa mér að mæla með þessari litlu grein á Deiglan.com fyrir þá sem vilja lesa yfirvegaðar hugleiðingar um græðgi annars vegar og heiðarlegan hagnað hins vegar. Svolítil tilvitnun:

Græðgi er hugtak sem á fyrst og fremst við um það þegar menn verða svo helteknir af efnislegum gæðum og stöðutáknum, að þeir stytta sér leið til þess að njóta uppskeru sem þeir hafa ekki sáð til, eða sem einhver annar hefur sáð til.

Njótið!


mbl.is Græðgi að rústa heiminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Báknið vindur upp á sig

Alþingi væri sómi í að breyta strax lögum sem þvinga sveitarfélög til að fjölga fulltrúum í sveitastjórnum. Það er engin ástæða til að raða fleiri stjórnmálamönnum á spena skattgreiðenda.

Þegar Davíð Oddsson var borgarstjóri á sínum tíma fækkaði hann borgarfulltrúum úr 21 í 15 og var það hluti af viðleitni til að minnka báknið. Nú á að synda í hina áttina.

Það er athyglisvert að lesa gömul ummæli um þá fækkun borgarfulltrúa. Á einum stað er t.d. bent á að ef það hefði ekki verið gert þá hefði Sjálfstæðisflokkurinn fengið fleiri menn kjörna í borgarstjórn. Ætli sveitarstjórnarmenn séu þess vegna ekki að andmæla hinum nýju lögum frá Alþingi - því þeir sjá fram á fjölmennari flokksfundi í borgarstjórn?

Miklu nær væri að fækka borgarfulltrúum enn meira svo þeir hafi ekki undan vinnuálaginu og nái síður að skipta sér af öllum sköpuðum hlutum og hvað þá keppast um að koma með nýjar hugmyndir um útgjöld fyrir hönd skattgreiðenda. 


mbl.is Borgarfulltrúar verða 23 árið 2018
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flott aðgerð sem kennir okkur ýmislegt

Verkfall lögreglu og skyndileg bylgja veikinda meðal lögreglumanna kennir okkur ýmislegt. Enn starfar samfélagið og ekki hafa enn borist fréttir af stórkostlegri aukningu ofbeldisglæpa og þjófnaða. Það sýnir okkur að þeir lögreglumenn sem þó mæta í vinnuna og halda heilsu eru að gera eitthvað, t.d. forgangsraða í þágu ofbeldisglæpa og þjófnaða.

Þetta byggi ég að vísu bara á tilfinningu en látum okkur sjá. Á Íslandi er bannað að gera alveg ótrúlega mikið og á könnu lögreglu er að framfylgja svo mörgum lögum, reglum, boðum og bönnum að það er ótrúlegt. Auðvitað sleppa mörg brot í gegn en nú má ætla að allskyns fórnalambalaus brot fái enn minni forgang. Lögreglan brýst inn á færri heimili til að gera plöntur upptækar, hellir úr brúsum færri unglinga, áreitir færri nektardansara og fjárhættuspilara og lætur þá í friði sem keyra um bílbeltalausir.

Lögreglan er hérna ómeðvitað að gefa skilaboð til stjórnmálamanna: Fækkið í lagasafninu og löggæslan hættir að krefjast meiri og meiri fjármuna. 


mbl.is Mikil veikindi meðal lögreglumanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú stendur ríkissjóður vel og þá skal eyða!

Í ár stefnir í að ríkissjóðir verði rekinn með einhverjum afgangi og að byrjað verði að ganga á skuldahítina. Þá er hætt við að allskyns útgjaldahugmyndir skjóti upp kollinum og sýnist mér það vera raunin hér. Í stað þess að áhugamenn um tiltekið áhugamál standi straum af kostnaði áhugamáls síns þá er leitað í vasa skattgreiðenda.

Nú er Laxnesssetur ekki verri hugmynd en hver önnur til að eyða fé skattgreiðenda en það þýðir ekki að hún sé góð heldur að margar hugmyndir eru enn verri. 

Alþingi ætti að sýna sóma sinn í að loka á þessa hugmynd og beina þess í stað tilmælum til áhugamanna um Nóbelsverðlaun og bókmenntir að hér megi eyða eigin fé en ekki annarra. Ég er líka viss um að niðurstaðan verði betri þótt eyðslan verði minni. 


mbl.is Vilja Laxnesssetur á Gljúfrasteini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkavæðum lögregluna

Hlutverk lögreglu er ekki það sérstakt og einstakt að það megi ekki bera saman við allskyns önnur störf. Hún sér um að framfylgja ákveðnum reglum og lögum, handsama menn og færa til dómara, koma ölvuðu fólki heim til sín og skamma krakka sem hjóla án hjálma.

Allt þetta og meira til má einkavæða. Það væri í raun einfalt mál með réttum lagabreytingum.

Það er jú þannig að varningur og þjónusta sem nýtur einokunarstöðu rýrnar í gæðum og hækkar í verði. Löggæsla er hér engin undantekning. Halda menn að fyrirtæki eins og Bónus og Króna, BYKO og Húsasmiðjan, Olís og Skeljungur og önnur eins séu að hækka verð, stunda samráð og kreista meira út en nauðsyn krefur? Ef svo er þá hljóta menn að velta fyrir sér hvað heilbrigðiskerfið, skólarnir og lögreglan eru að gera á bak við þykkan múr ríkiseinokunar. Ógleymdir eru dómstólarnir sem virðast vera breytast í lokaðan sjálftökuklúbb og Vegagerðina sem gerir minna og minna fyrir meira og meira, og svona mætti lengi telja.

Nú er vandamálið að vísu það að svo margt er bannað á Íslandi að enginn heiðarlegur maður kemst í gegnum heilan mánuð án þess að hafa brotið a.m.k. ein lög. Þessu þarf vitaskuld að ráða bót á. Upplagt er að fjarlægja sérstaka lagabálka um fíkniefni, áfengissölu og -framleiðslu allra á sjálfræðisaldri, kynlíf gegn greiðslu og aðra ofbeldislausa glæpi. Um leið minnkar fjárþörf löggæslunnar. Færri glæpir kosta minna en margir glæpir. 

Ég legg til að lögreglan verði einkavædd og að fyrirtæki við löggæslu, sem þá munu myndast, geta þá keppt í gæðum og verði en ekki sýndarmennsku og fjölda fréttatilkynninga um eltingaleiki við óharðnaða unglinga. 


mbl.is „Við erum kolbrjálaðir og til í allt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband