Búið mál eða er nýtt fyllerí að hefjast?

Ríkisstjórnin virðist vera að nálgast uppgjör vegna föllnu bankanna sem leiðir ekki til lögsókna né hruns í hagkerfinu. Það er gott. 

Ríkisvaldið ætlar að soga til sín yfir 500 milljarða króna. Ef þær fara í að greiða niður skuldir sem lækka vaxtagreiðslur úr vösum skattgreiðenda og skapa myndarlegt svigrúm fyrir miklar skattalækkanir á allt og alla þá er það gott. Hins vegar er mikil hætta á að þessir peningar verði notaðir til að fjármagna draumóra og kosningabaráttu í kjördæmum þingmanna: Göng grafin, brýr reistar og stofnanir settar á fót. Þá verða þessir peningar að bölvun og bagga fyrir íslenskan almenning.

Í hvert skipti sem ríkisvaldið reisir byggingu eða grefur göng er það nefnilega ekki bara að nota peninga núna, heldur um alla framtíð í formi viðhalds og starfsmanna. 

Það má alveg vona að þetta fé verði nýtt til að greiða niður skuldir og að eyðsluglaðir stjórnmálamenn (sem vilja taka heiðurinn af öllu nema eigin verkum) verði settir út í horn. 

Getur svo einhver vinsamlegast útskýrt fyrir mér afstöðu stjórnarandstöðunnar til samkomulags ríkisins við kröfuhafa? Mér sýnist þau í stjórnarandstöðunni bæði vera að hrósa sér fyrir samkomulagið (þ.e. að eitthvað hafi orðið að samkomulagi) en um leið bölva því (því ríkisvaldið hefði, að þeirra mati, átt að sjúga meira fé í hirslur sínar). Ætla þingmenn fráfarandi ríkisstjórnar virkilega að halda því fram að þeir hefðu geta gert eitthvað betur ef þeir hefðu bara fengið fleiri tækifæri? Það er tal sem ég heyri frá 10-11 ára strákum sem vilja vera stórir en eru ekki orðnir það enn. 

Næsta skref ríkisstjórnarinnar er svo vonandi að leggja niður Seðlabanka Íslands, selja allar fjármálastofnanir sínar, leggja niður megnið að ríkisregluverkinu sem gefur út heilbrigðisvottorð til fjármálafyrirtækja og aftengja alveg ríkisreksturinn og rekstur fjármálastofnana og einangra þannig skattgreiðendur alveg frá áhættusækni fyrirtækja og einstaklinga. 


mbl.is Ríkissjóður fær 500 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hver á að sjá um peningaútgáfuna?

Guðmundur Ásgeirsson, 29.10.2015 kl. 13:43

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Bónus, Hagkaup, Guðmundur Ásgeirsson, Mises Institute, Olís, Eimskip og Árni Johnsen, Bitcoin-sjoppan - þessir aðilar byrja allir um leið að framleiða peninga og keppast um að fá sem flesta til að nota sína peninga, og keppa um leið við evruna, dollarann og suður-afríska randið. Sumir prenta skírteini, seðla, USB-lykla eða ljósritaðan pappír út á velvilja, aðrir hlutabréf, aðrir bindingu við gull. Þeir keppa í trausti og trúverðugleika og vilja fólks og fyrirtækja til að taka við nákvæmlega þeirra peningum. Sumir verða ofan á en aðrir ekki. 

Geir Ágústsson, 29.10.2015 kl. 14:53

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Frábært. Ég ætla að kaupa húsið þitt, gjörðu svo vel hérna eru 100 miljón spesíur glóðvolgar úr laser prentaranum mínum.

Ef það er ekki nóg þá prenta ég bara fleiri. Viltu 200? 300? Milljarð?

Láttu mig vita hvenær þú vilta afhenda lyklana.

;)

Guðmundur Ásgeirsson, 29.10.2015 kl. 14:56

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Nei hættu nú alveg, þú talar eins og Seðlabanki Íslands!

Geir Ágústsson, 29.10.2015 kl. 15:03

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Annars hefur frjáls peningaútgáfa aldrei verið neitt vandamál svona sögulega séð nema síður sé. Hérna hefur samkeppnin og frjáls aðkoma verið alveg eins ljómandi og annars staðar og niðurstaðan traustari peningar en það sem við þurfum að kljást við í dag. 

Frjálst framtak varð fyrst vandamál þegar forsetar og kóngar uppgötvuðu valdið sem felst í einokun á þessu sviði og byrjuð að gera út spekinga og menntafólk til að búa til fræðilega umgjörð utan um ágæti þeirrar ríkiseinokunar.

Geir Ágústsson, 29.10.2015 kl. 15:05

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Með göng sérstaklega, - að þá eru þau beisiklí arðbær.

Það er eins og sumir íslendingar átti sig ekki á fjallvegunum sem oft er verið að fara og hve gríðarlegt vesen er td. með þá vetrum með tilheyrandi kostnaði.

Auk þess kemur græði af jarðgöngum vegn miklu auðveldari samgangna sem leiðir til aukinna umsvifa.

Í Færeyjum er aæveg almenn sátt um þetta.  Jarðgöng stækka Færeyjar, segja þeir færeyingarnir.

Stóri gallinn er, að ekki skuli vera búið fyrir langa löngu að bora í gegnum hvert einasta andskotans fjall hérna.

Það hefði vel verið hægt.  Fyrir löngu.

Það er eins og spillingin hafi bara verið allt of mikil hérna frá Lýðveldisstofnun.  Fjármunirnir fara alltaf í botnlausa framsjallahít og sjást aldrei, virðist vera.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 29.10.2015 kl. 16:12

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Ómar,

Það getur vel verið að þú hafir rétt fyrir þér en í núverandi fyrirkomulagi mun það aldrei koma fram (þar sem ríkið á, rekur og viðheldur vegunum, ríkisstofnanir fá úthlutað fé til að sinna nákvæmlega þeim framkvæmdum og viðhaldi og þeim er sagt, og skattgreiðendur látnir borga). 

En segjum að vegakerfið yrði einkavætt og að þeir sem nota tiltekna vegspotta eru þeir sem borga fyrir notkun þeirra. Hefðu Austfirðingar þá beðið svona lengi til að borga á milli Eskifjarðar og Neskaupsstaðar til að sleppa við Oddsskarðið og öllu því umstangi sem viðhald þess felur í sér, fyrir utan ófærðina og almenn óþægindi? Kannski ekki.

Geir Ágústsson, 30.10.2015 kl. 04:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband