Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Atvinnuleysi útrýmt á einum degi

Atvinnuleysi er í eðli sínu einfalt fyrirbæri, jafneinfalt og uppsafnaður lager af dósamat í Hagkaup. Atvinnuleysi er misræmi milli þess verðs sem er hægt að greiða fyrir vinnuafl, og þess verðs sem atvinnulausir krefjast fyrir vinnu sína.

En hvers vegna ættu atvinnulausir einstaklingar að krefjast hærra verðs fyrir vinnu sína en hægt er að bjóða? Það er af því þeir fá meira í vasann fyrir að gera ekkert og þiggja atvinnuleysisbætur.

En hvers vegna geta atvinnurekendur ekki boðið næg laun til að koma fólki úr bótakerfinu og á vinnumarkaðinn? Fyrir því geta verið margar ástæður, en skattkerfið er tvímælalaust ein af þeim. Skattar á laun eru háir, fyrirtæki þurfa að borga háa skatta af hagnaði sínum og af fjármagnstekjum sínum, lögskyldar tryggingar vegna launþega hækka endalaust í verði, sem og skattur á veltu fyrirtækja. Það sem stendur eftir er hægt að greiða út í laun, og þann sjóð hafa yfirvöld minnkað töluvert á seinustu árum.

Verkalýðsfélög gera líka illt verra. Þau beinlínis þrýsta á ríkið að niðurgreiða atvinnuleysi, eða á atvinnurekendur að borga svo há laun fyrir tiltekna tegund vinnu að þá vinnu þarf að manna með mun færri einstaklingum en ella væri raunin.

Atvinnuleysi er nokkurn veginn sjálfskapað vandamál sem má leysa á um það bil einum degi. En það myndi krefjast pólitískt óvinsælla aðgerða, þótt tímabundnar væru.

En það er hægt. 


mbl.is Ekki endilega lausn að lengja tímann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðmál, hausthefti 2012

 

Þjóðmál, hausthefti 2012

 

Væntanlegt í Bóksölu Andríkis. Mikið hlakka ég til að fá eintak í hendurnar!


Flotholtin í sökkvandi hagkerfi

Hagkerfið er sökkvandi skip, og séreignar"lífeyris"sparnaðurinn hefur verið flotholt margra. Annað flotholt hefur verið stórkostleg aukning skulda, t.d. yfirdráttar. Fólk er að reyna að bjarga sér og bíða eftir því að hagkerfið taki við sér aftur. Hagkerfið mun samt ekki taka við sér á meðan ríkisvaldið heldur áfram að skuldsetja það (og kenna öðrum um þá skuldsetningu), og hækka skatta, og fjölga reglum, og þvinga alla til að nota íslenska krónu í gjaldeyrishöftum.

Ríkisstjórnin hefur framlengt "leyfi" fólks til að taka úr "lífeyris"sparnað "sinn" (margar gæsalappir, ég veit) af góðum og gildum pólitískum ástæðum. Þetta er ódýr leið fyrir stjórnmálamenn til að fegra hagtölurnar. Sparnaðurinn fer í neyslu og hægir á skuldsetningu. Fjárfesting er engin en svo virðist sem fáir spái í ástæðum og afleiðingum þess.  

Vinstrimenn tóku við leku skipi og tóku þá ákvörðun að bora 100 holur í skrokk hans. Ástandið fór því úr því að vera slæmt í að verða miklu, miklu verra. Það er pólitískt afrek ríkisstjórnarinnar og á hennar ábyrgð en ekki einhverra annarra sem voru ráðherrar fyrir um 4 árum síðan.  


mbl.is 75 milljarðar teknir út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrimenn: 'Ekki mér að kenna!'

Samband ungra sjálfstæðismanna opnaði nýlega síðuna Skuldaklukka hins opinbera. Þetta er gott framtak. Svipaðar klukkur má finna í mörgum öðrum löndum og er þessi frá Bandaríkjunum sennilega sú frægasta. Stjórnmálamenn elska að eyða um efni fram, safna skuldum, prenta peninga og senda skattgreiðendum framtíðarinnar himinháa reikninga.

Uppistaðan í ríkisstjórn Íslands hefur nú verið við völd í tæp 4 ár og sumir ráðherrar hennar raunar síðan 2006. Eftir hrunið hefur ekkert breyst til batnaðar í efnahagsmálum Íslendinga. Þegar vinstrimönnum er bent á gríðarlega skuldasöfnun hins opinbera, seinustu 4 ár, í deyjandi hagkerfi, eru viðbrögðin alveg stórkostleg. Tvö dæmi (úr athugasemdum á heimasíðu skuldaklukkunnar):

Hvar í rannsóknarskýrslu alþingis kemur fram að Katín Jakobsdóttir eða Jón Gnarr beri ábyrgð á hruninu?

 Fólk þarf aðeins að kynna sér hugtakið "orsök og Afleiðing". Orsök þessarar skuldasöfnunnar er Afleiðing hluta sem hafa verið að gerast undanfarin 15. ár ekki síðustu fjögurra. Þegar þú kúkar á þig áttu ekki að skammast í þeim sem eru að þrífa það..

Með öðrum orðum: Skuldasöfnun vinstrimanna (hvar sem þeir nú sitja) er ekki þeim að kenna, heldur þeim sem voru við völd fyrir um 4 árum síðan (að undanskildum Samfylkingarráðherrum þáverandi ríkisstjórnar).

Ég spyr: Til hvers að bjóða sig fram til Alþingis og segja þar já við völdum og titlum og geta svo ekki litið til baka yfir verk sín og sagt, "svo sannarlega var ég við völd, og lagði mitt af mörkum, og kom stefnu minni áleiðis, þótt sumt hafi gengið betur en annað"?!

Þeir sem reyna að afsaka ríkisstjórnina frá hennar eigin valdatíma eiga vægast sagt bágt. Krakki sem brýtur glas með óvitaskap fær skammir og er beðinn um að taka ábyrgð á gjörðum sínum og lofa að vanda sig næst, og er jafnvel látinn þrífa glerbrot. En hvaða meðhöndlun fá vinstrimennirnir? Þeir eru afsakaðir! Þeim er sagt að vissulega molnaði allt í höndunum á þeim, en það sé nú í lagi, því fyrir næstum því fjórum árum voru einhverjir aðrir við völd, og á þá má endalaust klína öllu.

Þetta pólitíska hugleysi og flótti frá eigin verkum er engum til framdráttar. Siðferðisbrestur hlýtur að plaga þetta fólk. Hvernig lætur það heima hjá sér eða í hópi vina? "Það var ekki mér að kenna að ég sló þig rétt í þessu, því sjáðu til fyrir 4 árum síðan sagði Geir H. Haarde mér að sveifla hendinni, og ég var bara að framfylgja þeim fyrirmælum, og þú varst svo óheppinn að standa fyrir framan mig á sama tíma." 

Næsta ríkisstjórn þarf að eyða öllu kjörtímabili sínu í þungbær og erfið verkefni, mikla tiltekt og stórkostlegan niðurskurð á öllum afkimum ríkisvaldsins svo bæði megi lækka skuldir hins opinbera og skatta á allt og alla, samtímis. Ég vona að þótt sú tiltekt sé vegna óráðsíu núverandi ríkisstjórnar muni komandi ríkisstjórn samt taka ábyrgð á verkum sínum, og um leið útskýra nauðsyn þeirra og langtímamarkmið. Í því er miklu meiri manndómur en að klína endalaust og alltaf öllum sínum skít á aðra. 


Einkennileg sagnfræði Stefáns Ólafssonar

Hinn vinstrisinnaði félagsfræðingur, Stefán Ólafsson, er að reyna selja Íslendingum ákveðna og frekar sérstaka söguskoðun: Að á eftirstríðsárum Bandaríkjanna hafi ríkt einhvers konar "ríkisþátttökuskeið" sem einkenndist af tvennu: Miklu góðæri og hagvexti, og háum hátekjusköttum. Aðdáendur hans, t.d. hinn vinstrisinnaði heimspekiprófessor og höfundur bókarinnar Kredda í kreppu, Stefán Snævarr, hafa svo étið upp þessa söguskoðun Stefáns Ólafssonar. Vonandi eru þeir samt varla mikið fleiri sem hafa fallið fyrir þessari brenglun á staðreyndum.

Hverjar eru staðreyndirnar svo? Jú vissulega hafa hátekjuskattar í Bandaríkjunum flakkað mikið, bæði upp og niður, seinustu 100 ár. En að ætla sér að einblína á þá og draga ályktanir er í besta falli barnalegt og í versta falli vísvitandi blekking.  

Það sem hefur gerst í Bandaríkjunum, smátt og smátt frá upphafi 20. aldar og hratt og öruggulega seinustu árin, er stórkostlegur og gríðarlegur vöxtur alríkisvaldsins þar, og í flestum tilvikum vald einstaka ríkja líka. Skattbyrðin hefur vaxið gríðarlega, sem og reglugerðafrumskógurinn. Fyrirtæki flýja ekki lengur til Bandaríkjanna heldur frá þeim. 

En hin síðari ár, þegar vöxtur ríkisvaldsins hefur verið hvað mestur í Bandaríkjunum, vill Stefán Ólafsson kalla "frjálshyggjuárin" af því hátekjuskattar hafa lækkað eitthvað frá því sem mest var! 

Hátekjuskatturinn er hár skattur á háar launatekjur. Hálaunamenn vita yfirleitt hvernig á að losna við hann eða lágmarka skaðann af honum. Hátekjuskatturinn er því frekar meinlaus fyrir raunverulega ríka einstaklinga. Hann kemur verst niður á þeim sem ætla sér að komast úr miðstétt en lenda þá á gríðarlegri skattheimtu. Kannski er gott fyrir "hagvöxtinn" að þvinga sem flesta á uppleið til að hanga í millistétt? Það væri athyglisvert að sjá Stefán Ólafsson færa rök fyrir. 

Hin almenna byrði af hinu opinbera hefur vaxið alveg gríðarlega í Bandaríkjunum seinustu ár og áratugi (já, meira að segja á tímum Reagan og George Bush eldri). Menn sem kalla sig hægrimenn eða íhaldsmenn hafa jafnvel staðið fyrir megninu af þessum vexti seinustu árin, þótt Obama hljóti að slá öllum forsetum Bandaríkjanna fyrr og síðar við. Sagnfræði Stefáns Ólafssonar er pólitískur blekkingarleikur til að réttlæta aukna skattheimtu, punktur.  


Einn gjaldeyrir án miðstýringar?

Einu sinni notaði allur heimurinn sömu tegund peninga. Sú tegund hélt aftur af peningaprentvélunum, veitti ríkisvaldinu strangt aðhald í ríkisfjármálum, sameinaði viðskiptaútreikninga allra í viðskiptum um allan heim (allir gátu miðað við sömu tegund peninga), og kaupmáttur peninga jóks jafnt og þétt eftir því sem framleiðsla varnings jóks hraðar en magn peninga í umferð, en slíkt er almenningi mjög í hag.

Þetta var tími hins alþjóðlega "klassíska" gullfótar.

Evran, dollarinn, svissneski frankinn, danska krónan og aðrir "gervi"gjaldmiðlar standast hinum alþjóðlega gullfæti ekki snúning, ekki einu sinni í skýrslu seðlabanka Englands, sem þrátt fyrir allt er einn af þessum peningaprenturum. Hinn íslenski seðlabanki veit varla af gullfætinum nema sem eitthvað úr fortíðinni og þar á bæ skilja menn í raun ekki af hverju bankinn á "gullforða" ("gullfóturinn" fær vægast sagt yfirborðskennda meðhöndlun í nýlegri skýrslu bankans um gjaldeyrismál). 

Umræðan um gjaldeyrismál á Íslandi hefur ekki ennþá komist upp úr því að bera saman kúk (t.d. íslensku krónuna) og skít (t.d. evruna, norsku krónuna og bandaríska dollarann). Því miður. 


mbl.is Framtíð Evrópu sögð í húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefán Ólafsson heilkennið

Jóhanna Sigurðardóttir þjáist af Stefán Ólafsson heilkenninu. Helstu einkenni þess eru að rugla saman:

 

  • Skattahækkunum og skattalækkunum.
  • Aukinni skattheimtu vegna vaxandi skattstofna, og aukinni skattheimtu vegna hækkandi skatthlutfalla.
  • Vexti hagkerfis, og vexti skuldsetningar hagkerfis.
  • Bættum kjörum og versnandi kjörum.
  • Kjörum sínum og kjörum hins almenna skattgreiðanda.
  • Uppi og niðri.
  • Svörtu og hvítu.

 

Nú veit ég ekki hvað Stefán Ólafsson, prófessor, talar mikið við Jóhönnu Sigurðardóttur í viku hverri, en heilkennið hefur a.m.k. smitast. Við því er lítið að gera nema kjósa öðruvísi næst. 


mbl.is Jóhanna: Dregið hefur úr skattheimtu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fatahreinsun Frikka fína

Frikki fíni rak fatahreinsun. Hún var sú eina á svæðinu, og bjó að auki við þau hagstæðu skilyrði að engin þvottavél var til á stóru svæði í kringum hana, því skilyrðin fyrir því að geta eignast þvottavél voru of ströng fyrir flesta. Allir þurftu því að fara til Frikka fína til að láta þvo fötin sín.

Þetta gekk ágætlega framan af. Frikki fíni rukkaði hóflegt gjald fyrir minniháttar þrif og flestir höfðu efni á því að staðgreiða það, en vitaskuld rukkaði hann mun meira fyrir umfangsmeiri þrif. Viðskiptavinir hans vissu af þessu, enda hékk verðskrá Frikka fína uppi á áberandi stað. Margir, sem unnu við aðstæður sem mættu kallast skítugar, og þeir sem áttu börn sem komu alltaf heim í skítugum fötum, gátu keypt afsláttarkort hjá Frikka fína. Frikki fíni bauð líka upp á að láta greiða sér minniháttar upphæð í hverjum mánuði ef ske kynni að bestu sparifötin lentu í drullupolli eða fengu á sig olíubrák. Þannig var hægt að tryggja sig gegn sjaldgæfum og tiltölulega ólíklegum óhöppum, sem myndu annars kosta stórfé í eingreiðslu. 

Viðskiptavinir Frikka fína töldu að þjónusta hans væri mikilvæg og þótt sumt af henni væri dýrt töldu allir engu að síður að verðlagið væri réttlætanlegt, enda kalla umfangsmiklar hreinsunaraðgerðir á mikinn tíma og notkun dýrra hreinsiefna.

En dag einn breyttist allt. Frikki fíni fór að eyða um efni fram, kaupa hús í helstu borgum heims og stóra bíl, tók stór neyslulán og lifði hátt. Þegar kom að skuldadögum neyddist Frikki fíni svo til að hækka verðið á þjónustu sinni. Einföldustu þrif hækkuðu margfalt í verði, og hið sama gerðu stærri þrif.

Viðskiptavinir Frikka fína fundu fyrir þessu. Sumir hættu að láta þrífa fötin sín fyrr en þau voru orðin mygluð í gegn, og nýttu sér svo áskrift sína til að fá þau þrif á lægra verði. Frikki fíni hækkaði iðgjöld áskriftar sinnar til að mæta þeim kostnaði og eiga afgang fyrir afborgunum af neyslulánum sínum.

Fólk fór í auknum mæli að reyna þvo heima hjá sér, og tók sér jafnvel frí til að eyða deginum heima og þrífa föt með miklum erfiðismunum og lélegum árangri.

Frikka fína hafði tekist að koma á lögum sem bönnuðu opnun á nýrri fatahreinsun nema að uppfylltum mjög ströngum skilyrðum um eiginfjárhlutfall, umhverfisreglur, skipulagsreglur, vottun, menntun, þjálfun og reglur um notkun hreinsiefna. Enginn hafði efni á því að uppfylla allar reglurnar og samkeppni varð því ekki til.  

Aðild að áskriftarkerfi Frikka fína var nú orðin lögskylda því það var talin samfélagsleg nauðsyn að dreifa kostnaði vegna fataþrifa á sem flesta til að lækka greiðslubyrðina á hvern og einn. Sumir létu því þrífa oftar en aðrir og óðu jafnvel í drullupollum á hverjum degi og létu þrífa þá í lok dags, og aðrir urðu því óbeint að niðurgreiða það, þá sérstaklega þeir sem pössuðu fötin sín vel og þurftu ekki að láta þrífa þau oft.

Smátt og smátt fengu viðskiptavinir Frikka fína það á tilfinninguna að þjónusta hans kostaði meira og meira, en í staðinn fékkst minna og minna. Fatnaður fólksins varð skítugri og skítugri og verr og verr lyktandi. Lyktin vandist smátt og smátt. Frikki fíni fékk áfram viðskiptavini, því á einhverjum tímapunkti varð þrifum ekki frestað lengur. 

Frikki fíni er hið íslenska heilbrigðiskerfi og ríkisvaldið allt. Við hin erum skítugur almenningurinn. 


mbl.is Ónákvæmni á ónákvæmni ofan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningaprentun = rýrnun á kaupmætti peninga

Þökk sé námsskrá íslenska skólakerfisins vita Íslendingar mjög lítið um verðbólgu. Hvergi er íslenskum nemendum sagt að peningaprentun þýði að fleiri peningar elti svipað magn af varningi og þjónustu og valdi því hækkun á verði. Hvergi er þeim sagt að í umhverfi stöðugs peningamagns í umferð muni miklar verðhækkanir á einni tegund varnings/þjónustu soga fé úr sölu annarra tegunda varnings/þjónustu og valda verðlækkunum á þeim. Að verðlag sé meira og minna almennt og alltaf að hækka er því öruggt merki um stöðuga aukningu á magni peninga í umferð. Og hver fær hina nýju peninga seinast? Það er almenningur. Verðbólga er því tilflutningur á kaupmætti frá almenningi til bankamanna og hins opinbera.

Í Bandaríkjunum er ennþá verið að hlusta á menn eins og Paul Krugman (en í hópi aðdáenda hans eru flestir íslenskir hagfræðingar og jafnvel félagsfræðingar).  Sá maður er boðberi hagfræði John Maynard Keynes, en sú hagfræði framlengdi Kreppuna miklu frá um tveimur árum til fimmtán ára. Sama hagfræði er núna búin að slá tiltekt eftir skellinn árið 2008 á frest til nokkurra ára, eða jafnvel margra ára. Ofvirkni peningaprentvélanna í Bandaríkjunum hefur verið slík seinustu 15-20 ár að vísbendingar eru um að nettófjárfesting hafi ekki átt sér stað þar í landi síðan 1999! Það er rúmlega áratugur af "töpuðum" tækifærum til að fjárfesta og byggja upp og tryggja að næsta kynslóð hafi það betur en kynslóðin á undan.

Enginn af "stóru" fjölmiðlum neins vestræns lands fjallar um þetta að neinu ráði. Almenningur heldur að "verðbólga" sé eitthvað skrýtið fyrirbæri, hálfgerður draugagangur á verðmiðunum, sem sé erfitt að temja nema með sérstökum galdraseyðum. Almenningi er sagt að verðlagi "þurfi" að hækka "eitthvað" á hverju ári því annars verði ekki til "umframfjármagn" til að fjárfesta með. Almenningur veit ekki að lengstu tímabil verðhjöðnunar hafa verið tímabil þar sem framleiðsla jókst hraðar en peningamagn í umferð, og kaupmáttur launþega óx því á sama tíma og hagnaður framleiðenda og umsvif þeirra. Win-win. 

En hvað um það, ætla bara að benda á að Morgunblaðið skrifar ranglega að seðlabankinn í Bandaríkjunum ætli að kaupa "verðtryggð skuldabréf fyrir 40 milljarða dala". Hann ætlar að kaupa þau fyrir 40 milljarða dala á mánuði þar til Bandaríkjadollar verður orðinn að verðlausum snýtipappír. Og þess vegna er dollarinn að veikjast gagnvart gjaldmiðlum sem vissulega eru líka prentaðir í miklum mæli, en bara hægar. 


mbl.is Bandaríkjadalur á niðurleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hert á sósíalísku sundinu

Endasprettur fyrstu og vonandi seinustu "hreinu" vinstristjórnar Íslands hefst núna. Erfitt er að setja sig inn í þennan endasprett. Ríkisstjórnin ætlar t.d. að beita sér fyrir lögum um "vandaða lagasetningu", og hefur þá sjálfsagt litið í eigin barm og komist að því að lagasetningar seinustu missera hafa verið eitt stórt og mikið klúður. Sakleysislega titluð lagafrumvörp reynast oft vera lög um stórkostlega aukin ríkisafskipti. Eitt er samt víst: Pólitískur ásetningur er sá að innleiða sósíalisma og rúlla Íslandi inn í deild í höfuðstöðvum ESB. 

Margt er svo að gerast á bak við tjöldin. Ríkisstjórnarflokkarnir eru byrjaðir að biðla til Framsóknarmanna um samstarf eftir næstu kosningar. Seðlabanka Íslands er ætlað að viðhalda frestun á tiltekt í hagkerfinu eftir hrunið 2008 með því að falsa áfram gengið á íslensku krónunni, og herða að krónueigendum til að láta evruna líta betur út. Jóhanna Sigurðardóttir leiðir ríkisstjórn sem er óvinsælli en George W. Bush tókst nokkurn tímann að verða í Bandaríkjunum, meira að segja rétt eftir hrunið þar í landi. Öllum brögðum er og verður beitt til að halda völdum.

Stjórnarandstaðan er mjög hægt og rólega að vakna úr löngum dvala, en er engu að síður veik. Ný vinstristjórn er mjög hugsanleg niðurstaða eftir næstu kosningar ef skoðanakannanir gefa einhverja vísbendingu um það sem koma skal, og framhald verður þá á eftirfarandi: Landflótti í 4 ár, gríðarlega erfið skuldastaða hins opinbera, fyrirtækja og heimila á Íslandi, staðnað hagkerfi, króna í böndum, fjármagn á flótta, skattar á uppleið, vöxtur hins opinbera stanslaus, landið á leið í klær ESB, og ráðherrar með puttana í hvers manns koppi. Er virkilega ekki komið nóg? 


mbl.is 177 mál á málaskrá ríkisstjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband