Einkennileg sagnfræði Stefáns Ólafssonar

Hinn vinstrisinnaði félagsfræðingur, Stefán Ólafsson, er að reyna selja Íslendingum ákveðna og frekar sérstaka söguskoðun: Að á eftirstríðsárum Bandaríkjanna hafi ríkt einhvers konar "ríkisþátttökuskeið" sem einkenndist af tvennu: Miklu góðæri og hagvexti, og háum hátekjusköttum. Aðdáendur hans, t.d. hinn vinstrisinnaði heimspekiprófessor og höfundur bókarinnar Kredda í kreppu, Stefán Snævarr, hafa svo étið upp þessa söguskoðun Stefáns Ólafssonar. Vonandi eru þeir samt varla mikið fleiri sem hafa fallið fyrir þessari brenglun á staðreyndum.

Hverjar eru staðreyndirnar svo? Jú vissulega hafa hátekjuskattar í Bandaríkjunum flakkað mikið, bæði upp og niður, seinustu 100 ár. En að ætla sér að einblína á þá og draga ályktanir er í besta falli barnalegt og í versta falli vísvitandi blekking.  

Það sem hefur gerst í Bandaríkjunum, smátt og smátt frá upphafi 20. aldar og hratt og öruggulega seinustu árin, er stórkostlegur og gríðarlegur vöxtur alríkisvaldsins þar, og í flestum tilvikum vald einstaka ríkja líka. Skattbyrðin hefur vaxið gríðarlega, sem og reglugerðafrumskógurinn. Fyrirtæki flýja ekki lengur til Bandaríkjanna heldur frá þeim. 

En hin síðari ár, þegar vöxtur ríkisvaldsins hefur verið hvað mestur í Bandaríkjunum, vill Stefán Ólafsson kalla "frjálshyggjuárin" af því hátekjuskattar hafa lækkað eitthvað frá því sem mest var! 

Hátekjuskatturinn er hár skattur á háar launatekjur. Hálaunamenn vita yfirleitt hvernig á að losna við hann eða lágmarka skaðann af honum. Hátekjuskatturinn er því frekar meinlaus fyrir raunverulega ríka einstaklinga. Hann kemur verst niður á þeim sem ætla sér að komast úr miðstétt en lenda þá á gríðarlegri skattheimtu. Kannski er gott fyrir "hagvöxtinn" að þvinga sem flesta á uppleið til að hanga í millistétt? Það væri athyglisvert að sjá Stefán Ólafsson færa rök fyrir. 

Hin almenna byrði af hinu opinbera hefur vaxið alveg gríðarlega í Bandaríkjunum seinustu ár og áratugi (já, meira að segja á tímum Reagan og George Bush eldri). Menn sem kalla sig hægrimenn eða íhaldsmenn hafa jafnvel staðið fyrir megninu af þessum vexti seinustu árin, þótt Obama hljóti að slá öllum forsetum Bandaríkjanna fyrr og síðar við. Sagnfræði Stefáns Ólafssonar er pólitískur blekkingarleikur til að réttlæta aukna skattheimtu, punktur.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband