Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2020

Hvernig 23% verða 53%

Nú er ég ekki í hópi þeirra sem telja aukningu á hlutfalli koltvísýrings í andrúmsloftinu um nokkur brot af hundraðshluta prósents vera afgerandi fyrir þróun hitastigs í lofthjúpnum. Engu að síður reyni ég að fylgjast með umræðunni um loftslagsmál, mengun og annað og ætla núna að reyna vara talsmenn loftslagskirkjunnar við því hvernig á ekki að boða fagnaðarerindið.

Það er einfalt.

Þú skrifar ekki grein eins og þessa eftir Guðmund Steingrímsson.

Í henni gerir hann lítið úr fjórðungi Íslendinga, en það er ekki það versta. 

Hann skáldar upp hreina vitleysu til að koma höggi á þennan fjórðung Íslendinga og segir: 

Nýjasta umhverfiskönnun Gallup er stórmerkileg. Áður en maður fellur í fullkomið þunglyndi yfir því að 23% þjóðarinnar telji sig virkilega vita betur en allt vísindasamfélag veraldarinnar og telur litla ástæðu til að hafa áhyggjur, þó ekki væri nema smá, af mögulegu hruni lífríkisins ...

Við þetta er svo margt að athuga að ég þarf að gera það í löngu máli.

Í fyrsta lagi telur ekki allt vísindasamfélag veraldarinnar að loftslagið sé á hættulegri vegferð vegna losunar manna á koltvísýringi (vísindamenn eru þvert á móti að hamast við að smíða nýjar kenningar sem lýsa raunveruleikanum betur en þær eldri). Í öðru lagi tala mjög fáir vísindamenn - ef nokkrir - um að framundan sé hrun á lífríkinu vegna losunar manna á koltvísýringi. Í þriðja lagi er ekki hægt að jafna saman óttaleysi yfir losun manna á koltvísýringi og áhyggjuleysi yfir umhverfinu almennt (t.d. vegna mengunar, staðbundinnar eyðileggingar á náttúrulegu lífríki, eitrunar, sorplosunar í hafið og fleira).

Svona talsmáti gagnast loftslagskirkjunni ekki nokkurn skapaðan hlut. Hérna er verið að skamma fólk til hlýðni eins og gert er við ungabörn. Þetta getur ekki annað en hrokkið af vegg og komið margfalt í andlitið á þeim sem svona talar. Svona verða 23% hóps að 53% hóps. Svona gól úr fílabeinsturni fer í taugarnar á fólki, væntanlega líka einhverjum meðlimum loftslagskirkjunnar. 

Ef takmarkið er að sannfæra ekki bara 77% heldur 100% almennings um að koltvísýringurinn, frekar en sólin, geimgeislarnir, náttúrulegu sveiflurnar og breytingar á sporbaug Jarðar um sólina, sé meginuppspretta núverandi loftslagsbreytinga þá eru pistlar eins og þessi eftir Guðmund algjört eitur sem færa menn fjær takmarkinu, ekki nær.

ES. Nú er ég auðvitað ekki saklaus af því að hneykslast á skoðunum annarra og uppnefni þær jafnvel  (heilaþvottur, oftrú á áróður meginstefsins og hvaðeina) og æði jafnvel í manninn en ekki boltann en þá er allt í lagi að láta mig vita af því, og núna læt ég vita af slíku hjá öðrum.


Skuldum safnað fyrir næsta hallæri

Þverpólitísk sátt er nú að nást um að safna auknum opinberum skuldum til að búa í haginn fyrir næstu niðursveiflu. Að vísu er talað um að með skuldasöfnun megi gera svolitla niðursveiflu í dag að uppsveiflu en við skulum ekki rugla saman orðum stjórnmálamanna og raunveruleikanum.

Munum að ríkið skuldar mun meira núna en árið 2007. Hið sama gildir um sveitarfélögin.

Ríkið burðast enn með akkeri um hálsinn sem heita bankar í opinberri eigu. Þeir eru það fyrsta sem sekkur til botns ef fjármálakerfi heimsins fær örlítinn hiksta. 

Eftirlitsiðnaðurinn hefur þanist út og kostar bæði stórfé og flækist fyrir.

Alltaf kostar grunnskólamenntunin meira og meira með hverju ári á meðan frammistaða grunnskólabarna versnar og versnar.

Heilbrigðiskerfið er í stórkostlegum vandræðum þótt Íslendingar eyði meira fé í það miðað við aldursdreifingu en flestar aðrar þjóðir. Hlutabréf hjá sænskum einkaaðilum í heilbrigðisgeiranum eru á rjúkandi uppleið síðan heilbrigðisráðherra Íslands valdi sjúkraflug framyfir innlenda þjónustu.

Innviðir hafa verið að molna niður og auðvitað er góð hugmynd að gera eitthvað í því en á að treysta núverandi eiganda þeirra til eilífðar fyrir því á meðan frammistaðan er ekki betri en þetta?

En það hefur náð þverpólitísk sátt um að þenja út ríkisvaldið og almennt er þverpólitísk sátt um að allt sem ríkið gerir í dag eða á í dag haldi það áfram að gera eða eiga. Hvað sem tautar og raular, hvort sem rafmagnið er á eða ekki.


mbl.is Kynna tillögur að fjárfestingum á næstu vikum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá hefst partýið

Skattar á Íslandi eru í svimandi hæðum. Reglugerðafrumskógurinn er kæfandi. Skuldir hins opinbera er gríðarlegar. Opinberir starfsmenn eru á höttunum eftir miklum launahækkunum. Kröfurnar frá grísunum við spena ríkisgyltunnar eru margar og stórar.

Hvað er þá til ráða? Jú henda í tugmilljarða svokallaða innspýtingu í hagkerfið!

Það kemur mér ekki á óvart að stjórnmálamaður tali á þessum nótum. Það kemur mér aðeins meira á óvart að Samtök atvinnulífsins geri það en kannski ætti ég að hafa búist við slíku. 

Nú er áríðandi fyrir stjórnmálamenn í atkvæðaleit og fyrirtæki í leit að opinberu fé að grípa tækifærið á meðan örlítill slaki er í hagkerfinu og fara á beit á kostnað skattgreiðenda.

Það er jú ekki hægt að lækka skattana, selja opinber fyrirtæki upp í skuldir, fækka reglunum og fjarlægja hindranir fyrir fólk og fyrirtæki, er það? Nei. Það fær enginn atkvæði út á það og fyrirtæki þurfa þá kannski að bíða eftir verkefnunum í stað þess að fá þau á silfurfati frá ríkisgyltunni.

Hið opinbera notar alltaf allskyns neyðarástand sem átyllu til að þenja sig út á kostnað hins frjálsa framtaks. Því miður ætlar að myndast þverpólitísk sátt um slíkt núna. Skattgreiðendur eiga ekki séns.


mbl.is Vill tuga milljarða innspýtingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofsótt fólk hrakið á milli heimshluta

Ofsótt fólk reynir að flýja aðstæður sínar og komast í öruggara skjól. Það er skiljanlegt. Það sem ég skil ekki er af hverju það þarf að þýða erfið ferðalög á milli fjarlægra heimshluta. Af hverju eru sýrlenskir flóttamenn í dönskum smábæjum? Af hverju eru suður-amerískir flóttamenn í skjóli á norðurhjara veraldar? Af hverju eru íranskir flóttamenn í biðstofum íslenskra yfirvalda?

Sennilega liði þessum flóttamönnum betur í skjóli nær heimahögum sínum í menningarheimi sem líkist þeirra meira og þar sem þeir geta kannski unnið að pólitískum umbótum í heimalandinu og barist fyrir því að geta snúið aftur án þess að leggja hálfan hnöttinn að baki sér.

Tökum þá út fyrir sviga að sumir þessara flóttamanna finna sig ekki í hinu nýja landi, leiðast út í glæpi og eru öllum til ama. Tökum það líka út fyrir sviga að það kostar margfalt meira að senda fólk á milli fjarlægra heimshluta en búa því sæmilegar aðstæður á sínu eigin svæði. Og tökum það líka út fyrir sviga að margir flóttamenn eru ekki að flýja stríð og ofsóknir heldur einfaldlega heimatilbúna fátækt stjórnarherra þeirra.

Ég er bara að velta fyrir mér hvort það sé verið að gera flóttafólki bjarnargreiða með því að sópa því upp í flugvél og fljúga út í buskann í stað þess að koma á einhvers konar úrræði handan landamæranna.


mbl.is Fleiri sækja um vernd á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðrið

Er Ísland að hlýna eða kólna?

Með því að velja rétta lengd gagnarunu má gefa mismunandi hugmyndir um svar.

Myndirnar hér að neðan sýna meðaltalsárshita á Stórhöfða fyrir mismunandi tímabil (gögn frá Veðurstofu Íslands):

67 years from 1949 to  2015

(Tímabilið sem hin styttri gagnaruna yfir hitamælingar á heimasíðu Veðurstofu Íslands sýnir)

70 years from 1946 to  2015

80 years from 1936 to  2015

100 yrs from 1916 to  2015

120 yrs from 1896 to  2015

All yrs from 1869 to  2015

Þetta er efni í frekari hugleiðingar en þær þurfa að bíða betri tíma.


Afneitun!

Andri Snær Magnason, rithöfundur, fékk í hendurnar spurningu: Af hverju hefur Veðurstofa Íslands fjarlægt mælingar á hitastigi á Íslandi af heimasíðu sinni og klippt út óvenjulega hlýtt tímabil framan af gagnarununni?

Svarið ætti að blasa við en menn geta þannig séð deilt um það og boðið upp á önnur svör en mín.1

En það gera menn ekki. Þess í stað er hent í stóru orðin: Afneitari og samsæriskenningar! Hvernig stendur á því?

Nú er Veðurstofa Íslands bæði vettvangur rannsókna og vísinda en líka sinn eigin vettvangur fjárveitinga sem þarf að standa vörð um. Það þarf ekki að smíða flóknar samsæriskenningar til að sjá að það hefur áhrif. 

Það er auðvelt að skjóta á þá sem benda á þetta og verði mönnum að góðu en þegar eðlisfræðingur í leit að talnarunum grípur í tómt þar sem áður var ekki tómt er lítið annað hægt að segja en að eitthvað var fjarlægt sem var þarna áður og fyrir því hlýtur að vera ástæða, góð eða slæm.


Loftslag og tískusveiflur

Í mjög áhugaverðri grein rakti Gunnlaugur H. Jónsson hitastigið á Íslandi undanfarin 100 ár og spyr í lokin:

Vil kvarta yfir því við Veðurstofuna að meðalárshitatölur fyrir tímabilið 1931-1948, sem var hlýtt tímabil, eru ekki aðgengilegar eins og áður. Taflan sem áður hófst árið 1931 hefst nú árið 1949 ?? sem var óvenju kalt ár, það kaldasta á tímabilinu 1922 til 1966! Hvaða rök eru fyrir þessari breytingu?

Svarið blasir við: Með því að klippa út hlýtt tímabil má láta önnur líta kaldari út og hlýnun undanfarinna áratuga líta dramatískari út. 

Fleiri og fleiri eru farnir að sjá í gegnum loftslagstrúboðið á sama tíma og stjórnmálamenn tala varla um annað með ásetning um að tala enn meira um það.

Eftir stendur samt að kolabruni er skítugur og mengun vegna hans (sem er ekki það sama og losun á koltvísýringi) alvarleg nema menn kunni á dýra og fullkomna hreinsunartækni. Meira að segja kínverskur almenningur nennir ekki lengur að anda að sér kolasóti og mun krefjast dýrra aðgerða. Það felast tækifæri í að minnka kolabrunann og keppa við hann í hagkvæmni. 

Eftir stendur líka að Evrópa er á fullri leið að byggja upp dýra, óhagkvæma, óstöðuga og óstönduga raforkuframleiðslu og stofna dreifikerfum sínum og orkuöryggi í stórhættu. Það felast tækifæri í að græða á þessari vegferð fram af bjargbrún.

Í jörðinni er nóg af olíu og gasi og vatnsföllin á Íslandi eru takmarkalaus uppspretta orku. Það er hægt að reisa kjarnorkuver og rannsaka samrunaorku. Tækifærin eru mörg.

Í millitíðinni breytast aðstæður. Íslendingar ættu auðveldlega að geta komið sínu rafmagni í arðbæra notkun, hvort sem álverin standa eða falla. Tískusveiflan í Evrópu (og jafnvel Bandaríkjunum en sem betur fer hvergi annars staðar) er Íslendingum í hag. 

Hitt er rétt að samkeppnisforskotið er að minnka. Bretar gætu allt í einu farið í stórkostlega uppbyggingu á kjarnorkuframleiðslu sinni og dæla hagkvæmu rafmagni yfir álfuna. Frakkar gætu hafið uppbyggingu líka. Þjóðverjar gætu jafnvel fattað að kjarnorkuver þeirra eru frábær og ber að halda áfram í rekstri. Það þarf að huga að þessu eins og öðru og tryggja að raforkuframleiðsla á Íslandi sé eins hagkvæm og hugsast getur (og hætta öllum tilraunum sem ýta henni í hina áttina).

Vonandi ber Íslendingum gæfa til að standa vörð um framleiðslu sína á verðmætum á einn eða annan hátt og nýta land og gæði sem best í þeirri viðleitni.


mbl.is Þórdís segir raforkumarkaðinn óþroskaðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar skattgreiðslurnar fara í raun og veru í þjónustu

Skattar eiga að standa undir opinberri þjónustu. Þó er það sjaldnast svo að menn fá allt það ríkisvald og þeir borga fyrir. Sem betur fer segja sumir og fagna því að ríkisvaldið er oft upptekið af því einu að elta eigið skott og lætur þá aðra í friði á meðan. Því miður segja aðrir því öll þessi skattheimta dugir ekki einu sinni til að fá nauðsynlega þjónustu.

Ég bý í Danmörku og hef búið í tveimur sveitarfélögum með börn og aldrei orðið var við neinar lokanir yfir lengri tíma. Það er því hægt að plana sín frí án þrýstings frá leikskólanum. Á sumrin eru vissulega tímabil með fáum börnum á stofunni en þá er stofum og jafnvel heilu leikskólunum bara slegið saman. En það er alltaf eitthvað úrræði í boði, líka milli jóla og nýárs fyrir þá sem þurfa. Og að sjálfsögðu! Nógu mikið er nú borgað í bæði skatta og leikskólagjöld og það er lágmark að það veiti ákveðinn sveigjanleika fyrir fjölskylduna.

Íslendingar eru latir að heimta sína þjónustu frá hinu opinbera. Sumarlokanir eru alveg frábært dæmi. Hérna ætti fólk að hafa staðið í lappirnar fyrir löngu síðan. Auðvitað eru sumarlokanir mjög heppilegar fyrir hið opinbera og starfsfólkið en á viðskiptavinurinn ekki að vera í forgangi? Fjölskyldur með fyrirvinnur, í störfum þar sem þarf stundum að vinna þótt flestir séu í fríi?

Í Hafnarfirði eru menn greinilega að leggja mikið á sig til að varðveita grunnþjónustuna en um leið að hægja á skattheimtunni og grynnka á skuldunum. Það er til fyrirmyndar. Geta kjósendur ekki stuðlað að svipuðum viðhorfum í Reykjavík, svo dæmi sé tekið?


mbl.is Leikskólar í Hafnarfirði opnir allt sumarið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farið hefur fé betra!

Rio Tinto hyggst hefja sérstaka endurskoðun á starfsemi álversins í Straumsvík (ISAL) til að meta rekstrarhæfi þess til framtíðar og leita leiða til þess að bæta samkeppnisstöðu þess. Í fyrirhugaðri endurskoðun verða allar leiðir skoðaðar, þar á meðal frekari framleiðsluminnkun og mögulega lokun.

Og þá hugsa sjálfsagt margir: Farið hefur fé betra!

Ef þeir geta ekki borgað mannsæmandi laun þá mega þeir hypja sig! Að ætla sér að knésetja verkalýðsfélögin með svona hótunum um lokun er ólíðandi!

Þetta er skítugur iðnaður sem eyðileggur loftgæðin, hálendið og útsýnið úr hæðum og hólum Hafnarfjarðar sem hafa byggst upp eftir að álverið reis!

Íslendingar vilja ekki verksmiðjur! Við viljum græn svæði með ferðamönnum og útivistarfólki! Við viljum bara framleiða tölvuleiki og smáforrit í síma! Við erum græn núna!

Hin hreina orka Íslands á ekki að fara í svona ógeð!

En viti menn, núna ræða menn um að álverið fari. Það tapar fé og enginn getur þolað það til eilífðar. Kannski er svona tal orðin endurtekin tugga en margir vonast nú samt til að það sé satt og rétt og að álverið fari.

Auðvitað breytast hagkerfi og gamall iðnaður víkur fyrir nýjum en ef slíkt ferli gerist mjög hratt - hraðar en eðlilegar aðstæður segja til um - þá skilur það marga eftir með ónothæfa reynslu og þekkingu. Nema stálsmiðirnir séu allir á leið á forritunarnámskeið eða í skóla fyrir leiðsögumenn ferðamanna?


mbl.is Skoða mögulega lokun álversins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattar og reglur auka samþjöppun

Samkeppni er mikilvæg, ekki satt?

Samkeppni tryggir aðlögun, hagkvæmni, endurnýjun og virðingu fyrir vilja neytenda. 

Samkeppni eyðir óþarfa, hreinsar út og tekur til.

Ekki satt?

Þess vegna er mikilvægt að reka skilvirkt samkeppniseftirlit, ekki satt? Eftirlit sem kemur í veg fyrir fákeppni, samráð og einokunartilburði, ekki satt?

Já, allt hljómar þetta rétt.

En um leið og ríkið leggur áherslu á samkeppni og eftirlit með henni heldur það úti skatta- og reglugerðarumhverfi sem kemur í veg fyrir aðlögun, hagkvæmni, endurnýjun og virðingu fyrir vilja neytenda, sem og varðveitir óþarfa og kemur í veg fyrir úthreinsun og tiltekt. 

Hver einasta reglugerð vegur miklu meira í pyngju þess litla en þess stóra. Hver einasti skattur vegur þyngra í pyngju þess litla en þess stóra. Stórfyrirtæki hafa beinlínis stutt auknar skattaálögur og fleiri reglugerðir. Þau vita að þau geta auðveldlega aðlagast hærri sköttum og fleiri reglum - eru bæði með fjármagn og innviði til að takast á við slíkt og hagnast jafnvel á því. Lítil fyrirtæki þurfa að taka allan sinn rekstur til endurskoðunar þegar skattar hækka eða reglunum fjölgar.

Þetta segir sig nánast sjálft en samt ekki. Það kemur fólki enn á óvart að hærri veiðigjöld, meira eftirlit og fleiri reglur sendi lítil fyrirtæki í dauðann.

Þetta gildir um banka, útgerð, veiðar og hvað sem er.

Að ríkið tali um mikilvægi samkeppni en haldi um leið úti síbreytilegu umhverfi skatta og reglugerða er hrein og tær mótsögn. Annaðhvort viltu flóknar reglur og háa skatta eða samkeppni.

Hvenær á að velja á milli?


mbl.is Segir búið að flæma einstaklinga úr greininni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband