Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2020

Einföld leið til að örva hagkerfið

Að ríkið afnemi, sameini eða einfaldi regluverkið er afskaplega einföld leið til að örva hagkerfið og gera líf fólks og fyrirtækja léttara.

Menn þurfa ekki að ræða skatta eða ríkisútgjöld. Reglugerðir eru á borði ráðherra en ekki Alþingis og það eina sem þarf til að gera regluverkið bærilegra er svolítill vilji.

Lögin standa auðvitað eftir og er fylgt með hinu nýja og einfaldara regluverki.

Ef menn vilja vita hvernig þöngulhaus eins og Donald Trump er að blása lífi í bandaríska hagkerfið þá geta menn litið á baráttu hans gegn reglugerðum. Hann er ekki búinn að hreyfa mikið við sköttum, er í stanslausum tollastríðum og raðar skuldum á ógnarhraða á alríkið. Af hverju er hagkerfið þá ekki komið að þrotum? Jú, því að hann þolir ekki reglugerðir og er búinn að pressa á alla stjórnsýsluna að fækka þeim. Meira að segja biluð klukka er rétt einu sinni á dag og hérna hitti Trump naglann á höfuðið.

Það er erfitt að mæla bein og óbein áhrif reglugerða á samfélag og hagkerfi en oft þarf bara svolitla umhugsun til að sjá af hverju flókið, torskilið og þungt regluverk hefur nánast lamandi áhrif. Ég heyrði einu sinni mann segja mér sögu af því hvernig tvær stjórnsýslur gátu ekki orðið sammála um hvar hann ætti að setja vask í fyrirtækið sitt. Að hugsa sér!

Bless, reglugerðir! Ykkar verður ekki saknað!


mbl.is 1.242 reglugerðir felldar brott
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar rétttrúnaðurinn þurrkar út heilbrigða skynsemi

Mikill áróður er núna rekinn gegn plastnotkun. Sá áróður er ekki reistur á neinum rökum. Plast er afskaplega þarfur þjónn og hefur engin slæm umhverfisáhrif þar sem fólk kann að meðhöndla rusl. Ljósmyndir af skjaldbökum vafðar í plastrenninga eru frá vanþróuðum svæðum þar sem sorpi er einfaldlega mokað í hafið.

Í stað plastpoka er fólki meðal annars ráðlagt að nota fjölnota poka. Gleymist þá tvennt:

  • Framleiðsla fjölnota poka er orku- og hráefnafrek
  • Þeir eru gróðrarstía fyrir bakteríur

Skortur á áreiðanlegum valkostum við plastið ýtir líka undir matarsóun. Matvæli rotna einfaldlega í hillunum og enda í gámunum af því þeim var ekki pakkað almennilega inn.

En nú eru það auðvitað neytendur sem ráða. Verslanir reyna að höfða til þeirra og ef rotnandi matvæli sem enda í bakteríufullum fjölnota pokum er það sem neytendur vilja þá þeir um það. Þó grunar mig að margir taki Bónus-pokana bara með sér í Krónuna.


mbl.is Krónan plastpokalaus í árslok
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju þarf hið opinbera að passa börn?

Íslendingar eru hrifnir af samkeppni. Þeir ruku af stað þegar Costco opnaði og bauð ódýran klósettpappír. Þeir skoða tilboðsbæklinga Bónus og Krónunnar. Sumir vilja hið hefðbundna og að það kosti sem minnst en aðrir vilja hið sérstaka og láta verðið síður plaga sig. Úrval eða magnpakkningar, lífrænt eða ekki, innflutt eða innlent - neytendur skipta um skoðun, hafa smekk og þjónustuaðilar þurfa að fylgjast með eða dragast aftur úr.

Íslendingar eru líka ófeimnir að prófa sig áfram hvort sem það er í tækni eða þjónustu. Þeir fara í jóga og ræktina og taka þátt í nýjustu heilsutískunni, kaupa nýjasta farsímann, láta græða í sig gervibrjóst og nýja augnsteina, setjast í rafmagnsbíl um miðjan vetur og vona að hleðslan dugi, kaupa þyrlur til að skoða eldgos, setjast fyrir framan allskyns lampa sem eiga að örva húðina og láta húðflúra sig frá toppi til táar og sprauta í sig fyllingarefnum. Íslendingar elska að versla á hinum frjálsa markaði og leyfa söluaðilum að bjóða sér hið nýjasta frá útlöndum. 

En á þessu eru mörk.

Íslendingar vilja til dæmis ekki eiga um neitt að velja þegar kemur að umönnun og kennslu barna. Þar á bara að gilda eitt verð og í boði á bara að vera ein gerð þjónustu.

Gildir þá einu að þessu þjónusta er sífellt að hækka í verði og rýrna í gæðum. Það kemur ekki til greina að hrófla við neinu og fáir stjórnmálamenn þora að leggja slíkt til. Sömu stjórnmálamenn eru líka alsælir að fá að vasast með stóran hluta af launum þegna sina.

Ég kalla þetta klofna viðhorf til vöruúrvals og samkeppni geðklofa.

Auðvitað má fólk burðast með geðklofa ef það vill en það gerir hann ekki rökréttan. Rökréttast væri að annaðhvort vilja samkeppni og nýsköpun einkaaðila eða ekki. Órökrétt er að vilja það bara þegar á að versla skó, gleraugu og núðlur en ekki þegar kemur að umönnun barna og sjúklinga. Rökrétt er að vilja annaðhvort ríkiseinokun og miðstýringu á öllu eða engu. Órökrétt er að halda að ríkiseinokun sé slæm í skósölu en góð í umönnun barna.

Það er alveg óhætt að nýta tækifærið á meðan verkalýðsfélög og opinberir starfsmenn loka stofnunum að spyrja sig: Af hverju þarf hið opinbera að passa börnin?


mbl.is Verkfallið nær til 3.500 barna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband