Af hverju þarf hið opinbera að passa börn?

Íslendingar eru hrifnir af samkeppni. Þeir ruku af stað þegar Costco opnaði og bauð ódýran klósettpappír. Þeir skoða tilboðsbæklinga Bónus og Krónunnar. Sumir vilja hið hefðbundna og að það kosti sem minnst en aðrir vilja hið sérstaka og láta verðið síður plaga sig. Úrval eða magnpakkningar, lífrænt eða ekki, innflutt eða innlent - neytendur skipta um skoðun, hafa smekk og þjónustuaðilar þurfa að fylgjast með eða dragast aftur úr.

Íslendingar eru líka ófeimnir að prófa sig áfram hvort sem það er í tækni eða þjónustu. Þeir fara í jóga og ræktina og taka þátt í nýjustu heilsutískunni, kaupa nýjasta farsímann, láta græða í sig gervibrjóst og nýja augnsteina, setjast í rafmagnsbíl um miðjan vetur og vona að hleðslan dugi, kaupa þyrlur til að skoða eldgos, setjast fyrir framan allskyns lampa sem eiga að örva húðina og láta húðflúra sig frá toppi til táar og sprauta í sig fyllingarefnum. Íslendingar elska að versla á hinum frjálsa markaði og leyfa söluaðilum að bjóða sér hið nýjasta frá útlöndum. 

En á þessu eru mörk.

Íslendingar vilja til dæmis ekki eiga um neitt að velja þegar kemur að umönnun og kennslu barna. Þar á bara að gilda eitt verð og í boði á bara að vera ein gerð þjónustu.

Gildir þá einu að þessu þjónusta er sífellt að hækka í verði og rýrna í gæðum. Það kemur ekki til greina að hrófla við neinu og fáir stjórnmálamenn þora að leggja slíkt til. Sömu stjórnmálamenn eru líka alsælir að fá að vasast með stóran hluta af launum þegna sina.

Ég kalla þetta klofna viðhorf til vöruúrvals og samkeppni geðklofa.

Auðvitað má fólk burðast með geðklofa ef það vill en það gerir hann ekki rökréttan. Rökréttast væri að annaðhvort vilja samkeppni og nýsköpun einkaaðila eða ekki. Órökrétt er að vilja það bara þegar á að versla skó, gleraugu og núðlur en ekki þegar kemur að umönnun barna og sjúklinga. Rökrétt er að vilja annaðhvort ríkiseinokun og miðstýringu á öllu eða engu. Órökrétt er að halda að ríkiseinokun sé slæm í skósölu en góð í umönnun barna.

Það er alveg óhætt að nýta tækifærið á meðan verkalýðsfélög og opinberir starfsmenn loka stofnunum að spyrja sig: Af hverju þarf hið opinbera að passa börnin?


mbl.is Verkfallið nær til 3.500 barna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En það er ekki ríkiseinokun. Einkaaðilum er frjálst að stofna skóla og passa börn, hafa gert og gera. Áhuginn er bara minni en þörfin.

Svo er það umhugsunarefni hvort stöðugt minnkandi stuðningur við barnafólk hafi fækkað barnafólki. Og þá hvort þörf þjóðarinnar fyrir fleiri vinnandi hendur sé best mætt með sögulega lágri fæðingartíðni og innflutningi fólks. Spurningar sem við værum ekki að spyrja okkur ef hið opinbera væri með einokun á skósölu.

Vagn (IP-tala skráð) 4.2.2020 kl. 14:55

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég sá athygliverða grein í blaðinu í morgun. Þar var því haldið fram að það væri rangnefni að kalla fæðingarorlof orlof. Því það að fá frí í vinnu til að ala upp barn væri í rauninni þegnskylduvinna en ekki orlof.

Mér þótti þetta athyglivert viðhorf. Ég veit nefnilega ekki betur en að fólk ákveði það sjálft hvort það eignast börn. Ríkið skikkar engan til þess. 

Þorsteinn Siglaugsson, 4.2.2020 kl. 15:20

3 Smámynd: Geir Ágústsson

"Áhuginn er bara minni en þörfin."

Nákvæmlega!

Þörfin er mikil en áhuginn lítill.

Það þarf nauðsynlega að hrófla við kerfinu en samdauna foreldrar lyfta ekki litlaputta.

Svíar leystu þetta að einhverju leyti með ávísanakerfi. Það væri kannski pólitískt raunhæft á Íslandi. Kalla það bara sænsku leiðina og allir eru til.

Geir Ágústsson, 4.2.2020 kl. 16:05

4 identicon

Þörfin fyrir dagvistun er mikil hjá foreldrum en áhuginn lítill hjá einkaframtakinu að veita þá þjónustu á verði sem foreldrarnir ráða við. Já, samdauna foreldrar sem borga bara tugi þúsunda á mánuði í núverandi kerfi lyfta ekki litlaputta til að brjóta kerfið upp og margfalda kostnað sinn. Og hið opinbera, sem borgar með hverju barni sem einkaframtakið tekur að sér, hefur ekki boðist til að greiða einkaframtakinu hærri upphæð en kostnaður opinberra aðila er á hvert barn. Óskiljanlegt.

Vagn (IP-tala skráð) 4.2.2020 kl. 18:22

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Er einhver sérstök ástæða til þess að ríkið niðurgreiði barnaheimili? Sama hvort þau eru á vegum opinberra aðila eða einkafyrirtækja? 

Þorsteinn Siglaugsson, 4.2.2020 kl. 19:40

6 identicon

Sérstök og ekki sérstök. Við getum fengið allt það fólk sem við þurfum erlendis frá. Barneignir gætu verið lúxus hinna efnameiri. Og við hefðum það öll miklu betra ef hætt væri að búa til þessa litlu vælandi og skítandi Íslendinga sem eru bara baggi á þjóðfélaginu. Það er margt sem mælir gegn stuðningi ríkisins við barnafólk og viðhaldi þessara innræktuðu afkomenda Norskra flóttamanna og Írskra þræla. Margt sem segir enga sérstaka ástæðu til þess að þeir sem hér byggi land eftir öld geti rakið ættir sínar til Jóns Arasonar. Hvort það að vilja forðast þá sviðsmynd sé nógu sérstakt verður hver að meta fyrir sig.

Vagn (IP-tala skráð) 4.2.2020 kl. 20:40

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Þegar ég var krakki dugðu ein sæmileg miðstéttarlaun til að framfleyta heimili. Af hverju ekki lengur?

Geir Ágústsson, 4.2.2020 kl. 20:47

8 identicon

Þegar þú varst krakki fékk þetta miðstéttarheimili góðar barnabætur með hverju barni. Það var jafnvel kvartað yfir að fólk væri að hrúga niður börnum til að fá bæturnar. Síðan voru bæturnar lækkaðar umtalsvert og tekjutengdar. Örfáum árum seinna stóð hún auð skólastofan þar sem þú hafðir setið ásamt 30 öðrum bótakrökkum.

Svo hafa kröfurnar breyst. Þrír krakkar í herbergi fram að fermingu tíðkast ekki lengur. Það þótti lúxus fyrir hálfri öld að eiga bíl, og tvo áttu bara millar. Sjónvarp var stöðutákn. Og hve gamall varst þú þegar farið var í utanlandsferð, eða tvær, á hverju ári? Þú gistir sennilega í tjaldi í útilegum á sumrin, nú dugar ekkert minna en þriggja milljóna hjólhýsi og hvaða miðstéttarfjölskylda á ekki sumarbústað?

Vagn (IP-tala skráð) 4.2.2020 kl. 21:42

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er líka hugsanlegt að velferðarkerfið og ríkisreksturinn almennt (þar á meðal sveitarfélög) sé orðinn slíkur baggi á heimilin að það verður hreinlega að senda báða foreldra út að vinna og börnin á stofnanir til að dæmið hangi saman.

Geir Ágústsson, 5.2.2020 kl. 07:25

10 identicon

Miðað við það að kaupmáttur útborgaðra launa, launa eftir skatta og gjöld, er í sögulegu hámarki og fæðingartíðnin í sögulegu lágmarki þá passar það ekki alveg. Ríki og sveitarfélög hafa síðasta mannsaldur aldrei tekið lægri prósentu úr launaumslögum landsmanna.

Vagn (IP-tala skráð) 5.2.2020 kl. 10:40

11 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Það eru á þessu margir fletir, t.d. hlutfall skyldusparnaðarins. Það má alveg líta á hann sem einskonar skattlagningu enda engin trygging fyrir því að maður fái það í lífeyri sem var greitt inn, og er að mörgu leyti fé án hirðis. Tengdapabbi minn heitinn sagði mér að hann hefði borgað í tvo lífeyrissjóði alla ævi og væri að fá svipað í lífeyri og sá sem borgaði ekkert og væri á ellilífeyri ríkisins.

Þetta með hlutfallið síðasta mannsaldur: Mér þætti fróðlegt að sjá gögn í þá veruna (gjarnan með lífeyrissjóðsgreiðslum sem óbeinni skattheimtu). 

Geir Ágústsson, 5.2.2020 kl. 11:17

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

 Hér eru fróðlegar umræður.  Hafði gaman (og jafnvel eitthvað pínu gagn) af því að lesa þetta yfir.  Eins og oft er hafa allir eitthvað til síns máls.

En hlutur hins opinbera af þjóðarkökunni hefur alltaf verið að stækka. Var að mig minnir í kringum 20% í stríðslok sveiflaðist í kringum 30% 70-80 og hefur stækkað um helming nú, og er kominn í kringum 45%.

Þar fyrir utan er svo lífeyrissjóðakerfið sem tekur sívaxandi hluta launatekna.

En það breytir því ekki að Íslendingar hafa það almennt mjög gott, kaupmáttur er hár og almenningur getur leyft sér hluti sem svo gott sem engum dreymdi um fyrir fáum áratugum.

Það sýnir þann þrótt sem hefur tekist að leysa úr læðingi í atvinnulífinu og getu þess til að borga góð laun.  En það eru vissulega blikur á lofti í þeim efnum.

En það er líka rétt að kröfurnar hafa breyst og sömuleiðis hugsunin, það er alls ekki sér Íslenskt fyrirbæri.

Krakkar "mega ekki gera neitt". Geta ekkert gert án "fylgdar eða eftirlits".  Auðvitað eru þetta einhverjar ýkjur en það er samt vert að gefa því gaum.

"I den" báru börn eða/og seldu blöð og gerðu það skattfrítt, bara svo dæmi sé tekið.  Voru eftirlitslítil eða laus megnið af deginum.  Það tíðkast ekki í dag.

En þetta er bæði gott og slæmt eins og stundum er sagt, en ég held að við klukkunni verði ekki snúið til baka, ja nema um þennan eina klukkutíma sem stundum er talað um.

En leikskólar.  Mér er sagt að algengur kostnaður við leikskólapláss sé í kringum 300.000.  Foreldrar greiða ca 8 til 14% af kostnaðinum, eftir sveitarfélögum.

Það kostar sem sé meira að hafa einn krakka á leikskóla en láglaunafólk fær útborgað.

Ég veit ekki mikið um dagforeldra en hef heyrt að þeir rukki u.þ.b. 150.000 fyrir hvert barn.  Þá bregður svo við að hið opinbera greiðir þann kostnað svo lítið niður að hann verður mikið hærri en það sem foreldrar greiða fyrir leikskóla?

Skynsamlegt og/eða sanngjarnt?

Ef til vill væri "Sænska leiðin" sem Geir minnist á hér að ofan ekki al galin.

Til lengri tíma litið verður varla hjá því komist að endurhugsa "kerfið" í kringum þetta.  Flestir ef ekki allir eru óánægðir, ekki síst starfsfólkið með launin, foreldrar með sveigjanleikan og þjónustua (þurfa jafnvle að sækja barnið í tíma og ótíma vegna starfsmannamála) o.s.frv.

Ég held að enginn hafi öll svörin, enn sem komið er, en það er nauðsynlegt að spyrja spurninga.

En ríkið greiðir ekki niður leikskóla, það gera sveitarfélögin.

Þetta eru svona mín "10c".

G. Tómas Gunnarsson, 5.2.2020 kl. 12:36

13 Smámynd: Geir Ágústsson

G. Tómas,

Ég ætla að leyfa mér að vitna í orð fráfarandi ritstjóra sem sagði á tímabili marga skynsama hluti:

Ekki má heldur gleyma, að ávísanakerfi og frjálsir skólar mundu bæta mjög tekjur góðra kennara og ýta lélegum kennurum til annarra starfa, sem henta þeim betur. Nemendur mundu flykkjast í nám til beztu kennaranna, en ekki láta sjá sig hjá hinum, sem ekki geta kennt.

www.jonas.is/frjalsir-skolar/

Geir Ágústsson, 7.2.2020 kl. 07:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband