Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013

Hver er þinn húsbóndi, ríkisstarfsmaður?

Til allra ríkisstarfsmanna vill ég beina eftirfarandi spurningu:

Hver er þinn húsbóndi?

Ég skal bjóða upp á svar. Svarið er: Skattgreiðendur. 

Ekki gleyma því.

Gleymdu því heldur ekki að skattgreiðendur eru blankir, skuldugir og skattpíndir. Hroki af þinni hálfu er því vægast sagt ekki við hæfi, sé hann til staðar. Auðmýkt væri miklu frekar viðeigandi.  


mbl.is Ekki niðurskurður heldur niðurrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um fréttamat fréttamanna

Fréttamönnum finnst alltaf mjög fréttnæmt þegar fréttamönnum er sagt upp. Það er kannski eðlilegt og ómeðvitaður hlutur af þeirra eigin hagsmunabaráttu, sem er auðvitað sú að fréttamenn séu sem flestir. Hver vill ekki frekar tilheyra stórum félagsskap sem stendur saman en fámennum félagsskap sem hægt er að hunsa?

Vorið 2009 var niðurskurði hrint af stað hjá mínum atvinnuveitanda eftir að pantanir höfðu ekki látið sjá sig síðan um haustið 2008. 15% allra starfsmanna, þvert á allar deildir, var sagt upp (að mínu mati ekki besta leiðin því sumir höfðu meira að gera en aðrir, en heldur ekki mín ákvörðun að taka). Samt var nóg að gera hjá t.d. minni deild sem var að vinna að pöntunum sem teygðu sig allt að því 2 ár fram í tímann. Að missa 15% samstarfsfélaga minna var erfitt, bæði persónulega og faglega. Fyrirtækið komst samt í gegnum erfiðasta hjallann og er í dag fjölmennara en fyrir haustið 2008. Eigendur þess þurftu ekki að drekkja því í skuldum eða selja verðmæti út úr því á útsöluverði. Niðurskurðurinn styrkti fyrirtækið þegar til lengri tíma var litið.

Ekki var þetta samt talið vera neitt sérstaklega fréttnæmt, enda var það heldur ekki. Einkafyrirtæki sem segir upp starfsfólki til að lifa af erfitt árferði er daglegt brauð. Þau sem kunna að haga seglum eftir vindi og lifa af erfiða tíma geta ráðið fólk þegar betur árar, og boðið betri kjör. Fyrirtæki sem hanga í dauðateygjunum eru engum til gagns og veita í besta falli tímabundið athvarf fyrir starfsfólk sem sífellt þarf að óttast gjaldþrot atvinnuveitanda síns.

Fréttamat fréttamanna er alveg afskaplega sjálfhverft, og kannski er það eðlilegt. Látum samt ekki áhuga fréttamanna á uppsögnum fréttamanna villa okkur sýn: Þetta er nokkuð sem gerist oft á dag á hinum frjálsa markaði, og enginn fréttamaður veitir því sérstaka athygli.  


mbl.is „Ég var rekinn í dag“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Segir hver?

Áformaður bankaskattur á fjármálastofnanir í slitameðferð, sem kynntur var í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, er brot á eignarréttarákvæði í stjórnarskránni, brýtur jafnréttissjónarmið og er óréttlátur og órökréttur. Þetta segir slitastjórn Kaupþings banka í yfirlýsingu sem var birt á heimasíðu slitastjórnarinnar.

Og hvað með það hvað hverjum finnst brjóta og ekki brjóta eignarréttarákvæði stjórnarskráarinnar?

Stjórnarskráin er plagg sem ríkisvaldið skrifaði og er lítið meira en lauslegar leiðbeiningar um hversu hratt ríkisvaldið má troða á borgurum ríkisins. Ég hef aldrei heyrt um tilvik þar sem dómstóll (einnig eining í ríkisvaldinu) staðfesti túlkun almenns borgara á stjórnarskránni og hratt ríkisvaldinu til baka, a.m.k. ekki þegar kemur að skattheimtu. Ég lýsi hér með eftir einu slíku dæmi.

Ríkisvaldið gerir hvað sem það vill við hvern sem það vill. Það heldur ekkert aftur af því nema virk andspyrna almennings, og hana er varla að finna á Íslandi, nema e.t.v. ef senda á glæpamann með erlent ríkisfang úr landinu.

Ríkið ætlar sér að ná 11 milljörðum út úr fjármálastofnunum í slitameðferð. Það mun það gera.  


mbl.is Skatturinn brot á eignarrétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kokkurinn kvartar undan eigin eldamennsku

Nefndarmenn voru sammála um að laust taumhald peningastefnunnar hefði stutt við efnahagsbatann á undanförnum misserum.

Verðbólgukokkarnir í Seðlabanka Íslands eru ekki fullkomlega sáttir við afrakstur eigin eldamennsku. Þeir hrósa sér fyrir árangurs hins "lausa taumhalds" peningastefnunnar, en finnst verðbólgan ekki vera að hjaðna nógu hratt.

Stefnu Seðlabanka Íslands mætti kalla: Að pissa í skóinn sinn. 

Á einum stað er verðbólgustefna Íslands borin saman við þá verðhjöðnun sem Írar voru neyddir út í eftir hrunið (af því þeir gátu ekki bara prentað evrur til að halda uppi verðlagi). Þar segir:

 As the Central Bank of Iceland inflated the money supply, price inflation raged. Icelanders continually felt their financial security worsen as their purchasing power collapsed. This was not apparent to the rest of the world, fixated as it was on the nominal prices the Icelandic economy posted. By its nadir in late 2010, inflation-adjusted income in Iceland was down over 35 percent.

In Ireland this decline was muted because of price deflation. As domestic prices fell it became easier for Irish citizens to make their declining nominal incomes go further. At its worst, the Irish economy collapsed less than 10 percent in real terms. 

Með öðru orðum: Á meðan yfirvöld á Íslandi lögðu áherslu á að rýrnun á kaupmætti íslensku krónunnar myndi rétta við efnahag Íslands gátu írsk yfirvöld ekki annað gert en að leyfa verðbólum að missa allt loft (en skuldsettu að vísu ríkisvaldið upp í rjáfur til að bjarga bönkum, sem voru mistök).

Seðlabanka Íslands á að leggja niður, hið íslenska ríki á að hætta peningaútgáfu með öllu, og hætta algjörlega að skipta sér af því hvaða peninga fólk velur að nota, og hver má gefa út peninga, og á hvaða "fæti" þeir peningar eiga að vera. 


Kjartan er ólíkur hinum

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi, fékk að mínu mati of lélega kosningu í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Hann er ekki eins og allir hinir, þótt hann sé auðmjúkur og setji sig í sömu girðingu og þeir. Því til stuðnings vil ég benda á þessa færslu Vefþjóðviljans. Þar er bent á að Kjartan Magnússon er sá eini sem hefur staðið með skattgreiðendum í tveimur af stærstu árásum hins opinbera á þá á seinustu misserum og árum (Icesave og Harpa). 

Hvað sem því líður þá gæti Kjartan e.t.v. prófað á næstu árum að tala meira fyrir skattalækkunum og minnkandi hlutverki sveitarfélagsins Reykjavík í daglegu lífi Reykvíkinga. Það gerði Davíð Oddsson á sínum tíma og hlaut miklar vinsældir fyrir, svo ég tali nú ekki um stól borgarstjóra og yfir 50% fylgi fyrir flokk sinn, og það í endurkjöri. Við eigum enga stjórnmálamenn sem segja hátt og skýrt að þeir séu að berjast fyrir því að hafa sem minnst að gera í lok kjörtímabilsins. Ég lýsi hér með eftir slíkum. 


mbl.is Ekki dómur yfir borgarfulltrúum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fálmað í myrkri hagtalna

Spekingarnir hafa kíkt inn í framtíðina og segja okkur frá batnandi tíð með aukinni einkaneyslu.

Þeir segja að batnandi horfur séu á atvinnumarkaði.

Þeir segja okkur líka að búist sé við minni fjárfestingu á næsta ári en þessu ári. Samt á einkaneysla að aukast og störf að skapast.

Þetta eru auðvitað mótsagnir. Enginn vöxtur hagkerfis getur átt sér stað ef fjárfesting er að minnka. Hver á að kaupa tækin og tólin, fjárfesta í þjálfun starfsmanna og koma vörum út til neytenda ef fjárfesting er að minnka en einkaneysla að aukast? Á að stofna til skulda? Á að prenta peninga?

Fé verður ráðstafað á þrjá vegu og bara þrjá: 

  1. Í neyslu.
  2. Í fjárfestingu.
  3. Í uppsöfnun undir koddanum (þar sem þeir brenna upp á verðbólgubáli hins opinbera).

 Ef almenningur er að eyða miklu í neyslu og draga úr fjárfestingu þá er ekki að safnast fé í sjóði sem fyrirtækjum stendur til ráðstöfunar að lána úr til arðbærra fjárfestinga. Ef fyrirtæki þurfa að láta rekstrarfé duga til að fjárfesta er nokkuð víst að minna verður um fjárfestingar en ella. Fá fyrirtæki eiga sjóði sem duga fyrir meiriháttar fjárfestingum, staðgreiddum. 

Raunar hafa Íslendingar ekki átt sparnað í mörg ár. Lífeyrissjóðirnir eru lögskipaður nauðungarsparnaður, og núna er verið að nota þá til að fjármagna uppkaup á fyrirtækjum og skuldum hins opinbera. Lífeyrissjóðirnir verða orðnir tómir löngu áður en ég leggst í helgan stein, ef ég get það þá yfirleitt.  

Til að skilja þjóðhagsspá Hagstofu Íslands rétt er til einfalt ráð: Að túlka allt sem þeir kalla jákvætt sem neikvætt, og öfugt. 


mbl.is Gera ráð fyrir 2,5% hagvexti á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski, kannski ekki (Marx brosir í gröfinni núna)

Samdráttarskeiðinu er lokið í hollensku efnahagslífi samkvæmt nýjum tölum um landsframleiðslu þar í landi. Mældist hagvöxturinn 0,1% á þriðja ársfjórðungi samkvæmt tölum Hagstofu Hollands. 

Ekki er jafnauðvelt að túlka svona fréttir og margir halda. Er hagkerfi Hollands að hressast eða veikjast? Tölur um "hagvöxt" segja voðalega lítið um það. Hvers vegna?

"Hagvöxtur" er mæling á peningastærðum. Ímyndum okkur að í hagkerfi séu 1000 milljarðar framleiddir af verðmætum á ári, mælt í einhverri peningategundinni. Ímyndum okkur að ný uppfinning leiði til þess að allar framleiðslulínur í hagkerfinu byrji að skila 10% meiri afköstum, og aukin framleiðsla leiði til lækkandi verðs. Allir geta keypt meira en áður, eða jafnmikið fyrir lægra fé. Mælingar á verðlagi sýna lækkun verðlags. Hagfræðingar sjá að "verðhjöðnun" á sér stað, og þeir hrópa: Kreppa! Kreppa! Samt eru allir betur staddir en áður - laun almennings duga nú til að kaupa meira en áður, eða almenningur getur eytt minna og sparað meira.

Ímyndum okkur núna sama hagkerfi. Spekingar í seðlabanka eru undir þrýstingi að sýna fram á að blússandi gangur sé í hagkerfinu. Þeir ákveða að prenta 10 milljarða af nýjum peningum. Hagkerfið er núna 1010 milljarðar í stað 1000 milljarða. Verð hækkar vegna rýrnandi kaupmáttar peninganna. Mælingar spekinganna sýna að hagkerfið hefur vaxið um 1 prósent. Morgunblaðið flytur okkur forsíðufrétt um að hagkerfið hafi vaxið að nýju eftir tímabil stöðnunar eða samdráttar.

Síðarnefnda dæmið er hið dæmigerða. Peningastærðir eru á flugferð upp á við þessi árin og margir telja ranglega að það í sjálfu sér sé til merkis um að eitthvað jákvætt sé á ferðinni. Svo er ekki endilega.

Karl Marx lagði það til í Kommúnistaávarpinu (kafla II) að ríkisvaldið ætti meðal annars að stofna ríkisseðlabanka og einoka peningaútgáfu til að ná tökum á hagkerfinu. Nokkrum áratugum seinna var slíkt fyrirkomulag orðið að reglunni. Í sama kafla er talað um að banna erfðir á eignum, þvinga alla í vinnubúðir og skylda öll börn í menntun í ríkisskólum. Sumt er kunnuglegt, sumt er handan við hornið. Karl Marx brosir í gröfinni núna. 


mbl.is Holland komið út úr samdrætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland eitt Norðurlanda án einkaspítala

Þótt margt af því sem forstjóri Samkeppniseftirlitsins segi um eðli opinbers rekstrar sé rangt þá er rétt að hrósa honum fyrir að nefna margt sem Íslendingar gera sér ekki grein fyrir.

Ísland er til dæmis eitt Norðurlanda án einkaspítala. Hið "norræna módel" í heilbrigðisþjónustu á Íslandi er því svo norrænt að það er eitt Norðurlanda um það.

Í Danmörku er hægt að nota leiðarvísinn http://www.privathospitalsguiden.dk/ til að finna einkaspítala sem sinna ákveðnum tegundum heilbrigðisþjónustu. Ertu með brjóstakrabbamein? Þá getur þú leitað til þessara einkaspítala fyrir a.m.k. hluta af meðferð þinni.  Ertu með hjartasjúkdóm? Þá geta þessir einkaspítalar e.t.v. aðstoðað þig. 

Kerfið í Danmörku er líka það sem stundum kallast "tvöfalt" á Íslandi, þ.e. hægt er að heilbrigðistryggja sig ofan á þá heilbrigðistryggingu sem ríkisvaldið stendur að og nýta sér svo þjónustu einkaspítala ef eitthvað ber að og heilsugæsla eða spítali hins opinbera er ekki að sinna þörfum þínum (t.d. af því biðtíminn eftir nauðsynlegri meðferð er upp á marga mánuði).  

Margir atvinnurekendur í Danmörku, þar á meðal minn, heilbrigðistryggja starfsmenn sína, t.d. í gegnum Skandia, og bjóða upp á að börn og maki fái einnig tryggingu, oft gegn litlu gjaldi. 

Ávinningurinn er auðvitað margfaldur. Biðlistar í opinbera kerfinu styttast því þeir heilbrigðistryggðu yfirgefa þá einfaldlega. Álagið á hið opinbera kerfi minnkar. Samkeppni er til staðar á milli heilbrigðisþjónustuaðila. Bein aðkoma einkaaðila að fjármögnun tryggir ákveðið aðhald sem hið opinbera finnur aldrei fyrir. Svona má lengi telja. 

Þegar kemur að hinu "norræna módeli" eru Íslendingar kaþólskari en páfinn, og tala oftar en ekki út um rassgatið á sér (afsakið orðbragðið).  


mbl.is Vill aukna samkeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Plástrar á blæðandi svöðusár

Þá eru tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar (ath. "hópur" en ekki "nefnd") loksins komnar út eftir mikla eftirvæntingu margra. Í stuttu máli má draga þær saman með orðunum: Plástrar á blæðandi svöðusár.

Kannski er það ekki skrýtið. Eitt af markmiðum hópsins var raunar að ráðast ekki á fituna og skera hana í burtu, heldur bara að tengja betur og e.t.v. ódýrar sama einstaka fituhluta, eða með orðum hópsins:

Hagræðingarhópurinn hefur ekki lagt áherslu á beinar niðurskurðartillögur heldur á kerfisbreytingar sem beinast að breytingum á áherslum, aðferðum og skipulagi og geta stuðlað að varanlegri hagræðingu og auknum árangri til lengri tíma.

Þannig að það er kannski ekki skrýtið að lítið sem máli skiptir hafi verið lagt til.  

En hvað hefði ég lagt til? Hvað ef ég hefði fengið það verk að koma með pólitískt raunhæfar tillögur að hagræðingu í ríkisrekstrinum?

Ég hefði lagt til eftirfarandi:

Að innan kjörtímabilsins verði ríkisvaldið ekki rekstraraðili einnar einustu stofnunar, skrifstofu eða deildar sem sæi um neins konar heilbrigðisgæslu eða menntun (auk mun fleiri tegundir þjónustu auðvitað). Um fjármögnunarhlið heilbrigðisgæslu og menntunar þyrfti svo að leita leiða til að brúa tímabundið bilið fyrir þá sem hafa lengi greitt skatta og treysta á ríkisvaldið til að veita.

Að innan vetrarins verði hafin algjör aftenging ríkisvalds og peningaútgáfu sem endar á því, innan kjörtímabilsins, að Seðlabanki Íslands sé úr sögunni, innistæðutryggingar orðnar að einkamáli hvers og eins og hvaða tegund peninga hver notar sé algjörlega undir hverjum og einum komið.

Að innan vetrarins verði ekki lagður tollur eða vörugjald á neitt sem kemur inn til landsins, og engir styrkir veittir fyrir neitt sem fer úr landi. Fríverslun við allan heiminn, hvorki meira né minna. 

Að innan vetrarins verði þegar hafin stórkostleg niðurgreiðsla á skuldum hins opinbera.

Að innan vetrarins verði öllum lögskyldum á sveitarfélög aflétt, þ.á.m. lögbundið lágmarksútsvar eða hámarksútsvar. Heimilt sé að kljúfa sveit eða byggð úr sveitarfélagi og yfir í nýtt sveitarfélag með einfaldri meirihlutakosningu íbúa á tilteknu svæði. Engin lágmarksstæð sveitarfélags verði skilgreind. (Þetta þyrfti e.t.v. að fínpússa tæknilega en pólitísk markmið ætti að vera að úr því sveitarfélög eru hefðbundin pólitísk eining á milli ríkisvalds og einstaklings, þá megi fólk klæðskerasauma þau sem frjálsast.)

Að innan kjörtímabilsins verði ekki greidd króna úr ríkissjóði í neinskonar framleiðslu, iðnað eða athöfn af nokkru tagi.

Að innan kjörtímabilsins verði bara eftir einn eða tveir skattar til að brúa tímabundið þau útgjöld sem margir treysta á ríkisvaldið til að sjá um á meðan það er að koma sér úr veginum. Þeir þurfa að vera örlítið hærri en sjálf ríkisútgjöldin á meðan hið opinbera greiðir skuldir sínar (nema það einfaldlega afneiti þeim, neiti að borga og eyði varanlega lánstrausti ríkissjóðs, en það er gott mál).

Ríkisvaldið þarf að leggja niður öll sendiráð. Þjónusta við Íslendinga erlendis verði boðin út eða greidd að fullu af Íslendingum erlendis.

Listinn yrði auðvitað lengri eins og menn geta ímyndað sér þegar maður er búinn að vera á fullum launum í margar vikur við að skrifa nokkrar blaðsíður af hugmyndum niður, en ég læt staðar numið í bili. 

Pólitískt óraunhæft? Kannski. Hið sama má þá segja um þá sem fóru fyrstir að takast á við ríkisvaldið og reyna að þvinga það til að hætta að verja þrælahald. Þar með er ekki sagt að réttlætið hafi ekki sigrað að lokum. Það tók rúmlega áratug að losna við Þjóðarbókhlöðuskattinn. Slíkt má skrifast á veiklundaðan almenning sem lætur valta yfir sig, trekk í trekk, af gömlum vana. 


mbl.is Verða að líta á það sem lokið er
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjum er ekki sama?

Ó nei, ó nei - sprotafyrirtækin kvarta undan starfsumhverfinu á Íslandi! Þeim nægir ekki að sýna fram á góðan hagnað í núinu eða framtíðinni, góða viðskiptaáætlun, góða stefnu, góðar markaðshorfur og traustar horfur fyrir markað þeirra. Ó nei, ó nei - þau fá engin lán!

Frumkvöðlastarfsemin á undir högg að sækja. Hverjum er ekki sama? Sjáum nú til: Á Íslandi er mikil samúð með ríkisrekstri og frumkvæði ríkisvaldsins. Vantar virkjun? Látum ríkisvaldið senda Landsvirkjun af stað! Vantar jarðgöng? Sendum ríkisvaldið af stað! Vantar skóla? Virkjum sveitarstjórnina! Eru holur í malbikinu? Tölum við vegagerðarfólk ríkisins! Er komin upp hugmynd sem mokar milljörðum til Íslands? Tölum við Alþingi! Þar er alltaf skilningur fyrir milljarðahugmyndinni, hvort sem hún er minkarækt, fiskeldi, sæstrengur eða lífrænt lambakjöt.

Svo hverjum er ekki sama þótt einhverjir frumkvöðlar séu að horfa upp á hugmynd sína deyja í fæðingu? Hverjum er ekki sama þótt aðgengi að fjármagni fyrir sprotafyrirtækin sé lítið sem ekkert? Hverjum er ekki sama þótt almenningur geti ekki sparað peninga og lánað út?

Mér er sama. En flestum ekki. Í alvöru.


mbl.is Sprotafyrirtæki líkleg til að flytja úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband