Kannski, kannski ekki (Marx brosir í gröfinni núna)

Samdráttarskeiðinu er lokið í hollensku efnahagslífi samkvæmt nýjum tölum um landsframleiðslu þar í landi. Mældist hagvöxturinn 0,1% á þriðja ársfjórðungi samkvæmt tölum Hagstofu Hollands. 

Ekki er jafnauðvelt að túlka svona fréttir og margir halda. Er hagkerfi Hollands að hressast eða veikjast? Tölur um "hagvöxt" segja voðalega lítið um það. Hvers vegna?

"Hagvöxtur" er mæling á peningastærðum. Ímyndum okkur að í hagkerfi séu 1000 milljarðar framleiddir af verðmætum á ári, mælt í einhverri peningategundinni. Ímyndum okkur að ný uppfinning leiði til þess að allar framleiðslulínur í hagkerfinu byrji að skila 10% meiri afköstum, og aukin framleiðsla leiði til lækkandi verðs. Allir geta keypt meira en áður, eða jafnmikið fyrir lægra fé. Mælingar á verðlagi sýna lækkun verðlags. Hagfræðingar sjá að "verðhjöðnun" á sér stað, og þeir hrópa: Kreppa! Kreppa! Samt eru allir betur staddir en áður - laun almennings duga nú til að kaupa meira en áður, eða almenningur getur eytt minna og sparað meira.

Ímyndum okkur núna sama hagkerfi. Spekingar í seðlabanka eru undir þrýstingi að sýna fram á að blússandi gangur sé í hagkerfinu. Þeir ákveða að prenta 10 milljarða af nýjum peningum. Hagkerfið er núna 1010 milljarðar í stað 1000 milljarða. Verð hækkar vegna rýrnandi kaupmáttar peninganna. Mælingar spekinganna sýna að hagkerfið hefur vaxið um 1 prósent. Morgunblaðið flytur okkur forsíðufrétt um að hagkerfið hafi vaxið að nýju eftir tímabil stöðnunar eða samdráttar.

Síðarnefnda dæmið er hið dæmigerða. Peningastærðir eru á flugferð upp á við þessi árin og margir telja ranglega að það í sjálfu sér sé til merkis um að eitthvað jákvætt sé á ferðinni. Svo er ekki endilega.

Karl Marx lagði það til í Kommúnistaávarpinu (kafla II) að ríkisvaldið ætti meðal annars að stofna ríkisseðlabanka og einoka peningaútgáfu til að ná tökum á hagkerfinu. Nokkrum áratugum seinna var slíkt fyrirkomulag orðið að reglunni. Í sama kafla er talað um að banna erfðir á eignum, þvinga alla í vinnubúðir og skylda öll börn í menntun í ríkisskólum. Sumt er kunnuglegt, sumt er handan við hornið. Karl Marx brosir í gröfinni núna. 


mbl.is Holland komið út úr samdrætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Nú er víða í tísku að bölva krónunni og segja að hún sé ónýtur gjaldmiðill. Þeir sömu aðilar virðast ekki átta sig á því að US$ hefur tapað um 96% af verðgildi sínu frá því 1913.

Óðaverðbólga er í startholunum í USA með tilheyrandi kaupmáttarrýrnun fyrir almenning þar. Svipaða sögu má segja frá Japan. Þá verður mun erfiðara fyrir kanann að kaupa vörur af öðrum sem aftur þýðir atvinnuleysi erlendis. Það er stór efnahagsleg bomba á leiðinni :-( 

Helgi (IP-tala skráð) 24.11.2013 kl. 18:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband