Plástrar á blæðandi svöðusár

Þá eru tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar (ath. "hópur" en ekki "nefnd") loksins komnar út eftir mikla eftirvæntingu margra. Í stuttu máli má draga þær saman með orðunum: Plástrar á blæðandi svöðusár.

Kannski er það ekki skrýtið. Eitt af markmiðum hópsins var raunar að ráðast ekki á fituna og skera hana í burtu, heldur bara að tengja betur og e.t.v. ódýrar sama einstaka fituhluta, eða með orðum hópsins:

Hagræðingarhópurinn hefur ekki lagt áherslu á beinar niðurskurðartillögur heldur á kerfisbreytingar sem beinast að breytingum á áherslum, aðferðum og skipulagi og geta stuðlað að varanlegri hagræðingu og auknum árangri til lengri tíma.

Þannig að það er kannski ekki skrýtið að lítið sem máli skiptir hafi verið lagt til.  

En hvað hefði ég lagt til? Hvað ef ég hefði fengið það verk að koma með pólitískt raunhæfar tillögur að hagræðingu í ríkisrekstrinum?

Ég hefði lagt til eftirfarandi:

Að innan kjörtímabilsins verði ríkisvaldið ekki rekstraraðili einnar einustu stofnunar, skrifstofu eða deildar sem sæi um neins konar heilbrigðisgæslu eða menntun (auk mun fleiri tegundir þjónustu auðvitað). Um fjármögnunarhlið heilbrigðisgæslu og menntunar þyrfti svo að leita leiða til að brúa tímabundið bilið fyrir þá sem hafa lengi greitt skatta og treysta á ríkisvaldið til að veita.

Að innan vetrarins verði hafin algjör aftenging ríkisvalds og peningaútgáfu sem endar á því, innan kjörtímabilsins, að Seðlabanki Íslands sé úr sögunni, innistæðutryggingar orðnar að einkamáli hvers og eins og hvaða tegund peninga hver notar sé algjörlega undir hverjum og einum komið.

Að innan vetrarins verði ekki lagður tollur eða vörugjald á neitt sem kemur inn til landsins, og engir styrkir veittir fyrir neitt sem fer úr landi. Fríverslun við allan heiminn, hvorki meira né minna. 

Að innan vetrarins verði þegar hafin stórkostleg niðurgreiðsla á skuldum hins opinbera.

Að innan vetrarins verði öllum lögskyldum á sveitarfélög aflétt, þ.á.m. lögbundið lágmarksútsvar eða hámarksútsvar. Heimilt sé að kljúfa sveit eða byggð úr sveitarfélagi og yfir í nýtt sveitarfélag með einfaldri meirihlutakosningu íbúa á tilteknu svæði. Engin lágmarksstæð sveitarfélags verði skilgreind. (Þetta þyrfti e.t.v. að fínpússa tæknilega en pólitísk markmið ætti að vera að úr því sveitarfélög eru hefðbundin pólitísk eining á milli ríkisvalds og einstaklings, þá megi fólk klæðskerasauma þau sem frjálsast.)

Að innan kjörtímabilsins verði ekki greidd króna úr ríkissjóði í neinskonar framleiðslu, iðnað eða athöfn af nokkru tagi.

Að innan kjörtímabilsins verði bara eftir einn eða tveir skattar til að brúa tímabundið þau útgjöld sem margir treysta á ríkisvaldið til að sjá um á meðan það er að koma sér úr veginum. Þeir þurfa að vera örlítið hærri en sjálf ríkisútgjöldin á meðan hið opinbera greiðir skuldir sínar (nema það einfaldlega afneiti þeim, neiti að borga og eyði varanlega lánstrausti ríkissjóðs, en það er gott mál).

Ríkisvaldið þarf að leggja niður öll sendiráð. Þjónusta við Íslendinga erlendis verði boðin út eða greidd að fullu af Íslendingum erlendis.

Listinn yrði auðvitað lengri eins og menn geta ímyndað sér þegar maður er búinn að vera á fullum launum í margar vikur við að skrifa nokkrar blaðsíður af hugmyndum niður, en ég læt staðar numið í bili. 

Pólitískt óraunhæft? Kannski. Hið sama má þá segja um þá sem fóru fyrstir að takast á við ríkisvaldið og reyna að þvinga það til að hætta að verja þrælahald. Þar með er ekki sagt að réttlætið hafi ekki sigrað að lokum. Það tók rúmlega áratug að losna við Þjóðarbókhlöðuskattinn. Slíkt má skrifast á veiklundaðan almenning sem lætur valta yfir sig, trekk í trekk, af gömlum vana. 


mbl.is Verða að líta á það sem lokið er
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Geir Ágústsson

Dæmigert er svo að fjölmiðill eins og DV kalli tillögurnar "tillögur til niðurskurðar" í undirfyrirsögn, sem þær eru ekki:

http://www.dv.is/frettir/2013/11/11/her-geturdu-sed-allar-tillogur-hagraedingarhopsins/

Geir Ágústsson, 12.11.2013 kl. 08:12

2 identicon

Sæll.

Góðar hugmyndir og því fyrr sem þær verða að veruleika þeim mun betra.

Það sem menn fatta ekki (og ég ekki fyrr en ég sá mjög góða grein í mbl. í okt) er hversu hrikalega illa statt hið opinbera er fjárhagslega. Skuldir opinbera geirans hérlendis umfram eignir nema hundruðum milljarða. Lánar bara einhver með vott af skynsemi hinu opinbera hérlendis fé? Sömu sögu er að segja af mörgum löndum. Lánadrottnar hins opinbera víða um heim eiga skilið að tapa fé.

Opinberi geirinn er ekki undanskilinn efnahagslögmálum þó menn haldi það. Fyrr eða síðar hækka vextir og þá falla gyllingarnar af hinu opinbera. Fyrr eða síðar gera fjárfestar sér grein fyrir því að inn í skuldir hins opinbera eru ekki reiknaðar skuldbindingar sem iðulega eru margfalt hærri en beinar skuldir. Þá munu lánamarkaðir lokast (nema menn ætli virkilega að keyra allt með peningaprentun og verðbólgu) og heilu löndin verða gjaldþrota. Í mínu huga er bara tímaspursmál hvenær slíkt gerist og hversu slæmur sá skellur verður. Ég held að ekki svo mörg ár séu í þennan skell, gef þessu 2-4 ár í viðbót.

Svo er hér lítið dæmi um það sem opinber afskipti kosta athafnalífið í USA:

http://www.cbn.com/cbnnews/finance/2011/September/Staggering-Cost-of-Regulations-Strangling-Economy-/

Hvað skyldu nú opinber afskipti hérlendis kosta atvinnulífið? Hve mörg störf verða ekki til vegna opinberra afskipta? Hagfræðinghræin hérlendis reyna ekki einu sinni við þá spurningu :-(

Helgi (IP-tala skráð) 12.11.2013 kl. 08:24

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Fyrir sláandi dæmi um það hvernig ríkisvaldið hleður á sig þar til allt undir því hrynur til jarðar get ég mælt með kafla 18 í bókinni Man vs. The Welfare State sem má nálgast fríkeypis hérna:

http://mises.org/document/2974/Man-vs-The-Welfare-State

Geir Ágústsson, 12.11.2013 kl. 13:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband