Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Ríkisráðgjafana vantar víða

Ekki vissi ég að ríkisvaldið ræki ráðgjafastofur fyrir bændur. Mikið var nú gott að vita af því! Hvar væru bændur án ríkisráðgjafanna? Þeir væru sennilega í sífelldum rekstrarvandræðum, sífellt í vandræðum með verðlagningu á afurðum sínum, sífellt á biðstofum ráðherra að biðja um aðstoð og styrki, og gætu ekki samstillt framboð og eftirspurn. 

Eða bíddu nú við. Bændur eiga í öllum þessum vandræðum!

Þeir eru að auki lokaðir inni í tollamúrum.  Rekstur bændabýla á Íslandi er allt að því miðstýrð af ríkisvaldinu. Er það kannski ástæðan fyrir öllum þeirra vandræðum og ástæða þess að þeir telja sig þurfa sérstaka ráðgjafa frá ríkisvaldinu? Vinna þessir ráðgjafar ríkisins mikið til við að ráðleggja bændum um hvernig á að reka býlin sín undir handleiðslu ríkisins? Það væri athyglisvert ef rétt er.

Á Nýja-Sjálandi framleiða menn smjör án ríkisstyrkja sem keppir í verðlagi og gæðum í búðarhillum Vestur-Evrópu við niðurgreidda, evrópska smjörframleiðslu, sem var sennilega unnin undir handleiðslu heils hers af ríkisráðgjöfum. Mikið hlýtur að vera erfitt að vera bóndi á Nýja-Sjálandi. 


mbl.is Allt landið eitt starfssvæði ráðunauta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru frjálsir farþegaflutningar óhugsandi?

Ég skrifaði nokkur orð um frjálsa farþegaflutninga á blogg Frjálshyggjufélagsins - sjá hérna. Mér hefur lengi fundist skrýtið að ekki sé hægt að reka fyrirtæki í kringum fasta flutninga þúsunda einstaklinga á milli fyrirfram þekktra staða og niðurstaða mín er sú að hérna flækist hið opinbera fyrir frjálsu framtaki, með hrikalegum afleiðingum; umferðarteppum, tímatapi og óhagræði fyrir alla.

Eða hvers vegna tapa strætisvagnar sveitarfélaganna stórfé á þess konar flutningum á meðan t.d. flutningar á pizzum eru reknir með hagnaði? Pizzusendlar eru yfirleitt einir í bíl, með lítið magn varnings í bílnum í einu, og þurfa að vera til þjónustu reiðubúnir nánast allan sólarhringinn alla daga ársins.

Svari hver fyrir sig. Ég hef svarað fyrir mitt leyti.  


Depardieu svarar fyrir sig, einn fárra

Franski leikarinn Gerard Depardieu ætlar ekki að láta frönsk yfirvöld komast upp með að bæða mjólka sig og móðga. Gott hjá honum! Hann virðist ætla að svara fyrir sig og "kjósa með fótunum" úr því allt annað bregst.

Þetta er til fyrirmyndar. Ríkisvaldið mun aldrei hætta að þenja sig út og grafa dýpra ofan í vasa okkar fyrr en það mætir sterkri andspyrnu.

Auðmenn hafa með veikum mætti reynt að verjast ágangi ríkisvaldsins með því að segjast vilja borga hærri skatta. Auðvitað er þetta misheppnuð aðferðafræði en skaðar því miður ekki bara þá sem beita henni heldur miklu frekar alla aðra sem eru að reyna að komast í hóp auðmanna með vinnu og útsjónarsemi. Þeir ríku geta millifært fé á bankareikna ríkisvaldsins hvenær sem er, en gera ekki. Þetta er bara leið til að minnka andúð öfundsjúkra stjórnmálamanna á auði og velgengni. Leið sem mistekst. 

 

 


mbl.is Depardieu segist greiða 85% tekna í skatta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú þegja aðrir

"Úff þarna var ég nú heppinn. Ríkisstjórnin ákvað að þessu sinni að hækka skatta á fjármálafyrirtæki og valda þar uppsögnum og eymd. Ég slapp því í þetta skipti. Núna ætla ég að grjóthalda kjafti til að vekja ekki athygli yfirvalda á mér."

Þetta er hin íslenska eða vestræna leið til að vera undir ratsjá hins opinbera. Sá sem fær flenginguna kvartar auðvitað á meðan á henni stendur, en þegir þess á milli.

Við höfum hliðstætt dæmi frá ferðaþjónustunni. Yfirleitt steinheldur hún kjafti á meðan yfirvöld fá sínu framgengt frá öðrum. Um leið og hún átti að greiða hærri skatta fór hún hins vegar á mikið flug og fékk hingað útlendinga til að halda ræður, skrifaði ályktanir, lét reikna fyrir sig og ég veit ekki hvað og hvað.

Þetta er ömurleg leið til að verjast ágangi hins opinbera. Á meðan skattgreiðendur eru svona sundraðir og andspyrna þeirra bundin við einn lítinn hagsmunahóp í einu mun ríkisvaldið aldrei hætta. Það mun þenja sig út og seilast dýpra og dýpra þar til ekkert er eftir. 

Nú skulu fjármálafyrirtækin rist á kvið og blóði þeirra safnað. Áður var það ferðaþjónustan. Ertu næst(ur)? 


mbl.is Kvennastörf verst úti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað brengla höftin

Stundum telst það fréttnæmt þegar einhver bendir á eitthvað augljóst. Það er gott, því þá verður hið augljósa fleirum ljóst (en slíkt er ekki alltaf raunin í umræðuumhverfi þar sem vitleysa er oft talin vera sannleikur). 

Nú er á það bent að höft valdi brenglun á markaði. Það ætti nú samt að segja sig sjálft. Ef höft leiddu ekki til neinnar brenglunar þá væru þau óþörf eða gagnslaus með öllu og líklega í huga fárra. Segjum til dæmis sem svo að lög bönnuðu fólki yfir 150 ára aldri að koma fram í sjónvarpi. Slíkt bann væri vissulega bann en myndi ekki leiða til neinna breytinga. Gjaldeyrishöftin eru svo af hinni tegundinni: Þau hafa áhrif á næstum því hver einustu viðskipti Íslendinga eða viðskipta við Íslendinga.

Íslendingar geta núna haldið upp á fjögurra ára afmæli gjaldeyrishaftanna sem áttu að vera tímabundin í 6 mánuði en stefnir nú í að verði varanleg á meðan vinstrimenn eru við stjórn á landinu.

Til hamingju Ísland. 


mbl.is Höftin leiða til óhagkvæmra fjárfestinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velferðarkerfi á hraðbraut

Við íbúar Vestur-Evrópu þykjumst vita ýmislegt um hið mikla stolt okkar, "velferðarkerfið". Það gerum við líka alveg örugglega. En hvað gerist þegar stjórnmálamenn gefa velferðarkerfinu lausan tauminn? Hvað gerist þegar stjórnmálamenn starfa "í sátt" og "af samhug" að því að þenja báknið út?

Viðhengt skjal er úr bókinni Man vs. The Welfare State eftir snillinginn Henry Hazlitt. Þetta er kafli um velferðarkerfið í Suður-Ameríkuríkinu Uruguay. Þar var velferðarkerfinu leyft að þenjast út eins og blöðru. Afleiðingarnar voru hrikalegar, og þótt þær hefðu legið fyrir lengi höfðu stjórnmálamenn ekki hugrekki til að takast á við vandamálin og forðast þær. 

Þetta eru bara 10 blaðsíður í stóru letri á litlum blaðsíðum og ég hvet alla með snefil af áhuga á velferðarkerfinu svokallaða til að lesa þær.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Danir reyndu en gáfust upp

Íslendingar eru ekki bara duglegir að herma eftir erlendum tískustraumum, arkitektúr, tónlistarsmekk og mat. Nei, þeir þurfa líka að herma eftir allri vitleysunni sem viðgengst víða um heim.

Svíar banna áfengissölu í matvöruverslunum og sjoppum, og Íslendingar herma eftir. Í Danmörku og Noregi er áfengi selt í matvöruverslunum.

Danir banna sölu munntóbaks, og Íslendingar herma eftir. Í Noregi og Svíþjóð er það leyft. 

Danir leggja á sykur- og fituskatt, og Íslendingar herma eftir. Ég veit ekki hvað Norðmenn og Svíar gera, en hef a.m.k. aldrei heyrt um norska eða sænska sykurskatta.

Danir hafa núna gefist upp á sínum fituskatti. Hann hafði engin áhrif á lífshætti fólks og ýtti einfaldlega viðskiptum Dana í svarta hagkerfið eða til næstu landamæra. Þeir afnema því þennan skatt um áramótin. 

Það er rétt hjá þeim sem segja að hérna er ríkið bara að krækja sér í meira fé ofan í galtóma híti ríkisrekstursins. 


mbl.is Sykurskattar skili 960 milljónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband