Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011
Fimmtudagur, 31. mars 2011
Icesave-málið á að fara fyrir dómstóla
Eftir því sem ég les mér betur til um hina svokölluðu "dómstólaleið" í Icesave-deilu Íslendinga, Breta og Hollendinga því sannfærðari verð ég um að hún er hin eina rétta leið í þessu máli, af eftirfarandi ástæðum:
- Ljóst er að Bretar og Hollendingar eru að reyna varpa allri áhættu og ábyrgð vegna Icesave yfir á herðar íslenskra skattgreiðenda. Þetta er fullkomlega ósanngjarnt, enda er íslenskur almenningur alveg saklaus af öllu sem fór illa vegna Icesave, auk þess sem kröfur Breta og Hollendinga ná langt út fyrir fyrirfram þekkta og gildandi lagaramma. Af þessari ástæðu þarf að vísa kröfum þeirra fyrir dómstóla og varpa allri "samningaleið" fyrir borð.
- Dómstólar eru til þess að skera úr um álitamál. Menn leita réttar síns fyrir dómstólum. Við það er ekkert að athuga og í því er ekki fólgin nein niðurlæging og þaðan af síður dónaskapur.
- Með því að hafna Icesave III er verið að hafna afsali á æðsta dómsvaldi Íslands til erlendra dómstóla, og flytja það til "gerðardóms" sem verður skipaðir mönnum sem hafa ekki endilega lög og reglur til viðmiðunar, heldur einnig pólitísk sjónarmið þeirra sem skipa þá. Að afsala sér æðsta dómsstiginu með þessum hætti er jafngildi þess að afsala sér fullveldinu í öllum aðalatriðum (ein af skilgreiningum fullveldis er einmitt að hafa æðsta dómsvald í málum á sinni hendi).
- Er "dómstólaleiðin" þá "áhættunnar virði"? Kannski og kannski ekki. Svona eiga menn ekki að hugsa um dómsstóla. Þeir eru þarna til að leysa úr ágreiningsmálum. En ef menn vilja endilega leggja notkun og starfssemi dómstóla að jöfnu við afsal fullveldis og "meta áhættuna" af hvoru tveggja, þá er margt sem bendir til þess að "áhættan" af "dómstólaleiðinni" sé ekki öll okkar og raunar fjarri því. Eða hvers vegna er ekki búið að ákæra íslenska ríkið nú þegar? Hvers vegna er öllu púðrinu eytt í að hræða almenning með "dómstólaleiðinni" í stað þess að ræða hana á yfirvegaðan hátt sem raunverulegan valkost þegar kemur að því að greiða úr ágreiningi?
Dómstólaleiðin er hin rétta leið. Hún hefst með því að hafna Icesave III.
600 milljarða neyðarlög | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 29. mars 2011
Að "taka sénsinn" fyrir dómstólum er rétt leið
Slíkur talsmáti er mikil óvirðing við réttarríkið. Í gamla daga gátu kóngar og prinsar riðið um héröð og krafið varnarlausa bændur um himinháa skatta án þess að óttast andstöðu í ljósi aflsmunar. Að Íslendingar taki sér stöðu óvarða bóndans á evrópskum miðöldum er ekki til fyrirmyndar og raunar mikil afturför á mælikvarða siðmenningarinnar.
Íslendingar stóðu uppi í hárinu á Bretum í landhelgisdeilunni, höfðu þar sigur og gerðu sennilega marga breska sjómenn atvinnulausa með því. Þar hafði réttlætið sigur og kúgunin var brotin á bak aftur. Í því var fólginn heiður og virðing. Bretar létu okkur vera eftir það. Núna ganga þeir á lagið og íslenskir ráðamenn beygja sig og bugta, eins og kúgaðir miðaldabændur fyrir vopnuðum aðlinum.
Væri ekki frekar nær að "taka sénsinn" fyrir dómstólum?
Bretar og Hollendingar græða milljarða á vaxtamun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 28. mars 2011
Íslenskt 'skúffu'fyrirtæki?
Bandaríska orkufyrirtækið Nevada Geothermal Power hefur gert samning við Reykjavík Energy Invest (REI), dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, um kaup á jarðhitasvæðum í Suður-Kalíforníu.
Ósköp venjuleg frétt úr viðskiptalífinu? Kannski. Dótturfyrirtæki íslensks fyrirtækis á jarðhitasvæði í Bandaríkjunum. Það á nú að kaupa. Viðskipti eins og hver önnur. Heitavatnsbóla neðanjarðar skiptir um eigendur.
Ætli Björk Guðmundsdóttir og tindátar hennar fagni þessum eigendaskiptum? Íslenskt "skúffu"fyrirtæki ætlaði sér að mergsjúga bandaríska jörð, selja náttúruauðlind fyrir nokkra dollara, hlunnfara bandarískan almenning, sniðganga bandarísk lög og svipta næstu kynslóðir Bandaríkjamanna möguleikanum á að kynda hús sín. Nú hefur því mikla óréttlæti sem eignarhald hins íslenska "skúffu"fyrirtækis er verið snúið við. Björk fagnar. Hún berst fyrir svipuðum sigri réttlætisins á Íslandi, þar sem heitavatnsbólur eru enn í eigu kanadísks "skúffu"fyrirtækis sem ætlar sér a.m.k. öll illskuverk hins íslenska skúffufyrirtækis í Bandaríkjunum.
Íslensk fyrirtæki eiga ennþá heitavatnsbólur í fjölda ríkja. Þau eiga líka veiðiheimildir út um allan heim. Enginn kvartar yfir því. Enginn á Íslandi talar um hörmungar þess að Íslendingar eigi hlutdeild í auðlindum í öðrum löndum. En um leið og erlendur fjárfestir vogar sér að fjárfesta í öðru en lopapeysum á Íslandi þá er eins og himinn og jörð ætli að farast.
Hví það?
Kaupir jarðhitasvæði af REI | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 28. mars 2011
Sukk á sveitarfélögum
Íslensk sveitarfélög voru dugleg að safna skuldum og sóa fé á meðan á "góðærinu" stóð. Þau sugu til sín lánsfé, gjarnan í formi myntkörfulána frá útlöndum á seðlabanka-niðurgreiddum vöxtum (lesist: lánuðu nýprentaða peninga).
Nú er komið að skuldadögum hjá mörgum þeirra og enn fjölgar í hópi sveitarfélaga sem finna sig knúin til að setjast að "samningaborði" með lánadrottnum sínum og skrúfa vextina á lánum sínum upp í hæstu hæðir.
Svona kærulaus hegðun og slæm meðferð á almannafé er vitaskuld á ábyrgð þeirra stjórnmálamanna sem skrifuðu undir sukkið til að byggja sundlaugar og íþróttahús, niðurgreiða almenningssamgöngur, "styrkja" allt sem rétti út hendi, fjármagna "jafnréttisráð" og "mannréttindanefndir" innan sveitarfélaganna, og svona má lengi telja.
En kjósendur þurfa líka að hugsa sinn gang. Það eru jú þeir sem kjósa þá sem mestu lofa og mestu fé vilja eyða.
Áhugaverð þróun á sér nú stað á Seltjarnarnesi. Þar hefur útsvarið lengi verið með því lægsta sem gerist, og gjarnan það lægsta á öllu höfuðborgarsvæðinu, en ekki lengur. Nýlega var gefið í útsvarsprósentuna og sveitarstjórnarmenn þar á bæ greinilega búnir að fá nóg af aðhaldi. Hvað gera kjósendur í næstu kosningum þar? Láta þeir vitleysuna viðgangast eða refsa þeim sem vilja skipta aðhaldi út fyrir aukna skattheimtu?
Hundruð milljóna aukakostnaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 26. mars 2011
Að hrófla við eða ekki
Þingmenn deila nú um það hvort róttækar breytingar eigi að gera á fiskveiðistjórnunarkerfinu, eða bara miklar breytingar. Það virðist vera samstaða um það að hrófla einhvern veginn við kerfinu, en nákvæm útfærsla á því liggur enn ekki fyrir.
Hvort sem mönnum líkar betur eða verr þá er fiskveiðistjórnunarkerfið á Íslandi undirstaða einnar arðsömustu útgerðar í heimi. Útgerð á Íslandi skilar arði og greiðir háa skatta. Útgerð í flestum öðrum ríkjum er afæta á skattgreiðendum.
Hvort sem mönnum líkar betur eða verr þá þarf töluvert meira en bara "viljann til að veiða" til að reka arðbæra útgerð, hvort sem hún er lítil eða stór. Ef menn hrófla mikið við fiskveiðistjórnunarkerfinu er raunveruleg hætta á að hugvit, reynsla og þekking hverfi úr útgerðinni.
Ísland er tæknilega gjaldþrota. Skuldasöfnun er gríðarleg og skuldastaða ríkissjóðs komin að mörkum hins ósjálfbæra. Ríki hafa lýst sig gjaldþrota með minni hallarekstur, lægri skuldir og í betra árferði. Nú skal hróflað við stærstu tekjulind Íslendinga og með því er tekin gríðarleg áhætta.
En áfram skal stefnt að breytingum, og með því er tekin mikil áhætta. Það er einfaldlega staðreynd.
Pattstaða um fiskveiðistjórnun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 25. mars 2011
'[V]eit varla hvaðan á mig stendur veðrið'
Loksins, loksins! Jóhanna játaði loksins! "[V]eit varla hvaðan á mig stendur veðrið" segir hún. Það var kominn tími til.
Að vísu segir Jóhanna þetta um nýlegan úrskurð kærunefndar jafnréttismála. Um þá nefnd og þann úrskurð er mér alveg sama. Þessi jafnréttisiðnaður blæs heitu og gagnslausu lofti og kostar skattgreiðendur fúlgur fjár og ber að leggja niður eins og hann leggur sig, helst í gær.
Ummæli Jóhönnu eru hins vegar ágætlega lýsandi fyrir t.d. efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Hagkerfið er ennþá að skreppa saman og Jóhanna veit ekkert hvernig á að bregðast við því. Skuldir ríkissjóðs vaxa, atvinnuleysi er mikið, hallarekstur ríkisins mikill þrátt fyrir að heilu afkimar ríkisrekstursins hafi verið lagðir niður, og svona mætti lengi telja. Jóhanna veit varla hvaðan á hana stendur veðrið. Hún bendir bara í átt til Brussel og segir "ESB lagar allt, ESB lagar allt!"
Tími Jóhönnu, til að segja af sér embætti og blása til kosninga, er kominn.
Veit varla hvaðan á mig stendur veðrið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 24. mars 2011
Áfram já, Icesave nei
Sú var tíð þegar Íslendingar stóðu fastir á sínu og sínum hagsmunum, og gerðu það með góðri samvisku. Íslendingar gerðu sjálfsagt marga breska sjómenn atvinnulausa þegar landhelgisdeilan við Breta vannst á sínum tíma. Íslenskir skattgreiðendur gera að vísu breskum og hollenskum skattgreiðendum lítinn greiða með því að hafna Icesave (spara þá um 1-2 evru), en sjálfum sér mikinn greiða (1-2 milljónir á mann sem "sparast" með því að hafna Icesave-lögunum). En þá er þeim mun meiri ástæða til að standa fastur á sínu.
Íslendingar hafa reynt að gera ýmislegt til að koma hagkerfinu í gang eftir hrunið. Þeir mæta samt mikilli mótstöðu frá yfirvöldum. Framkvæmdir eru svæfðar, fjármagn er skattlagt í burtu, ríkisreksturinn drekkur í sig verðmæti og lánsfé sem aldrei fyrr, gjaldeyrishöftin stífla fjármagnsflæði til og frá landinu, og fé eytt í allskyns gæluverkefni sem skila engum verðmætum (ESB-umsókn, tónlistarhús, jarðgöng, Landeyjahöfn osfrv.).
Bretum og Hollendingum á að senda tölvupóst strax með eftirfarandi texta:
Dear British and Dutch governments,
The Icelandic government and people will not accept your claims in the name of the Icesave-deposits. If you think this is a breach of any law, we will gladly show up in court and hear your arguments, as we believe in the Rule of Law and that no-one should be fooled to negotiate him- or herself around that.
Have a nice day.
Málið ætti þar með að vera búið (Bretar og Hollendingar væru sennilega búnir að draga okkur fyrir dómstóla ef þeir tryðu á lagagrundvöll krafna sinna). Áfram með allt annað.
"Áfram"-hópurinn misskilur hvað felst í samþykkt Icesave-laganna. Þar er ekkert "áfram". Þar er þvert á móti upphaf:
Við samþykkt samningsins mun vesenið fyrst hefjast fyrir alvöru. Nú þegar er verið að skera allt inn að beini hér á landi til að ná inn nokkrum tugum eða hundruðum milljóna króna. Icesave umræða dagsins í dag verður eins og vögguljóð í minningunni við hliðina á þeim sársauka og efnahagslegu áhrifum sem greiðslurnar munu valda okkur næstu 35 árin. Að samþykkja samninginn er eins og að giftast leiðinlega gæjanum til að hann hætti að bögga þig. En ofan á allt saman ætlar hann að flytja inn til þín.
Áfram já, en burt með Icesave.
Stuðningsmenn Icesave boða til fundar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 23. mars 2011
Hið opinbera tefur vöxt
Þannig hefur AGS bent á í endurskoðunum sínum á efnahagsáætluninni að tafir á fjárfestingu á uppbyggingu í tengslum við orkufrekan iðnað hafi haldið niðri vexti undanfarin misseri.
Sennilega er ekkert rangt við þessa fullyrðingu. Ef hið opinbera hefði ekki flækst fyrir samningum raforkuframleiðenda og væntanlegra raforkukaupenda, þá væri sennilega búið að ráðast í mun fleiri framkvæmdir á Íslandi.
Fréttin segir samt bara hálfa söguna, og gefur raunar ranglega til kynna að lækning kreppunnar á Íslandi felist í stórum framkvæmdum við virkjanir og verksmiðjur. Svo er ekki.
Það sem Íslandi vantar eru fjárfestingar í verðmætaskapandi starfsemi. Til þess að örva slíka fjárfestingu þarf ríkisvaldið að draga sig saman í skuldasöfnun (sem keppir við einkaaðila um lánsfé) og umfangi (sem mergsýgur einkaframtakið um naumt skammtaðar tekjur sínar).
Það er með öðrum orðum ríkisvaldið og hið opinbera á Íslandi sem tefur efnahagsbata á Íslandi (eða réttara sagt: stöðvar áframhaldandi samdrátt í hagkerfinu).
Íslendingar þurfa ekki endilega að reisa enn eina virkjunina og enn eina orkufreka verksmiðjuna til að koma sér upp úr kreppunni. Íslendingar þurfa ekki endilega að taka tugmilljarða erlent lán, flytja inn hundruðir erlendra farandverkamanna, og reisa enn eitt stöðvarhúsið til að sjá fram á betri tíð. Það er nóg að ríkisvaldið dragi sig til hliðar og hætti að flækjast fyrir einkaframtakinu.
Dýpra og lengra samdráttarskeið hér en í Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 22. mars 2011
Stjórnmálum og lögfræði hrært saman
Lúðvík Júlíusson moggabloggari með meiru hefur að undanförnu skrifað margar greinar um Icesave og skoðun sína á því máli. Afstaða hans virðist vera sú að við eigum að samþykkja Icesave-lögin ...or else!
Mér finnst afstaða Lúðvíks vera athyglisverðari en margra annarra því hann hefur að mörgu leyti mjög skynsamar skoðanir til gjaldeyris- og peningamála almennt. Hann er á móti gjaldeyrishöftunum, hallast að hinni einu réttu hagfræði (nánast öll önnur hagfræði er Excel-leikfimi án grunnskilnings á gangverki hagkerfisins), og er mjög gagnrýninn á allskyns fikt við frjálst fjármagnsflæði. Allt gott mál.
En í pólitík er hann Samfylkingarmaður. Eða svo sýnist mér.
Grunnstefið í skrifum Lúðvíks um Icesave og innistæðutryggingar almennt er það að ríkið sé í raun ábyrgt fyrir öllum innistæðum, sama hvað, því í fjarveru slíkrar ábyrgðar sé í raun ekki hægt að láta bankakerfið ganga upp. Eða eins og Lúðvík segir á einum stað:
"Ábyrgð, svo lengi sem tryggingasjóðurinn dugir" er sama og engin ábyrgð! Ef innistæður eru tryggðar, að hluta eða að fullu, þá er nokkuð ljóst að ríkið þarf að grípa inn í með fjármagn ef tryggingasjóðurinn dugir ekki.
Gallinn við "ábyrgð svo lengi sem tryggingasjóðurinn dugir" er að sé dæmið sett upp leikjafræðilega þá er ábyrgðin sama og gagnslaus í bóluhagkerfinu, jafnvel verri en engin ábyrgð.
Takmörkuð ábyrgð þýðir að verði bankaáhlaup á einn banka sem ylli því að innistæðutryggingasjóðurinn tæmdist þá myndu aðrir bankar vera án tryggingar! Það vilja fáir innistæðueigendur vera án tryggingar og því myndi áhlaup á einn banka leiða til áhlaups á aðra banka.
Hlutverk innistæðutrygginga er að róa innistæðueigendur og koma í veg fyrir að áhlaup á einn banka leiði til áhlaups á aðra banka.
Þess vegna getur innistæðutrygging í raun aldrei verið takmörkuð við eignir tryggingasjóðsins.
Þessu verður að mótmæla. En til að gera það þarf fyrst þarf að gera sér grein fyrir nokkrum atriðum:
- Kerfi innistæðu"trygginga" er ætlað að aðskilja rekstur banka og ríkis þannig að skattgreiðendur séu ekki ábyrgir fyrir skuldbindingum banka gagnvart viðskiptavinum sínum.
- Þetta kerfi var smíðað í trausti þess að kerfið væri nokkurn veginn sjálfbært og að í því félli að jafnaði ekki nema einn og einn banki í einu.
- Þetta traust var of mikið og í raun byggt á sandi því bankakerfi "fractional reserve banking" er í raun gjaldþrota um leið og peningamagn er þanið út langt umfram innistæður í bankakerfinu.
- Til að bjarga innistæðueigendum frá hinu óumflýjanlega hafa ríkisstjórnir í gegnum tíðina því yfirleitt ausið úr vösum skattgreiðenda til að bjarga einhverju og koma í veg fyrir algjört greiðslufall í hagkerfinu.
Seinasti punkturinn er mikilvægur, því hann felur í sér pólitísk inngrip. Slík inngrip eru ekki bundin í lög - stjórnmálamenn grípa til þeirra eftir dúk og disk. Á Íslandi fólu þau í sér setningu svokallaðra "neyðarlaga" sem fluttu innistæður í skjól og þær síðan greiddar upp með fé skattgreiðenda. Annars staðar, t.d. í ESB þar sem sama tilskipun ESB um innistæðutryggingar gildir, var minna af skattfé notað og þess í stað settur þrýstingur á bankana að bjarga hverjum öðrum með sínu eigin fé, nú eða þeim veitt lán með ströngum skilyrðum.
Sem sagt: Ekki gekk eitt yfir skattgreiðendur allra landa, þótt bankakerfi allra landa séu í grunnatriðum mjög svipuð.
Það er því ekki rétt að innistæður séu "í raun" á ábyrgð skattgreiðenda. Í flestum löndum olli hrunið miklum pólitískum inngripum í nafni "björgunar" og "greiðslugetu", en ekki öllum. Sum lönd, eins og Eistland, eru ekki einu sinni með innlenda banka, og þarf þá varla að deila mikið um "ábyrgð" skattgreiðenda þar á töpuðum innistæðum.
Menn eru að rugla saman pólitík og lögfræði þegar algengum pólitískum inngripum er ruglað saman við einhvers konar kvöð á skattgreiðendur. Þótt íslenskir stjórnmálamenn láti skattgreiðendur oft byggja tónlistarhús og söfn þá er ekki þar með sagt að skattgreiðendur séu á einhvern hátt skuldbundnir til að byggja slík hús. Stjórnmálamenn tóku ákvarðanir um slíkt án þvingunar og í nafni einhvers annars en lagalegrar skyldurækni.
Hið gallaða kerfi "trygginga" á innistæðum í gölluðu kerfi "fractional reserve banking" veldur óumflýjanlega áhlaupi á bankana, fyrr eða síðar. Í stað þess að sópa pólitískum inngripum af slíku yfir skattgreiðendur í formi lagalega bindnandi skyldu væri miklu nær að hefja ferli aðskilnaðar á ríki og hagkerfi, leyfa tímabundnum sársauka bankaáhlaupa að hreinsa bankakerfið af peningaprentun án innistæða, og þvinga banka í samkeppni um traust, en ekki áhættu.
Laugardagur, 19. mars 2011
Áhætta af því að hafna Icesave-lögunum: Lítil
Eftir að hafa horft á viðtal við ritara EFTA-dómstólsins og erindi eftir Reimar Pétursson hrl. (sjá hvort tveggja hér) þá sýnist mér eftirfarandi vera hugsanleg röð atburða ef og þegar Íslendingar hafna Icesave-lögum Samfylkingarinnar 9. apríl næstkomandi:
- EF EFTA-dómstóll dæmir Ísland brotlegt á EES-sammningum (á sama hátt og ESA hefur gefið út í áliti)
- ... og EF ráðstafanir íslenska ríkisins til að koma í veg fyrir samskonar brot í framtíðinni í kjölfarið eru Bretum og Hollendingum ekki að skapi
- ... og EF þeir ákveða í kjölfarið að höfða skaðabótamál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur
- ... og EF sá dómstóll telur brot íslenska ríkisins uppfylla allar hinar ströngu kröfur um bótaskyldu
- ... og EF þrotabú Landsbankans á þessum tíma hrekkur ekki upp í hugsanlegar bætu
...þá þarf kannski að leggja eitthvað á herðar íslenskra skattgreiðenda vegna Icesave, en í íslenskum krónum og á hagstæðustu vöxtum sem völ er á auk þriðjungs afsláttar af þeim.
En annars ekki, nema Icesave-lögin verði samþykkt.
Þetta eru mörg og stór "EF" og þau þurfa öll að fara á versta veg til að svo mikið sem ein íslensk króna lendi á herðum íslenskra skattgreiðenda.
Svo vilja sumir "drífa málið af" með 670 milljarða stöðutöku á gjaldeyrismörkuðum með hina "handónýtu" og sveiflukenndu íslensku krónu! Jahérna, á bak við slíka skoðun getur ekki legið annað en sterkt pólitískt hagsmunamat (sem fellur fullkomlega saman við ESB-stefnu Samfylkingarinnar).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)