Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

Ríkisstjórnin er vandamálið, ekki Icesave

Hópur íslenskra fyrirtækja sem lifðu af hrunið 2008 án nauðasamninga eða annars í þeim dúr hefur sótt sér um 126 milljarða króna til erlendra fjárfesta og fjármálastofnana á síðastliðnum misserum. Um er að ræða fyrirtækin Össur, Marel, Icelandic Group og Landsvirkjun.

Það er rétt að halda svona upplýsingum til haga. Þeir sem fá allar fréttir sínar frá 365 fjölmiðlum og RÚV hafa í fæstum tilvikum heyrt annað en að á Íslandi sé allt í frosti og bíði þess að Icesave-klafinn verði lagður á íslenska skattgreiðendur til að fá einhverja hreyfingu á lánveitingar til íslenskra fyrirtækja.

Nú veit ég að vísu að mbl.is-fréttin sem hér er vísað í segir ekki alla söguna. Lánasamningur við Össur var til að mynda bara gerður við erlend dótturfélög fyrirtækisins, að sögn vegna þess að erlendir fjárfestar treysta ekki Íslandi. En eftir stendur að íslensk fyrirtæki eru að fá lán, og virðast eiga auðveldar með það ef þau geta sannfært lánveitendur um að hvorki Steingrímur J. í fjármálaráðuneytinu né Már í seðlabankanum geti komist með klærnar í peningana. 

Meira að segja ríkisfyrirtækið Landsvirkjun, hvers forstjóri virðist ganga erinda ríkisstjórnarflokkanna í Icesave-málinu, hefur neyðst til að setja pólitíska forgangsröðun ofan í skúffu og einbeita sér að kjarnarekstri sínum: Að reisa og reka orkuver. 

Björn Bjarnason hitti naglann á höfuðið:

Hvað sem líður umræðum um íslenska krónu, aðildarviðræður við ESB eða Icesave-samninga er augljóst að ekkert af því snertir brýnasta úrlausnarefnið vilji menn skapa betri aðstæður fyrir íslenskt atvinnulíf. Leiðin til þess liggur ekki til útlanda. Vandinn er heimagerður. Hann er að finna í stjórnarráðinu og hjá meirihluta þingmanna sem styður ríkisstjórnina á alþingi. Ríkisstjórnin og stjórnarhættir hennar eru sjálf meinsemdin.

Og hananú!


mbl.is Fé fæst til Íslands á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Núna kostar mjólkurlíterinn 50 kr

Seðlabankar heimsins eru í eðli sínu verðlagsstýringarstofnanir sem ákveða "verð" á peningum (vexti). Þar starfa vel menntaðir einstaklingar með mikið sjálfstraust. Þeir hittast reglulega og ræða sín á milli um "rétt verð" á peningum. Það megi ekki vera of hátt því það valdi flótta frá peningunum. Það megi heldur ekki vera of lágt því það ýti undir lántökur og þenslu á peningamagni.

Niðurstaðan er svo ákveðin tala, "vaxtaprósentan", sem þykir hæfa hagkerfinu á þeirri stundu.

Ég sat einu sinni fyrirlestur hjá manni sem starfaði á sínum tíma á stofnun í Sovétríkjunum sem sá um að safna gögnum um efnahaginn og stjórna verði á hinu og þessu. Samstarfsfélagi hans hafi komið til hans einn daginn og kvartað mikið undan vinnuálagi. "Það er rosalega erfitt að ákveða 1000 verð." Já, ég trúi því vel! 

Einnig kom fram að í Sovétríkjunum var á sínum tíma ákveðið að vodka væri slæmur, og ætti að vera dýr, en barnamatur væri góður, og ætti að vera ódýr. Niðurstaðan: Vodka var hægt að fá nánast hvar sem er, en barnamat hvergi.

Það er erfitt að stjórna verðlagi svo vel fari. En menn halda samt áfram að reyna.


mbl.is Spáir vaxtalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálf kakan étin þótt minnkandi fari

Hið íslenska hagkerfi er að skreppa saman. Það eina sem heldur í því loftinu er lánsfé frá útlöndum og seinustu andadrættir eftirlifandi stöndugra fyrirtækja í einkageiranum. Þetta er slæmt.

Hið íslenska ríki heldur áfram að éta um hálfa "landsframleiðsluna" þótt kakan fari minnkandi. Það sem eftir er fyrir alla hina er því óbreytt hlutfall af minnkandi köku. Þetta er slæmt.

Menn spyrja stundum þá sem gagnrýna kreppumeðöl ríkisstjórnarinnar: Hvað á að gera ef stjórnlaus skuldsetning hins opinbera er ekki málið?

Því svara ég stundum með því að benda á umfjöllun um hina svokölluðu "gleymdu kreppu" í Bandaríkjunum, sem geisaði þar á árunum 1920-1923 í kjölfar bólu í peningamagni sem varð til við fjármögnun Bandaríkjanna á þátttöku í fyrri heimsstyrjöldinni. Um þessa gleymdu kreppu má lesa hér. Tilvitnun (feitletrun mín):

The economic situation in 1920 was grim. By that year unemployment had jumped from 4 percent to nearly 12 percent, and GNP declined 17 percent. No wonder, then, that Secretary of Commerce Herbert Hoover — falsely characterized as a supporter of laissez-faire economics — urged President Harding to consider an array of interventions to turn the economy around. Hoover was ignored.

Instead of "fiscal stimulus," Harding cut the government's budget nearly in half between 1920 and 1922. The rest of Harding's approach was equally laissez-faire. Tax rates were slashed for all income groups. The national debt was reduced by one-third.

The Federal Reserve's activity, moreover, was hardly noticeable. As one economic historian puts it, "Despite the severity of the contraction, the Fed did not move to use its powers to turn the money supply around and fight the contraction." By the late summer of 1921, signs of recovery were already visible. The following year, unemployment was back down to 6.7 percent and it was only 2.4 percent by 1923.

Kreppu eytt á 2-3 árum. Ekki slæmt. 

Tíu árum seinna, í sama landi, með nokkurn veginn sömu einstaklingum, sem réðu yfir nokkurn veginn sömu tækni í nokkurn veginn sama hagkerfi, skall á önnur kreppa (í kjölfar stöðugrar aukningar á peningamagni í umferð, án stríðsástands). Við henni var  brugðist með því að blása í peningaprentbálið og öllum árum róið gegn samdrætti og tiltekt í hagkerfinu. Úr varð "Kreppan mikla" sem entist í næstum því tvo áratugi. 

Lexían, einhver?


mbl.is Útgjöld hins opinbera lækkuðu um 2%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hún ætti að víkja, sama hvað

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness, ætti að víkja úr stól bæjarstjóra, hvort sem hún lagði starfsmann í einelti eða ekki. Af hverju? Af því hún er einn af þessum handónýtu stjórnmálamönnum sem kunna bara að bregðast við rekstrarerfiðleikum á einn hátt: Með hækkun skatta. 

Seltjarnarnes hefur lengi verið "vígi" skattgreiðenda, þar sem stjórnmálamenn hafa ekki komist upp með að skrúfa upp gjaldskrár og skatta án afleiðinga. Nú eru breyttir tímar og útsvarsgreiðendum gert að punga út fyrir rekstur þar sem útgjöld eru hærri en tekjur. Í stað þess að taka til í rekstri hins opinbera og draga saman seglin þá hafa stjórnmálamenn beitt skattahækkunarvendinum, og virðast ætla komast upp með það.

Handónýtir stjórnmálamenn ættu að gera okkur öllum greiða og víkja, hvort sem þeir leggja í einelti eða ekki. 


mbl.is Hafnar ásökunum um einelti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju að lækka vextina?

Ríki á evrusvæðinu svonefnda neituðu í gærkvöldi að lækka vexti á neyðarlánum, sem Írar fá hjá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. 

Hver bjóst við öðru?

Þegar ríki er komið á hnén og á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þá er lítið svigrúm til "endur"samninga. 

Ef Íslendingar taka á sig Icesave-kröfur Breta og Hollendinga þarf sennilega að fá lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að standa undir afborgunum. Lán slegið til að greiða handrukkaranum, því ekki standa launatekjurnar undir upphæðunum. 

Vextir af Icesave-kröfum eru aukaatriði því vextir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verða á endanum ráðandi. Írar "fengu"  5,8% vexti. Íslendingar þurfa að skoða þá vaxtaprósentu vandlega því líklega verður hún svipuð á lánunum sem Íslendingar þurfa að taka til að hella í Icesave-hítina (ef hún fær náð kjósenda á Íslandi). 


mbl.is Neita að lækka vexti Íra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tréskóm hent í spunavélarnar

Um uppruna orðsins "sabotage" (skemmdarverk) segir á Wikipedia:

That it derives from the Netherlands in the 15th century when workers would throw their sabots (wooden shoes) into the wooden gears of the textile looms to break the cogs, fearing the automated machines would render the human workers obsolete.

Mörgum nútímamanninum finnst skrýtið að hugsa til þess að í upphafi iðnbyltingar hafi verkamenn kastað tréskóm sínum í spunavélarnar af ótta við að vera gerðir atvinnulausir og úreltir. Þeir héldu, ranglega, að úr því störf þeirra hyrfu úr spunaiðnaðinum þá væri ekkert annað fyrir þá að gera.

Á RÚV segir í frétt:

Stöðvarfjörður er einn þeirra staða sem fór illa út úr frjálsu framsali á kvóta. Togararnir fóru og frystihúsinu var lokað.

Hér er talað um að ákveðinn bær hafi farið "illa út úr" hagræðingu og breyttum aðferðum í útgerð. Þetta er rétt - störf voru lögð niður eða flutt þar sem þau gætu skapað fleiri verðmæti, og ein byggð fór "illa út úr" því. En fréttin ýtir samt undir þann almennan misskilning almennings að tilflutningar vegna hins "frjálsa framsals" á kvóta hafi valdið íslenskum byggðum miklum skaða sem ekki hafi komið neinu jákvæðu áleiðis. Skór hollensku verkamannanna eiga því að fá að dynja á íslenskum útgerðum svo þau hætti hagræðingaráformum sínum, allt í nafni "byggðastefnu" og "varðveislu starfa".

Höfum við ekkert lært?


Sign me up!

Stofnuð hafa verið samtökin ADVICE, sem segjast hafa það að markmiði að upplýsa, fræða og miðla upplýsingum um ástæður og mikilvægi þess að hafna beri Icesave lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 9. apríl næstkomandi.

 

Frábært framtak! Sign me up!

Það er mikil nauðsyn fyrir samtök af þessu tagi. Áróðurinn fyrir Icesave-klafanum er svo gengdarlaus að það er engu lagi líkt. Flestir fjölmiðlamenn styðja vinstristjórnina, og flestir sem styðja vinstristjórnina styðja Icesave-mál hennar. Mótvægi er því nauðsynlegt.


mbl.is Stofna samtök gegn Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-Icesave pillan: Þorir þú að taka hana?

Ég verð að játa að ég dáist að hugrekki þeirra sem vilja að Ísland gangi í ESB. Þar á bæ er sífellt verið að breyta reglum og stjórnskipan, og vægi Íslands á ESB-þinginu því í sífelldu uppnámi: Fer úr því að vera 4 menn af 736 þingmönnum (0,5% vægi) í 6 menn af 751 (0,8% vægi) eins og hendi sé veifað (báðar tölur að vísu agnarsmáar, en samt á sífelldu flakki). Fer úr því að ESB-þingið fær aukin völd í að framkvæmdastjórn ESB fær aukin völd, eða öfugt. Stundum á að efla stofnanir ESB, stundum á að efla miðstýringuna. Eða hvað? Er það öfugt? Hver veit. Tíminn mun leiða það í ljós.

ESB er fljótandi þörungasúpa ofan á ólgusjó - sífellt að breytast, ýmist að frumkvæði ESB-ríkjanna eða ESB-embættismannanna, en þó alltaf meira og meira í áttina að sambandsríki (hafa menn tekið eftir því að á Ryder Cup golfmótinu er bandaríska fánanum flaggað við hliðina á ESB-fánanum?). Menn geta kallað sig hugrakka að vilja þarna inn. Ekki þori ég því. Mér líður best að stjórna eigin örlögum. Að setja þau í hendur erlendra embættismanna er utan við þægindaramma minn.

Ég dáist líka að hugrekki þeirra sem vilja að íslenska löggjafarvaldið samþykki stærstu stöðutöku í íslensku krónunni í seinni tíð, byggt á gengi sem er haldið uppi með gjaldeyrishöftum. Nú er ég auðvitað að tala um að gera Icesave-kröfur Breta og Hollendinga að útgjaldalið íslenskra heimila. Ég hélt að margir hefðu brennt sig illa á stöðutöku í krónunni, og væru nú hættir slíku nema hafa tekjur í erlendri mynt. Ég hefði haldið að einhverjir þeirra Íslendinga sem lentu í vondum málum eftir stöðutöku  í íslensku krónunni hefðu varað Alþingismenn við slíkum ævintýrum.

En nei. Þeir eru til sem vilja að ríkissjóður Íslands (sá sami og fjármagnar heilbrigðis- og menntakerfi landsins) sé settur á erlenda skuldabréfamarkaði, og látinn synda þar í ólgusjó, og ef allt fer illa þá er það íslenska krónan, í gjaldeyrishöftum, sem þarf að koma í staðinn fyrir hinar erlendu kröfur í hinum erlendu myntum. 

Það vantar ekki hreðjarnar á þessa ESB-Icesave pilluætur. 


Sala á sterku áfengi hefur aukist

Það stingur kannski svolítið í stúf við tölur ÁTVR að halda því fram að sala á sterku áfengi á Íslandi hafi aukist. Sú söluaukning verður hvorki mæld í tölum né upphæðum, en ég fullyrði engu að síður að hún hafi átt sér stað og færist enn í aukana.

Ég er auðvitað að tala um sölu á hinum svarta markaði. Þar selja menn sterkt áfengi, bæði smyglað og heimabruggað, og upplifa mikið "góðæri". 

Léttvín og bjór henta illa til svartamarkaðsstarfsemi. Álagning getur ekki orðið eins mikil (samkeppnin við ÁTVR ekki eins hörð), ílátin eru stærri og erfiðara að koma miklu magni í sölu. Efnað fólk drekkur frekar léttvín en hið efnaminna og efnað fólk hefur ennþá efni á því að versla í ÁTVR. Hitt liðið, fátæki skríllinn sem skattkerfið treður undir hæl sínum, það þarf að leita til svarta markaðarins. 

Ekki bætir úr skák að áfengissjúklingar eru oftar en ekki í hópi efnaminna fólks og þeir hafa því engin önnur úrræði til að fjármagna daglega neyslu sína en að versla við sífellt skuggalegri og skuggalegri áfengissala og -bruggara.

Ef opinberir embættismenn hafa ennþá efni á að kaupa sér rauðvín. Það er nú gott.


mbl.is Áfram dregur úr áfengissölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisvald 2011 verði að ríkisvaldi 2005

Landsframleiðsla á árinu 2010 nam 1540 milljörðum króna en það er 44 milljörðum eða 3% hærri fjárhæð en árið áður. Landsframleiðsla á liðnu ári nemur svipaðri fjárhæð að raungildi og landsframleiðsla ársins 2005.

Þetta er umhugsunarvert. Ríkisvaldið árið 2011 er að reyna halda sér á 2008-stærð með því að skattleggja og skuldsetja hagkerfi í 2005-stærð.

Hvers vegna er ekki hægt að rúlla ríkisrekstrinum aftur til ársins 2005 til að byrja með? Setja hnífinn miskunnarlaust á allt sem ríkið hefur á sinni könnu í dag sem það hafði ekki á sinni könnu árið 2005. Burt með tónlistarhúsið í Reykjavík, stjórnlagaþing, allar nefndir og stofnanir sem hafa verið stofnaðar síðan 2005, ESB-umsóknina ofan í skúffu og Icesave-umræðuna á ís. 

Ísland var ekki svo galið árið 2005. Hér voru sjúkrahús (meira að segja úti á landi!), lögregla, dómstólar og landhelgisgæsla. Hér mældust kjör barnafólks, ellilífseyrisþega og lágtekjufólks með þeim bestu í heiminum. 

Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá að ríkisvald í umfangi ársins 2005 er alveg nógu gott. Alltof, alltof mikið að mínu mati (lesist: meira en ekkert ríkisvald), en nógu gott fyrir alla nema embættismenn á ríkisspenanum.


mbl.is Svipuð landsframleiðsla og 2005
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband