Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

Lokasprettur velferðarkerfisins?

Það má færa rök fyrir því að við lifum núna á tímum sem gætu e.t.v. kallast Lokasprettur velferðarkerfisins.

Hvers vegna? Því "velferðarkerfið" eins og við þekkjum það er ósjálfbær rekstur sem stefnir í gjaldþrot.

Hugmyndin bak við velferðarkerfið var í upphafi eftirfarandi:

  • Flytja fé frá þeim sem vinna verðmætaskapandi vinnu og til þeirra sem hafa takmarkaða getu til að vinna slíka vinnu (t.d. öryrkja og eldra fólks)
  • Flytja fé frá verðmætaskapandi árum fólks til kostnaðarsamra barnæsku þess og námsára

Nú er það svo að ef eitthvað er niðurgreitt, þá vex það og dafnar og eykst í umfangi. Raunin hefur því verið sú að velferðarkerfið samanstendur núna af eftirfarandi:

  • Þeir sem hrópa hæst og mest og eru best tengdir í stjórnmálum fá fé frá þeim sem skapa verðmætin
  • Þeim fer fjölgandi sem hafa takmarkaða getu til að vinna verðmætaskapandi vinnu og einnig þeim sem eyða bróðurparti ævi sinnar í niðurgreidda iðju (t.d. nám)

Flest vestræn ríki eru nú svo skuldbundin að þau eru tæknilega séð gjaldþrota (ef þau eru ekki hreinlega orðin það). Eftirlaunakröfur, fyrirsjáanleg aukning í kostnaði ríkisrekinna heilbrigðis- og menntakerfa og allskyns ríkisábyrgðir á t.d. skuldbindingum banka og ríkisfyrirtækja eru bara nokkur dæmi. 

Sú kynslóð sem núna er á vinnumarkaði er sennilega sú seinasta sem fær "notið" velferðarkerfisins eins og það lítur út í dag. Í dag er hægt að skella sér í niðurgreitt nám og fá niðurgreidd lán á meðan, eignast barn og fá fulla framfærslu úr ríkissjóði á meðan barnið venur sig af brjóstamjólk, hoppa á milli skóla í leit að hinni einu sönnu gráðu, slá niðurgreitt íbúðarlán úr sjóðum ríkisins, þiggja styrki og bætur ef vinnugeta skerðist, heimsækja lækni og greiða bara brot af kostnaðinum við tíma hans, og svona má lengi telja.

En bráðum hrynur spilaborgin, meira að segja á Norðurlöndunum. Það eru ekki bara Grikkir sem lifa nú á lánuðum tíma í skamman tíma. Röðin kemur að okkur. Ég spái því að eftir 20 ár þurfi að leggja niður "velferðarkerfið" í núverandi mynd.

Njóta á meðan við getum, eða búa sig undir aðra tíma? Svari því hver fyrir sig.


Ráðist á einkennin, en ekki sjúkdóminn

Það er mjög í tísku núna að tala um að bankakerfi vestrænna banka þurfi "umbætur" og "endurskoðun". Bent er á að bankar borgi starfsmönnum mikla kaupauka ef mikil áhættusækni skili sér. Ef áhættan leiðir hins vegar til taps þá beri skattgreiðendum að hlaupa undir bagga. Þetta sé ekki sjálfbært og leiði af sér eitt og annað slæmt.

Hér er samt verið að ráðast á einkennin en ekki sjúkdóminn. Einkenni sjúklinga eru kannski blóðnasir og því þurfi að troða pappír upp í nefið hans til að stöðva blæðinguna. Sjúkdómurinn er hins vegar hár blóðþrýstingur svo sjúklingurinn á kannski að minnka neyslu harðrar fitu og byrja hreyfa sig.

Vandamál bankakerfisins er ekki kaupaaukagreiðslur til starfsmanna eða áhersla banka (og annarra fyrirtækja) á að skila hagnaði. Vandamálið er aðgengi bankanna að peningaprentvélum ríkisins og leyfi þeirra til að gíra upp innistæður viðskiptavina sinna án þess að óttast lögsóknir vegna peningafölsunar. 

Vandamál bankakerfisins eru náin tengsl ríkis og hagkerfis. Þetta þurfi að aðskilja til að ná fram friðsælli sambúð. Aðskilnaður ríkis og kirkju leiddi til endaloka trúarlegra átaka. Aðskilnaður ríkis og hagkerfis mun leiða af sér samskonar frið.

Ríkisvaldið hefur, í huga almennings, allskyns "skyldur", svo sem að sjá um löggjafarvald, dómsvald og framfærslu listamanna sem tekst ekki að selja neinum list sína. En þessar skyldur á ríkisvaldið að fjármagna með skattheimtu, ekki peningaprentun. Ríkið á ekki að þurfa verja eina tegund fyrirtækjareksturs (bankastarfssemi) umfram aðra (t.d. sjoppurekstur). Ríkið á að skilgreina verksvið sitt, áætla fjárþörf, skattleggja eins hóflega og unnt er til að mæta henni, og láta þar við sitja.

Lausnin á vandræðum bankakerfisins er aðskilnaður ríkis og hagkerfis. Allt annað er plástur á blæðandi höfuðkúpubrot. 


mbl.is King: Nauðsynlegt að gera umbætur á bankakerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar á að hækka skatta?

Alls sögðust 62,9%  þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni að frekar ætti að beita niðurskurði.  37,1% vildi frekar skattahækkanir.

Ég get ekki ímyndað mér að þessi 37,1% sem sögðu að útgjaldaþorsta hins opinbera eigi að róa með skattahækkunum hafi haft sjálfa sig í huga sem væntanleg fórnarlömb skattahækkana. Sennilega voru þessi 37,1% að hugsa með sér að skatta mætti hækka á einhverja aðra en sig. 

Ríkisstjórnin rakst fljótlega á vegg þegar hún fór af stað með gríðarlegar skattahækkanir sínar. Skattheimta verður ekki aukin meira (í krónum) en nú er þótt skatthlutföll hækki og nýir skattar lagðir á hreyfingar í hagkerfinu.


mbl.is Vilja frekar niðurskurð en hærri skatta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband