Lokasprettur velferðarkerfisins?

Það má færa rök fyrir því að við lifum núna á tímum sem gætu e.t.v. kallast Lokasprettur velferðarkerfisins.

Hvers vegna? Því "velferðarkerfið" eins og við þekkjum það er ósjálfbær rekstur sem stefnir í gjaldþrot.

Hugmyndin bak við velferðarkerfið var í upphafi eftirfarandi:

  • Flytja fé frá þeim sem vinna verðmætaskapandi vinnu og til þeirra sem hafa takmarkaða getu til að vinna slíka vinnu (t.d. öryrkja og eldra fólks)
  • Flytja fé frá verðmætaskapandi árum fólks til kostnaðarsamra barnæsku þess og námsára

Nú er það svo að ef eitthvað er niðurgreitt, þá vex það og dafnar og eykst í umfangi. Raunin hefur því verið sú að velferðarkerfið samanstendur núna af eftirfarandi:

  • Þeir sem hrópa hæst og mest og eru best tengdir í stjórnmálum fá fé frá þeim sem skapa verðmætin
  • Þeim fer fjölgandi sem hafa takmarkaða getu til að vinna verðmætaskapandi vinnu og einnig þeim sem eyða bróðurparti ævi sinnar í niðurgreidda iðju (t.d. nám)

Flest vestræn ríki eru nú svo skuldbundin að þau eru tæknilega séð gjaldþrota (ef þau eru ekki hreinlega orðin það). Eftirlaunakröfur, fyrirsjáanleg aukning í kostnaði ríkisrekinna heilbrigðis- og menntakerfa og allskyns ríkisábyrgðir á t.d. skuldbindingum banka og ríkisfyrirtækja eru bara nokkur dæmi. 

Sú kynslóð sem núna er á vinnumarkaði er sennilega sú seinasta sem fær "notið" velferðarkerfisins eins og það lítur út í dag. Í dag er hægt að skella sér í niðurgreitt nám og fá niðurgreidd lán á meðan, eignast barn og fá fulla framfærslu úr ríkissjóði á meðan barnið venur sig af brjóstamjólk, hoppa á milli skóla í leit að hinni einu sönnu gráðu, slá niðurgreitt íbúðarlán úr sjóðum ríkisins, þiggja styrki og bætur ef vinnugeta skerðist, heimsækja lækni og greiða bara brot af kostnaðinum við tíma hans, og svona má lengi telja.

En bráðum hrynur spilaborgin, meira að segja á Norðurlöndunum. Það eru ekki bara Grikkir sem lifa nú á lánuðum tíma í skamman tíma. Röðin kemur að okkur. Ég spái því að eftir 20 ár þurfi að leggja niður "velferðarkerfið" í núverandi mynd.

Njóta á meðan við getum, eða búa sig undir aðra tíma? Svari því hver fyrir sig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er ekki sammála þér að velferðarkerfið sé komið að leiðarlokum.

Þetta er spurning um það hvað ríkið fjármagnar og hvernig.

Fjármögnun velferðarkerfisins var byggt á skatttekjum frá bönkunum,  þess vegna þandist það út.  Nú þegar bankarnir borga enga skatta, þá vantar peningana.

En við, við viljum ekki minni þjónustu;)  Þá byrjar vandamálið.

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 7.3.2011 kl. 14:55

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Ríkið á alveg að geta fjármagnað útgjöld með skatttekjum án þess að lama hagkerfið. Vandamálið er að ríkið hefur alltaf tilhneigingu til að þenjast út í hið óendanlega, þar til skattheimtan stendur ekki lengur undir loforða- og skuldbindingaflauminum (lífeyris"réttindum", "ókeypis heilsugæslu" osfrv) og þá þarf að skuldsetja sig og/eða prenta peninga, og ÞÁ byrja vandamálin.

Hvergi í heiminum hefur tekist að koma veg fyrir að lítið ríkisvald stækki, eða stórt ríkisvald stækki ennþá meira. 

Hvernig sérðu fyrir þér að menn komist hjá gjaldþroti velferðarkerfisins? Þorir einhver stjórnmálamaður að taka upp stóra skurðarhnífinn?

Geir Ágústsson, 7.3.2011 kl. 16:29

3 identicon

Geir:  Því þorir engin.  Þeir sem njóta kerfisins eru kjósendur og þar er vandamálið.

Ég ætlaði að enda á því í síðustu athugasemd en hætti við;))

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 7.3.2011 kl. 16:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband