Bloggfærslur mánaðarins, desember 2016

Sjómenn bíta höndina sem fóðrar þá

Að heill hópur manna geti einfaldlega lagt niður störf án þess að vera sagt upp er furðulegt fyrirkomulag. Löggjafinn heimilar svona hegðun en ekki fyrir alla. Þeir sem njóta þessa bareflis geta einfaldlega lamið á atvinnurekendum sínum þar til þeir bugast. Niðurskurðurinn bitnar svo á hluthöfum og þeim starfsmönnum sem hafa ekki þetta barefli í farteski sínu. 

Núna bíta og naga sjómenn í höndina sem fóðrar þá. Fórnarlömbin eru svo annað starfsfólk í sjávarútvegnum. Sjómenn vilja njóta ágóðans þegar gengið er hagstætt, nóg er af veiðiheimildum og fiskverð er hátt en að aðrir taki á sig skellinn þegar gengið verður þeim óhagstæðara. Þeir vilja belti og axlarbönd á meðan aðrir eiga að ganga um á brókinni, berskjaldaðir fyrir öllu fyrirséðu og ófyrirséðu.

Sjómenn eru ekki einir um að haga sér svona. Verkfalls"vopninu" er bíða beitt á þá sem löggjafinn hefur ekki blessað með sérstöku vopnabúri. Þetta er lagaleg mismunun sem ber að afnema. 


mbl.is Uppsagnirnar ekkert einsdæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmi um störf sem tæknin útrýmdi (að mestu leyti)

Tæknin útrýmir störfum nánast daglega og það er engin ástæða til að kvíða því sérstaklega nema maður sé auðvitað sjálfur að sjá fram á alla sína menntun, þjálfun og reynslu gufa upp í sögubækurnar. Flestir geta samt brugðist við breytingum með einhverjum ráðum.

Nú er talað um að tæknin muni útrýma hinum og þessum störfum en rifjum upp nokkur störf sem tæknin er nú þegar búin að útrýma nánast að öllu leyti.

Hestvagnasmiðir hafa lítið að gera nú til dags. Einhverjir finnast samt sennilega sem smíða gripi fyrir söfn eða sérstakar sögusýningar.

Gufuvélasmiðir eru orðnir fátíðir á okkar tímum. Þeir höfðu nóg að gera á sínum tíma en aðrir hafa tekið við vélasmíðinni og vélarnar nota annað eldsneyti.

Í gömlum tölvum - þær sem fylltu heilu skrifstofurnar af vélbúnaði en gátu voðalega lítið miðað við tölvur og síma nútímans - voru notaðir ýmsir hlutir sem eru ekki notaðir í tölvur lengur. Þeir sem framleiddu þá hafa fyrir löngu snúið sér að einhverju öðru.

Öll þessi störf eru horfin en það er gott. Í staðinn eru komin önnur störf sem framleiða fleiri verðmæti. Þetta er sú þróun sem á sér enn stað og við eigum að fagna. Í þeim ríkjum þar sem yfirvöld ríghalda í úrelta framleiðsluhætti eru lífskjör að batna hægar en í þeim sem stökkva af fullum þunga á vagninn sem dregur framtíðina áfram. 

 


mbl.is 5 atvinnugreinar sem tæknin ógnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimurinn orðinn öruggari og betri

Margir virðast fá eitthvað út úr því að tala niður ástand heimsins. Þótt auðvitað sé alltaf hollt að hugsa til þeirra sem eiga um sárt að binda, líða skort eða búa við óöryggi þá er almenna heimsmyndin sú að flest er verða betra og öruggara. Líf fólks eru að lengjast, lífsgæði þess að batna og átök og stríð á undanhaldi í flestum heimshlutum. Þetta má meðal annars sjá á þessari síðu eða þessa.  

Þetta er að mínu mati gleðilegt að hugleiða á þessum árstíma þar sem margir heimshlutar fagna hátíð af einhverju tagi, frá hátíð hækkandi sólar til fæðingardags Jesú Krists til einhvers annars, gjarnan í félagsskap sinna nánustu. 

Gleðileg jól kæru lesendur. 


mbl.is Heimurinn orðinn hræddari og klofnari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útgjöld ríkisins þenjast út

Þingið hefur samþykkt fjárlög. Það er gott. Útgjöld ríksins eru í hæstu hæðum. Það er slæmt.

Engin grundvallarbreyting hefur verið gerð á neinu síðan hið opinbera var útþanið og óð í skatttekjum fyrir hrun. Ríkisvaldið gefur ennþá út gjaldmiðil, bankarnir eru ennþá með bæði belti og axlarbönd og ætlaða ábyrgð skattgreiðenda af starfsemi sinni, vega-, heilbrigðis- og menntakerfið er ennþá rekið í sovéskum stíl ríkiseinokunar og svona mætti lengi telja.

Um leið berjast sumir fyrir enn meiri ríkisútgjöldum og hærri sköttum. 

Vonandi framlengir forseti Alþingis leyfi þingsins fram að sumarfríi þess. 


mbl.is Fjárlög samþykkt af minnihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gera íslenskur landeigendur erlendis?

Óttinn við erlent eignarhald einkaaðila að jörðum á Íslandi er óþarfur. Einkaaðilar vilja ávaxta fé sitt og gera það með því að fara vel með fjárfestingar sínar. 

Erlent eignarhald opinberra aðila er önnur saga. Við slík kaup eyða sumir fé annarra og hætt við að áherslan á ávöxtun og varðveitingu eigna víki fyrir öðrum sjónarmiðum.

Íslendingar hljóta að þekkja þetta á eigin skinni. Á enginn Íslendingur jörð erlendis? Sumarhús í Danmörku? Einbýlishús í Þýskalandi? Landspildu í Bandaríkjunum? Hvernig fara þessir Íslendingar með eigur sínar? Ég man ekki eftir að neinn hafi kvartað undan íslensku eignarhaldi erlendis. Íslendingar eiga því ekki að kvarta yfir erlendu eignarhaldi innanlands, a.m.k. ekki fyrirfram. 

Íslendingar kunna alveg að eyðileggja eigin jarðir án aðstoðar útlendinga. Sem dæmi má nefna hina niðurgreiddu framræsluskurði sem hafa þurrkað upp iðandi votlendi um allt land og látið ónotað beitar- og ræktarland koma í staðinn. Úr skurðunum streyma svo allskyns lofttegundir sem þykja óvinsælar í dag. Hér þurfti enga útlendinga til að eyðileggja gott land.

Til hamingju, Jim Ratcliffe, með landið!


mbl.is Ríkið vildi ekki Grímsstaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar fylgið kemur af sjálfu sér

Í frétt segir:

Sjálfstæðisflokkurinn í borginni mælist með 31,9 prósenta fylgi, Samfylkingin kemur næst með 17,1 prósent, þá VG (15,4%), Píratar (14,6%), Björt framtíð (13%), Framsóknarflokkur (4%), aðrir flokkar (3,9%).

Þetta er dæmi um fylgisdreifingu sem er drifin áfram af óánægju, ekki ánægju. Ég held að fáir séu eitthvað sérstaklega ánægðir með framgöngu Sjálfstæðisflokksins í borginni. Þeir eru bara óánægðir með meirihlutann. Fylgið lekur því af meirihlutanum og yfir á minnihlutann nánast án þess að minnihlutinn þurfi að gera nokkuð.

Um leið er þetta hrópandi ákall kjósenda um að einhver annar þurfi að taka við rekstri borgarinnar, bara einhver annar: Blindur simpansi, þrífætt rotta, sofandi köttur eða gömul Nintendo-tölva.

Viðkomandi valkostur þarf bara að standa á kjörseðlinum og þá fær hann atkvæði.

Sjálfstæðismenn í borginni ættu að eiga greiða leið til valda við næstu kosningar í Reykjavík með því að vera einfaldlega á kjörseðlinum. Enn betra fyrir þá væri að vera skýr valkostur en ekki bara einhver annar valkostur. 


The Big Short

Ég horfði á myndina The Big Short í gær, loksins!, og sé ekki eftir því. Hún er frábær, upplýsandi, vekur til umhugsunar og skartar Brad Pitt í einu aðalhlutverkanna. Hvað er hægt að biðja um meira?

Boðskapur myndarinnar er margslunginn en meðal annars sá að almenningur var blekktur, spilaborgin hrundi og þeir sem stóðu að svikamyllunni fengu björgunarhring frá yfirvöldum á kostnað skattgreiðenda. Og ekkert hefur breyst.

Donald Trump ætlar vonandi ekki að tala fyrir stórum breytingum - eins og Obama á sínum tíma - og gera svo ekki annað en verða málsvari kerfisins - eins og Obama enn þann dag í dag. 

Því þá er e.t.v. hægt að sjá fyrir sér uppnefnið "The Big Short" á hann, af mörgum ástæðum: Hann er með stutta putta, ætlar að stuðla að annarri stórri skortstöðu á mörkuðum og loforð hans endast í styttra lagi. 


mbl.is Margfalt ríkari en ríkisstjórn Bush
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svarta hagkerfið er viðbragð við vandamáli, ekki vandamálið sjálft

Svokölluð svört atvinnustarfsemi finnst víða. Flestir Íslendingar hafa stundað slíka starfsemi eða nýtt sér hana. Þegar Frikki frændi er fenginn til að tengja sjónvarpið gegn 5 þúsundkalli er það svört starfsemi. Þegar Jóna frænka er fengin til að klippa hárið á krökkunum gegn smávegis þóknun er það svört starfsemi. Þegar Njörður nágranni fær lánaða sláttuvélina í nokkur skipti í skiptum fyrir bjórkippu er það svört starfsemi.

Megnið af svartri starfsemi er óskipulögð og tækifæristengd og fer fram á milli fólks sem þekkist. Hún fer ekki í taugarnar á neinum. 

Hins vegar finnst líka skipulögð svört starfsemi. Hvernig stendur á því? Yfirleitt má rekja slíka starfsemi til tvenns konar þátta:

  • Of hárra skatta á löglega starfsemi
  • Of mikillar skriffinnsku á löglega starfsemi

Hvernig á að uppræta hana? Það verður bara gert með því að láta skattheimtu og skriffinnsku hinnar löglega starfsemi nálgast þá á hina svörtu starfsemi. Með öðrum orðum: Lækka skatta og fækka kröfum.

Ég skil vel atvinnurekendur sem stunda löglega, skattlagða og skriffinnskuvædda starfsemi og kvarta yfir hinni svörtu starfsemi. Hvernig væri að jafna leikinn og lækka skatta og fækka eyðublöðum?


mbl.is Svart hagkerfi í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðin skattlögð úr sögunni

Svo virðist sem allt megi skattleggja, eða eins og Ólafur Ragnar Grímsson var látinn segja í áramótaskaupinu 1989 í frægu atriði um Skattmann (valdar setningar): 

Morgunstund gefur gull í mund, skattleggja alla, konur og kalla.

Út að keyra, skattleggja meira, háls nef og eyra.

Skattleggja allt, ríka sem snauða, fæðingu og dauða, ástir og unað, allt nema munað.

Lok, lok og læs, svona er ég næs.

Nú er ekki neinn að græða á framleiðslu vindorku á Íslandi. Landsvirkjun er með svolítið tilraunaverkefni í gangi. Hvað gera sveitarfélög þá? Byrja að tala um skattlagningu á framleiðslu vindorku! Hver ætlar að setja fé í uppbyggingu á vindorkuframleiðslu þegar skattheimtuhamrinum er sveiflað svona?

Ekki tókst vel að bjóða út leitar- og vinnsluleyfi á Dreka-svæðinu í landhelgi Íslands í upphafi enda nánast búið að skattleggja allan hugsanlegan ávinning út í hafsauga.

Íslendingar skattleggja ekki bara það sem gengur vel svo því gangi verr. Nei, þeir skattleggja það sem er ekki einu sinni orðið að veruleika ennþá og verður þar með ólíklega að veruleika nokkurn tímann.

Íslendingar tala heldur ekki um skatta sem nauðsynlegar tekjur til að fjármagna brýnustu verkefni hins opinbera eða ríkieinokun á einhverju. Nei, þeir virðast sætta sig við að eitthvað sé skattlagt af því það er hægt að skattleggja það.

Skattur er þjófnaður. Væri ekki ráð að reyna lágmarka þjófnað frekar en hámarka?


mbl.is Krefjast auðlindagjalds af vindinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkar reyna að finna sársaukamörk skattgreiðenda

Höfum eitt á hreinu: Megnið af þessum stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna undanfarnar vikur hafa snúist um að finna sársaukamörk skattgreiðenda af öllu tagi. Sumir flokkar meina að þeim sé náð, aðrir að bæta megi í skattheimtuna.

Þegar einstaka stjórnmálamenn tala um skattgreiðendur eins og hlaðborð er illt í efni.

Það besta í stöðunni er því sennilega að engin ríkisstjórn sé á Íslandi, a.m.k. um hríð. Slíkt hefur marga kosti í för með sér eins og hér hefur verið rakið áður.

Ég legg til að þingmenn hvíli sig fram á nýja árið. Ég veit að sjálfsálit þeirra eftir kjör til Alþingis er uppblásið og að þeir telji sig hafa mikilvægu hlutverki að gegna að stýra skútunni, en svo er ekki. Þeir geta hvílt sig í marga mánuði. Lífið heldur áfram.


mbl.is Finna hvar sársaukamörkin liggja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband