Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Ásakanir á víxl

"Tilfærsla verkefna" frá miðlægri ríkisstjórn til dreifðra sveitarstjórna er mér yfirleitt að skapi, a.m.k. sem hugmynd. Sveitarfélög ættu fræðilega séð að vera í betri stöðu til að veita nánast alla þjónustu eða aðgengi að henni í gegnum útboð og annað. Þau ættu að geta sýnt stærri sveigjanleika og aðlaga þjónustu að íbúum og aðstæðum.

En íslenskur veruleiki er nokkuð annar.

Sveitarfélög nota yfirleitt "ný verkefni" til að afsaka stjórnlausa skuldasöfnun og bruðl og afsaka það með því að ríkið hafi ekki látið "nægjanlega stóra tekjustofna" fylgja hinum auknu útgjöldum. Gildir þá einu að á undan hafi menn fundað og fundað og samið um hver einustu blýantakaup til að komast að "réttri" niðurstöðu um tilflutning á fé skattgreiðenda úr ríkissjóði í skuldsetta sjóði sveitarfélaga.

Sveitarfélög bæta "tilfærslu"-afsökuninni gjarnan ofan á "sameiningar"-afsökunina til að safna skuldum. Sameiningarafsökunin gengur út á að sópa mörgum sveitarfélögum saman í fá og stór, með stærra lánstraust, sem geta skuldsett sig meira til að byggja ennþá stærri mannvirki. 

Og af þessum ástæðum er ég orðinn mjög tregur til að styðja tilfærslu á verkefnum hins opinbera (sem mörg hver eru algjör óþarfi í sjálfu sér, en það er önnur saga) og enn tregari til að styðja sameiningu sveitarfélaga. Hvort tveggja er notað sem afsökun fyrir stjórnlausu bruðli hjá hinu opinbera. 


mbl.is 10 milljarðar til sveitarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattaskrúfan hert í botn

Stjórnmálamenn á Íslandi virðast flestir hverjir ætla að herða skattaskrúfuna í botn, helst svo mikið að fólk brotnar undan álagningunni og þarf að koma skríðandi á hnjánum eftir "aðstoð" frá hinu opinbera.

Þetta var fyrirsjáanlegt, sérstaklega í Reykjavík. "Besti flokkurinn" afhjúpaði sig snemma sem dæmigerður vinstriflokkur sem safnar skuldum, hækkar skatta og kennir fráfarandi stjórnvöldum um. Ekkert frumlegt, nýtt eða ferskt við það. Bara dæmigerð vinstristjórn eins og í langflestum öðrum sveitarstjórnum á Íslandi, og auðvitað á Alþingi.


mbl.is Útsvarshækkanir í undirbúningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankar þurfa að keppa í trausti

Það ætlar að síast seint inn, en það mun þurfa að síast inn, að bankar eiga núna að keppa í trausti en ekki eftir því hversu vel þeir uppfylla holótt opinbert eftirlit.

Þetta rann upp fyrir einhverjum dönskum bönkum eftir hrunið. Þeir best reknu sögðu hátt og skýrt "nei takk" við opinberum lánum. Dæmi:

Lån & Spar Bank A/S har besluttet at takke nej til regeringens tilbud om lån til hybrid kernekapital på dagens bestyrelsesmøde.

(Af hverju segir banki nei takk við ódýru lánsfé frá ríkinu? Af því fylgja líka allskyns afskipti af rekstri bankans, auk þess sem slík lántaka fær heilbrigt tortryggna viðskiptavini til að óttast um sparifé sitt.)

Ég vona að MP banki leysi sín mál gangvart hinu opinbera og segi viðskiptavinum sínum skýrt og skilmerkilega frá því af hverju hið opinbera setur spurningamerki við eiginfjárhlutfall bankans. Íslenskt bankakerfi má ekki við því að missa einu pólitískt frjálsu vinina í hinni sósíalísku eyðimörk sem fjármálastarfsemi á Íslandi er í dag. 


mbl.is Ætla að styrkja eiginfjárgrunn MP banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í kjölfar talningar

Kjörstjórn býst við að ljúka talningu á morgun. Það er ágætt. Þá er það sjónarspil búið.

Í kjölfarið gæti verið athyglisvert að gera kjörseðlana að opinberum gögnum, t.d. með því að birta öll þau gögn og gröf sem talningarvélarnar spýta út úr sér. Menn gætu þá leikið sér að því að finna eigin uppröðun og leika sér með atkvæðin og sjá þannig hvað eru margir kjósendur á bak við hvern meðlim stjórnlagaþings, hversu margir fengu mörg atkvæði en duttu samt út vegna talningarreglana og fleira í þeim dúr. Og síðast en ekki síst: Sjá hvernig stjórnlagaþing hefði verið samsett ef ekki hefði komið til kynjajöfnunar.

Þannig mætti fá mikla vitneskju út úr þessum kosningum og þar með einhvern örlítinn tilgang með allri þessari rándýru æfingu í ábyrgðarflótta stjórnmálamanna. 


mbl.is 36,77% kosningaþátttaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt hjá Ragnari og loksins segir einhver hið augljósa

Nánast allar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar hafa verið rangar. Það er nánast óumdeilanlegt. En um leið er það skiljanlegt, því ríkisstjórnin vinnur ekki að því tæknilega markmiði að endurreisa hagkerfi Ísland, heldur að því pólitíska markmiði að breiða ríkisfaðminn út sem víðast.

Ríkisstjórnin veit að hún fer frá við næstu kosningar. Gjaldeyrishöft og vaxandi skuldir ríkissjóðs framlengja kreppuna og koma fleirum á opinbera framfærslu. Fólk á opinberri framfærslu er gjarnan duglegt að kjósa vinstriflokka. Ríkisstjórnin er að framlengja kreppuna til að búa til traustan kjósendahóp fyrir sjálfa sig í þarnæstu kosningum (með þá von í brjósti að næsta ríkisstjórn ráði ekki við að taka til eftir núverandi ríkisstjórn).

Um hagstjórnarmistökum verður nánast ekki deilt. Það vita allir að hækkandi skattar og flóknara skattkerfi dregur úr skattheimtu. Það vita allir að fleiri skattar og hærri senda fjármagn í felur og vinnuna út á svarta markaðinn. Hver einasti Íslendingur sem rekur heimili, þar á meðal þeir sem manna stjórnarmeirihlutann á Alþingi í dag, veit að til að byggja upp fjárhaginn þarf að draga saman útgjöld og greiða niður skuldir. Samt er þetta ekki gert hjá ríkissjóði.

Hagfræðiprófessorar geta alveg hvílt sig frá umræðu um hagstjórn ríkisstjórnarinnar. Sú hagstjórn er í molum því hún er einfaldlega ekki mikilvæg fyrir ríkisstjórnina miðað við pólítískt markmið hennar, að búa til kjósendahóp á opinberri framfærslu.


mbl.is Segir ákvarðanir ríkisstjórnarinnar rangar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

'Verðbólguskotið' er ekki komið ennþá

Ennþá lepja menn upp sömu hagfræðina og fyrir hrun. Sú hagfræði gengur út á að verja einokun ríkisins á peningaútgáfu, predika mikil og jákvæð áhrif opinberrar peningaprentunar og kalla hækkun verðlags "verðbólgu", sem er rangt því "verðbólga" er aukning á peningamagni í umferð sem leiðir til verðhækkana (vegna rýrnandi kaupmáttar hverrar krónu).

Greining Íslandsbanka telur að gjaldeyrishöftin megi afnema án þess að stórkostlegar hreyfingar í átt til verðrýrnunar krónunnar muni eiga sér stað. Það má kalla bjartsýni. Seðlabanki Íslands grefur sér æ dýpri gröf með hverjum deginum sem gjaldeyrishöftin eru utan um hagkerfið á Íslandi. Sú hola verður ekki fyllt án sársauka og þess sem bankamenn kalla "verðbólguskots". 

Annars er ánægjulegt að sjá að menn rifja upp hinn mikla og sjálfbæra stöðugleika og uppgangs sem var hér á landi í upphafi aldarinnar. Þá var uppgangur á Íslandi sem byggðist ekki á peningaprentun/innflutningi og ofurskuldsetningu heldur raunverulegri verðmætasköpun í sífellt frjálsara hagkerfi. 


mbl.is Lítil innistæða fyrir verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagvöxtur á hvaða forsendum?

Núna keppast allir "hefðbundnir" hagfræðingar við að spá hagvexti á Íslandi á næsta ári. Þeir deila bara um það hvort talan verði 1%, 2% eða 3%. Rökin fyrir plústölunni, hver sem hún svo sem er, eru á sömu nótum: Neysla eykst, einhver fjárfesting byrjar að taka við sér og hið opinbera heldur áfram að eyða peningum.

En hvernig má það vera? Skuldir íslenskra heimila og fyrirtækja eru ennþá í himinhæðum. Mörgum fyrirtækjum er haldið á lífi af bönkum og lánum. Heimilin fleyta sér áfram á seinustu krónunni og mörg eru í vanskilum og sér ekki fyrir endann á því enda ekki búið að gera upp neitt að ráði.

Krónan er í gjaldeyrisböndum og það skilar sér í fölsku gengi krónunnar. Ríkið er ennþá að taka tugi milljarða lán og mun gera það næstu árin samkvæmt samkomulag við t.d. Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, en sá sjóður krefst þess að bankakerfið geti áfram sogið spena skattgreiðenda þar til úr blæðir.

Í stuttu máli: Skuldsett neysla og aukin ríkisvæðing hagkerfisins er að drepa hagkerfið og pólitískt markmið ríkisstjórnarinnar er að halda áfram á þeirri braut þar til ESB samþykkir að setja okkur á spena þýskra skattgreiðenda. Almenningur getur étið það sem úti frýs á meðan pólitíska elítan fær sínu fram. 


mbl.is Tæplega 2% hagvöxtur 2011
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsjáanleg þróun

Until and unless we return to the classical gold standard at a realistic gold price, the international money system is fated to shift back and forth between fixed and fluctuating exchange rate,s with each system posing unsolved problems, working badly, and finally disintegrating. And fueling this disintegration will be the continued inflation of the supply of dollars and hence of American prices which show no sign of abating. The prospect for the future is accelerating and eventually runaway inflation at home, accompanied by monetary breakdown and economic warfare abroad.

Þessi lýsing Murray N. Rothbard á örlögum pappírspeninga nútímans virðist ætla að rætast. Rothbard virðist ætla að reynast sannspár. Ætli meðöl hans við vandræðum pappírspeninganna eigi þá ekki við rök að styðjast?

This prognosis can only be changed by a drastic alteration of the American and world monetary system: by the return to a free market commodity money such as gold, and by removing government totally from the monetary scene.

Pappírspeningakerfi seðlabanka heims er að lyppast niður samkvæmt spádómum þar að lútandi. Almenningur er byrjaður að tortryggja boðskap "véfréttanna" í seðlabönkum heims og farinn að flytja sparnað sinn og fé yfir í eitthvað sem verður ekki fjölfaldað með innslætti í tölvu, t.d. gull og silfur. Kerfið mun hrynja aftur eins og það hrundi eftir "dot.com bóluna" og "eignabóluna" og mun hrynja eftir núverandi lotu peningaprentunar. Bólurnar þarf að þenja meira og meira út til að ná tilætluðum "áhrifum" og hrynja með þeim mun meiri skelli. Á endanum gefst almenningur upp.

Hvenær? Sjáum hvað setur.


mbl.is Kljúfi evruna í tvær myntir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sátt hjá VG um ESB-stefnu Samfylkingarinnar

Steingrímur J. gerir nú enn eina tilraun til þess að fá VG til að samþykkja stefnu Samfylkingarinnar (og að einhverju leyti Framsóknarflokksins) í ESB-málinu öllu með öllu tilheyrandi. Sú stefna gengur út á að Ísland eigi að ganga í ESB, sama hvað "býðst" í aðlögunarumræðum við ESB, greiði Icesave-reikninga hins þá einkarekna Landsbanka Íslands til að halda Bretum og Hollendingum góðum, og taki þátt í "fræðslu" ESB á Íslandi um eigið ágæti.

Steingrími J. hefur ekki tekist að sannfæra VG um ESB-stefnu Samfylkingarinnar ennþá. Reiðibréf, opinber og óopinber, eru ennþá að berast Steingrími. "Grasrótin" svokallaða er ennþá að þrjóskast við að þingmenn VG fylgi samþykktri stefnu VG á Alþingi. Kannski tekst Steingrími ætlunarverk sitt í þetta skipti. Kannski springur VG í loft upp. Spennan magnast.


mbl.is Bjartsýnn á að sátt náist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískt markmið stjórnvalda: Viðhalda neyðarástandinu

Það fjölgar hratt í hópi útlendinga sem sjá það sem hvert mannsbarn á Íslandi veit: Að stjórnlaus skuldasöfnun og eilífar björgunaraðgerðir á gjaldþrota fyrirtækjum á kostnað skattgreiðenda eru ekki leiðin til endurreisnar hagkerfis.

Ég segi að hvert mannsbarn á Íslandi viti þetta. Vinstrimenn líka. Vinstrimenn hafa hins vegar pólitískar ástæður (ekki efnahagslegar) fyrir því að keyra ríkissjóð áfram á stjórnlausri skuldasöfnun og stórkostlegri útvíkkun hins opinbera "björgunar"nets. Pólitískt markmið vinstrimanna (hvar í flokki sem þeir finnast) er einmitt að viðhalda eilífu "neyðarástandi" og þannig smala sífellt fleirum undir verndarvæng hins opinbera. 

Eða heldur einhver að gjaldþrota maður á opinberri framfærslu sé líklegur til að kjósa stjórnmálamenn sem boða aðhald í rekstri og skerðingu á opinberum framfærslum til að losa um einkaframtakið, með þeirri óvissu sem það felur í sér fyrir einstaklinginn með sitt þrönga sjónsvið?


mbl.is Lánshæfiseinkunn Íslands lækkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband