Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Allir flokkar í minnihluta?

Þær eru erfiðar í túlkun þessar skoðanakannanir sem nú eru gerðar.

Fæstir vilja Sjálfstæðisflokkinn í stjórn. En stjórnin nýtur heldur ekki stuðnings samkvæmt annarri könnun. Eru þá allir flokkar í minnihluta?

Sjálfstæðisflokkurinn getur auðveldlega sjálfum sér um kennt fyrir þá stöðu sem hann er í. Síðan nafni minn Haarde tók við flokknum á sínum tíma hefur flokkurinn siglt hratt og örugglega inn á miðjuna í sókn eftir atkvæðum Samfylkingarinnar. Kjósendur sjá varla nokkurn mun á S-flokkunum í dag. Sjálfstæðisflokkurinn þorir ekki að skilja sig frá hjörðinni og boða harðkjarna frjálshyggju, sem meðal annars felur í sér aðskilnað ríkis og hagkerfis (engar ríkisábyrgðir á skuldum, stórkostlega minnkuð haftastefna af hagkerfinu). 

Kannski er meirihluti þjóðarinnar hlynntur því að ríkið stundi "lántökur vegna stjórnlagaþingsins, tónlistarhússins, ESB aðlögunar eða kynjaðrar hagstjórnar" (#). Sú afstaða breytist varla til hins betra þegar ESB-áróðursmilljónirnar byrja að streyma til landsins. En er það til marks um sannfæringarmátt vinstrimanna að pólitísk markmið þeirra séu svona vinsæl, eða er það til marks um veikburða Sjálfstæðisflokk að holótt röksemdarfærsla vinstriflokkanna nýtur enn áheyrnar?

Íslenska hagkerfið átti inni stóran skell þegar ríkisábyrgðir á skuldbindingum bankanna lentu á skattgreiðendum, og hún er mikil sú ábyrgð sem Sjálfstæðismenn bera á því að þær ríkisábyrgðir hafi verið til staðar. En fyrr má nú vera að það taki 2 ár að hreinsa eina gjaldþrotahrinu út úr hagkerfinu, sem sér ekki fyrir endann á með eilífum opinberum íhlutunum og björgunaraðgerðum, lántökum og fjáraustri í gæluverkefni.


mbl.is Flestir vilja ekki Sjálfstæðisflokkinn í stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkissjóður er botnlaust svarthol

Sköttum má skipta í tvo hópa;

  • Skattar sem eru eyrnamerktir ákveðnum "verkefnum". Dæmi: Skattar á eldsneyti ætlaðir til að kosta vegakerfið, útvarpsgjaldið handa RÚV, hluti tryggingargjalds fyrirtækja til að fjármagna atvinnuleysisbætur og fæðingarorlof
  • Skattar sem renna í ríkissjóð án sérstakrar eyrnamerkingar. Dæmi: Tekjuskattar, virðisaukaskattar.

Útgjöldum ríkisins má líka skipta í tvo hópa;

  • Þau sem hafa sérstaka "tekjustofna" í formi ákveðinna skatta. Dæmi: Vegagerð, rekstur RÚV
  • Þau sem þarf að fjármagna með almennri skattheimtu án sérstakrar eyrnamerkingar. Dæmi: Nánast allt annað

Raunveruleikinn er svo þessi: Ríkið vasast í allskyns og allskonar sem kostar ógrynni fjár. Skatt"stofnar" renna allir beint ofan í botnlaust svarthol ríkissjóðs og er svo útdeilt aftur út eftir aðstæðum.

Með öðrum orðum: Allt tal um "eyrnamerkingar" á sköttum er þvaður. Ríkið eyðir því sem það vill, í það sem það vill, þegar það vill.

"Fréttir" eins og þessi, að "Hluti útvarpsgjalds rennur í ríkissjóð", eru engar fréttir í þeim skilningi um að eitthvað nýtt sé að ræða. Svona er þetta með alla "sértæka" skattheimtu. 

En læra menn af reynslunni? Ríkið skattleggur núna í nafni umhverfisins. "Grænir skattar" að norrænni fyrirmynd vella núna upp úr hugmyndapotti stjórnmálamanna, og þeim vitaskuld ætlað að fjármagna eitthvað "grænt" og umhverfisvænt. Raunin verður sú að þessir skattar verða eins og hver annar tekjustofn fyrir ríkið, sem það eyðir í hvað sem það vill (vaxtagreiðslur, flugferðir ESB-"samningamanna", nýja ráðherrabíla, tónlistarhús fyrir fámenna, ríkisstyrkta listaelítu). 

Almenningur er blekktur til að sætta sig við aukna skattheimtu "í nafni" einhvers málefnisins. Þegar á hólminn er komið hefur skattheimtan bara aukist, en málefnið jafnfjárvana og fyrir daga hinnar nýju skattheimtu.

Þannig er það. 

Ef menn vilja sundurliðað yfirlit yfir það hvað peningarnir renna í, þá mæli ég með því að menn versli í Bónus og biðji um kassakvittun. Ríkið veitir ekki slíka þjónustu, þótt sjálfsögð sé.


mbl.is Hluti útvarpsgjalds rennur í ríkissjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvelt að eyða, erfitt að greiða

Vandræði Grikkja og Íra og Íslendinga og bráðum Bandaríkjanna og mun fleiri með skuldir sínar eru bara toppurinn á ísjakanum. Í nánast öllum ríkjum heims er hið opinbera rekið með miklum halla sem þarf að fjármagna með lántökum eða seðlaprentun, eða hvoru tveggja.

Þau ríki sem átta sig á því hvað botnlaus og skuldsett neysla í mörg ár þýðir eru byrjuð að taka fast í taumana. Þetta eru ekki mörg ríki, a.m.k. ekki í OECD, en þó einhver. Suður-Kórea, Sviss, Noregur, Svíþjóð, Þýskaland og fleiri ríki eru rekin með afgangi eða hafa markvissan ásetning um að stöðva skuldasöfnun fljótlega.

Þau ríki sem stöðva skuldasöfnun, safna fé og einbeita sér að því að framleiða verðmæti (en ekki bara pappírspeninga) munu erfa heiminn. Þau munu eiga fjármagn til að fjárfesta í framleiðslutækjum framtíðarinnar. Hin, sem safna skuldum og ætla sér að gera það um ókomin ár, verða eftirbátar sem þurfa að reiða sig á framleiðslutæki fortíðar til að greiða vaxtavexti framtíðar. Stjórnvöld á Íslandi ætla sér að tryggja að þau örlög bíði Íslendinga. Það er hreinlega pólitískur ásetningur ríkisstjórnar Íslands að gera Íslendinga svo hvínandi skuldsetta og svo svíðandi háða opinberri framfærslu að þeir geti ekki annað en gert það sem hið opinbera skipar fyrir um.

Það er auðvelt að eyða lánsfé í neyslu og partý. En á endanum kemur að gjalddaga, og þá er erfitt að greiða skuldirnar. 


mbl.is Skuldir sliga evruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ræður ESB því hvernig og hvenær Íslendingar gera upp hug sinn?

Ögmundur Jónasson stingur upp á því að nú-þegar-þekkt inngönguskilyrði í ESB verði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu.

ESB "hafnar hugmyndum" Ögmundar um það. Skiljanlega. ESB er lítið hrifið af þjóðaratkvæðagreiðslum.

En hvers vegna að taka mark á mótbárum ESB? Ræður ESB því hvernig og hvenær Íslendingar gera upp hug sinn varðandi nú-þegar-þekkt inngönguskilyrði í ESB? Ef já, hvers vegna?

Ég veit að margir embættis- og stjórnmálamenn geta varla beðið eftir því að komast í vel launaðar skrifstofustöður hjá Sambandinu, og margir raunar nú þegar komnir í slíkar stöður sem "samningamenn" og "ráðgjafar" ESB í innlimunarferlinu öllu. En hvers á almenningur að gjalda? Á endalaust að reyna selja þá fölsku plötu að Íslendingar fái að "kjósa um aðild", að aðlögun lokinni?


mbl.is ESB hafnar hugmyndum Ögmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neytendur sljóvgaðir með löggjöf

Lög á starfsemi smálánafyrirtækja munu eflaust vekja mikla lukku hjá mörgum, sérstaklega áhyggjufullum foreldrum sem vilja ekki að börn sín ánetjist auðveldri skuldasöfnun með hræðilegum afleiðingum.

Slík lukka er hins vegar óþarfi. Lög á starfsemi smálánafyrirtækja munu hafa sljóvgandi og jafnvel neikvæð áhrif á neytendur. 

Í fyrsta lagi verður smálánastarfsemi sett undir "eftirlit" hins opinbera og neytendur munu sjálfkrafa telja að þar með þurfi ekkert eftirlit neytenda (eins og gildir um bankana, meira að segja eftir hrun). Neytendur munu því telja að öll smálánafyrirtæki í rekstri séu "samþykkt" af yfirvöldum og því hægt að treysta þeim fyrir fjárhagslegri framtíð sinni.

Í öðru lagi er ekkert víst að smálán á háum vöxtum séu slæm þótt ekki sé af annarri ástæðu en að flengja ungmenni til vitundar um mikinn kostnað lántöku

Í þriðja lagi er gott mál að "smálánastarfsemi" sé ekki gert of erfitt um vik af löggjafanum með of miklu eyðublaðaflóði því þá er slík starfsemi lögleg og á yfirborðinu. Smálánafyrirtæki hnéskeljabrjóta ekki þá sem lenda í vanskilum við sig, ólíkt öðrum og skuggalegri "smálána"veitendum.

Í fjórða lagi, en alls ekki síst: Ríkið á ekki að skipta sér af frjálsum viðskiptum og samskiptum einstaklinga. Fóstruríkið ætlar sér að koma í veg fyrir að fólk taki lán á "okurvöxtum" en sviptir einstaklinga þar með ábyrgð á eigin ákvörðunum og þar með möguleikanum á að læra af mistökum eða nýta sér tækifæri sem aðrir sjá ekki. Forræðishyggja eins og hún gæti verið skilgreind í orðabók.


mbl.is Boðar lög um smálánafyrirtæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir vilja eyða meira en þeir þéna

Portúgalar vilja eyða meira en þeir þéna. Hið sama má segja um Bandaríkjamenn, Spánverja, Grikki og hina íslensku ríkisstjórn. Þeir sem eru svona hneigðir til skuldsettrar neyslu kenna gjarnan öðrum um vandamál sín. Grikkir kenna ESB um fyrir að vilja ekki veita meira fé úr vösum þýskra sparifjáreigenda í vasa portúgalskra stjórnmálamanna. Verði þeim að góðu.

Menn hafa lengi haft þann draum að geta "prentað sig" til velmegunar - sem sagt prenta peninga í stað þess að framleiða verðmæti. Bandaríkjamenn reyna eins og óðir að prenta sig út úr kreppunni sinni. Íslendingar reyna að skuldsetja sig í jákvæðar hagvaxtartölur. Grikkir betla fé úr sjóðum ESB. 

En hvorki peningaprentun né skuldsett neysla geta skapað velmegun. Sparnaður og fjárfestingar eru eina leiðin til að byggja upp verðmætaskapandi hagkerfi. Þetta vita Þjóðverjar og yfirleitt Norðurlöndin, að Íslandi undanskildu. 


mbl.is Segir Portúgali hugsanlega þurfa að yfirgefa evrusvæðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirveguð og skynsöm hugmynd

Ögmundur Jónasson á hrós skilið fyrir yfirvegaða og skynsama hugmynd. Það er engin ástæða til að eyða mörgum árum og stórfé í eitthvað sem má draga fram í dagsljósið á tveimur mánuðum og leggja undir "dóm þjóðarinnar". Hvað eru menn í læstum bakherbergjum á "aðildarviðræðu"fundum að ákveða í þessum skrifuðu orðum, t.d. hvað varðar sjávarútvegs- og landbúnaðarmál? Má ekki draga þá leyndu minnispunkta fram í dagsljósið nú þegar og athuga hvað almenningi finnst um þá? Þurfum við að bíða þar til minnispunktar verða að samningsdrögum til að fá að sjá þá?

Það besta sem Íslendingar gera í dag til að spara bæði tíma og fé er að draga samrunaumsókn að ESB til baka, en fyrir því er líklega ekki pólitískur meirihluti. En Ögmundur Jónasson kann leikreglur stjórnmálanna og stingur upp á góðri málamiðlun: Að fá á hreint hvað menn ætla sér að ræða næstu mörg árin, og kjósa um það strax. 


mbl.is Vill fá niðurstöðu strax í skýr mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blygðunarlaus hræsni Barack Obama

Það er leit að stjórnmálamanni sem er meiri hræsnari en Barack Obama. Hann lýgur án þess að hika. Hann hikar ekki við að skamma aðra fyrir að gera það sama og hann sjálfur. Hann varpar ábyrgð á eigin mistökum hiklaust yfir á aðra.

Obama segir "you are all" þegar hann talar við hvíta. Hann segir "yo'll" þegar hann talar við svarta. Með öðrum orðum: Hann segir það sem hann þarf að segja til að fá sínu framgengt, og heldur síðan sínu striki í hverju það nú var sem hann skammaði aðra fyrir að gera. 

Eitt besta dæmið um hræsni Obama  er sennilega stefna stjórnar hans í peningamálum. Núna ætlar seðlabankastjóri Obama að prenta 600 milljarða Bandaríkjadollara sem hluta af öðrum örvunarpakkanum þar í landi. Obama kinkar sennilega kolli þegar leiðtogar G20 samþykkja að forðast að grafa undan gengi gjaldmiðla sinna, en þegar heim er komið mun Obama ræsa peningaprentvélarnar og þynna út gjaldmiðil Bandaríkjanna eins og enginn sé morgundagurinn.

Obama verður minnst sem forsetans sem tók við hagkerfi í molum, prentaði peninga eins og óður í þeirri von um að hagvaxtar-tölfræðin gallaða færi í plústölu, þandi út bólu, sprengdi hana og skildi hagkerfið eftir í enn verra ástandi fyrir næsta forseta.


mbl.is Leiðtogar G20 ræða gjaldeyrismál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrimenn safna skuldum hvar sem þeir geta

Vinstrimenn við völd kunna bara eitt þegar kemur að rekstri hins opinbera: Safna skuldum og hækka skatta. Með öðrum orðum: Eyða um efni fram.

Kópavogur (undir stjórn vinstrimanna) ætlar núna að "gefa út skuldabréfaflokk", sem sagt setja sig í stellingar til að hefja stórkostlega skuldasöfnun.

Í Reykjavík er líka dæmigerð vinstristjórn (með þeirri undantekningu, að borgarstjóri starfar sem einhvers konar "fjölmiðlafulltrúi" til að draga athyglina frá hagstjórninni). Þar var tekinn milljarður að láni í sumar. Þennan milljarð í skuldum þarf núverandi borgarstjórn að taka á sig alein og án þess að geta kennt öðrum um. Raunar var þetta kosningaloforð hjá Degi B. Eggertssyni, sem í raun sér um stjórn borgarinnar bak við tjöldin (a.m.k. hagstjórn):

"Samfylkingin telur skynsamlegt að taka lán til að halda uppi framkvæmdastigi í kreppunni"

Nú á að hækka útsvarið í Reykjavík. Í Kópavogi er útsvarið í botni (í bili).

Hækkun skatta og aukin skuldsetning - góð hugmynd?

Að eyða um efni fram er yfirleitt ekki talin góð leið út úr fjárhagsvanda, a.m.k. ekki nefnd sem slík á vef Umboðsmanns skuldara


mbl.is Kópavogur gefur út skuldabréfaflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skref í rétta átt

Stöðnun í íslenskum byggingariðnaði er rökrétt og eðlileg í leiðréttingu hagkerfisins á sprunginni bólunni. Hér var byggt alltof mikið og framboð á húsnæði því töluvert. Ríkið situr auk þess á hundruðum íbúða sem þarf að koma á markað. Verðlækkanir á húsnæði eru framundan. Í kjölfar þeirra getur venjulegt fólk á ný keypt sér húsnæði án þess að skuldsetja sig á bólakaf.

Eftir situr þá hópur sem þarf að bíta í það súra epli að skulda meira í húsnæði sínu en það getur fengið fyrir það á markaði. Ég er í þeim hópi (skulda u.þ.b. tvöfalt markaðsverð í mínu húsnæði). Það er súrt, en nauðsynlegt. Bankar þurfa þá að gera upp við sig hvort er vænlegra: Að henda fólki á götuna ef það getur ekki greitt af lánum sínum, eða fara aðrar og mannúðlegri leiðir.

Annar hópur sem situr eftir eru gjaldþrota byggingafélög. Lánadrottnar þeirra þurfa að leysa þau félög upp og koma fé sem þar er læst í eitthvað annað og arðbærara.

Ríkið þarf svo að skera útgjaldaþörf sína niður um tugi prósenta, greiða upp skuldir, lækka skatta, afnema gjaldeyrishöftin, fella niður alla tolla og innflutningsgjöld, hætta stuðningi við einstaka atvinnugreinar, leggja niður Seðlabanka Íslands og afnema ríkisábyrgðir á öllu, þar á meðan innistæðum og lánum fyrirtækja í opinberri eigu.

Íslenska hagkerfið getur þá byrjað að taka við sér á ný.


mbl.is Ekki byggt minna frá árinu 1940
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband