Bloggfærslur mánaðarins, júní 2015

Brauðmolakenningar svokallaðar

Orðið "brauðmolakenning" skýtur reglulega upp kollinum. Yfirleitt eru það vinstrimenn sem uppnefna hagfræðikenningar frjálshyggjumanna með orðinu "brauðmolakenning". Að þeirra sögn boða hægrimenn eftirfarandi: Höldum sem mest aftur af ríkisvaldinu svo menn geti auðveldar orðið auðugir. Hinn aukni auður leiðir svo til aukinnar eftirspurnar á allskyns vörum og þjónustu sem hinir efnaminni veita og þeir geta þá hækkað sín verð og um leið orðið auðugri.

Vinstrimenn hafna þessu. Í staðinn vilja þeir að allur auður umfram eitthvað (handahófskennt) viðmið sé hirtur í skatta og síðan dreift til hinna efnaminni í gegnum úthlutanir hins opinbera. 

Nálgun vinstrimanna er líka brauðmolakenning nema í henni eru allir hvatar til að framleiða fleiri brauðmola hirtir í gegnum hækkandi skattheimtu. Sumir eiga það til að líta á hagkerfið og núverandi auðsköpun eins og fasta stærð sem þarf bara að skera upp á nýtt og dreifa öðruvísi. Ekki þarf mikið ímyndunarafl til að sjá að það er rangt.

Vinstrimenn sjá heldur ekki endilega hina réttu ástæðu á bak við baráttu frjálshyggjumanna gegn ríkisvaldinu. Margir frjálshyggjumenn vilja ekki minnka ríkisvald til að einhverjir geti orðið ríkir, heldur af því þeir líta á ríkisvaldið sem löglegt glæpagengi sem þarf að halda í skefjum. Mafían og ríkisvaldið eiga miklu meira sameiginlegt en marga grunar. Bæði fyrirbæri þvinga skjólstæðinga sína með ofbeldi til að greiða hin ýmsu gjöld í skiptum fyrir þjónustu sem enginn bað um. 

Að aukið frelsi og minnkandi ofbeldi ríkisvaldsins leiði til aukinnar auðsköpunar sem lyftir öllum - ríkum og fátækum - er heppileg afleiðing frelsisins, en ekki ástæðan á bak við frelsisboðskapinn. Frjálshyggjumenn væru á móti þrælahaldi þótt reiknilíkön sýndu fram á stórkostlega auðsköpun með notkun þess. Brauðmolar eru ekki boðskapur frjálshyggjumanna. Að þeim fjölgi er bara heppileg afleiðing af boðskap þeirra. 


Enn ein skýrslan ofan í skúffu

Skýrsla hinnar svokölluðu Rögnunefndar er á leið ofan í skúffu. Lengra nær það mál ekki í bili. Áfram verður rætt um flugvöllinn í Reykjavík og þá gjarnan í samhengi við aðra nýtingu á núverandi lóð hans. 

Nú liggur auðvitað beint við að ríkisvaldið dragi sig algjörlega út úr öllum rekstri flugvalla á Íslandi, hætti stuðningi við innanlandsflug og láti markaðinn um að ákveða hvort og þá hvar nýir flugvellir rísa, og hver flýgur á þá. Ókosturinn er sá að þá missa stjórnmálamenn spón úr aski sínum. Þeir geta þá ekki boðað niðurgreiðslur til einhvers flugvallar í umdæmi sínu og uppskorið atkvæði. Þeir missa embættismenn úr ráðuneytum. Þeir hafa um minna að tala á fundum. Ríkisvaldið mun því halda áfram að halda fast í sitt.

Næsti kostur er svo að hafa óbreytt ástand. Ekkert er a.m.k. að breytast til hins verra á meðan þótt sumir verði eflaust svekktir yfir að fá ekki byggð í Vatnsmýrinni. 

Síðan mætti hugsa sér að ríkisvaldið bjóði verkefnið út, t.d. í alþjóðlegri hönnunarsamkeppni. Öll hönnunargögn verða gerð aðgengileg og sjálfsstæð nefnd skipuð til að meta allar tillögur. Fjármögnun yrði einfaldlega í gegnum rekstrartekjur af flugvellinum. Ríkisvaldið hefði það eina hlutverk að einfalda regluverkið og fjarlægja þær hindranir sem það leggur á alla sem moka holu í jörðina á Íslandi í dag. 

Kannski yrði niðurstaðan svipuð þeirra í Þrándheimi í Noregi sem ég hef heimsótt ansi oft undanfarin ár. Þar er millilanda- og innanlandsflugvöllur í um 45 mínútna akstursfjarlægð frá bænum, og á milli bæjarins og flugvallarins er tvíbreiður þjóðvegur sem getur orðið erfiður á veturna en er haldið opnum nánast sama hvað gengur á. Mýgrútur af leigubílum og rútufyrirtækjum keyra á milli og keppast um farþegana (leigubílarnir með föstu gjaldi og rútufyrirtækin í verði og sveigjanleika og tíðum ferðum). 

Minnir raunar um margt á fyrirkomulagið á Reykjanesskaganum en að vísu er enginn opinber strætórekstur á flugvöllinn í Þrándheimi sem er settur til höfuðs einkafyrirtækjunum. 

Nú er ég ekki alveg hlutlaus í þessu máli. Ég á tengdafjölskyldu á Austfjörðum og hef kunnað ágætlega við að geta skottast á flugvöllinn með stuttum fyrirvara og flogið austur (fyrir margfalt það verð og kostar mig að fljúga frá Álaborg til Kaupmannahafnar með flugfélögum í blússandi samkeppnisrekstri og án allra ríkisstyrkja, en það er önnur saga). 

Ég vona að menn hugsi málið aðeins og finni leiðir til að koma þessu máli öllu úr höndum stjórnmálamanna og skýrslusmiðum þeirra. 


mbl.is Glapræði gagnvart öryggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkiseinokun: Nei takk

Ólíkt sumum þá tel ég ekki vera neinum neytanda, sjúkling, skjólstæðing eða kaupanda til góðs að þurfa að eiga við kaupanda, veitanda eða seljanda sem er vafinn inn í ríkiseinokun og varinn fyrir samkeppni og aðhaldi þeirra sem þurfa að eiga við hann.


Gaman að ferðast

Það er gaman að ferðast, eða það finnst mörgum. Opinberir starfsmenn eru hér engin undantekning. Fyrir þá er jafnvel enn skemmtilegra að ferðast því reikninginn má senda á aðra [1|2|3|4|5]. Hið sama gildir um starfsmenn ríkiseinokunarfyrirtækja, enda lítil ástæða til að sýna aðhald þegar samkeppni er bönnuð með lögum, og stéttarfélög geta sum hver líka róleg sólundað fé félagsmanna sinna í ferðalög. Ekki er verra ef sá sem ferðast getur tekið með sér lítið teymi af fólki til að fara út að borða með á kvöldin. 

Þetta hangir kannski ágætlega saman við andstöðu margra stjórnmálamanna við frjálsa áfengissölu á Íslandi. Þeir geta jú sjálfir komist í mikið úrval af áfengi á hagstæðu verði á ferðalögum sínum á kostnað skattgreiðenda. Gott ef skattgreiðendur fá ekki líka að greiða fyrir áfengið með dagpeningum hinna opinberu ferðalanga! Er þá lítil ástæða til að kvarta yfir lélegu aðgengi að vodka og háu verði á því á sjálfu landinu - vínskápurinn er jú troðfullur af þeim vökva!

Auðvitað þurfa margir opinberir starfsmenn að sækja hina og þessa fundi erlendis rétt eins og starfsmenn einkafyrirtækja. Aðhaldskrafan er samt önnur þegar þeir sem fjármagna vellystingarnar geta bara haft sitt um málið að segja á fjögurra ára fresti, og þá stendur valið á milli manna sem munu sóa miklu eða enn meira af fé þeirra. 

Nær væri að ríkisvaldið væri lítil skrifstofa með þremur starfsmönnum sem sæi einfaldlega um að senda reglulega út hlutleysisyfirlýsingar til erlendra ríkisstjórna og boð um að stunda óheft og frjáls viðskipti með allt. Þá þyrfti ekki að ferðast neitt á kostnað annarra. 


mbl.is Fimm utanlandsferðir á kjörtímabilinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaman að gefa annarra manna fé

Eitt eftirlæti stjórnmálamanna er að láta taka mynd af sér á meðan þeir eyða annarra manna fé. Sérstaklega finnst mér borgarstjóri Reykjavíkur vera duglegur að þessu [1|2|3]. 

Síður í eftirlæti er að koma fram þegar allt er komið í bál og brand. Þá eru embættismenn sendir af stað. 

Það er gaman að eyða annarra manna fé, ekki satt? Hvað gerir fullorðinn maður sem finnur 5000 króna seðil á götunni og sér engan nálægt til að gera kröfu á hann? Fer viðkomandi í bankann og greiðir niður skuldir? Nei. Þessum peningum er eytt í svokallaða vitleysu - í nammi, gos, áfengi eða ónauðsynlegt raftæki. Stjórnmálamenn eru á hverjum degi að sýsla með fé annarra og því ekki skrýtið að þeim langi til að eyða þeim eins og enginn sé morgundagurinn. Þeir eru smalar fyrir annarra manna fé, og smala oftar en ekki allri hjörðinni í sláturhúsið og leysa út hagnaðinn. 

Það er af þessari ástæðu, meðal annarra, alltaf gott þegar skattar lækka og hið opinbera fækkar verkefnum sem það hefur á sinni könnu. 


mbl.is Skemmtilegasta athöfn Sigmundar Davíðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki ég!

Hún er sterk sú tilhneiging hagsmunasamtaka að líta aðeins í eigin barm - sjá eingöngu það sem snýr nákvæmlega að þeirra eigin hagsmunum og líta framhjá heildarmyndinni, jafnvel viljandi.

Gott dæmi er skattlagning. Hagsmunasamtök ýmis konar líta yfirleitt á hana sem eitthvað sem á fyrst og fremst að bitna á einhverjum öðrum, en ekki þeim sjálfum. Þau tala aldrei fyrir almennum skattalækkunum sem um leið koma þeirra skjólstæðingum til góðs. Nei, þau þegja yfirleitt þegar ríkisvaldið þefar uppi nýja skattgreiðendur ef þau standa utan við hagsmunasamtökin.

Þetta er auðvitað skiljanlegt. Aðrir gera sig sekan um sams konar hugarfar. Launþegar fagna þegar ríkisvaldið hækkar skatta á fyrirtæki. Þeir sem reykja ekki þegja þunnu hljóði þegar ríkisvaldið hækkar opinberar álögur á tóbak. Þeir sem drekka ekki segja ekki orð þegar ríkisvaldið seilist dýpra í vasa áfengisneytenda. Það er freistandi að vona að ríkisvaldið nái að seðja hungur sitt á tekjum annarra.

Á endanum mun ríkisvaldið samt alltaf þefa uppi nýja og nýja skattstofna til að kroppa í. Enginn getur vonast til að sleppa, ef svo má að orði komast.

Hagsmunasamtök ýmis konar myndu gera sjálfum sér stóran greiða til lengri tíma með því að berjast gegn auknum álögum almennt - berjast fyrir grennra ríkisvaldi sem heldur að sér höndum í eyðslu sinni á annarra manna fé. Það er í raun eina raunhæfa leiðin til að temja hið opinbera. Aðhald sem kemur frá mjóróma röddum hér og þar er lítils virði. Ríkisvaldið lætur þær sem vind um eyru þjóta.

Núna kvarta Samtök fjármálafyrirtækja. Það er of seint. Þau geta dregið ríkisvaldið fyrir dómstóla ef þau telja sig hafa málstað að verja. Ríkisvaldið er að reyna þenjast út, og núna mun það bitna á fjármálafyrirtækjum. Aðrir þegja og vona að þetta seðji hungur hins opinbera. Sú verður raunin ekki. 


mbl.is Skattlagningin á ekki rétt á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðum bara færeyskar hjúkkur í staðinn fyrir þær íslensku

Íslenskar hjúkkur segja að launin fyrir hjúkrun á Íslandi séu of lág, og að í Noregi séu þau betri, og að þar fái þær vinnu. Ef það er raunin þá er það líklega vegna þess að Norðmönnum finnst hjúkrunarfræðistörf borga of lítið miðað við önnur. Þeir ráða því ódýrara og erlent vinnuafl í staðinn. 

Verða Íslendingar ekki að gera það sama og Norðmenn og ráða ódýrara vinnuafl frá útlöndum?

Staðreyndin er sú að það er nóg framboð af hjúkrunarfræðimenntuðu fólki, bæði á Íslandi og annars staðar. Launin endurspegla það einfaldlega, og kannski er það bara allt í lagi því ekki er hægt að borga fyrir bæði góð laun og góð tæki með sömu krónunni. Tæki og tól hafa kannski gert starfið að mörgu leyti þægilegra en áður og því þarf ekki að borga eins mikið til að fá manneskju sem kann að hjúkra og með allt annað í starfi hjúkkunnar á hreinu - nærveruna, aðlögunarhæfnina, umhyggjusemina og alúðina. 

Kannski er fjárfesting í menntun sem hjúkrunarfræðingur ekki lengur eins ábatasöm og áður. Hið sama gildir um fjölmargt annað nám, t.d. skósmíði og flugmanninn. Heimurinn breytist. Þeir sem aðlagast ekki sitja uppi með háværar kröfur sem enginn hlustar á.

Ef Norðmenn geta ráðið ódýrt erlent vinnuafl (á norskan mælikvarða) í formi íslenskra hjúkrunarfræðinga, af hverju geta Íslendingar þá ekki gert það sama og ráðið frá t.d. Norður-Ameríku eða einhverjum Evrópuríkjunum? Er þá verið að stíga á tær? Verða hjúkkur að vera íslenskar - bæði á Íslandi og í Noregi? 


mbl.is Þolinmæðin á þrotum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave-málið í hundraðasta veldi

Skattgreiðendur í Evrópu eiga nú við mál sem má kannski líkja við Icesave-málið á Íslandi, nema í hundraðasta veldi. Þeim er sagt að nema þeim blæði og blæði til að borga undir eyðslu og skuldir annarra - jafnvel banka og heilu ríkjanna - þá fari allt í kalda kol. Íslendingar hrintu sem betur fer af sér slíkum hræðsluáróðri, þvert á vilja ráðandi afla. Spurningin er hvort íbúum Evrópusambandsins takist það líka.

Íslendingum var sagt að lánstraust þeirra myndi aukast við að taka á sig auknar skuldbindingar vegna Icesave - öfugmæli í besta falli. Evrópubúum er sagt að þeirra hagur sé betri með því að hafa grískar skuldir á bakinu - svipuð öfugmæli það.

Grikkland er auðvitað gjaldþrota fyrir löngu og fjármagnar nú afborganir með nýjum lántökum. Skuldbindingar gríska ríkisvaldsins eru miklu, miklu, miklu meiri en það ræður nokkurn tímann við. Það er bara spurning um tíma hvenær Grikkir verða skornir úr snörunni og hvenær gríska ríkisvaldið verður lýst formlega gjaldþrota. Spurningin er bara hvað á að kreista mikið úr vösum skattgreiðenda utan Grikklands áður en sá dagur rennur upp.

Evran mun sennilega styrkjast við brotthvarf Grikkja.


mbl.is Weidmann: Evran mun ekki falla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkfallsrétturinn er veittur af ríkinu og ríkið getur hirt hann aftur

Hinn svokallaði réttur til að fara í verkfall er eitthvað sem ríkisvaldið veitir með lögum og getur hirt með öðrum lögum. Hann er bundinn við ákveðin félög sem njóta ákveðinna forréttinda. Aðrir hafa ekki sama rétt, ef rétt skal kalla.

Þetta er auðvelt að skýra.

Segjum að maður sem ekki er skráður í verkalýðsfélag ákveði að sitja heima í stað þess að mæta í vinnuna því hann er óánægður með launin sín. Líklega má þessi maður eiga von á uppsagnarbréfi eftir nokkra daga af því að sitja heima og horfa á sjónvarpið eða labba um miðbæinn með skilti í hendinni.

Annar maður er í verkalýðsfélagi sem hefur boðað við verkfalls og hafið það samkvæmt bókstaf laganna um slíka aðgerð. Hann er ekki hægt að reka á meðan verkfallið fylgir fyrirmælum laganna. Hann getur sleppt því að mæta í vinnuna en þarf ekki að óttast uppsagnarbréfið. Löggjafinn hefur veitt honum heimild til þess. Löggjafinn hefur meinað atvinnuveitanda að losa sig við hann og ráða einhvern annan í staðinn sem er viljugur til að mæta í vinnuna.

Á sama hátt og löggjafinn hefur veitt sérstaka heimild til að meina uppsögn á manni sem mætir ekki í vinnuna getur löggjafinn tekið þá heimild aftur. Að gleyma því er að gleyma sér í gleðinni - að vilja bæði forréttindin og bann við því að þau forréttindi séu dregin til baka.

Verkfallsrétturinn svokallaði er engin réttur. Hann er forréttindi og lögboðin mismunun, rétt eins og þau forréttindi stjórnmálamanna að geta ekið um á bílum í boði skattgreiðenda, og forréttindi ákveðinna stétta á Íslandi að vera í skjóli frá samkeppnislögmálum hins frjálsa markaðar. 


mbl.is Var boðin 20% hækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta skref: Bjóða allan ríkisreksturinn út

Nú stefnir í að ríkisvaldið ætli að hætta að verja vinnu fólks sem mætir ekki til vinnu. Þeir sem vilja ekki mæta í vinnu eftir það eiga þá loksins á hættu að vera sagt upp störfum og að í staðinn sé ráðið fólk sem mætir í vinnuna.

Gott og blessað allt saman.

Næsta skref hlýtur að vera að fyrirbyggja að svona lagað komi upp aftur. Margar leiðir eru til þess. Ein er sú að bjóða upp allan þennan ríkisrekstur til verktaka sem fá borgað samkvæmt þjónustusamningum. Svíar gera þetta að einhverju leyti í sinu heilbrigðiskerfi. Meðhöndlun sjúkdóma er sett upp í verðskrá og verkin síðan boðin upp til einkaaðila.

Önnur leið er að einkavæða heilbrigðiskerfið og önnur eins svið ríkisrekstursins, snarlækka skatta, sópa aðgangshamlandi reglugerðum í burtu og koma þessari þjónustu á hinn frjálsa markað við hlið augnlækninga, lýtalækninga og annarra lækninga sem ríkisvaldið hefur af mikilli náð sinni ekki einokað.

Hjúkrunarfræðingar eru vel menntaðir og að jafnaði harðduglegir einstaklingar og núverandi fyrirkomulag gerir lítið úr þeim. Í 90% tilvika þarf ekki lækni með 10 ára sérnám á bakinu til að meðhöndla sjúkdóma og kvilla. Þetta geta hjúkrunarfræðingar gert. Þeir geta gert lækna óþarfa á mörgum sviðum. 

Læknar gætu á móti fengið meiri tíma til að sinna sérhæfingunni sinni og orðið betri í henni, náð betri þjálfun, dýpkað þekkingu sína og meðhöndlað fleiri betur.

Núverandi kerfi ríkiseinokunar gengur út á að allt eigi að vera eins og það er í dag - að reglugerðirnar endurspegil besta hugsanlega fyrirkomulagið eins og opinberir embættismenn sjá það fyrir sér. Er það virkilega allur metnaður Íslendinga þegar kemur að lækningu sjúkdóma og kvilla af ýmsu tagi? 

 


mbl.is Sigurður Ingi flytur frumvarpið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband