Næsta skref: Bjóða allan ríkisreksturinn út

Nú stefnir í að ríkisvaldið ætli að hætta að verja vinnu fólks sem mætir ekki til vinnu. Þeir sem vilja ekki mæta í vinnu eftir það eiga þá loksins á hættu að vera sagt upp störfum og að í staðinn sé ráðið fólk sem mætir í vinnuna.

Gott og blessað allt saman.

Næsta skref hlýtur að vera að fyrirbyggja að svona lagað komi upp aftur. Margar leiðir eru til þess. Ein er sú að bjóða upp allan þennan ríkisrekstur til verktaka sem fá borgað samkvæmt þjónustusamningum. Svíar gera þetta að einhverju leyti í sinu heilbrigðiskerfi. Meðhöndlun sjúkdóma er sett upp í verðskrá og verkin síðan boðin upp til einkaaðila.

Önnur leið er að einkavæða heilbrigðiskerfið og önnur eins svið ríkisrekstursins, snarlækka skatta, sópa aðgangshamlandi reglugerðum í burtu og koma þessari þjónustu á hinn frjálsa markað við hlið augnlækninga, lýtalækninga og annarra lækninga sem ríkisvaldið hefur af mikilli náð sinni ekki einokað.

Hjúkrunarfræðingar eru vel menntaðir og að jafnaði harðduglegir einstaklingar og núverandi fyrirkomulag gerir lítið úr þeim. Í 90% tilvika þarf ekki lækni með 10 ára sérnám á bakinu til að meðhöndla sjúkdóma og kvilla. Þetta geta hjúkrunarfræðingar gert. Þeir geta gert lækna óþarfa á mörgum sviðum. 

Læknar gætu á móti fengið meiri tíma til að sinna sérhæfingunni sinni og orðið betri í henni, náð betri þjálfun, dýpkað þekkingu sína og meðhöndlað fleiri betur.

Núverandi kerfi ríkiseinokunar gengur út á að allt eigi að vera eins og það er í dag - að reglugerðirnar endurspegil besta hugsanlega fyrirkomulagið eins og opinberir embættismenn sjá það fyrir sér. Er það virkilega allur metnaður Íslendinga þegar kemur að lækningu sjúkdóma og kvilla af ýmsu tagi? 

 


mbl.is Sigurður Ingi flytur frumvarpið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Þetta er nú svolítil einföldun. Verkalýðsbarátta og launþegasamtök verða ekki lögð niður við einkavæðingu eða ef annað form verður á ríkisrekstri. Verktakinn hefur ekkert um það að segja hvaða félag starfsmaður er í og hvernig hann hagar afkomubaráttu sinni.

Félagafrelsi er bundið í stjórnarskrá. Þannig er það nú.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 12.6.2015 kl. 09:55

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er rétt að félagafrelsi er bundið í stjórnarskrá. Löggjafinn hefur hins vegar ákveðið að veita sumum félögum lagaleg forréttindi umfram önnur, sem heimila m.a. meðlimum þess að leggja niður störf án þess að atvinnurekendur geti ráðið aðra í stað þeirra eða rekið þá og skipt þeim út. Þau forréttindi eru ekki allra, og eitt skýrasta og grófasta dæmið um mismunun löggjafans eftir því hvaða félagaskirteini fólk er með í veskinu sínu. 

Geir Ágústsson, 12.6.2015 kl. 11:44

3 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Hvaða félögum hefur löggjafinn gefið lagaleg forréttindi umfram önnur? Geturðu bent á þetta skýra og grófa dæmi um mismunun löggjafans sem þú vísar til í athugasemd?

Erlingur Alfreð Jónsson, 12.6.2015 kl. 12:48

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Erlingur,

Það er margra grasa að kenna í lögum 80/1938, en ég tek dæmi af handahófi úr þeim lögum sem mér finnst benda til mismununar eða hreinlega kúgunar í þágu verkalýðsfélaga:

7. gr. Samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur eru ógildir að svo miklu leyti, sem þeir fara í bága við samninga stéttarfélags við atvinnurekandann, enda hafi félagið ekki samþykkt þá.

14. gr. Heimilt er stéttarfélögum, félögum atvinnurekenda og einstökum atvinnurekendum að gera verkföll og verkbönn í þeim tilgangi, að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum, og til verndar rétti sínum samkvæmt lögum þessum, með þeim skilyrðum og takmörkunum einum, sem sett eru í lögum.

18. gr. Þegar vinnustöðvun hefur verið löglega hafin, er þeim, sem hún að einhverju leyti beinist gegn, óheimilt að stuðla að því að afstýra henni með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga eða sambanda, sem að vinnustöðvuninni standa.

Geir Ágústsson, 12.6.2015 kl. 17:53

5 identicon

Þetta er útópía hjá þér varðandi heilbrigðiskerfið.

Þarf ekki meira en að líta til Bandaríkjanna. Margfalt meira "red tape", og er reksturinn miklu dýrari, og síðan kemur að alls kyns tryggingarveseni.
Þekki dæmi af vel menntuðum hjúkrunarfræðingi, þ.e barnsmóðir mín. Getur fengið margfalt hærri laun í Noregi.
Vandamálið snýst ekki bara um laun per se, heldur svo margt fleira. T.d. hvernig húsnæðiskostnaður er að buga marga sem keyptu þegar verðið var mjög hátt, þar er mikið af fólki sem er á aldrinum 30-40, og er með börn á framfæri. Allt í tenglsum við það hefur líka hækkað mikið, og svo er ýmislegt í tengslum við menntun, og velferð ekki til að hrópa húrra fyrir hér á landi

Á sama tíma er stefnan að nota skattpeningana til að hjálpa húsnæðiseigendum sem þurfa alls ekki á því að halda, þá út frá ömurlegasta rökstuðningi fyrr og síðar.

Síðan þegar ekkert svigrúm er til nokkurs hlut, þá er skattur á sjávarútveg sem hefur hagnast um 300-400 milljarða á órfáum árum, lækkaður.
Hver vill búa í svona bananaríki??

Fólk er einfaldlega komið með upp í kok á þessu.


Arnar H. (IP-tala skráð) 12.6.2015 kl. 18:40

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Kíktu frekar á Sviss eda Singapore. "Red tape" er litur ríkisafskipta.

Geir Ágústsson, 12.6.2015 kl. 20:25

7 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Að mínu viti snýst þetta ekki um peninga heldur starfsaðstöðu og vinnulag. Eina leiðin til að spara í heilbrigðiskerfinu hefur hingað til falist í að segja

upp fólki. Hinir hlaupa þá hraðar og nú er svo komið að þetta fólk er hlaupið upp að öxlum.


Þetta fólk er jafn þreytt hvort sem það fær 300 kall eða 1000 kall og jafn óánægt.


Vandamálið er fólgið í því að skilgreining vinnunar sem á að framkvæma, hvernig hún er framkvæmd og stjórnun fólks, er í molum. Það er lélegur stjórnandi sem

eykur pappírsvinnu á kostnað verkvinnu, þegar vinnan felst að verulegu leyti í að hreyfa og nota hendur. Það vantar ekki stofur né sjúklinga það vantar fólk

til þess að sjá um að hjúkra því og koma því á fætur. Það er ekki gert með því að hækka laun, það er gert með því að fjölga starfsmönnum.


Fyrirkomulag hjúkrunar og menntakerfið þar í kring er að éta sjálft sig upp. Það þarf að stokka upp fyrirkomulag menntunar og verklag inni á sjúkrahúsum. Án þess gerist nákvæmlega ekki neitt í þessum málum, annað en að hnignunin verður að hruni.


Er eitthvað vit í því að vera á bakvakt hálft árið? Bakvakt í dag er í raun framlenging á vinnunni, það er engin bakvakt það er stanslaust útkall. Það sér hver heilvita maður að þetta er rugl og fólk sem vinnur við svona aðstæður brennur upp eins og þurr sina fyrir eldi, alveg sama hvað það fær í kaup.

Kauphækkun ríkisstarfsmanna verður ekki tekin neinsstaðar annarstaðar en með sköttum á hinn almenna launþega. Ríkið borgar ekki laun, það lætur aðra gera það.

Sindri Karl Sigurðsson, 12.6.2015 kl. 20:25

8 Smámynd: Geir Ágústsson

En varðandi hið bandaríska heilbrigðiskerfi þá er hérna örstutt grein sem aflífar flestar goðsagnir:

http://www.visir.is/hid-dyra-heilbrigdiskerfi-i-bandarikjunum/article/2014709129995

Hvað hitt varðar: Þeir eru fáir sem muna eftir sjávarútvegi á ríkisstyrkjum. Kannski er það gott, kannski ekki. 

Svo er það auðvitað sjaldan nefnt að peningar í vösum þeirre sem þeirra afla eru ekki endilega verr nýttir en í vösum þeirra sem afla þeirra ekki, hvort sem eyðsluseggurinn er stjórnmálamaður eða innbrotsþjófur. 

Geir Ágústsson, 12.6.2015 kl. 20:38

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Sindri,

Takk fyrir áhugaverðar hugleiðingar! Get fyrir mitt leyti, sem verkfræðingur í einkageiranum, sagt, að það veitir fátt meiri ánægju en að geta gert betur í dag en í gær, og að geta vonast til að verðmætasköpun mín sjáist í hagnaðartölum atvinnuveitandans, sem getur svo hækkað laun í kjölfarið og um leið laðað að sér fleiri viðskiptavini því hjá mér fæst mest fyrir minnst. Ég óska öllum sömu hvata í sínum daglega vinnudegi. 

Geir Ágústsson, 12.6.2015 kl. 20:41

10 identicon

Geir,

 Ertu að grínast með þessa grein..?

Heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum er einfaldlega það dýrasta á byggðu bóli, og er að mestu rekið af einkageiranum. Hvaða bull er í þér. Ég er ekkert með eða á móti ríkisrekstri. Einfaldlega að benda á að líklega myndum við vera með töluvert dýrara kerfi ef það væri einkavætt.
Einkavædda kerfið í dag er að fleyta rjómann af kostnaðarhagkvæmi. Þeir geta rekið þetta með það í huga að ríkið tekur yfir í flestum tilfellum er illa fer. Ekki gleyma líka að við þurfum að senda fullt af sjúklingum erlendis, sem kostar gríðarlega fjármuni. Það mun t.d. bara aukast við einkavæðingu. 
  Hjúkrunarfræðingar t.a.m. í Bandaríkjunum er með töluvert hærra kaup en hérna heima. Í rauninni er það heilbrigðisstarfsmönnum í hag að mestu leyti að einkavæða heilbrigðiskerfið.


Þannig að þú réttlætir gjafakvóta með ríkis og byggðarstyrkjum fortíðar! 
Þetta verður illskiljanlegra hjá þér með hverju innleggi!!
  Stór hluti af kostnaði heilbrigðiskerfisins er vegna mjög smárra eininga út á landi. Stærðarhagkvæmnin er öll hérna á höfuðborgarsvæðinu. Menntakerfið er síðan annað dæmi.

Vandamálið er að þetta er handónýt ríkisstjórn, og þetta segi ég sem hægri maður. Fullkomlega handónýtur "forsætisráðherra".


Arnar H. (IP-tala skráð) 12.6.2015 kl. 21:54

11 Smámynd: Sigurður Antonsson

Baráttumaður á Alþingi fyrir atvinnurekstrinum í landinu flytur frumvarpið. Er það ekki atvinnureksturinn sem stendur undir opinbera kerfinu. Mörg fyrirtæki greiða yfir hálfa milljón á mánuði í skatta og gjöld á hvern starfsmann sem þeir hafa í vinnu.

Ef opinberir starfsmenn ætla að fara fram úr öðrum í launakröfum þýðir það hærri vexti og aukna verðbólgu. Vítahringur sem við höfum ekki komist út úr. Læknar höfðu dregist aftur úr, en hjúkrunarfræðingar ekki meir en aðrir.

Heilbrigðiskerfið er ofvaxið eins og annað sem er niðurgreitt. Ef menn hugsuðu meira um heilsuna og hollt fæði væri það ekki eins stórt og raun ber vitni.

Laun í Noregi eru hærri en verðlag líka. Vextir mun lægri og það skiptir mestu fyrir ungt fólk sem vill eignast sitt eigið húsnæði.

Mestu skiptir að opinberar stofnanir vinni vinnu sína og opinberar stofur bólgni ekki út. Eru ekki nokkri tugir lögfræðinga hjá útlendingastofnun? Hverja er hún að verja með skrifmennsku, halda landinu hreinu fyrir flóttamönnum og útlendingum sem gætu unnið hjá útflutningsgreinum?

Oft verður maður agndofa af furðulegum spurningum vinstri þingmanna á Alþingi: "  6. Telur ráðherra að fjölgun starfsmanna og stöðugilda hjá a) Útlendingastofnun, b) ráðuneytinu geti þýtt lægri útgjöld fyrir ríkissjóð og skilvirkari og réttlátari málsmeðferð fyrir hælisleitendur?

Vinstrimenn eru ekki þeir einu sem vilja viðhalda kerfinu. Nær allir þingmenn eru sammála um að stækka kerfið, en tala eins og þeir vilji halda útgjöldum í skefjum. 

Ítalir tóku við fleiri flóttamönnum á einu ári en allir Íslendingar. Þeir hafa ekki verið sendir heim og stunda þjónustustörf sem aðrir vildu ekki á Ítalíu. Landhelgisgæslan stóð sig vel í að bjarga þeim úr Miðjarðarhafinu. Fékk vel greitt fyrir viðvikið, en engin flóttamanna fékk hæli á Íslandi. Evrópuþjóðir og óvæntir flóttamenn frá hrjáðum Afríkuþjóðum juku tekjur Landhelgisgæslunnar. Er það framtíðin að gera út vesöld annarra?  

Opinberum starfsmönnum í menntastétt fjölgar hjá því opinbera, meira en hjá atvinnurekstrinum. Er það sem við viljum? Mér finnst Geir tala af hreinskilni um þessa hluti og segja margt sem aðrir þora ekki að nefna. 

Sigurður Antonsson, 13.6.2015 kl. 01:28

12 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Slorsporður kemur þessu máli ekkert við. Þú kemur einfaldlega upp um þig og þína þanka með því að tengja saman slor við alls óskylda hluti.

Veiddu þinn fisk og haltu heilsunni, þú þarft ekki á hjálp að halda við það.

Sindri Karl Sigurðsson, 13.6.2015 kl. 01:53

13 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Sá einkarekstur sem er í heilbrigðisgeiranum er að mestu ríkirekinn. Tekjurnar koma svo til allar frá ríkissjóði eftir því sem ég skil hlutina. Ég held að svona rekstur geti að einhverju leiti verið blandaður rekstur. Þeir sem reka t.d. heilsugæslu geta ef til vill sparað og haft betri tök á reksrinum, en til að geta haft meiri tekjur verða þeir að innbyrða fleiri sjúklinga pr. dag og þá gætu gæðin orðið hornreka.

Ég er nærri því að komast á þá skoðun þó hún sé ekki vinsæl, að einkarekin heilbriðgisþjónusta verði í raun einkavædd og það kæmi þá í ljós hvernig hún ,,plummaði" sig. Þeir sem ættu peninga borgðuð og væru þá ekki fyrir almúganum á biðstofum. það væri þá meir til skipta á hina. Þeir gætu fengið smá skattafslátt sem væri þá hugsaður sem hvati.

Þetta er víst voða ljótt að segja þetta og ég veit ekki hvort ég get verið með þessa skoðun lengur en fram yfir hádegi.

En vissulega þarf að ræða þessi mál og komast að sem bestri niðursöðu sem nýtir fjármuni sem best og eykur gæði og skilvirkni.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 13.6.2015 kl. 12:10

14 identicon

Rúnar Vilhjálmsson prófessor hefur upplýst að rannsóknir hafi leitt í ljós að ríkisrekstur heilbrigðiskerfisins veiti besta þjónustu og sé auk þess hagkvæmastur.

Skoðanakannanir hafa sýnt að mikill meirihluti kjósenda vill ríkisrekstur á heilbrigðiskerfinu. Það er því ekkert sem mælir með að einkarekstri eða einkavæðingu.

Þeir sem tala fyrir einkarekstri eða einkavæðingu sjá fyrir sér leið til að hagnast. Þessi hagnaður er aukakostnaður sem gerir þjónustuna dýrari.

Þrýstingur á að fá fram sem mestan hagnað kemur fram í sparnaði sem gerir þjónustuna verri. "Óþarfi" er ekki lengur leyfður.  

Það dregur einnig úr hagkvæmninni að dreifa kröftunum með ótal starfsstöðvum. Almenningur borgar brúsann hvort sem það er með auknu framlagi úr ríkissjóði eða greiðslum úr eigin vasa. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 13.6.2015 kl. 21:22

15 Smámynd: Geir Ágústsson

Til þeirra sem boða ríkiseinokun: Ef hún er svona rosalega hagkvæm af hverju þá ekki að biðla til yfirvalda um að einoka líka sölu á skóm, gleraugum, klippingum, nautasteikum og smurolíuskiptum? Um leið má leggja Samkeppniseftirlitið niður. Það kostar jú sitt. Lagasafnið mætti líka einfalda með því að banna einfaldlega starfssemi annarra en ríkisins, eða óbeint banna með því að hækka skatta og hirða þannig fé sem færi annars í rekstur einkaaðila. 

Ríkiseinokun á sér marga stuðningsmenn. Ég geri mér grein fyrir því. En hið sama gilti um einvalda miðalda, þrælaverslun og aðrar sögulegar minjar ríkisvaldsins sem tókst nú samt að brjóta á bak aftur. 

Geir Ágústsson, 14.6.2015 kl. 08:58

16 identicon

Það er eðlilegt að ríkið standi fyrir þeim rekstri sem það hvort sem er kostar að mestu eða öllu leyti. Ríkið kostar ekki skókaup almennings.

Aðalatriðið er að rekstrarformið tryggi að menn fái sem besta þjónustu fyrir sem minnst fé. Reynslan sýnir að opinber rekstur á verkefnum hins opinbera er oftast bestur og hagkvæmastur.

Opinber rekstur tryggir einnig meiri jöfnuð. Ef einkarekstur heilbrigðis- og menntakerfisins eykst mikið mun þjónustan í opinbera kerfinu óhjákvæmilega versna.

Annars er munur á því hvort reksturinn er í höndum starfandi lækna eða kennara annars vegar eða fjárfesta hins vegar. Fjárfestar ógna stöðugleikanum vegna þess að þeir geta farið út úr greininni með litlum fyrirvara. Þeir hafa engar skyldur gagnvart almenningi.

Reynslan af einkarekstri fasteigna fyrir starfsemi opinberra aðila er slæm. Sérstaklega fór Reykjanesbær illa út úr slíku fyrirkomulagi. Það segir sína sögu að oft er aðeins gripið til einkavæðingar fasteignareksturs í neyð sbr Reykjanesbær og OR.

Reynslan af einkavæðingu orkufyrirtækja og lestasamgangna erlendis er afleit. Þjónustan hefur versnað og hækkað í verði. Eftir hrunið á Thatscherisminn sér ekki lengur viðreisnar von.. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 14.6.2015 kl. 10:16

17 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásmundur,

Er eitthvað sem ríkisvaldið á Íslandi gerir í dag sem þér finnst óþarfi að starfi í umhverfi ríkiseinokunar og mætti jafnvel heima á hinum frjálsa markaði?

Geir Ágústsson, 14.6.2015 kl. 22:11

18 identicon

Nei, en ríkisvaldið ætti að stokka upp landbúnaðarkerfið og koma þar á samkeppni. Ef íslendingar eiga að greiða niður lambakjöt og aðrar landbúnaðarvörur til útlendinga þurfum við að geta notið niðurgreiðslu erlendra ríkja á þeirra landbúnaðarvörum í meiri mæli án tolla.

Ríkið þarf að aflétta einokun fáeinna vildarvina á fiskveiðiauðlindinni. Að gefa á hverju ári ríkasta fólki landsins milljarða af eign þjóðarinnar er að mínu mati glæpsamlegt.

Ríkið á að hætta allri fyrirgreiðslu til erlendra auðhringja í formi gjafverðs á orku, skattalækkana, byggingu hafna, vegagerðar ofl. Það á þegar í stað að gefa út yfirlýsingu um að ekki verði byggð fleiri álver á Íslandi. Við erum ekki vanþróað ríki.

Ríkisvaldið verður að átta sig á að sem höfuðborg landsins er Reykjavík miðstöð stjórnsýslu. Opinberar stofnanir eiga því að vera hér eða i nágrannasveitarfélögunum nema í algjörum undantekningartilvikum.

Ríkisstofnanir sem landsmenn þurfa að leita til eiga hvergi heima nema í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu. Það á einnig við um stofnanir með sérhæft starfsfólk sem hörgull er á annars staðar. Að veikja stofnanir í nafni byggðastefnu er fráleitt.

Fleira mætti telja til en ég læt þetta nægja.

Ásmundur (IP-tala skráð) 15.6.2015 kl. 00:12

19 Smámynd: Geir Ágústsson

Athyglisvert. Þú vilt sem sagt sterkt og öflugt og umsvifamikið ríkisvald, sem er að meginefni til mjög miðlægt staðsett í höfuðborginni, en þar sem það lætur stóra og sterka hagsmuni einkaaðila og náinna skjólstæðinga ríkisvaldsins ekki njóta neinna fyrirgreiðslna eða njóta góðs af pólitískum fyrirgreiðslum.

Good luck with that.

Við erum vitaskuld, og eins og margoft hefur komið fram, á algjörlega öndverðum meiði hér. Ég sé ríkisvaldið sem vandamálið og ríkiseinokun sem óendanlega uppsprettu spillingar og sértækra aðgerða sem eiga að höfða til hinna og þessara hópa kjósenda (t.d. þeirra sem þiggja meira úr ríkissjóði en þeir leggja til hans) og/eða sterkra hagsmunaaðila (t.d. bankanna).

Ég sé ríkisvaldið sem illkynja æxlið sem vandamál sem þarf að skera af, en ekki líkamshlut sem þarf að rækta en um leið hafa stjórn á. 

Skal fúslega viðurkenna að fólk með þína sýn hefur yfirhöndina í dag, en læt það nú ekki draga úr mér, hvað sem líður skoðanakönnunum og "almennri skynsemi" og hvað það nú er sem er notað til að réttlæta tilvist æxlisins. 

Bestu kveðjur, hvað sem því líður. 

Geir Ágústsson, 15.6.2015 kl. 15:35

20 identicon

"Fólk með mína sýn" hefur því miður ekki yfirhöndina i dag. Þess vegna er ástandið eins og það er og þess vegna eru lífskjör hér miklu verri en annars staðar á Norðurlöndunum.

Þar eru hagsmunirnir vegnir og metnir og þess gætt að meiri hagsmunum almennings sé ekki fórnað fyrir minni hagsmuni sérhagsmunahópa.

Ásmundur (IP-tala skráð) 15.6.2015 kl. 19:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband