Bloggfærslur mánaðarins, júní 2015

Vona að hún hafi rétt fyrir sér

Rík­is­valdið hef­ur ekki áhuga að meta mennt­un til launa né að halda í sér­fræðinga í op­in­berri þjón­ustu.

Þetta segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM og Samfylkingarkona, en hún er einmitt stjórnmálafræðingur að mennt og krefst væntanlega launa til samræmis við þá verðmætaskapandi þjálfun sína í skólakerfinu.

Það eina sem á að vera metið til launa er verðmætasköpun. Þetta á ríkisvaldið erfitt með að gera og á því að hafa sem fæsta í vinnu. Hvað varðar sérfræðinga í opinberri þjónustu þá eiga helst engir slíkir að finnast. Allt sem þeir gera í dag gætu þeir gert sem starfsmenn einkafyrirtækja í samkeppnisrekstri eða í einstaka tilvikum sem verktakar hjá hinu opinbera.

Ég vona að Þórunn hafi rétt fyrir sér - að það sé einlæglega enginn áhugi hjá ríkisvaldinu að meta menntun til launa og halda í sérfræðinga í opinberri þjónustu.


mbl.is „Ríkisvaldið hefur ekki áhuga að meta menntun til launa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar fréttir

Skattalækkanir eru alltaf góð hugmynd. Skattalækkun er að mörgu leyti misskilin í umræðunni. Oft er talað um skattalækkanir eins og þær séu fé sem leiki lausum hala, valdi verðbólgu og sóun og nýtist illa. Það er rangur skilningur. Peningunum verður alltaf eytt, hvort sem þeir verða eftir í vasa þeirra sem öfluðu þeirra eða skríði yfir í fjárhirslur hins opinbera og þaðan út. Spurningin er bara hvor eigi að eyða verðmætunum: Þeir sem öfluðu þeirra, eða þeir sem hirtu þau í gegnum skattkerfið?

Bjarni Benediktsson er að koma sterkur til leiks þessar vikurnar. Hann svarar fyrir sig og boðar mikilvæg grundvallarmál og talar jafnvel tæpitungulaust. Haldi hann þessu áfram má búast við að fylgið við flokkinn hans byrji að skríða upp á við. Einhverjir gætu fagnað því.


mbl.is Boðar skattalækkanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þverpólitísk sátt veit ekki á gott

Þegar stjórnmálamenn úr öllum flokkum verða sammála um eitthvað veit það yfirleitt ekki á gott. Yfirleitt er aldrei þverpólitísk samstaða um neitt á Íslandi nema hærri skatta, aukin útgjöld og fleiri boð og bönn.

Eftir 2 ár við völd tekur ríkisstjórnin núna "fyrsta skref" við afnám gjaldeyrishafta. Það er lélegur árangur og ákveðið hættumerki um lítinn viljastyrk í málinu.

Fyrsta skrefið er tekið með þverpólitískri sátt. Það næsta hættumerki. Þegar boð og bönn hafa verið sett eða á þeim hert tekur oft langan tíma að taka skrefið til baka eða skref út úr bannumhverfinu.

Þriðja hættumerkið er skortur á dagsetningum á "næsta skrefi", nema eitthvað hafi farið framhjá mér.

Fjórða hættumerkið er að kosningar til Alþingis eru eftir lítil tvö ár. Ef höftin yrðu tekin úr sambandi strax í dag er fyrirsjáanlegt að einhver óþægindi fylgi því, t.d. í formi lækkandi gengis og hærri verðbólgu sem kallar á hærri vexti. Tvö ár eru ekki mikill tími til að láta afleiðingar hafta ganga yfir og kannski ekki nægur til að koma á eðlilegu ástandi í hagkerfinu og þar með gefa ríkisstjórnarflokkunum tíma til að herja á kjósendur. Það er því hætta á að engin fleiri skref verði tekin á þessu kjörtímabili, og að hin hertu boð og bönn standi því óhögguð næstu 2 árin og jafnvel lengur.

Ég sé margar ástæður til að vera tortrygginn á meint afnám hafta. Ég óttast að kverkatak haftanna hafi verið varanalega hert. 


mbl.is Hert á höftum til að losa um höft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofjöfnuður á Íslandi

Mig langar til að búa til nýtt orð: Ofjöfnuður.

Ofjöfnuður er það þegar tekjujöfnuður er orðinn slíkur að hann fer að eitra út frá sér: Kæfa hvata til að skara fram úr, hvetja fólk til að draga lappirnar og leggja sem minnst á sig, og draga alla niður á sama planið.

Ísland fer að nálgast stig ofjöfnuðar. Það kemur meðal annars fram í þessari frétt og þessari. Jöfnuður á Íslandi er orðinn varhugaverður.

Úr annarri fréttinni:

Árið 2014 voru 11,1% á Íslandi undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun en það er lægsta hlutfall sem mælst hefur í lífskjararannsókninni. Árið 2013 var þetta hlutfall lægst á Íslandi en næst komu Noregur, Tékkland og Holland.

Nú eru þeir margir á Íslandi sem kalla sig jafnaðarmenn og vilja jöfnuð af ýmsu tagi (jöfn tækifæri, jöfn laun, jöfn laun fyrir sömu vinnu, jöfn laun leiðrétt fyrir menntun og áreynslu og hvaðeina, jöfnun menntunar, jöfn kynjahlutföll í útvöldum atvinnugreinum og svo framvegis og svo framvegis). Alltaf skal taka tillit til sjónarmiða þeirra og nú hefur það verið gert í svo miklum mæli að í óefni stefnir. Háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn eru hreinlega komnir í kjarabaráttu til að auka ójöfnuð og er þá mikið sagt því þeir fylla oftar en ekki flokk jafnaðarmanna. 

Nú er það ekkert kappsmál fyrir mig að ójöfnuður sé mikill eða lítill eða hvaðeina. Jöfnuður í mínum huga er ekki takmark heldur niðurstaða sem á að ráðast af frjálsum samskiptum og viðskiptum einstaklinga og fyrirtækja þeirra. Ef Bill Clinton kemur til Íslands til að halda ræðu, og fær milljón dollara fyrir greiðann sem eingöngu eru afrakstur miðasölu á ræðu hans, þá verður hann ríkari og aðrir ekki og ójöfnuður hefur aukist, en sem afleiðing af frjálsum viðskiptum. Við það er ekkert að athuga. Óréttlæti verður fyrst til ef ríkisvaldið sýgur fé úr vösum skattgreiðenda og dælir ofan í vasa Bill Clinton, sem heldur síðan ræðu fyrir tómum sal eða sal fullum af ríkisstarfsmönnum og útvöldum vinum hins opinbera með boðsmiða.

Jöfnuður er samt drifkraftur, rétt eins og flæði varmaorku frá heitum stað til kalds. Ef loftið er volgt í öllu herberginu og hvergi hitauppspretta að hamast við að leggja sitt af mörkum er mjög lítil hreyfing á loftinu, og á endanum kólnar allt.  


Bandalag atvinnulausra menntamanna

Bandalag háskólamanna, BHM, verður bráðum bandalag atvinnulausra menntamanna - BAM. Nú hljóta yfirvöld að vera skoða hvar starfsmenn á vegum BHM leynast í kerfinu og hugleiða hvernig má koma þeim stöðugildum út á hinn frjálsa markað.

Þeir sjá t.d. um að þinglýsa húsnæði en svoleiðis verkefni má leysa með tölvum í dag. Þeir sjá um að votta ýmislegt í tengslum við húsdýrahald en það er bara eftirlit sem hinn frjálsi markaður getur alveg sinnt og gerir raunar á mörgum sviðum nú þegar. Þeir sýsla með allskyns opinbera pappíra, eins og vegabréf og ökuskírteini, sem eru í 99% tilvikum bara formsatriði sem faglært skrifstofufólk getur alveg séð um.

BHM er að berjast fyrir því að launabilið á milli þeirra og ómenntaðra sé áfram mikið svo þeim líði eins og menntun þeirra hafa skilað þeim miklum ábata. Gott og vel. Ekki einu sinni svokallaðir jafnaðarmenn hafa neitt út á þessa baráttu fyrir auknum ójöfnuði að setja. Meðlimir BHM hætta hins vegar á að mála sig út í horn og sjá hlýju og þægilegu innivinnuna hjá ríkinu færast út á hinn kappsama og frjálsa samkeppnismarkað þar sem greitt er fyrir árangur og verðmætasköpun en ekki fyrir að líta vel út með skólaplaggið hangandi upp á vegg í ramma.  


mbl.is Ríkið á í sýndarviðræðum við BHM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær hugmynd!

"Lögleg opnun á uppskiptingu sveitarfélaga, og afnám á lagaboðum á rekstur slíkra eininga, er hugmynd sem hefur marga kosti. Hún stuðlar að samkeppni milli sveitarfélaga: Hámarksþjónusta fyrir lágmarksverð. Hámark af eftirsóttri þjónustu og lágmark af allri hinni. Þeir sem vilja borga fúlgu í útsvar og fá niðurgreidda leikskólavist geta sameinast í eitthvert sveitarfélagið sem bíður slíka snákaolíu. Þeir sem vilja niðurgreiða áfengisdrykkju atvinnulausra geta sameinast innan sveitarfélags og borgað slíkan lúxus án þess að þvinga aðra í veisluna."

Úr greininni "Í átt að smærri stjórnunareiningum", sumarhefti Þjóðmála 2014, bls. 39 (viðhengd þessari færslu).

 


mbl.is Viltu að Reykjavík verði borgríki?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband