Ofjöfnuður á Íslandi

Mig langar til að búa til nýtt orð: Ofjöfnuður.

Ofjöfnuður er það þegar tekjujöfnuður er orðinn slíkur að hann fer að eitra út frá sér: Kæfa hvata til að skara fram úr, hvetja fólk til að draga lappirnar og leggja sem minnst á sig, og draga alla niður á sama planið.

Ísland fer að nálgast stig ofjöfnuðar. Það kemur meðal annars fram í þessari frétt og þessari. Jöfnuður á Íslandi er orðinn varhugaverður.

Úr annarri fréttinni:

Árið 2014 voru 11,1% á Íslandi undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun en það er lægsta hlutfall sem mælst hefur í lífskjararannsókninni. Árið 2013 var þetta hlutfall lægst á Íslandi en næst komu Noregur, Tékkland og Holland.

Nú eru þeir margir á Íslandi sem kalla sig jafnaðarmenn og vilja jöfnuð af ýmsu tagi (jöfn tækifæri, jöfn laun, jöfn laun fyrir sömu vinnu, jöfn laun leiðrétt fyrir menntun og áreynslu og hvaðeina, jöfnun menntunar, jöfn kynjahlutföll í útvöldum atvinnugreinum og svo framvegis og svo framvegis). Alltaf skal taka tillit til sjónarmiða þeirra og nú hefur það verið gert í svo miklum mæli að í óefni stefnir. Háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn eru hreinlega komnir í kjarabaráttu til að auka ójöfnuð og er þá mikið sagt því þeir fylla oftar en ekki flokk jafnaðarmanna. 

Nú er það ekkert kappsmál fyrir mig að ójöfnuður sé mikill eða lítill eða hvaðeina. Jöfnuður í mínum huga er ekki takmark heldur niðurstaða sem á að ráðast af frjálsum samskiptum og viðskiptum einstaklinga og fyrirtækja þeirra. Ef Bill Clinton kemur til Íslands til að halda ræðu, og fær milljón dollara fyrir greiðann sem eingöngu eru afrakstur miðasölu á ræðu hans, þá verður hann ríkari og aðrir ekki og ójöfnuður hefur aukist, en sem afleiðing af frjálsum viðskiptum. Við það er ekkert að athuga. Óréttlæti verður fyrst til ef ríkisvaldið sýgur fé úr vösum skattgreiðenda og dælir ofan í vasa Bill Clinton, sem heldur síðan ræðu fyrir tómum sal eða sal fullum af ríkisstarfsmönnum og útvöldum vinum hins opinbera með boðsmiða.

Jöfnuður er samt drifkraftur, rétt eins og flæði varmaorku frá heitum stað til kalds. Ef loftið er volgt í öllu herberginu og hvergi hitauppspretta að hamast við að leggja sitt af mörkum er mjög lítil hreyfing á loftinu, og á endanum kólnar allt.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband