Þegar skattgreiðslurnar fara í raun og veru í þjónustu

Skattar eiga að standa undir opinberri þjónustu. Þó er það sjaldnast svo að menn fá allt það ríkisvald og þeir borga fyrir. Sem betur fer segja sumir og fagna því að ríkisvaldið er oft upptekið af því einu að elta eigið skott og lætur þá aðra í friði á meðan. Því miður segja aðrir því öll þessi skattheimta dugir ekki einu sinni til að fá nauðsynlega þjónustu.

Ég bý í Danmörku og hef búið í tveimur sveitarfélögum með börn og aldrei orðið var við neinar lokanir yfir lengri tíma. Það er því hægt að plana sín frí án þrýstings frá leikskólanum. Á sumrin eru vissulega tímabil með fáum börnum á stofunni en þá er stofum og jafnvel heilu leikskólunum bara slegið saman. En það er alltaf eitthvað úrræði í boði, líka milli jóla og nýárs fyrir þá sem þurfa. Og að sjálfsögðu! Nógu mikið er nú borgað í bæði skatta og leikskólagjöld og það er lágmark að það veiti ákveðinn sveigjanleika fyrir fjölskylduna.

Íslendingar eru latir að heimta sína þjónustu frá hinu opinbera. Sumarlokanir eru alveg frábært dæmi. Hérna ætti fólk að hafa staðið í lappirnar fyrir löngu síðan. Auðvitað eru sumarlokanir mjög heppilegar fyrir hið opinbera og starfsfólkið en á viðskiptavinurinn ekki að vera í forgangi? Fjölskyldur með fyrirvinnur, í störfum þar sem þarf stundum að vinna þótt flestir séu í fríi?

Í Hafnarfirði eru menn greinilega að leggja mikið á sig til að varðveita grunnþjónustuna en um leið að hægja á skattheimtunni og grynnka á skuldunum. Það er til fyrirmyndar. Geta kjósendur ekki stuðlað að svipuðum viðhorfum í Reykjavík, svo dæmi sé tekið?


mbl.is Leikskólar í Hafnarfirði opnir allt sumarið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Auðvitað eru sumarlokanir mjög heppilegar fyrir hið opinbera og starfsfólkið ..." 
Af hverju ætti starfsfólkið að vera ánægt með að vera þvingað í sumarfrí á á ákveðnum tíma rétt eins og forelrarnir?

Haukur (IP-tala skráð) 13.2.2020 kl. 10:06

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er kannski ekki tilfellið. Hvar get ég lesið um ósætti starfsfólksins yfir slíku fyrirkomulagi?

Geir Ágústsson, 13.2.2020 kl. 10:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband