Skattar og reglur auka samþjöppun

Samkeppni er mikilvæg, ekki satt?

Samkeppni tryggir aðlögun, hagkvæmni, endurnýjun og virðingu fyrir vilja neytenda. 

Samkeppni eyðir óþarfa, hreinsar út og tekur til.

Ekki satt?

Þess vegna er mikilvægt að reka skilvirkt samkeppniseftirlit, ekki satt? Eftirlit sem kemur í veg fyrir fákeppni, samráð og einokunartilburði, ekki satt?

Já, allt hljómar þetta rétt.

En um leið og ríkið leggur áherslu á samkeppni og eftirlit með henni heldur það úti skatta- og reglugerðarumhverfi sem kemur í veg fyrir aðlögun, hagkvæmni, endurnýjun og virðingu fyrir vilja neytenda, sem og varðveitir óþarfa og kemur í veg fyrir úthreinsun og tiltekt. 

Hver einasta reglugerð vegur miklu meira í pyngju þess litla en þess stóra. Hver einasti skattur vegur þyngra í pyngju þess litla en þess stóra. Stórfyrirtæki hafa beinlínis stutt auknar skattaálögur og fleiri reglugerðir. Þau vita að þau geta auðveldlega aðlagast hærri sköttum og fleiri reglum - eru bæði með fjármagn og innviði til að takast á við slíkt og hagnast jafnvel á því. Lítil fyrirtæki þurfa að taka allan sinn rekstur til endurskoðunar þegar skattar hækka eða reglunum fjölgar.

Þetta segir sig nánast sjálft en samt ekki. Það kemur fólki enn á óvart að hærri veiðigjöld, meira eftirlit og fleiri reglur sendi lítil fyrirtæki í dauðann.

Þetta gildir um banka, útgerð, veiðar og hvað sem er.

Að ríkið tali um mikilvægi samkeppni en haldi um leið úti síbreytilegu umhverfi skatta og reglugerða er hrein og tær mótsögn. Annaðhvort viltu flóknar reglur og háa skatta eða samkeppni.

Hvenær á að velja á milli?


mbl.is Segir búið að flæma einstaklinga úr greininni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Miðað við það að margar reglugerðir, gjöld og kostnaðarliðir gilda ekki um minni fyrirtæki og verða ekki virk fyrr en fyrirtækin hafa náð vissri stærð þá er þetta mikil einföldun hjá þér. Svo mikil einföldun að hún jafnast á við fávíslegt bull óvita.

En þú hefur að vissu leiti rétt fyrir þér í þessum pistli og öðrum, fyrirtæki sem ekki geta starfað, greitt skatta, gjöld og laun samkvæmt þeim lögum, reglum og töxtum sem gilda fara gjarnan á hausinn eða hætta rekstri þegar forsvarsmenn þeirra eru fangelsaðir. En sem betur fer eru þið fáir sem halda að öllu sé til fórnandi svo þannig fyrirtæki fái haldið lífi.

Athugaðu svo það að fréttin sem þú tengir við er um mann sem rekur útgerð og fiskvinnslu. Hans útgerð selur ekki á markað en hann kvartar yfir að vinnslan fái ekki nægt hráefni vegna þess að aðrir selja ekki lengur á markaði. Hann er að kvarta yfir því að samkeppnisaðilarnir séu tilbúnir til að leggja í meiri kostnað og taka áhættu til að fá hráefnið og hagnast meira en hann. Samkeppnin hefur aukist og þess vegna fær hann ekki lengur ódýrt hráefni á mörkuðum.

Vagn (IP-tala skráð) 8.2.2020 kl. 22:06

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Vitanlega auka reglurnar samþjöppun Geir. Og það veldur auðvitað enn meiri þörf fyrir samkeppniseftirlit. Kannski var leikurinn til þess gerður?

Þorsteinn Siglaugsson, 8.2.2020 kl. 23:53

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Þorsteinn,

Leikurinn er leikur fyrirtækja að neytendum. Bankarnir eru sennilega besta dæmið. Enginn iðnaður býr við jafnmikið regluverk en um leið er eftirlitið gríðarlegt og kostnaðarsamt. Þetta kæfir samkeppnisaðila í fæðingu. Bankarnir vita þetta. Þeir sjá jafnvel um að semja sína eigin löggjöf í gegnum Basel-regluverkið. 

Annað dæmi um "regluverk" sem stórfyrirtæki nota til að kæfa samkeppni í fæðingu eru einkaleyfi á öllu mögulegu og ómögulegu. Þannig bannar Disney nokkrum manni að teikna mús og kalla hana Mikka en nýta svo sjálfir hið óvarða úr ritum Grims-bræðra og fleiri. 

Geir Ágústsson, 9.2.2020 kl. 11:45

4 identicon

Árin fyrir hrun var regluverkið og eftirlitið sagt kæfa samkeppni, skerða frelsi fjármálafyrirtækja, hefta vöxt og auka kostnað neytenda. Slökun á eftirliti með fjármálafyrirtækjum og fækkun á reglum um fjármálafyrirtæki, sem sögðu að samkeppni, markaðurinn og egin eftirlit mundi nægja, var ein aðal orsök hrunsins.

Einkaleyfi á öllu mögulegu sem fyrirtæki hafa lagt ómældan kostnað og vinnu í að gera að verðmætum er hornsteinn nýunga og vöruþróunar. En einkaleyfi heftir vissulega þá sem vilja fara í samkeppni og nota annarra hugvit, vinnu og vörumerki endurgjaldslaust. Samkeppni er minni þegar enginn má selja svart vatn sem Coca Cola, hveitipillur sem Bayer krabbameinslyf eða óblandað járn sem staðlað reglugerða hágæða Hardox stál. En það er samt ekkert einkaleyfi á svartlituðu vatni, hveitipillum eða járni, þar er samkeppnin óheft og engum takmörkunum háð.

Vagn (IP-tala skráð) 9.2.2020 kl. 16:08

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Þú ert ekki á mála hjá Disney, eða hvað? Saga einkaleyfa er ekki saga uppfinninga og nýsköpunar - þvert á móti.

Eftirlit fyrir hrun var gríðarlegt. Eftirlitið núna í aðdraganda næsta hruns er enn meira. Á meðan seðlabankar ábyrgjast og tryggja og regluverkið kæfir aðhald neytenda og nýsköpun þá er engin von á jákvæðum breytingum.

Geir Ágústsson, 9.2.2020 kl. 18:12

6 identicon

Í lok átjándu aldar var fyrsta einkaleyfið veitt. Og framfarir, þróun, nýsköpun og fjöldi uppfinninga hafa ekki verið meiri og örari í mannkynssögunni en á nítjándu og tuttugustu öldinni. Saga einkaleyfa er því saga uppfinninga og nýsköpunar.

Hvort sem eftirlitið er kallað gríðarlegt eins og þú kýst eða í skötulíki eins og ég kýs þá nægði það ekki til að stöðva fjármálafyrirtækin í svikum og prettum við viðskiptavini sína, glórulausum veðmálum og blekkingarleik með þekktum afleiðingum.

Vagn (IP-tala skráð) 9.2.2020 kl. 19:17

7 identicon

Ef smáfyrirtæki þola illa veiðigjöld er hægt að ívilna þeim á annan hátt en að lækka veiðigjöldin hjá öllum ef vilji er fyrir því að þau starfi áfram. Það er auðvitað fráleitt að miða veiðigjöldin við greiðslugetu þeirra sem minnst geta greitt og láta aðra greiða sömu prósentu. Það er eins og að láta greiðslugetu tekjulægstu einstaklinganna ráða skattprósentunni sem væri hin sama fyrir alla.    

Ásmundur (IP-tala skráð) 9.2.2020 kl. 21:30

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásmundur,

Skattar eiga að afla hinu opinbera fé og fara í að reka lögbundin verkefni þess, ekki að miðast við afkomu. Eða ekki viltu að yfirvöld líti á þitt heimilisbókhald áður en þau ákvarða skattheimtuna af launum þínum? Nei, þú vilt fyrirsjáanlega skattheimtu sem þú getur gert áætlanir í kringum, helst langt fram í tímann. Því miður er íslenskum fyrirtækjum ekki boðið upp á slíkt (veiðigjöld, tryggingagjöld, fasteignagjöld og fleiri skattar á fleygiferð upp og niður í sífellu).

Geir Ágústsson, 10.2.2020 kl. 08:03

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Er verið að vísa í þig hérna?
"It is a widespread belief that the Industrial Revolution took place when it took place (allegedly, sometime between 1750 and 1850) and where it took place (England) because patents giving inventors a prolonged period of monopoly power were first introduced by enlightened rulers at that time and in that place. The exemplary story of James Watt, the prototypical inventor-entrepreneur of the time, is often told to confirm the magic role of patents in spurring invention and growth. As we pointed out in the introduction, this is far from being the case."

Bls. 5 hér: http://dklevine.com/papers/ip.ch.4.m1004.pdf

Síðar (bls. 7):

"The Industrial Revolution period is, indeed, a mine of examples, both of patents hindering economic progress while seldom enriching their owners, and of great riches and even greater economic progresses achieved without patents and thanks to open competition"

Geir Ágústsson, 10.2.2020 kl. 08:10

10 identicon

Það væri þá í fyrsta sinn sem vísað er í mig í skáldsögu. Er Disney búið að kaupa kvikmyndaréttinn eða gáfu höfundar hann frá sér?

Vagn (IP-tala skráð) 10.2.2020 kl. 10:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband