Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Morgunblaðið og Björn Valur

Af einhverjum ástæðum komast ummæli hins skapstóra, geðstirrða og ókurteisa þingmanns VG alltaf á (vef)síður Morgunblaðsins. Hvers vegna?

Auðvitað útilokar gallharður sósíalisti samstarf með öðrum en sósíalistum, eða með fólki úr flokkum sem innihalda líka ekki-sósíalista. Hvað ætti Björn Valur Gíslason svo sem að geta boðið Sjálfstæðisflokknum upp á? VG er ESB-flokkur, boðar hækkandi skatta, stærri ríkisrekstur, eilíf ríkisafskipti af öllu og öllum og uppgjöf í öllum deilum við erlend ríki. Að hluta til eru mörg þessara mála líka stefnumál margra í Sjálfstæðisflokknum, en þó með vægari blæ. Björn Valur Gíslason getur því rólegur útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn, því hann getur ekki boðið upp á neitt uppbyggilegt í slíku samstarfi.

Björn Valur Gíslason er holdgervingur þeirra vandamála sem orðstír Alþingis á við að stríða þessi misserin. Hann er dónalegur og frekur sóðakjaftur. Hann er hræsnari, seldi á sínum tíma kvóta en vill núna að ríkisvaldið færi honum þann kvóta aftur, endurgjaldslaust. Hann hefur sett a.m.k. eina fjölskyldu á hausinn. Hann þykist vera beittur og ákveðinn en er ókurteis kjaftaskur.

Þessum manni hampar svo Morgunblaðið, aftur og aftur, með því að vitna í ummæli hans og menn og málefni. Selur kjafturinn á Birni Vali svona vel? 


mbl.is Vill ekki ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningaveturinn að byrja

Vinstrimenn eru öðrum fremur veikir í hnjánum, og kikna fyrr en flestir í þeim ef á þá er þrýst. Þetta er ekkert leyndarmál, og allskyns vel skipulagðir hópar nýta sér gjarnan þennan veikleika vinstrimanna til að fá sínu framgengt. Það skal tekið fram að hérna eru meðlimir Sjálfstæðisflokksins á engan hátt undanskildir. 

Nú er það auðvitað svo að eftir hrun krónunnar hafa kjör allra með laun í íslenskum krónum skerst mikið. Þetta gildir jafnt um þá sem eru í öflugum stéttarfélögum og aðra sem semja sjálfir um sín kjör. Veik hné vinstrimanna eru samt veikari fyrir hópþrýstingi en þrýstingi annarra. Opinberir starfsmenn í vel skipulögðum stéttarfélögum eru því í betri stöðu en aðrir til að fá kjör sín "leiðrétt". Aðrir þurfa svo að éta hærri skattbyrði til að fjármagna árangur stéttarfélaga hinna opinberu starfsmanna í þeirra kjarabaráttu.

Hjúkrunarfræðingar eiga ekki marga úrkosti. Þeir geta varla unnið fyrir aðra en hið opinbera, og valkosturinn er að flýja land. Þeir munu því hamast og berjast þar til laun þeirra hafa verið hækkuð um tveggja stafa prósentutölu. Það verður góð niðurstaða fyrir þá, en slæm fyrir skattgreiðendur.

Ríkisstjórnin hefur unnið dyggilega að því að innleiða sósíalisma á Íslandi. Niðurstaðan er smátt og smátt að koma í ljós: Opinberir starfsmenn sjúga til sín sífellt stærri hluta verðmætasköpunar í landinu og hagkerfið færist nær gjaldþroti allra, bæði opinberra starfsmanna og annarra.

En er einhver leið út úr þessari klípu? Já hún er til. Hún er sú að ríkisvaldið stígi bremsuna í botn, skeri af sér stóra hluta af rekstri sínum, gefi það skýrt til kynna að lífið sem opinber starfsmaður verður bæði erfitt og aðhaldssamt, en að á móti komi að sívaxandi einkageiri geti hratt og örugglega tekið við vinnandi höndum enda sé hann að stækka hratt með einkavæðingum og skattalækkunum.

Hvort sú lausn verði valin á yfirvegaðan og skipulagðan hátt eða komi sem algjör nauðsyn á seinasta augnabliki til að forða hagkerfinu frá gjaldþroti er svo pólitísk ákvörðun. Til að taka hana tímanlega þarf sterkan vilja og leiðtogahæfileika. Hvorugt finnst á Alþingi um þessar mundir.  Til að taka hana á seinustu stundu krefst engra sérstakra mannkosta. 


mbl.is „Kornið sem fyllti mælinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bíddu nú við - gleymdist ekki eitthvað?

Ríkisstjórnin stefnir "bara" á að safna aukalega þremur milljörðum í skuldir árið 2013, jafnframt því sem frumvarp til fjárlaga feli ekki í sér niðurskurð. Hið nýja orð fyrir niðurskurð er "aðhald". Svo á að bæta stöðu hinna og þessa. Mótsögn, einhver?

Hérna gleymist sennilega ýmislegt, rétt eins og ýmislegt "gleymdist" eða var sett í "bið" vegna fjárlaga fyrir árið 2012. Ríkissjóður þarf sennilega að bjarga Íbúðarlánasjóði aftur. Kosningar eru framundan og engin von til þess að vinstristjórnin geti látið halda aftur af sér að "veita fé" í allskyns mál ef þau verða pólitískt óþægileg. Ríkisstjórnin hefur sýnt einstaka undanlátssemi við allskyns kröfum útlendinga og því von á því að þar verði áfram gefið eftir. Gjaldeyrishöftin eru að verða alveg gríðarlega dýr og von á því að sá kostnaður minnki ekki. Hækkandi skattar eru reiknaðir sem "tekjuaukning" en munu á endanum valda flótta fjár frá landi og ríkissjóði. Ríkisvaldið hefur svelt heilbrigðiskerfið um tækjabúnað og viðbúið að þegar raddir um það mál verða háværari þurfi að spýta milljörðum (af lánsfé) í endurnýjun tækja og endurráðningu starfsfólks. Hinn meinti hagvöxtur er bara til á blaði og hans hefur ekki orðið vart í atvinnulífinu. 

Reynslan gefur engan ástæðu til að trúa áætlunum ríkisstjórnarinnar, og síst af öllu þeim er snúa að ríkisrekstrinum, og alls ekki nú þegar kosningar eru framundan. Ríkisstjórnin er lengi búin að lofa viðsnúningi frá stórkostlegri skuldasöfnun og hefur fengið þrjú ár til þess. Núna er það loforð endurtekið. Úlfur, úlfur, einhver?


mbl.is 2,8 milljarða halli árið 2013
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fall frjálshyggjunnar - hvernig þá?

Núna er mjög í tísku að afneita frjálshyggjunni. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur gert það og auðvitað öll flóra hreinræktaðra vinstrimanna, og núna seinast formaður Framsóknarflokksins

Sem frjálshyggjumaður sé ég ágæt tækifæri í hinum háfleygu yfirlýsingum um að frjálshyggjan sé eitur og að viðkomandi sé alls ekki frjálshyggjumaður heldur eitthvað allt annað.  

Yfirlýsingar vinstrimanna um hvað frjálshyggjan er og hvað ekki gefa nefnilega tækifæri til að spyrja: Hvað var það nákvæmlega við frjálshyggjuna sem olli hruninu?

Ísland fyrir árið 2008 var ekki frjálshyggjuríki þótt einhverjir skattar hafi lækkað og þótt ríkisvaldið hafi dregið sig að einhverju leyti út úr beinum fyrirtækjarekstri í samkeppni við einkaaðila, og hætt að safna skuldum. Uppgangsárin frá upphafi 10. áratugs 20. aldar og fram yfir aldamótin áttu rætur að rekja til stöðugleika, en ekki frjálshyggju. Enn voru hér háir skattar, mikið regluverk og gríðarlega hratt vaxandi listi af reglum frá Brussel. Það sem aðskildi þetta tímabil á Íslandi frá mörgum öðrum var hins vegar stöðugleiki - menn gátu gert áætlanir og gert ráð fyrir því að ríkisvaldið héldi sig þar sem það var, en seildist ekki sífellt lengra mjög hratt.

Samskonar "frjálshyggja" er við lýði víða þar sem uppgangur á sér stað í dag. Eitt dæmi er Brasilía. Brasilía verður seint ásökuð um að vera "frjálshyggjuríki". Þar er gríðarlega mikið skrifræði, þar er spilling og forseti landsins er yfirlýstur sósíalisti, rétt eins og fráfarandi forseti. Engu að síður er þar mikill uppgangur (að hluta til vegna vaxandi olíuvinnslu, en líka á mörgum öðrum sviðum) og fyrirtæki streyma inn til landsins með fé og þekkingu. Hvers vegna? Jú, af því þar hefur hið opinbera bara stöðug afskipti af öllu og á nokkurn veginn fyrirsjáanlegan hátt, en ekki sívaxandi afskipti og handahófskennd. Meiri "frjálshyggju" þarf ekki til að koma hjólum hagkerfis af stað. En er það frjálshyggja? Öðru nær. 

Á Íslandi er ríkiseinokun á peningaútgáfu. Það er sósíalismi. Á Íslandi rekur ríkið heilbrigðis"kerfi", vega"kerfi" og mennta"kerfi" og verða þau kerfi seint kennd við frjálshyggjuna. Ríkisvaldið hirðir um helminginn af allri verðmætasköpun í landinu og sennilega meira ef allt er talið með, og hefur gert síðan vel fyrir árið 2008. Ríkið ábyrgist ennþá innistæður í bönkum og svæfir þannig aðhald innistæðueiganda og þeim er raunar alveg sama hvað bankar gera í skjóli ríkisábyrgðarinnar. Ríkisvaldið er með opnar biðstofur fyrir fyrirtækjaeigendur sem ásaka hvorn annan um "brot á samkeppnislögum" og biðja um styrki til "nýsköpunar" eða útflutnings eða óska eftir vernd frá samkeppni útlendinga. Samkvæmisdans stjórnmálamanna og vina þeirra í viðskiptalífinu hefur sjaldan verið samstilltari. Sá sem kallar þann dans "frjálshyggju" veit ekki betur eða er að ljúga vísvitandi.

Hvað var það þá nákvæmlega við frjálshyggjuna sem "féll" og "olli hruninu"? Þessari spurningu er enn ósvarað. 


Hin svokölluðu frjálshyggjuár

Í gær birtist lítil grein eftir mig í Morgunblaðinu um hin svokölluðu "frjálshyggjuár" á Íslandi. Greinina er hægt að lesa hér á bloggsíðu Frjálshyggjufélagsins. Mig langar að bæta aðeins við þessa grein, sem eðli málsins samkvæmt varð að vera stuttorð og fara grunnt í allt.

Hin svokölluðu frjálshyggjuár á Íslandi snerust ekki um róttæka uppstokkun samfélagsins eftir höfði frjálshyggjumanna. Davíð Oddsson var ekki svo róttækur. Það eina sem hann gerði var að einkavæða nokkur fyrirtæki sem ríkisvaldið rak í samkeppni við einkaaðila, og lækka skatta. Reglunum fjölgaði, m.a. vegna innleiðingar á mörgum reglum ESB í gegnum EES-samninginn. Skattarnir lækkuðu mun hægar en laun og það leiddi til aukinnar skattbyrði. Einstaka skattar voru afnumdir en þeim hefur flestum verið komið á aftur. Ísland byrjaði einfaldlega að líkjast Norðurlöndunum, og það var nú öll "frjálshyggjan" í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar. Vissulega var það framför frá tímum þar sem Ísland líktist að mörgu leyti gömlu kommúnistaríkjunum í Austur-Evrópu, en meiri var róttæknin ekki.

Ímyndum okkur að árið sé 2004 og Davíð Oddsson ennþá forsætisráðherra. Ríkisvaldið er svo gott sem allsráðandi á markaði heilbrigðisþjónustu (ég held að leiðréttingaraðgerðir á augum og sala gleraugna og annarra sjóntækja sé ein af fáum undantekningum frá því). Ríkisvaldið á nánast hvern einasta vegspotta á Íslandi. Velferðarkerfið svokallaða er að blásast út. Reglunum er að fjölga hratt. Tollamúrar og niðurgreiðslur einkenna allan markað fyrir landbúnaðarvörur. Byggðastyrkir, listamannalaun, stækkandi utanríkisþjónusta og margt fleira finnst ennþá. Einhverjar skattprósentur eru að lækka en ríkisvaldið er að taka til sín stærri og stærri hluta "kökunnar" í krafti aukinnar verðmætasköpunar. Hvar er frjálshyggjan?

Vissulega er einkaframtakið að fá aukið svigrúm að mörgu leyti, og er þess vegna að stækka og eflast, en það er auðvelt pólitískt afrek þegar það eina sem þarf að gera er að koma á stöðuguleika í stjórnkerfinu og sópa burtu brunarústum fráfarandi vinstristjórna.  Við sjáum í dag hvað óstöðugt stjórnkerfi og sífelld inngrip í skattkerfið eru skaðleg. Í slíku umhverfi er ekki hægt að gera áætlanir með góðu móti. Menn þora ekki að fjárfesta af ótta við nýja löggjöf daginn eftir sem bannar viðkomandi fjárfestingu. Davíð tryggði stöðugleika í stjórnkerfinu og aga í ríkisfjármálunum að nokkru marki, en það liggur við að segja að það hafi verið hans stærstu verkefni, og um leið og Davíð fór af vettvangi stjórnmálanna tók við ringulreið að nýju.

Svo má ekki gleyma því að á Íslandi er ennþá rekinn seðlabanki með einokun á útgáfu peninga á Íslandi. Stærsta verkefni frjálshyggjumanna í dag er, að mínu mati, að koma ríkisvaldinu úr framleiðslu og verðlagningu peninga. "Í staðinn" á ekki að koma neitt.  

Þeir sem tala um "frjálshyggjuárin" á Íslandi eru að gera annað hvort:

 

  • Ljúga.
  • Tala um eitthvað sem þeir vita ekkert um.

 

Fleiri eru möguleikarnir ekki.

Og hugsið ykkur: Ef einkavæðing nokkura fyrirtækja og stöðvun hallareksturs ríkisvaldsins gat fært okkur ár eftir ár af raunverulegum kjarabótum án skuldsetningar (fram til u.þ.b. ársins 2004-2005), ímyndið þá ykkur hvað frjálshyggjan tekin alla leið getur fært okkur? 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband