Hin svokölluðu frjálshyggjuár

Í gær birtist lítil grein eftir mig í Morgunblaðinu um hin svokölluðu "frjálshyggjuár" á Íslandi. Greinina er hægt að lesa hér á bloggsíðu Frjálshyggjufélagsins. Mig langar að bæta aðeins við þessa grein, sem eðli málsins samkvæmt varð að vera stuttorð og fara grunnt í allt.

Hin svokölluðu frjálshyggjuár á Íslandi snerust ekki um róttæka uppstokkun samfélagsins eftir höfði frjálshyggjumanna. Davíð Oddsson var ekki svo róttækur. Það eina sem hann gerði var að einkavæða nokkur fyrirtæki sem ríkisvaldið rak í samkeppni við einkaaðila, og lækka skatta. Reglunum fjölgaði, m.a. vegna innleiðingar á mörgum reglum ESB í gegnum EES-samninginn. Skattarnir lækkuðu mun hægar en laun og það leiddi til aukinnar skattbyrði. Einstaka skattar voru afnumdir en þeim hefur flestum verið komið á aftur. Ísland byrjaði einfaldlega að líkjast Norðurlöndunum, og það var nú öll "frjálshyggjan" í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar. Vissulega var það framför frá tímum þar sem Ísland líktist að mörgu leyti gömlu kommúnistaríkjunum í Austur-Evrópu, en meiri var róttæknin ekki.

Ímyndum okkur að árið sé 2004 og Davíð Oddsson ennþá forsætisráðherra. Ríkisvaldið er svo gott sem allsráðandi á markaði heilbrigðisþjónustu (ég held að leiðréttingaraðgerðir á augum og sala gleraugna og annarra sjóntækja sé ein af fáum undantekningum frá því). Ríkisvaldið á nánast hvern einasta vegspotta á Íslandi. Velferðarkerfið svokallaða er að blásast út. Reglunum er að fjölga hratt. Tollamúrar og niðurgreiðslur einkenna allan markað fyrir landbúnaðarvörur. Byggðastyrkir, listamannalaun, stækkandi utanríkisþjónusta og margt fleira finnst ennþá. Einhverjar skattprósentur eru að lækka en ríkisvaldið er að taka til sín stærri og stærri hluta "kökunnar" í krafti aukinnar verðmætasköpunar. Hvar er frjálshyggjan?

Vissulega er einkaframtakið að fá aukið svigrúm að mörgu leyti, og er þess vegna að stækka og eflast, en það er auðvelt pólitískt afrek þegar það eina sem þarf að gera er að koma á stöðuguleika í stjórnkerfinu og sópa burtu brunarústum fráfarandi vinstristjórna.  Við sjáum í dag hvað óstöðugt stjórnkerfi og sífelld inngrip í skattkerfið eru skaðleg. Í slíku umhverfi er ekki hægt að gera áætlanir með góðu móti. Menn þora ekki að fjárfesta af ótta við nýja löggjöf daginn eftir sem bannar viðkomandi fjárfestingu. Davíð tryggði stöðugleika í stjórnkerfinu og aga í ríkisfjármálunum að nokkru marki, en það liggur við að segja að það hafi verið hans stærstu verkefni, og um leið og Davíð fór af vettvangi stjórnmálanna tók við ringulreið að nýju.

Svo má ekki gleyma því að á Íslandi er ennþá rekinn seðlabanki með einokun á útgáfu peninga á Íslandi. Stærsta verkefni frjálshyggjumanna í dag er, að mínu mati, að koma ríkisvaldinu úr framleiðslu og verðlagningu peninga. "Í staðinn" á ekki að koma neitt.  

Þeir sem tala um "frjálshyggjuárin" á Íslandi eru að gera annað hvort:

 

  • Ljúga.
  • Tala um eitthvað sem þeir vita ekkert um.

 

Fleiri eru möguleikarnir ekki.

Og hugsið ykkur: Ef einkavæðing nokkura fyrirtækja og stöðvun hallareksturs ríkisvaldsins gat fært okkur ár eftir ár af raunverulegum kjarabótum án skuldsetningar (fram til u.þ.b. ársins 2004-2005), ímyndið þá ykkur hvað frjálshyggjan tekin alla leið getur fært okkur? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Stærsta verkefni frjálshyggjumanna í dag er, að mínu mati, að koma ríkisvaldinu úr framleiðslu og verðlagningu peninga."  

Þetta er kanski stóra þversögnin í nýfrjálshyggjunni.  Ágætur punktur hjá þeim sem kenna sig við "Austurríska hagfræðiskólann"  sem nýfrjálshyggjan er að einhverju leiti sprottin upp úr, þetta að ríkið eigi ekki að vera að prenta peninga í tíma og ótíma. Það valdi bara verðbólgum og verðbólum og kreppu í kjölfarið. Þversögnin er sú sem margir frjálshyggjumenn virðast ekki átta sig á,  að það er alveg jafn slæmt og kanski bara verra að láta bankana fá peningaprentunarvaldið í sínar hendur, sem virðist einhverra hluta vegna vera afleiðingin af aukinni frjálshyggju og minna aðhaldi frá ríkinu.

Þeir sem halda þessu fram (tilvitnuðum ummælum hér að ofan) hafa greinilega ekkert lært af efnahagsþrengingum síðustu ára.

ps. Svo er það ekki rétt hjá þér ef marka má rannsóknarsk. al.þ. að EES samningurinn hafi þrengt að frjámálakerfinu hérlendis. Það var í hina áttina, hann var notaður til að rýmkva reglurnar. (Til að auka samkeppnishæfni við útlönd að mati rannsóknarsk.al.þ. )

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 7.9.2012 kl. 12:01

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Bjarni,

Hvergi segi ég að EES-samningurinn hafi þrengt að fjármálakerfinu. Þvert á móti, evrópskar reglur gefa bönkum leyfi til að gera allskonar í skjóli ríkisábyrgða sem venjulegur viðskiptavinur fatahreinsunar leyfir aldrei fatahreinsun sinni að gera (t.d. lána fötin sín út og afhenta þau rýrð og götótt til baka, en þannig fer fyrir peningum okkar í höndum banka í skjóli ríkisábyrgða).

Bankar án ríkisábyrgða fara á hausinn um leið og þeir byrja að lána mikið meira út en þeir eiga í hirslum sínum. Gamla góða orðið "bankrun" eða "bankaáhlaup" voru markaðshreinsun á slæmum bönkum. Núna eiga ríkisábyrgðirnar að koma í stað aðhalds viðskiptavinanna. Sá dagur nálgast óðfluga að blekkingin verður afhjúpuð (en t.d. á Spáni og Grikklandi er almenningur að átta sig á þessu).

Geir Ágústsson, 7.9.2012 kl. 18:09

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Og hvað er "nýfrjálshyggja"?

Geir Ágústsson, 7.9.2012 kl. 18:09

4 identicon

Þú talaðir um að Davíð hefði ekki verið svo mjög að vinna í frjálshyggjuátt og sagðir í framhaldi af því: "Reglunum fjölgaði, m.a. vegna innleiðingar á mörgum reglum ESB í gegnum EES-samninginn."  Að segja að reglum fjölgi virðist eðlilega vera í mótsögn við frjálshyggju þar sem markmiðið er að fækka reglum.  Með þessu varstu að segja að EES samningurinn hefði verið fráhvarf frá frjálshyggju, en raunin var ekki sú heldur þvert á móti þar sem EES samningurinn bauð upp á lægsta samnefnarann sem Davíð og frjálshyggjufélagarnir nýttu sér til að "afregla" fjármálamarkaðinn (skv. rannsóknask.alþ.).    Þarna má því tala um hinn eitraða kokteil krata og sjálfstæðismanna. 

Það er trúlega rétt að þarna var um að ræða frelsi banka á ábyrgð ríkisins (pilsfaldakapítalismi) þó var það nú umdeilt, átti t.d. ekki innistæðutryggingasjóður hvers lands að tryggja greiðslugetu bankann og ekkert annað?  Raunin varð samt sú bæði í USA og ESB að klúður hinna frjálsu banka var lagt á herðar skattgreiðenda. Raunar er Harpan ákveðin séríslensk útgáfa af pilsfaldakapítlalisma.

"Bankar án ríkisábyrgða fara á hausinn um leið og þeir byrja að lána mikið meira út en þeir eiga í hirslum sínum" Nei aldeilis ekki, þarna liggur frjálshyggjuhundurinn grafinn!  Lestu greinar Ólafs Margeirssonar á Pressunni. Hann bendir á hvernig bankar fara að því að lána án þess að eiga fyrir því.

Þegar bankar "búa til " peninga með því að lána þá út, þá eru þeir farnir að gera það sama og frjálshyggjumenn eins og t.d. Milton Freedman,Miese og þessir kallar,gagnrýndu ríkisvaldið fyrir að gera og stuðla þannig á sama hátt að verðbólum og kreppum.   Í tilfelli okkar Íslendinga eins og Ó.M. bendir á, gjaldeyrisþurrð.

Ég veit ekki hvort ég á að hætta mér út á skilgreiningasviðið.Viðurkenni fúslega að ég þekki lítið til innviða frjálshyggjufræðanna.  Ætli frjálshyggja sé ekki fyrir mörgum svona almenn hugmynd um frelsi einstaklingsins gagnvart ríkisvaldinu og fákeppnisöflunum og jafnvel embættismannavaldinu. (Ríkisvald,auðvald og embættimannavald) Þannig ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að þroskaðir vinstri og hægri menn næðu saman í frjálshyggju. Þ.e. temprað ríksvald með virðingu fyrir eignarrétti og sem mestu frelsi þegnanna en verndar þá fyrir fákeppni og einokun. Lilja Móses var t.d á tímabili spennandi kandídat í íslenskri pólitík í þessa veru.

Nýfrjálshyggja sé þá sú útgáfa frjálshyggjunnar sem hefur verið praktíseruð víða um heim síðustu áratugi ekki síst í Bandaríkjunum þar sem auðurinn safnast æ meir á færri hendur og ójöfnuður eykst. Megináherslan lögð á að draga úr ríkisvaldinu,einkavæða,afregla,lækka skatta, en gleymist alveg sem gúrú nýfrjálshyggjunnar (Milton Freedman)sagði þó að helsti óvinur kapítalismans væru kapítalistarnir!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 7.9.2012 kl. 20:52

5 identicon

Varðandi mun á frjálshyggju og nýfrjálshyggju þá má vel vera að með orðinu "frjálshyggju" séu menn oft að vísa til þess sem ég nefni "nýfrjálshyggju" hér að ofan. Þannig sé orðið "frjálshyggja" orðið að einskonar skammaryrði þeirra sem eru þó miklu fremur óhressir með nýfrjálshyggjuna. Svo geta þeir sem eru taldir nýfrjálshyggjumenn talið sig eingöngu vera frjálshyggjumenn og nýrfjálshyggja sé í þeira augum ekki til, kanski af því að sumir vilja bara ekki viðurkenna mistök sín ;-)     

Svo  má kasta fram þeirri hugmynd að eins og sósíalisminn keyrði út í skurð í kommúnismanum þá hafi frjálshyggjan keyrt út í skurð í nýfrjálshyggjunni.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 7.9.2012 kl. 21:11

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Bjarni,

Ég þakka athugasemdir þínar. Það sem Ólafur Margeirsson útskýrir ekki er hvernig viðskiptavinir banka leyfa bönkum að komast upp með að lána út sparifé þeirra (jafnvel margfalt) án þess að fyllast tortryggni og taka út fé sitt, gefið að ríkið ábyrgist ekkert. Sagan er troðfull af "bank runs" sem héldu bönkum á mottunni. Að bankaáhlaup hafi nokkurn veginn hætt að eiga sér stað eftir að ríkið tók að sér alla peningaútgáfu og lofaði að ábyrgjast innistæður er alls engin tilviljun.

Annars er ég kolringlaður á öllu þessu tali um nýja og gamla frjálshyggju. Ég vill einfaldlega ekki að ríkisvaldið sé neins staðar, hvorki að ábyrgjast klæðnað sem ég legg inn hjá fatahreinsun eða fé sem ég treysti banka fyrir að geyma, í gjaldmiðli sem ég á að geta treyst því að sé ekki fjöldaframleiddur.

Geir Ágústsson, 9.9.2012 kl. 12:04

7 identicon

Sæll.

Þú átt lof og þakkir skyldar fyrir þessa grein. Ég hef sjálfur verið að skrifa um þetta í athugasemdum hjá ýmsum bloggurum. Rétt er rétt!

Steingrímur og fleiri hafa endurtekið þessa vitleysu svo oft um frjálhyggjuna að hún er orðin að "sannleik".

Merkilegt samt hve margir leyfa sér að opna munninn og gaspra um hluti sem þeir hafa ekki hundsvit á. Steingrímur veit t.d. ekkert um efnahagsmál eins og sjá má á stöðu efnahagsmála hér. Samt hlusta sumir á manninn þegar hann opnar munninn. Hve oft hefur landið risið undir hans stjórn?

Helgi (IP-tala skráð) 10.9.2012 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband