Ábyrgð? Ekki ég!

Endurtekið þema í munni margra stjórnmálamanna er: "Ekki mér að kenna, kenndu frekar þessum þarna stjórnmálamanni sem var í valdastöðu fyrir einhverjum mánuðum og misserum síðan!"

Dæmi: Icesave-málið allt. Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar vilja meina að það sé allt blóð á höndum ríkisstjórnar Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar. Það er þó bara að hluta til rétt.

Geir Haarde gaf út einhverja viljayfirlýsingu. Það er rétt. En hún var síðan gerð úrelt með samkomulagi sem svo er lýst með eftirfarandi orðum Ingibjargar Sólrúnar: 

Hinn 14. nóvember náðu viðræðunefnd Íslands, Hollands, Bretlands og (Þýskalands) undir forystu Frakklands samkomulagi um stuttan texta, Agreed guidelines, sem þýtt var umsamin viðmið. Þetta er diplómatískt samkomulag sem leiddi til þess að ríkin létu af tafaaðgerðum innan AGS, féllu frá niðurstöðu gerðardóms sem bindandi og hófu formlegar samningaviðræður á grundvelli EES-réttar, með aðkomu stofnana ESB og með hliðsjón af sérstaklega erfiðri stöðu Íslands. Þar með var samkomulagið við Hollendinga frá 11. október úr sögunni.

Ríkisstjórnir vinstri grænna og Samfylkingar gengu því að hreinu samningsborði. Við það gengu þær að öllum kröfum Breta og Hollendinga.

Þess vegna er Icesave-málið allt saman á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar. 

Vangaveltur um hvað þáverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hefði gert eru ekkert meira en það - vangaveltur. Hefði hún keyrt Icesave-innistæður yfir íslenska skattgreiðendur eins og núverandi ríkisstjórn hefur ítrekað reynt? Kannski, kannski ekki. 

Annað dæmi um flótta frá ábyrgð er staða ríkissjóðs. Vissulega tóku VG og Samfylkingin við brunarústum. En hvenær á að hefja tiltekt og enduruppbyggingu? Í dag er bara verið að sparka sóti frá einu horni brunarústanna til annarra, og auka á sótið með því að brenna lánsfé. 

En svona er nú fólk mismunandi. Sumir vilja völd og ábyrgð. Aðrir vilja bara völdin. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Núverandi ríkisstjórn hefur viljað gera þessi Icesave mál upp. Í ljós hefur komið að eignir hafa skilað sér betur en áður var talið og að öllum líkindum verður tapið óverulegt eða alla vega ásættanlegt.

Meðan þessi mál eru enn í lausu þá eru lánskjör okkar mjög óhagkvæm. Það er m.a. ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin hefur viljað klára þetta Icesave fyrir löngu.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 30.9.2010 kl. 11:35

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Guðjón,

Nú getur vel verið að það sé auðveldara að senda íslenskum skattgreiðenum hinn sveiflukennda reikning en að hafna kröfunni algjörlega. Kannski þjónar það ESB-málstað Samfylkingarinnar betur að borga Bretum og Hollendum með blíðu frekar en að standa á sínu.

En ábyrgðin á undirlægjuhættinum er á öxlum ríkisstjórnarinnar. 

Geir Ágústsson, 30.9.2010 kl. 11:43

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Skil ekki þessi sjónarmið.

Hvað er t.d. sveiflukenndur reikningur? Er það eitthvað öðru vísi reikningur en þessi venjulegi?

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 2.10.2010 kl. 18:21

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er reikningur sem lýsir mismunandi upphæð eftir því hver les hann upp.

Geir Ágústsson, 3.10.2010 kl. 14:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband