Bloggfærslur mánaðarins, mars 2022

Heiðarleg blaðamennska, kannski?

Heiðarleg blaðamennska er sjaldgæf. Hún fæst kannski hjá minni og óháðum fjölmiðlum en þeir eru oft afskrifaðir sem jaðarefni og samsæriskenningamiðlar, afþvíbara. En hvað nú ef hefðbundnari fjölmiðlar bera á borð heiðarlega umfjöllun sem færir okkur a.m.k. svolítið samhengi? Það væri eitthvað!

Hér verða nefnd tvö dæmi um slík frávik.

Hin danska TV2 er hér (Google Translate á ensku) með umfjöllun um öfgafull samtök í Úkraínu sem hafa verið að herja á rússneskumælandi íbúa Austur-Úkraínu í mörg ár. 

Hin breska Guardian er hér að fjalla um það sem margir kalla samsæriskenningu en er sú upplifun rússneskra yfirvalda að NATO ætti ekki að teygjast nær landamærum Rússlands en að mörkum Þýskalands, og af hverju það skiptir máli.

Ábyrgð Rússa á innrás og voðaverkum er auðvitað algjör, en forsagan er nothæf engu að síður til að skilja bæði viðburði dagsins í dag og leiðina út úr þeim. Kannski.


Biðin eftir örorkumatinu

Bið eftir skurðaðgerðum var í byrjun árs orðin lengri en sem nemur viðmiði embættis landlæknis um ásættanlega bið eftir heilbrigðisþjónustu í næstum öllum flokkum skurðaðgerða sem til skoðunar voru.

Og munum þá að þessi viðmið eru alveg rosalega rúm og fólk getur verið að bíða svo mánuðum skiptir eftir nauðsynlegri meðferð án þess að nokkur sjái nokkuð athugavert við það.

Er þetta óbein afleiðing sóttvarnaraðgerða, ein af mörgum? Hvað eru mörg krabbamein sem fengu að blómstra á meðan allt snérist um eina veiru sem er aðallega hættuleg eldra fólki? 

Af hverju er verktökum ekki hleypt að í meiri mæli til að lina þjáningar fólks? Það hafa ekki allir efni á milljónkallinum (með virðisaukaskatti) sem kostar að fá nýjan mjaðmalið. Margir telja nú niður dagana í örorku á meðan bein nuddast í bein. Viðmið landlæknis eru þessu fólki gjörsamlega ónothæf því hver einasti dagur er fullur af verkjalyfjum og síversnandi getu til að ganga á tveimur fótum. pexels-marcus-aurelius-4064229

Þessar sóttvarnaraðgerðir voru stórhættulegar samfélaginu og mun taka mörg ár að hreinsa upp rústir þeirra. Ekki er heldur búið að reisa neinar girðingar til að halda aftur af ríkisvaldinu þegar næsta pest kemur með haustinu. Fordæmi fyrir því að leggja samfélagið í rúst er nú til staðar. Stjórnmála- og embættismenn hafa séð hvað er auðvelt að hræða fullorðið fólk til hlýðni og fá það til að klappa með hvaða vitleysu sem er. Gagnrýni fjölmiðla og fagmanna er lítil og veik og auðvelt að hunsa. Alþingismenn brugðust gjörsamlega þar til alveg í blálok seinasta takmarkanatímabils þegar örfáir þeirra vöknuðu úr dauðadáinu (með örfáum undantekningum, nánar tiltekið tveimur undantekningum). Fjölmiðlar hafa raunar reynst verri en ekkert þegar kemur að því að veita samhengi og miðla gögnum og rannsóknum til almennings og auðvitað veita yfirvöldum aðhald.

Nú passa ýmsir af talsmönnum harðra aðgerða sig á að koma hvergi fram í fjölmiðlum og halda sér til hlés því það blasir við að afnám allra aðgerða er ekki að setja samfélagið á hliðina þótt Landspítalinn kvarti aðeins í skipulagsleysi sínu. Þeir sem vilja nota grímu gera það, þeir sem vilja versla á netinu gera það, þeir sem vilja styrkja ónæmiskerfi sitt gera það og þeir sem vilja forðast mannamót og samkomur gera það. Persónulegar sóttvarnir í raun. Aðrir iðka venjulegt líferni og byggja upp hjarðónæmi til að verja áhættuhópana. Og málinu lokið.

Loksins.

Eftir tvö ár af innfluttum kínverskum skottulækningum.


mbl.is 2.590 augasteinar á biðlista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru engar kvikmyndatökuvélar í Kænugarði?

Nú efast ég ekkert um að Rússar eru að kasta sprengjum á fólk og innviði í Úkraínu, og það er auðvitað alveg hræðilegt. Úkraína er búið að vera í átökum í mörg ár innbyrðis og með aðkomu Rússa með einum eða öðrum hætti í nokkur ár og maður vorkennir almenningi mjög.

En mér finnst einkennilegt hvað er lítið af kvikmynduðu efni að berast frá Úkraínu. Ekki vantar vefmyndavélarnar [1|2] sem streyma beint frá föstum sjónarhornum og eru til merkis um að rafmagn og internetið virkar ágætlega. 

Ef almenningur á Vesturlöndum og jafnvel víðar sér rússneskt flugskeyti fljúga yfir fjölmennri borg og valda stórri sprengingu þá finnst mér líklegt að honum blöskri. Og jafnvel líka rússneskum almenningi sem laumar sér framhjá takmörkunum á samskiptum og streymi. Þetta ætti að vera hægðarleikur. Stillimyndir af fjölbýlishúsi í slæmu ástandi, sem rýkur ekki einu sinni úr, vekja ekki sömu hughrif. 

Þessi skortur á kvikmynduðu efni er galli á allri fréttamennsku frá Úkraínu. Og manni sýnist á skrifuðum fréttum að það yrði enginn vandi að ná í fullt af góðu myndefni. Nema það hafi farið framhjá mér. Ég tek gjarnan við ábendingum.


mbl.is „Svakalegar bombur í allan dag“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki láta fjölmiðla plata þig - aftur!

Ef veirutímar hafa kennt okkur eitthvað þá er það að fjölmiðlar eru aðallega góðir í því að færa okkur viðteknar skoðanir ráðandi afla hverju sinni en ekki samhengi hluta, innsæi og allar hliðar mála.

Það kemur mér því á óvart að sjá frétt um afstöðu kínverskra yfirvalda til einhvers, sérstaklega þegar hún er önnur en afstaða bandarískra eða evrópskra yfirvalda. Venjulega þyrfti maður að heimsækja ZerohedgeFrettin.is eða aðra óháða miðla til að fá eitthvað annað en hina einu sönnu opinberu frásögn. 

Ég vil því segja við blaðamann Morgunblaðsins: Vel gert!

En maður þarf alltaf að vera á varðbergi. Sérstaklega grunsamlegar eru fyrirsagnir sem virðast birtast með svipuðu orðalagi á öllum hefðbundnu fjölmiðlunum á sama tíma og einnig má vera vakandi fyrir því þegar allir fjölmiðlar sækja í sömu „sérfræðingana“ sem allir segja það sama. 

Í sjaldgæfri naflaskoðun segir pistlahöfundur á Viðskiptablaðinu um fréttaflutning á veirutímum:

Þegar horft er til baka á þessum tímapunkti ættu vonbrigðin að felast í því að gagnrýnin var ekki háværari en raun bar vitni.

Mikið rétt. Fjölmiðlar sviku okkur á veirutímunum og engin ástæða til að ætla að þeim gangi betur að segja fréttir um flóknari viðfangsefni. Ekki láta plata þig, aftur!


mbl.is Saka Bandaríkjamenn um upplýsingaóreiðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smartland og Úkraína

Fjölmiðlar fjalla á heiðarlegan hátt um tvennt: Tilhugalíf fræga fólksins og íþróttir. Smartland er sennilega heiðarlegasti fjölmiðill Íslands. Þar er nú hægt að lesa um nýjustu hárgreiðslu skemmtikrafts, hvernig má krulla eigið hár og hvað einhver íbúð í Reykjavík kostar.

Fyrir nánast allt annað er ekki hægt að treysta á fjölmiðla. 

Þeir eru ekki beint að ljúga. En þeim mistekst ítrekað að bjóða upp á samhengi, að rekja viðburði fortíðar til að útskýra eða varpa ljósi á viðburði dagsins í dag. Að ræða við fjölbreyttan hóp fólks. Að hleypa röddum að borðinu til að rökræða (fjölmiðlar eru mjög góðir í að bjóða upp á kórsöng).

Hvað er til ráða?

Jú, fara á stjá. Spyrjast fyrir. Finna fólk með fjölbreytt áhugasvið. Horfa á viðtöl og heimildamyndir. 

Í skiptum fyrir tvo sjónvarpsfréttatíma auk auglýsingahléa mæli ég með, til að byrja með, eftirfarandi heimildamynd: Donbass eftir franska blaðamanninn Anne-Laure Bonnel frá árinu 2016. Hún fjallar um viðburði sem áttu sér stað í austurhluta Úkraínu árin tvö á undan.Kiev

Hana má í bili sjá á jútjúb (mjög erfitt að finna þar og verður sennilega fjarlægð fljótlega) en sennilega um alla tíð á Rumble (mjög auðvelt að finna þar).

Útskýrir þessi heimildamynd eitthvað? Réttlætir hún eitthvað? Afsakar hún eitthvað? Nei, enda búin til fyrir nokkrum árum, löngu fyrir viðburði dagsins í dag. En hún veitir einhvern vísi að samhengi sem mér finnst gagnlegt. Og eftir að hafa horft á hana get ég fullyrt að ég myndi skilja viðburði dagsins í dag verr en ef ég hefði ekki horft.

Svo það eru mín auðmjúku meðmæli: Að þú sleppir gagnslausum sjónvarpsfréttatíma tvö kvöld í röð og horfir á heimildamynd í staðinn.

Takk Frettin.is fyrir ábendinguna. Það er fjölmiðill sem er óhræddur við að veita samhengi.


Bjánar

Serbneski tenn­is­leik­ar­inn Novak Djo­kovic fær ekki aðgöngu inn í Bandaríkin til að taka þar þátt í móti því all­ir er­lend­ir borg­ar­ar sem koma til Banda­ríkj­anna þurfa að sýna fram á að þeir séu bólu­sett­ir fyr­ir kór­ónu­veirunni, sem Djo­kovic er ekki.

Bandaríska alríkið er hérna að gera sig að fífli og rýra gæði stórmóts sem á að vera vettvangur þeirra bestu en er það ekki. 

Og ég sem hélt að íþróttahreyfingin væri að berjast gegn lyfjanotkun? Nei, hún er greinilega byrjuð að heimta hana.

Sprauturnar virka ekki og eru þar að auki hættulegar í sjálfu sér. Mér heyrist á þeim sem ég hef talað við að fæstir ætli að láta draga sig í fleiri sprautur óháð því hvort viðkomandi sé búinn að fara í eina, tvær eða þrjár. Núna segir fólk stopp, nema auðvitað þeir sem horfa hvað mest á sjónvarpsfréttir og láta eitra á sér heilann eða þeir sem eru að sprauta sig gegn sóttvarnaraðgerðum (frekar en veiru).

Veirunni er loksins leyft að ganga á meðal þeirra sem þola hana að öllum líkindum og hjarðónæmi að byggjast upp. 

Áhættuhópar hafa verið þekktir frá upphafi. Engu að síður talar jafnvel ungt og hraust fólk um að lifa af veiruna. Þessi risavaxni aðskilnaður milli raunveruleikans og upplifunar fólks af honum er eitthvað að minnka. 

En er þetta búið? Það er ekkert víst. Páskar eru handan við hornið. Þarf ekki að aflýsa þeim einhvern veginn? Þessi ungmenni hafa ekki gott af þessum skíðamótum! Og munum að ekki er nema um 1,5 mánuður síðan sóttvarnalæknir Íslands lagði til "lockdown". Er öruggt að hann sé kominn í langt og verðskuldað frí eða gæti hann skotið upp kollinum aftur og skrifað minnisblað?

Og lokað þig inni, aftur.


mbl.is Djokovic getur ekki keppt í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppgjör við veirutíma

Nú er kominn tími til að gera upp veiruárin tvö sem má vonandi jarða sem söguleg mistök. Margir hafa áttað sig á þessu. Sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, Dr. Fauci, er horfinn af sjónarsviðinu. Sá íslenski telur þorandi að skella sér í frí og vill helst ekki láta flagga sér í fjölmiðlum lengur. Meira að segja grátkórinn á Landspítalanum fær litla áheyrn. 

Ríkisstjóri Flórída-ríkis, Ron DeSantis, blés til hringborðsumræðna um daginn með fjölmörgum sprenglærðum sérfræðingum á ýmsum sviðum heilbrigðisvísinda. Vonandi verða þessar umræður aðgengilegar í heild sinni en í bili þurfum við að styðjast við stutt myndskeið og frásagnir, svo sem þessa:

dr_sorry

Lengri útgáfa hér (á meðan jútjúb leyfir).

Við eigum ekki eftir að sjá margar afsökunarbeiðnir þeirra sem boðuðu afnám hins svokallaða gamla norms en þeim mun meira af ærandi þögn þeirra sem höfðu hvað hæst undanfarin tvö ár. Þetta fólk lætur sig einfaldlega hverfa og vonar að nýjustu fyrirsagnir fái okkur til að gleyma.

En við megum ekki gleyma. Við þurfum að muna að lýðræðið var tekið úr sambandi, embættismenn fengu öll völdin, gögn skiptu minna máli en sprautur, sprauturnar hafa reynst banvænar, veiran ofmetin, ógnin blásin upp af fjölmiðlum og hagkerfið nú í skuldaklafa í mörg ár á meðan týnd krabbameinstilvik drepa á sínum eigin hraða og týnd æska barna og ungmenna breytist í þunglyndi, brottfall, vímuefnavanda og í verstu tilvikum sjálfsmorð.

Þetta má aldrei koma fyrir aftur!

Aldrei!

En ef við gleymum og reisum ekki nauðsynlegar girðingar í kringum frjálst samfélag þá myndast fordæmi og það sem stjórnmálamenn kalla að láta aldrei góða krísu fara til spillis.

Boltinn er hjá þér.


Tölum ekki um veiruna

Búið að afnema allar takmarkanir vegna veiru.

Enginn heimsendir í gangi. Mörg smit, vissulega, en um miðjan janúar boðaði sóttvarnalæknir Íslands einskonar "lockdown" og mánuði seinna var búið að afnema allt og hinn ágæti embættismaður kominn í frí. 

Er þá ekki næsta skref að gera upp ástandið?

Þá meina ég: Draga þá til ábyrgðar sem hunsuðu vísindin sem voru orðin nokkuð ljós sumarið 2020 og velja í staðinn að svipta börn menntun og félagslífi, fólki ferða- og atvinnufrelsi og hagkerfinu tekjum? Og auðvitað sprauta eins mikið af framandi efnum í fólk og hægt er. 

Eða á að reyna sópa seinustu 2 árum undir teppið? Svona eins og ekkert hafi gerst? 

Það má auðvitað ekki gerast því þá er hættan sú að næsta veira - hver svo sem hún verður - muni líka vera notuð sem réttlæting til að kippa lýðræðinu úr sambandi, innleiða veiru-fasisma og segja þjáðu fólki að grjóthalda kjafti og deyja úr einhverju öðru en sömu veiru.

Geymt, en ekki gleymt.


Er verið að gera illt verra?

Staðreynd: Rússnesk yfirvöld framkvæmdu óréttlætanlega innrás inn í Úkraínu.

Staðreynd: Nú ríkir ömurlegt stríðsástand í Úkraínu og flóttamannavandinn fer vaxandi.

Staðreynd: Fordæma þarf þessa innrás og gera allt sem hægt er til að stöðva hana.

En eru viðbrögðin kannski að gera illt verra? Eru úrræðin sem nú er beitt að búa til nýtt vandamál og jafnvel stærra?

Viðskiptabönn, venjulegir Rússar reknir úr störfum sínum um allan heim, lokað á flæði varnings og þjónustu sem hinn venjulegi Rússi þarf á að halda og nú talað um að kaupa ekki lengur orku frá Rússlandi.

Hefur slíkt engar afleiðingar?

Olíuverð er nú komið í hæstu hæðir og þá sérstaklega eftir að byrjað var að tala um bann við kaupum á rússneskri olíu. Á hverjum bitnar það? 

Gasverð er farið úr hæstu hæðum í svimandi hæðir. Á hverjum bitnar það?

Rússneskur almenningur fær að kenna á því. Ég efast um að ríka klíkan í Moskvu hafi misst úr eitt kampavínsglas.

Fordómar gegn venjulegu rússnesku fólki fara vaxandi. Forstjórinn minn taldi sig knúinn til að skrifa til starfsmanna sinna um daginn og minna á að rússnesk yfirvöld standi að baki innrásinni, ekki rússneskur almenningur, og að rússneskir starfsmenn fyrirtækisins eigi ekki að finna fyrir fordómum og aðkasti.

Rússum er í vaxandi mæli ýtt í fang Kínverja og viðskipti þessara ríkja fara hratt vaxandi. Rússnesk olía og rússneskt gas á ekki í neinum vandræðum með að finna kaupendur aðra en Vesturlandabúa sem hafa margir hverjir ekki efni á að kynda heimili sín.

Er í lagi að spyrja hvort við séum að gera illt verra, sérstaklega fyrir óbreytta borgara, hvar sem þeir eru staddir? Eða er bannað að ræða það með opnum hug eins og svo margt annað?

Munum hvað viðskiptabönn gerðu við almenna borgara í Írak á sínum tíma. Þar stráféllu börn og konur á meðan einræðisherrann reisti nýjar hallir. Hverju skilaði það í baráttunni fyrir friði á Jörð?


Fyrirlestur um Rússa og Úkraníu

Nú er vitaskuld ekki hægt að treysta því sem hinir hefðbundnu fjölmiðlar, stórir og smáir, bera á borð og nauðsynlegt að afla sér upplýsinga og skoðana frá fleiri uppsprettum til að skilja heiminn, eða komast nær því í hið minnsta. Til dæmis í tilviki innrásar Rússa í Úkraínu. Eins óréttlætanleg og svívirðileg og sú aðgerð er þá er ástæða þeirrar innrásar ekki einfaldlega sú að einhver vitstola einræðisherra vilji sýna hermátt sinn. Ekki frekar en að stóri strákurinn á skólalóðinni sé einfaldlega að kvelja litlu krakkana að gamni sínu - hann á örugglega við stór vandamál að stríða sem hann fær útrás fyrir með óafsakanlegu ofbeldi. Eitthvað liggur að baki, eða hvað?

Fyrir svolítið samþjappaða sagnfræði vil ég mæla með fyrirlestri sem var haldinn nýlega um ástandið í Úkraínu og má nálgast hér:

https://tomwoods.com/ep-2078-russia-and-ukraine-the-essential-backgrounder/

Þetta er alveg heil klukkustund (sem má spara sér með því að sleppa sjónvarpsfréttunum í tvo daga) en segir frá ýmsum aðilum sem við þekkjum öll vel og hvað þeir sögðu og létu eftir sér og lofuðu og sviku og gæti hjálpað okkur að skilja af hverju rússnesk yfirvöld gengu of langt og hófu óréttmæta og áhættusama innrás í nágrannaríki sitt.

En bíddu nú við - er hér verið að réttlæta árás inn í fullvalda ríki! Réttlæta gjörðir Pútíns! Klappa fyrir rússneskum yfirvöldum! Styðja við morð á saklausum borgurum! Taka afstöðu með Rússum gegn Úkraínu!

Nei, en ef þú heldur það eftir að hafa fengið ábendingu um fyrirlestur þá er sennilega best að þú haldir þig við ruv.is og ekkert annað, þar með talið þessi síða. Þér er ekki viðbjargandi. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband