Bloggfærslur mánaðarins, mars 2022

Spjall um fjölmiðla

Útvarp Saga merkið og undirritaður

Arnar Þór Jónsson, lögmaður, varaþingmaður, fyrrverandi héraðsdómari og talsmaður frelsis, var svo vinsamlegur að bjóða mér í stutt spjall í þætti hans á Útvarpi Sögu í dag sem má hlusta á hér:

https://www.utvarpsaga.is/unga-folkid-faer-ekki-sinar-frettir-fra-meginstraums-fjolmidlum/

Ég þakka fyrir tækifærið (og kaffið) og vona að einhver hafi gagn og gaman af.


Dauðateyjur tilgangslausra sóttvarnaraðgerða

Ég flaug í gær frá Danmörku til Íslands. Allt gekk vel. Troðfull flugvél en gekk vel að raða fólki og farangri í hana, allt var á réttum tíma og starfsfólkið vingjarnlegt. Einn flugdólgur gerði sig líklegan til að láta fleygja sér út en það tókst að róa hann niður.

En það var skylda að nota tilgangslausa andlitsgrímu í flugvélinni. Og fylgt vel og rækilega eftir af samviskusömu starfsfólki.

Af hverju? 

Í kynningarefni var bent á að loftskipti í flugvélinni væru örari en í loftræstu skrifstofurými og loftflæðið að auki óhagstætt smitandi veirum. Ætli fólkið sem útbjó það kynningarefni á skrifstofu flugfélagsins hafi verið með grímu á meðan?

Tekið var fram að grímuna mætti fella við neyslu matar og drykkjar. Hér blasti því við að opna hnetupoka og borða á hraða snigilsins. 

Við aðflug voru farþegar minntir á forskráningu í landið sem reyndist vera bull sem ekki var leiðrétt.

Ég vona að ég hafi verið að upplifa dauðateyjur tilgangslausra sóttvarnaraðgerða. Um leið er þetta áminning um að við höfum látum heilaþvo okkur. Til dæmis voru langflestir farþegar með grímu í Keflavíkurflugstöð en þar er engin grímuskylda eins og sást vel á allsberum andlitum alls starfsfólksins.

En kannski var ég að verða vitni að því að heilaþvotturinn hefur verið rækilega stimplaður í þorra fólks og engin von að sleppa við tilgangslausar aðgerðir þegar næsta svokallaða afbrigði nú eða ný veira birtist og ógnar háöldruðu fólki á meðan aðgerðir drepa líf þeirra yngri.


Fjölmiðlar svokallaðir

Fjölmiðlar eru ofmetnir boðberar þvælu og rugls. Þeir hafa gjörsamlega brugðist í heimsfaraldrinum svokallaða og maður óttast hreinlega að þeir séu líka að bregðast í tilviki innrásar Rússa í Úkraníu. Af hverju ættu þeir að standa sig betur í að fjalla um flókið mál á alþjóðavettvangi sem rekur sögu sína mörg ár og jafnvel áratugi aftur í tímann ef þeir gátu ekki veitt svolítið samhengi í veiruumræðu? Og ekki hefur þeim tekist mjög vel að fjalla um loftslagsbreytingar eins og flestir þekkja. Eru þar bara blaðamannafulltrúar hagsmunasamtaka.

Meðal ónýtra fjölmiðla er fréttastofan Reuters með sitt "fack check", "trust principles" og aðra sjálfumgleði. Einföldustu atriði fá ranga meðhöndlun. Þegar þeir fjalla um eitthvað sem ég veit nokkuð mikið um þá sé ég það alveg sérstaklega vel. Svolítið dæmi er þessi frétt um að nú hefjist á ný framkvæmdir við gasrör sem tengir saman Norðursjó og Pólland - hin svokallaða Baltic Pipe gasleiðsla.

Reuters-frétt um Baltic Pipe

Einföldustu staðreyndir flækjast hér fyrir blaðamanni. Framkvæmdin var stöðvuð eftir að heimild umhverfisyfirvalda var felld úr gildi 31. maí 2021, ekki 2019 eins og blaðamaður rekur þrisvar og leggur á sig að reikna hvað margir mánuðir eru liðnir síðan. Upphaflega leyfið var veitt árið 2019. Mjög einfalt er að komast að þessu og nóg af fréttum og fréttatilkynningum í boði. Og ekki spyr blaðamaður sig að því hvernig stendur á því að 33 mánaða óvænt seinkun sé að lokum ekki að valda meira en 3 mánaða töf. Var upphaflega áætlunin að byggja rörið meira en tveimur árum áður en átti að nota það?

Jahérna.

Ég spyr því: Ef blaðamaður klúðrar svona einfaldri upplýsingagjöf og hunsar svo margar viðvörunarbjöllur á meðan hann skrifaði fréttina af hverju á þá að treysta honum og ritstjórn hans þegar kemur að flóknari málum?

En nú geta allir gert mistök og sennilega verður fréttin leiðrétt fljótlega. Á ekki að fyrirgefa mistök? Nema mistök eða meint mistök en í hið minnsta leiðréttingar séu orðin nýja ritstjórnarstefna Reuters. Og fleiri miðla, eins og Facebook sem virðist helst líta á hlutverk sitt að drepa umræðu, ekki vera vettvangur hennar.

Nei takk, fjölmiðlum er ekki hægt að treysta. Til að kynna sér eitthvað þarf að skoða fleiri miðla en hina hefðbundnu fjölmiðla, hlusta á viðtöl, lesa greinar úr ýmsum áttum og ræða og rökræða þar sem slíkt er heimilað. Þetta er mikil vinna en skiptir stundum máli. Og jafnvel þá er ekkert víst að allir séu sammála, en upplýst umræða heitir það og er öllum holl og góð. Ofneysla á fjölmiðlum síður.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband